All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

kjúklingaréttur

Janúarmálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður

Bræðurnir Friðrik Atlason og Gísli Hrafn Atlason sjá um janúarmálsverð friðarhúss. Í boði verður kjúklingagúmmelaði friðarhöfðingjans og grænmetisréttu sýrlenska stríðsandstæðingsins með hrísgjónum friðarhreyfingarinnar og hinu dýrlega brauði mótmælanda brauðmolakenningarinnar. Á eftir verður boðið uppa kaffi og með því.

Menningardagskrá kvöldsins er upplestur tveggja höfunda. Guðrún Inga Ragnarsdóttir, les úr nýrri bók sinni Plan B, sem er fyrsta bók ársins og
Aðalsteinn Eyþórsson segir okkur frá sjálfstæðu sauðfé. Hér mætast andstæður, tvífætlingar í borg og fjórfætlingar í náttúrunni.

No war on Iran

Höfnum stríði við Íran

By Í brennidepli
Guttormur Þorsteinsson

Laugardagurinn 25. janúar var helgaður alþjóðlegum mótmælum gegn stríði við Íran. Spennuna á milli Írans og Bandaríkjanna má rekja að minnsta kosti aftur til byltingarinnar 1979 en nú er sérstaklega ófriðvænlegt eftir að forseti Bandaríkjanna lét ráða af dögum einn æðsta ráðamann Íran, hershöfðingjann Qasem Soleimani, í heimsókn hans til Írak í byrjun árs. Mesta stríðshættan er mögulega liðin hjá eftir tiltölulega hófstiltar hefndaraðgerðir Írana en það kraumar enn í ófriðarlogunum.

Þetta er mikil afturför frá því að kjarnorkusáttmálinn á milli Íran, Bandaríkjanna, Rússlands, Kína og evrópsku stórveldanna var undiritaður árið 2015 en það var eitt stærsta skrefið í friðarátt í Miðausturlöndum síðustu áratugi. Hann hefði heft útbreiðslu kjarnorkuvopna í heimshlutanum um fyrirsjáanlega framtíð og lagt grunninn að friðsamlegum samskiptum Írans við Vesturlönd. Þörfin var brýn eftir þá óöld sem innrás Bandaríkjanna í Írak 2003 olli á svæðinu.

Því miður var þeim samningi kastað út í hafsauga af núverandi stjórnvöldum Bandaríkjanna þvert á vilja annarra samningsaðilla. Eftir að hafa þannig stimplað sig út úr samningaviðræðum settu þau á enn harðari refsiaðgerðir án þess að bjóða upp á nokkra raunhæfa leið fyrir Íran út úr þeim. Þessi stefna Bandaríkjanna er ávísun á stigmagnandi átök.

Þrátt fyrir ögranir eins og drónaárásina á Soleimani virðist Donald Trump ekki hafa skýr markmið um stríð við Íran en í svona spennuástandi geta slys eða frekari ögranir á báða bóga auðveldlega breyst í alsherjarstríð. Dauði 176 farþega og áhafnar í flugi PS752 sem var skotið niður af Írönum fyrir mistök er svo sorglegt dæmi um hvað getur gerst við þessar aðstæður. Afleiðingarnar af stríði yrðu svo enn alvarlegri, milljónir saklausra borgara gætu fallið og Persaflói sem þriðjungur af olíuútflutningi heimsins fer um yrði að vígvelli þar sem ótal olíuskip og olíumannvirki yrðu skotmörk íranskra flugskeyta og Bandarískra sprengjuflugvéla.

Líkurnar aukast líka á því að Íran þrói kjarnorkuvopn ef það lítur út eins og eina leiðin til að tryggja sig gegn árásum Bandaríkjanna. Þá er hætt við að fleiri ríki eins og Sádi-Arabía fylgi á eftir, sem eykur enn hættuna á kjarnorkustyrjöld.

Fjölmörg friðarsamtök í Bandaríkjunum og víðar standa að mótmælum gegn stríði við Íran núna á laugardaginn og vonandi verða þau fyrirbyggjandi. Endurtökum ekki glæpsamleg mistök Íraksstríðsins en hlustum á mótmælendur sem krefjast friðar. Íslensk stjórnvöld gætu lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að samþykkja sáttmála um kjarnorkuafvopnun og með því að beita sér fyrir friðsamlegum lausnum á deilumálum og gegn drónáárásum án dóms og laga.

Guttormur Þorsteinsson

Friðarganga á Þorlákmessu

Ávarp Drífu Snædal á Þorláksmessu

By Fréttir
Drífa Snædal

Kæru friðarsinnar,

Friður og lýðræði eru í mínum huga nánar systur og verða ekki aðskildar svo vel sé. Og það er áhyggjuefni að lýðræði á undir högg að sækja víða í heiminum og jafnvel hér innanlands. Þegar einn valdamesti maður heims reynir að hlutast til um kosningar, þegar minnihlutahópar eru fangelsaðir og þaggaðir, þegar skipan dómara er pólitísk og þegar fjölmiðlar eru múlbundnir er hætta á ferð. Þá er ekki einungis verið að vega að trausti og undirstöðum lýðræðisins heldur svipta fólk möguleika á áhrifum og réttum upplýsingum til að taka ákvarðanir. Því það er ekkert sem skapar ófrið eins og þegar misfarið er með völd. Það er því hið eilífa verkefni í stóru og smáu að gæta þess að allir hafi rödd og þegar orðin og aflið nær ekki í gegn þá þarf að ljá þeim veikradda rödd.

Þetta er jafn satt inni á heimilum eins og í stærsta samhenginu. Ég hef notið þeirra forréttinda að ferðast til Palestínu í tvígang og hitta þar fólk sem berst fyrir frelsi og gegn kúgun. Að vera í návígi við kerfisbundna niðurlægingu heillar þjóðar þar sem markvisst er dregið úr möguleikum til sjálfsbjargar á hverjum degi setur valdníðslu í alveg nýtt samhengi. Fólk er svipt heimilum sínum, gert erfitt fyrir að vinna og sjá fyrir sér og örlög heillar þjóðar er ekki í höndum hennar sjálfrar heldur herveldis með stuðningi stóra bróður í vestri. Það sem heillaði mig mest er staðfesta allra sem ég hitti í Palestínu að leita friðsamlegra lausna og há friðsamlega frelsisbaráttu. Því þó reynt sé að draga upp mynd af hryðjuverkamönnum í hverju horni í Palestínu þá er sannleikurinn sá að gríðarleg orka fer í að kenna börnum um frið og reyna að koma í veg fyrir að þó þú upplifir niðurlægingu og kúgun kynslóð fram af kynslóð þá felst lausnin ekki í vopnaðri baráttu. Og það þarf stöðuga baráttu fyrir friði því það er ekki sjálfgefið að fólk velji leið friðarins undir kúgun. Það sem styrkir friðsamlega baráttu Palestínuþjóðarinnar er vitneskjan um hauka í horni í alþjóðasamfélaginu. Að vita að þú stendur ekki ein, hvort sem er manneskjan eða heil þjóð. Að fleiri sjá okið og kúgunina og eru til í að berjast með þér. Það er því lóð á vogarskálar friðar að beita sér gegn kúgun og misrétti hvort sem er heima eða heiman.

Og það er verk að vinna hér í okkar samfélagi. Mótmæli víða um lönd færa okkur heim sanninn um að aukið misrétti ógnar friði og það er í raun stórhættulegt að vinna gegn jöfnuði. Hugmyndin um að við eigum að fagna og samgleðjast þeim ofurríku og passa okkur að vera ekki afbrýðisöm lést í hruninu en sumir hafa ekki frétt af andlátinu. Þegar einn maður græðir á einu ári það sem tekur verkafólk margar starfsævir að vinna sér inn er bara réttlátt og sanngjarnt að vera reið, efast um dómgreind ráðamanna og krefjast aukins jöfnuðar. Því ef þeirri sanngjörnu kröfu er ekki mætt er ekki aðeins heill einstaklinganna í hættu heldur samfélagsins alls. Það býr til vantraust og þá vissu að þú búir við ranglæti og óöryggi. Við þurfum að breyta en við skulum líka vera viss um hvernig við ætlum að breyta og hvað þarf að taka við. Ef við stefnum ekki í sömu átt jöfnuðar og lýðræðis er hætt við að öfl sem nærast á óvissu og reiði nái undirtökunum. Öfl sem við sjáum víða um veröld og eru tilbúin til að ala á útlendingaandúð og kvenfyrirlitningu. Öfl sem gæta aðeins að frelsi fárra en ekki fjöldans sem búa til óöryggi.

Að búa ekki við öryggi er að búa við ófrið og það getur verið jafn skelfileg staða fyrir fólk að búa við stríðsástand eins og að þurfa að óttast öryggi af hálfu heimilismanna. Það er eitt af því sem baráttan fyrir kvenfrelsi hefur kennt okkur; að öryggi snýst ekki bara um heimspólitíkina heldur ekki síst um öryggi í nærumhverfinu, á heimilinu og á vinnumarkaðnum. Og það eru svipaðir kraftar á ferð sem skapa ófrið landa á milli og einstaklinga á milli. Að styrkja eigin stöðu, að búa til óöryggi og óvissu og taka til sín völd í kaótísku ástandi. Það er gömul aðferð og ný þegar styrkja á eigin völd að etja saman ólíkum hópum og jafnvel þjóðum. Þess vegna verður mælikvarðinn á að við séum á réttri leið í átt að jöfnuði og friði alltaf hvort hagsmuna allra sé gætt. Hvort lýðræðið sé eflt í leiðinni og hvort lífsgæði fjöldans sé tekin fram yfir hagsmuni fárra. Sem betur fer eru svo miklu fleiri sem hugsa þannig en ekki og um leið og válynd veður eru í lofti fara hreyfingar sem vilja frið og sanngirni vaxandi líka. Virðing fyrir umhverfi okkar og vissa um að jöfnuður sé eina leiðin fram á við verður sterkara stef með hverjum deginum og það er fullt tilefni til bjartsýni ef við vitum hvað ber að varast.

Kæru friðarsinnar,

Takk fyrir að sýna mér þann heiður að fá að ávarpa ykkur, ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og friðar og vona að nýtt ár beri í skauti sér jafnrétti og jöfnuð, lýðræði og frið fyrir okkur öll.

Gleðilega hátíð!

Friðarganga á Þorlákmessu

Friðargöngur á Þorláksmessu

By Fréttir
Friðarganga á Þorlákmessu

Friðargöngur verða að venju haldnar á Þorláksmessu á þremur stöðum á landinu. Athugið að tímasetningar þeirra eru ekki allar þær sömu.

Í Reykjavík stendur Samstarfshópur friðarhreyfinga fyrir göngu niður
Laugaveginn, en sú hefð hefur staðið óslitið frá árinu 1980. Líkt og í
fyrra verður að þessu sinni ekki safnast saman á Hlemmi, heldur á
Laugavegi neðan Snorrabrautar. Er það hugsað til að auka öryggi
þátttakenda og losna við truflun vegna umferðar.

Notast verður við bæði vaxkyndla og fjölnota friðarljós. Þau verða
seld í upphafi göngu og kosta 500 kr.

Safnast verður saman kl. 17:45 og gengið af stað á slaginu 18:00.
Hamrahlíðarkórinn og kór Menntaskólans við Hamrahlíð ganga fremst og
syngja viðeigandi lög. Í göngulok verður stuttur fundur á Austurvelli
þar sem Drífa Snædal forseti ASÍ flytur ávarp og Eyrún Ósk Jónsdóttir
skáld les friðarljóð. Fundarstjóri verður Daníel E. Arnarsson
framkvæmdastjóri Samtakanna 78.

Á Ísafirði hefst aðgerðin einnig kl. 18 og er gengið frá
Ísafjarðarkirkju. Eiríkur Örn Norðdahl flytur ávarp og Iwona Samson
les ljóð.

Friðargangan á Akureyri verður að venju á Þorláksmessu kl. 20 á vegum
Friðarframtaks. Gengið verður frá Samkomuhúsinu niður á Ráðhústorgi.
Hlynur Hallsson myndlistarmaður flytur ávarp og Félagar úr Hymnódíu
syngja.

Fullveldisfögnuður

Fullveldisfögnuður

By Viðburður

Nú er komið að árvissum fullveldisfögnuði og jólahlaðborði SHA. Hann varður haldinn föstudaginn 29. nóvember kl. 19:00.

Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér að venju um matseldina og býður upp á stórglæsilegan matseðil:
-Heimaverkaða sænska jólaskinku með kartöflusalti, og sinnepssósu
-Heimagerða lifrakæfu og heimagert rúgbrauð
-Reykta nautatungu með piparrótarrjóma
-Karrýsíld og tómatsalsasíld.
-Rækjufrauð
-Hnetusteik fyrir grænkera
-Kaffi og konfekt

Menningardagskrá kvöldsins er ekki síðri. Kristín Ómarsdóttir les úr nýrri bók sinni Svanafólkið og Gunnar Guðmundsson segir okkur frá leitinni að Njáluhöfundi en samnefnd bók hans fjallar um það. Að lokum verður tónlistaratriði og auðvitað spjallað fram eftir kvöldi.

Öll velkomin, verð 2.000 krónur.

Upphafið að endalokum sprengjunnar

Upphafið að endalokum Sprengjunnar! – Friðarsinnar bjóða í bíó!

By Viðburður
Upphafið að endalokum sprengjunnar

Nærri 75 ár eru liðin frá því að fyrstu kjarnorkusprengjurnar voru
notaðar í hernaði. Upp frá því hefur mannkynið lifað í skugga þessara hræðilegu vopna sem eytt gætu siðmenningunni á svipstundu. Kjarnorkuveldunum fjölgar og ný vopn eru þróuð sem aldrei fyrr.

Heimildarmyndin Upphafið að endalokum Sprengunnar!, The Beginning of the End of Nuclear Weapons, eftir spænska leikstjórann Álvaro Orús var frumsýnd fyrr á þessu ári og hefur vakið mikla athygli. Hún rekur sögu baráttunnar gegn kjarnorkuvopnum og fjallar sérstaklega um baráttu samtakanna ICAN, sem komu því til leiðar að 122 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu sáttmála um bann við kjarnavopnum á árinu 2017. Fyrir það afrek hlutu samtökin friðarverðlaun Nóbels. Næsta baráttumál friðarsinna er að fá sem flest ríki til að undirrita og fullgilda sáttmálann. Þar á meðal Ísland og önnur Nató-ríki sem hingað til hafa neitað að gera það.

Samstarfshópur friðarhreyfinga um kjarnorkuvopnabann býður til sýningar á myndinni í Bíó Paradís laugardaginn 30. nóvember kl. 16:00.

Öll velkomin.

Gunnar Karlsson – kveðja frá SHA

By Tilkynningar

Gunnar Karlsson sagnfræðingur lést í Reykjavík á dögunum, rétt rúmlega áttræður að aldri. Hann var dyggur félagið í Samtökum hernaðarandstæðinga og átti í tvígang sæti í miðnefnd samtakanna sem varamaður og aðalmaður á áttunda og níunda áratugnum. Árið 1984 var hann einn af aðstandendum Samtaka um friðaruppeldi sem störfuðu af krafti um nokkurra missera skeið, en um þær mundir spratt upp fjöldi lítilla friðar- og afvopnunarsamtaka hér á landi sem annars staðar.

Sem fræðimaður lagði Gunnar Karlsson sitt að mörkum til rannsókna á sögu herstöðvamálsins. Árið 1976 tók hann saman ritaskrá um sögu hernámsbaráttunnar og árið 1980 sá hann um útgáfu „Sex ritgerða um herstöðvamál“, sem gefin var út af Sagnfræðistofnunar og hefur að geyma mikilsverðar rannsóknir ungra sagnfræðinga á málaflokknum. Þá liggur eftir Gunnar mikill fjöldi blaðagreina um friðarmál.

Samtök hernaðarandstæðinga kveðja góðan samherja og votta aðstandendum innilega samúð.

kjúklingaréttur

Októbermálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður
kjúklingaréttur

Fjáröflunarmálsverður Samtaka hernaðarandstæðinga verður í Friðarhúsi fös. 25. okt. Kokkurinn er að þessu sinni fyrrum miðnefndarfulltrúi, Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir. Hún er lystakokkur og hefur t.a.m. rekið veitingahús.

Matseðill:
* „Afrískur“ kjúklingaréttur með ristuðum kókos og bönunum
* Grænmetis kókospottur
* Hrísgrjón
* Salat
* Brauð
* Kaffi og konfekt

Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2.000. Að borðhaldi loknu mun Sigríður K. Þorgrímsdóttir segja frá og lesa upp úr nýrri bók sinni um Jakobínu Sigurðardóttur skáldkonu, eitt helsta skáld íslensku friðarhreyfingarinnar.

Öll velkomin.

Septembermálsverður

By Viðburður

Fyrsti fjáröflunarmálsverður SHA haustið 2019 verður haldinn föstudaginn 27. september í Friðarhúsi. Daníel E. Arnarsson sér um matinn en fyrri málsverðir hans hafa slegið í gegn.

Matseðill:

Kúrbíts- og spínatlasagna

Grískt salat

Hvítlauksbrauð

Tómatsúpa

Bananakaramellufrauð

Kaffi

Að málsverði loknum mun Hreindís Ylva Garðarsdóttir taka lagið. Verð 2000 kr. öll velkomin.

Baráttufundur vegna komu varaforseta Bandaríkjanna

By Viðburður

Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna er á leið til Íslands eins og rækilega hefur komið fram í fjölmiðlum. Alkunna er að stefna og framkoma varaforsetans og ríkisstjórnar hans er í andstöðu við skoðanir og gildi fjölmargra Íslendinga. Af því tilefni hafa fjöldi félagasamtaka tekið sig saman um að boða til útifundar á Austurvelli miðvikudaginn 4. september kl. 17:30 undir yfirskriftinni: „Partý gegn Pence: stöndum með friði, frelsi og grænni framtíð“.

Fundurinn er hugsaður sem vettvangur fyrir fólk úr öllum áttum til að tjá afstöðu sína til stefnu Trump-stjórnarinnar í friðar- og afvopnunarmálum, kvenfrelsismálum, málefnum hinseginfólks, á sviði umhverfisverndar og framkomu við flóttafólk. Félagasamtökin sem að fundinum standa vinna einmitt að þessum málaflokkum.

Flutt verða fimm stutt ávörp, en ræðumenn verða Guttormur Þorsteinsson formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, María Helga Guðmundsdóttir fv. formaður Samtakanna 78, Hildur Knútsdóttir rithöfundur og umhverfisverndarsinni, Randi Stebbins mannréttindalögfræðingur og Isabella Rivera sem hefur búið sem innflytjandi í Bandaríkjunum. Einnig verður boðið upp á tónlistaratriði. Almenningur er hvattur til að mæta á Austurvöll og láta skoðun sína í ljós, hver með sínu nefi.