Kertafleytingar um allt land 9. ágúst

Íslenskir friðarsinnar hafa allt frá árinu 1985 fleytt kertum í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí. Samkomur þessar hafa ýmis farið fram þann 6. ágúst eða 9. ágúst. Að þessu sinni verður Nagasakí-dagurinn, miðvikudagurinn 9. ágúst, fyrir valinu. Fleytt verður á fjórum stöðum á landinu, en rétt er að gæta að því að tímasetningar eru örlítið frábrugðnar frá einum stað til annars, sem skýrist m.a. af því hvenær fer að rökkna á einstökum stöðum.

Í Reykjavík verður safnast saman við suðvesturenda Tjarnarinnar og hefst fleytingin kl. 22:30. Einar Ólafsson skáld og bókavörður flytur ávarp. Eyrún Ósk Jónsdóttir les friðarljóð. Fundarstjóri verður Guttormur Þorsteinsson formaður SHA.

Á Ísafirði koma friðarsinnar saman við Neðstakaupstað á Suðurtanga kl. 22:00. Harpa Henrýsdóttir flytur ávarp.

Á Akureyri verður kertafleytingin við Leirutjörn kl. 22:00. Guðrún Þórsdóttir flytur ávarp.

Austfirðingar láta ekki sitt eftir liggja. Þar verður kertafleyting við Lónið á Seyðisfirði og hefst kl. 22:00.