All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

Frásögn um friðarferð til Úkraínu

By Viðburður
Um mánaðarmótin fór Maurizio Tani til Úkraínu með fjölþjóðlegu liði friðarsinna til þess að kynna sér friðasamlega andspyrnu í Úkraínu og til að efna til samstarfs við þarlend samtök. Á fundi í Friðarhúsi sem verður á miðvikudaginn 12. október kl. 20:00 segir hann frá ferðinni og sýnir myndir.
Maurizio er meðlimur í SHA og bar kveðju frá samtökunum til Úkraínskra friðarsinna. Baráttan fyrir friði er hvergi erfiðari en í miðjum stríðsátökum. Ómissandi fyrir alla sem hafa áhuga á friðarmálum og Úkraínustríðinu.
Októberfest

Októberfest-málsverður í Friðarhúsi

By Viðburður
Fjáröflunarmálsverðir Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi hefja göngu sína að nýju eftir sumarfrí.
Bjarki Hjörleifsson og Jónína Riedel sjá um eldamennskuna sem verður alvöru þýsk októberfest-veisla með pylsum og bulsum fyrir kjötætur jafnt sem grænkera. Engar kröfur eru þó gerðar um lederhosen-klæðaburð…
Að borðhaldi loknu verður kaffi og konfekt en því næst tekur við menningardagskrá. Anna Ólafsdóttir Björnsson les úr nýrri glæpasögu og trúbadorinn Linus Orri tekur lagið.
Verð kr. 2.000. Öll velkomin
Kertafleyting 2022

Kertafleytingarræða Silju Aðalsteinsdóttur 9. ágúst 2022

By Í brennidepli

Þegar ég fæddist fyrir nærri því 79 árum geisaði stríð í heiminum, grimmileg landvinningastyrjöld sem hafin var og knúin áfram af einstaklingi andsetnum af sjúkum ofurmennishugmyndum og fyrirlitningu á mannkyninu. „Feigðin reið okkar föðurhúsum,“ segir Ari Jósefsson skáld, sem sjálfur fæddist bara fimm dögum áður en þetta stríð hófst:

Feigðin reið okkar föðurhúsum

Málmdrekar flugu um þúngbúinn bernskuhimin
þórdrunur glumdu handan svartra ála
og regnbogar hrundu með gný

Nú stígur gufa uppaf fúlu vatni
þar sem eggjárnin eru hert að nýju

Mökkurinn fyllir auðnina af andlitum
sem stara blóðhlaupnum augum úrúr draungum
á okkur sem eigrum niðurlút um rústir
og leitum að morgundegi í brotajárninu

Svona er hún nöturleg, myndin hans Ara af hlutskipti minnar kynslóðar og hans.

Síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk hefur aldrei ríkt alger friður í heiminum, ekki einu sinni í Evrópu, þrátt fyrir hátíðlega svardaga og þrátt fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Það hafa verið framin valdarán, uppreisnir gerðar, háðar borgarastyrjaldir, trúarstríð, stundaður skæruhernaður innan ríkja, valdsmenn ríkja hafa skipt sér af innanlandsmálum annarra ríkja með ógnandi tilburðum, en það hefur ekki að því er ég best fæ séð verið gerð bein innrás eins Evrópuríkis í annað, með fullum herstyrk, í grímulausu landvinningaskyni fyrr en núna á þessu ári.

Eins og okkur er öllum í fersku minni réðst rússneski herinn inn í Úkraínu 24. febrúar í ár, úr öllum áttum, úr lofti og á landi, með hryllilegum afleiðingum sem ekki sér fyrir endann á. Purkunarlaust hefur verið varpað sprengjum á þéttar íbúabyggðir og skotmörk sem hafa engan hernaðarlegan tilgang,  þúsundir almennra borgara hafa fallið, milljónir hafa flúið land, búseta þriðjungs þjóðarinnar hefur raskast. Flóttamannavandinn hefur aldrei verið stærri síðan á tímum seinni heimsstyrjaldar. Eyðilegging á húsum, öðrum mannvirkjum og ræktuðu landi er gífurleg fyrir utan geigvænleg áhrif á andrúmsloftið. Og til hvers? Ég get ekki komið hugsunum mínum á framfæri betur en með orðum Guðrúnar Helgadóttur, rithöfundarins ástsæla sem lést á árinu, orðum sem hún leggur í munn móður barnanna á númer tvö í fyrsta bindi Hafnarfjarðarþríleiksins, Sitji Guðs englar. „Hvorir heldurðu að vinni stríðið?“ spyr Halldór sonur hennar. „Englendingar eða þýskararnir? Ha, mamma?“

Æ, ég veit það ekki Halldór. Sennilega tapa Þjóðverjar þessu skelfilega stríði. En það tapa bara allir, sagði mamma.

Hvernig geta allir tapað? spurði Páll …

Milljónir manna eru dánar i þessu stríði, Páll minn, sagði mamma. Og það fólk átti bara eitt líf. Það er búið að leggja í rúst heilu borgirnar, sem mannkynið hefur byggt af hugviti og þekkingu. Milljónir dagsverka hafa verið lögð í rúst. Heldurðu að þeir sem það gerðu hafi unnið einhvern sigur? … Haldiði að þeir séu einhverjar hetjur? spurði mamma.

Guðrún lætur spurningunni ósvarað, leyfir lesandanum að velta henni fyrir sér. Og þegar við horfum núna á ummerki stríðsins á okkar dögum, „þar sem að áður akrar huldu völl“ má nú sjá endalausa gígaröð eftir öflugar sprengjur og flugskeyti, sjúkrahús þar sem mannslífum var bjargað, nú eins og beinagrindur af húsum, skólar, leikskólar jafnaðir við jörðu, snotrar íbúðablokkir þar sem fjöldi fjölskyldna bjó, karla, kvenna og barna, nú rústir einar, og íbúarnir – þeir sem enn eru þar – eigra niðurlútir um rústirnar og leita að morgundegi í brotajárninu, eins og Ari Jósefsson orðaði það.

Við erum hér saman komin í kvöld til að minnast endaloka síðari heimsstyrjaldar, þegar kjarnorkusprengjum var varpað á japönsku borgina Hírósíma 6. ágúst 1945 og systurborgina Nagasaki þrem dögum seinna, þann 9. ágúst fyrir 77 árum. Þar var framinn glæpur gegn öllu mannkyni og skelfilegustu hótanir ofstopamannsins sem stendur að styrjöldinni í Úkraínu núna ganga út á að minna okkur á að hann, einnig hann, ráði yfir slíkum gereyðingarvopnum. Nú er vitað að beiting kjarnorkuvopna er aldrei staðbundin, hún hefur víðtækari áhrif en séð verður fyrir og þau vara lengur – eins og við vorum minnt á í nýjustu skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snertingu. Önnur aðalpersóna hennar er „hibahusha“, brennimerkt af sprengjunni þótt hún hafi ekki verið fædd þegar sprengjan féll. Bandaríkjastjórn þótti líklega Japan nógu langt í burtu til að afleiðingar sprenginganna kæmu ekki illa niður á þeim en slíkar hugmyndir getur Vladimir Pútín ekki leyft sér. Hann er að leggja nágrannaríki í rúst og það þrátt fyrir nánast almenna alþjóðlega andstöðu, meðal annars af hálfu Sameinuðu þjóðanna. Ef til vill tapa Úkraínumenn þessu stríði en hver verður ávinningur Rússa? Fordæming heimsbyggðarinnar – kannski með örfáum undantekningum – vansælir þegnar sem ekki vilja þýðast nýja valdhafa. Hnípin þjóð og brotin, dreifð um allar jarðir. Áframhaldandi andóf innanlands. Meira að segja Bandaríkjamenn fóru að lokum með skottið milli afturlappanna frá Víetnam og Afganistan – þrátt fyrir áratugalangan hernað vannst enginn sigur.  Því að það er með friði sem við sigrum og nú tökum við undir með Jóhannesi úr Kötlum í „Þulu frá Týli“.

Horfumst í augu
fögnum morgunhvítri sólinni
laugum iljar okkar í dögginni
biðjum um frið
leggjum grasið undir vanga okkar
vermum frækornið í lófa okkar
stígum varlega á moldina
biðjum um frið
borum fingrinum í sandinn
sendum vísuna út í vindinn
speglum okkur í hylnum
biðjum um frið
reikum um fjárgöturnar
teljum stjörnurnar
hlustum á silfurbjöllurnar
biðjum um frið
göngum að leiði móður okkar
göngum að leiði föður okkar
minnumst hins liðna
biðjum um frið
tökum í hönd systur okkar
tökum í hönd bróður okkar
lyftum því sem er
biðjum um frið
lítum í vöggu dóttur okkar
lítum í vöggu sonar okkar
elskum hið ókomna
biðjum um frið
horfumst í augu
horfumst í augu gegnum fjarlægðirnar
horfumst í augu gegnum aldirnar
biðjum um frið

Þakka ykkur fyrir

Kertafleyting

Kertafleytingar á fjórum stöðum þann 9. ágúst

By Fréttir, Viðburður

Efnt verður til kertafleytinga á fjórum stöðum þriðjudagskvöldið 9. ágúst, á Nagasakí-daginn, til að minnast fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Japan og til stuðnings kröfunni um frið í veröldinni og heim án kjarnorkuvopna.

Í Reykjavík hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga fleytt kertum á Reykjavíkurtjörn frá árinu 1985. Engin breyting verður á því nú. Safnast verður saman við suðvesturenda Tjarnarinnar við Skothúsveg kl. 22:30. Silja Aðalsteinsdóttir rithöfundur og bókmenntafræðingur flytur stutt ávarp. Tinna Þorvaldsdóttir Önnudóttir verður fundarstjóri.

Flotkerti verða seld á staðnum á kr. 500, athugið að enginn posi verður á svæðinu.

Viðburðurinn á Facebook.

* * *

Á Ísafirði og Patreksfirði verða fleytingar á sama tíma og í Reykjavík, kl. 22:30. Ísfirðingar hittast við Neðstakaupstað á Suðurtanga þar sem Nina Ivanova flytur ávarp. Á Patreksfirði er komið saman við franska minnisvarðann í Króknum og mun María Ósk Óskarsdóttir flytja ávarp. Á báðum stöðum sameinast fólk í yfirlýsingunni: Aldrei aftur Hírósíma og Nagasakí!

Kertfleytingin á Vestfjörðum á Facebook.

* * *

Akureyringar koma saman hálftíma fyrr, kl. 22 við Leirutjörn. Ávarp flytur Árni Hjartarson, en samkoman er haldin í nafni Samstarfshóps um frið.

Kertafleytingin á Akureyri á Facebook.

Kertafleyting

Kertafleytingar víða um land: 6., 7. og 9. ágúst.

By Fréttir, Viðburður

Sjaldan eða aldrei hafa kertafleytingar farið fram á fleiri stöðum en nú. Friðarsinnar í Reykjavík, Akureyri, Ísafirði og Patreksfirði standa fyrir samkomum á Nagasakí-daginn, þriðjudaginn 9. ágúst og verður nánari tilhögun og dagskrá kynnt þegar nær dregur.

Á Egilsstöðum og Seyðisfirði verður hins vegar fleytt á Hírósíma-daginn, nú um helgina. Við lómatjörn á Egilsstöðum laugardaginn 6. ágúst og við norðurbakka Lónsins á Seyðisfirði sunnudaginn 7. ágúst stendur austfirskur áhugahópur um frið og gegn kjarnorkuvá fyrir friðardagskrá sem hefst kl. 21:30 á báðum stöðum. Flotkerti verða seld fyrir 500 kr. (ath. enginn posi).

Friðaryfirlýsing

By Tilkynningar, Viðburður

Maurizio Tani býður öllum Íslendingum á borgarafund í þágu friðar í Hallargarðinum við Fríkirkjuna kl. 15:00 á sunnudaginn þar sem hann mun leggja fram eftirfarandi friðaryfirlýsingu sem hann bað SHA um að koma á framfæri.

Opið bréf til allra ríkisborgara íslenska lýðveldisins

Kæri borgari,

Ég skrifa til að bjóða þér á “borgarafund í þágu friðar“ sem haldinn verður í Hallargarðinum (við Fríkirkjuveg og Skothúsveg) í Reykjavík sunnudaginn 8. maí kl. 15.00.

Þér stendur til boða að koma með „gjöf“ sem þér finnst að eigi erindi við mannkynið allt: hugsun, tilvitnun í bók, sögu, blóm, verkefni fyrir jörðina, náttúruna og allt sem lifir.

Hugmyndin varð til vegna þess að stjórnmálaflokkar og ríkisstjórnir sem fara með völd og ráða efnahagslegu, pólitísku og diplómatísku ástandi á plánetunni okkar hafa brugðist (sérstaklega á tímabilinu 1914-1945, á tímabilinu 1945-89 og á tímabilinu eftir 1989 þar sem við erum nú).

Það er tímabært að borgarar alls heimsins verði meðvitaðir um að aðeins með þátttöku, beinni skuldbindingu og valdeflingu allra íbúa jarðarinnar getum við bjargað mannkyninu, plánetunni og lífinu á jörðinni.

Ég mun persónulega leggja fyrir viðstadda að undirrita eftirfarandi yfirlýsingu

„Við íbúar jarðarinnar, vonsviknir yfir því hvernig stjórnmálamenn og ríkisstjórnir stjórna heiminum (sérstaklega vonsvikin yfir því sem við sáum eftir 1989, sem hefði getað markað upphaf aukins friðar, lýðræðis og félagslegs réttlætis).

    1. Verum gagnrýnin á okkur sjálf fyrir að hafa allt of lengi framselt til annara     ábyrgðinni á góðri stjórn samfélagsins og jarðarinnar;
    2. Lýsum því yfir að aðeins með því að setja borgarana („cives” á latínu) í fyrsta sæti verði heimurinn loksins mannleskjulegri, laus við ofbeldi, stríð, óréttlæti, fáfræði, vannæringu, einræði, arðrán, þrælahald, andlegt og líkamlegt ofbeldi.
    3. Skuldbindum okkur til að koma á fót innan okkar samfélags fastaþingi ábyrgra borgara sem koma saman til að vera betur upplýstir, ræða saman og sannreyna ágæti verka þeirra sem fara með stjórn. Með aðstoð sérfróðra borgara á ýmsum sviðum mun þingið koma fram með athugasemdir og raunverulegar tillögur til að standa vörð um tilveru mannsins, jarðarinnar, lífsins á jörðinni;
    4. Skuldbindum okkur til að hvetja til myndunar bandalaga / neta borgara, þorpa, borga og landsvæða sem, með samræðum, samanburði, gagnkvæmri þekkingu, vinni (með “sambandshyggju”, “foederalismus” á latínu) að því að endurreisa manninn, borgarann, hinn frjálsa mann (ekki undirsátann, þrælinn, sem framselur til annara alla stjórn, sem kýs að láta stjórna sér frekar en sjálfstjórn), í hjarta félags-, efnahags-, menningar- og menntasamtaka okkar;
    5. Bjóðum öllum borgurum, samfélögum, borgum og svæðum jarðarinnar að gera slíkt hið sama og sameinast um að skapa þennan nýja “heim borgaralegs húmanisma”.
Hvað finnst þér um það? Gætir þú bent á annað fólk eða hópa til að bjóða
Hvað hyggst þú geta tekið með þér á fundinn?
Takk!
Hittumst fljótt!
Maurizio Tani

Sími. 6967027

1. maí kaffi SHA

1. maí kaffi SHA

By Viðburður
Samtök hernaðarandstæðinga eru komin aftur með kaffi og vöfflur til að hita upp fyrir kröfugöngu verkalýðsins 1. maí.
Síðustu tvö ár hefur ekki verið hægt að bjóða heim í Friðarhús eins og venjan hefur verið en nú með hækkandi maísól er kjörið að gæða sér á veitingum og endurnýja kynnin við friðarsinna fram að göngu. Hún leggur svo af stað rétt handan við hornið.
Öll velkomin, aðeins 500 kr. inn.
Aprílmálsverður í Friðarhúsi

Aprílmálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður
Fjáröflunarmálsverðið Samtaka hernaðarandstæðinga halda áfram og föstudaginn 29. apríl verður boðið upp á glæsilegan matseðil. Geir Guðjónsson, pottahvíslarinn frá Akranesi og Þórhildur Heimisdóttur sjá um matinn. Geir sinnir alætum og Þórhildur grænkerum.
* Kjúklingaleggir í satay-sósu
* Ratatouille
* Líflegt salat
* Grjón & brauð
* Kaffi og konfekt
Að borðhaldi loknu mætir tónlistarmaðurinn Bony Man og tekur lagið auk þess sem rakin verður æsileg kræklingatínsluferð félaga í SHA á heræfingaslóðir í Hvalfirði á dögunum.
Borðhald hefst kl. 19. Verð kr. 2000. Öll velkomin

Ályktanir landsfundar SHA 2022

By Ályktun

Ísland úr Nató!

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn laugardaginn 2. apríl 2022, minnir á kröfuna um úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu. Atburðir síðustu vikna, með stríðinu í Úkraínu, sýna rækilega fram á fánýti hernaðarbandalaga.

Rússar skáka í skjóli kjarnorkuvopnaeignar sinnar, á nákvæmlega sama hátt og Nató byggir hernaðarstefnu sína á kjarnorkuvopnum, sem bandalagið áskilur sér rétt til að beita að fyrra bragði. Hver sá sem fordæmir yfirgang Rússlands hlýtur jafnframt að mótmæla þessum hornsteini í hernaðarstefnu Nató.

Stríðið í Úkraínu er nýjasta birtingarmyndin af íhlutunarstefnu stórveldanna, þeirri sömu íhlutunarstefnu og fram hefur komið í innrásum Nató-herja, svo sem í Líbýu. Og skemmst er að minnast þess hvernig ástand tveggja áratuga herseta Nató í Afganistan hefur skilið eftir sig.

Öryggi Íslands verður best tryggt með því að standa utan hernaðarbandalaga, hafna hvers kyns vígvæðingu og stugga hernaðartólum á brott úr landhelginni í stað þess að bjóða þeim hingað til heræfinga eins og nú standa yfir. Það er varasamt að þvæla þannig saman borgaralegum vörnum landsins og hernaðarbrölti Bandaríkjanna. Samþykkt Íslands á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann  við kjarnorkuvopnum, sem er skýlaus krafa SHA, væri mun farsælla skref til friðsælli framtíðar.

 

Tafarlausan frið í Úkraínu

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn laugardaginn 2. apríl 2022 fordæmir innrás Rússa í Úkraínu og krefst tafarlausra friðarsamninga til að draga úr þjáningum almennra borgara. Stríðið í Úkraínu er það alvarlegasta í Evrópu frá tímum átakanna á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar. Kjarnorkuveldi hefur ráðist inn í nágrannaland sitt með það að markmiði að breyta landamærum þess með hervaldi.

Stríðinu í Úkraínu mun ekki ljúka nema við samningaborðið. Allar vonir um að lausn stríðsins náist með stigmögnun hernaðarátaka og fleiri vopnum eru tálsýn ein. Allra leiða verður að leita til að ná tafarlausu vopnahléi og í kjölfarið friðarsamningum til að afstýra áframahaldandi þjáningum almennings í Úkraínu. Öryggi heimsins alls er að veði.

Samtök hernaðarandstæðinga hvetja stjórnvöld til að axla sína ábyrgð í að taka á móti flóttafólki vegna stríðsins í Úkraínu. Ekki er síður mikilvægt að taka á móti þeim mönnum, frá báðum fylkingum, sem samvisku sinnar vegna neita að taka þátt í stríðsátökum.

Ný miðnefnd SHA kosin á landsfundi

By Fréttir

Landsfundur SHA 2022 fór fram núna um helgina og var vel sóttur. Skýrsla miðnefndar var lögð fram og línurnar lagðar fyrir næsta starfsár þar sem verður stefnt að meiri virkni eftir ládeyðu kófsins.

Nína Helgadóttir frá Rauða krossinum kom til okkar eftir hádegishlé og sagði okkur frá málefnum flóttafólks og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir vegna stríðsins í Úkraínu. Það var mjög fræðandi og það sköpuðust líflegar umræður í kjölfarið. Greinilegt er að það er margt sem mætti betur fara í móttöku flóttafólks en vonandi verður aukinn vilji til þess að hjálpa fórnarlömbum stríðs til þess að eitthvað breytist.

Guttormur Þorsteinsson var endurkjörinn sem formaður og ný miðnefnd tók til starfa. Hana skipa Anna Lísa Björnsdóttir sem kemur ný inn, Friðrik Atlason, Gyða Dröfn Jónudóttir Hjaltadóttir, Karl Héðinn Kristjánsson sem kemur einnig nýr inn, Lowana Veal, Sigurður Flosason, Stefán Pálsson og Þorvaldur Þorvaldsson. Til vara voru kosin Alexandra Ýr van Erven, Ólína Lind og Þórarinn Snorri Sigurgeirsson sem kemur nýr inn. Hinsvegar er ekki hefð fyrir því að gera greinarmun á aðal- og varamönnum.

Við hlökkum til að starfa saman að verkefnum næsta árs enda af nógu að taka.