

Þrátt fyrir páska og tíða frídaga er enginn bilbugur á hernaðarandstæðingum sem halda sinn mánaðarlega fjáröflunarmálsverð í Friðarhúsi föstudagskvöldið 25. apríl. Sigrún Guðmundsdóttir og Ævar Örn Jósepsson elda oní mannskapinn.
* Hakkabuff
* Grænmetisbuff
* Allt tilheyrandi meðlæti
* Kaffi og eftirréttur kynntur síðar
Að borðhaldi loknu mun Eyrún Ósk Jónsdóttir lesa friðarljóð, Egill Arnarson segja frá nýrri þýðingu sinni á verkinu Fyrir eilífum friði eftir Kant og tónlistarmaðurinn Sveinn Guðmundsson tekur lagið.
Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2.500. Öll velkomin.
Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025, fordæmir þau grímulausu þjóðarmorð sem Ísraelsríki fremur nú í Palestínu. Landsfundur ítrekar kröfu sína um vopnahlé á Gasa. Koma verður á varanlegum og réttlátum friði, auk þess sem alþjóðasamfélagið verður að styðja við uppbyggingu samfélagsins á Gasa. Íslendingar voru fyrsta landið í Vestur-Evrópu til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu og leggur það okkur aukna ábyrgð á herðar að koma Palestínumönnum til varnar á alþjóðavettvangi og tala máli friðar.
Virðingarleysi Ísraelsstjórnar fyrir alþjóðalögum og mannréttindum er algert. Ljóst er að lokatakmark hennar er að hrekja sem allra flesta Palestínumenn úr landi og má samfélög þeirra af yfirborði jarðar. Við þetta njóta þeir fulltingis Bandaríkjastjórnar með þegjandi samþykki Evrópusambandsins. Þetta grefur undan öllum þeim alþjóðlegum lögum, mannréttindum og gildum sem tryggja lágmarks virðingu fyrir mannslífum. Eins hafa ofsóknir gegn Palestínumönnum og málsvörum þeirra grafið undan tjáningarfrelsi og mannréttindum heima fyrir. Skýr afstaða íslenskra stjórnvalda gegn glæpum Ísraels og frumkvæði á alþjóðavettvangi um aðgerðir gegn þeim væri lítið en nauðsynlegt skref í að vinda ofan þessari helstefnu.
Loksins, eftir alltof langa bið, er Friðarvefur Samtaka hernaðarandstæðinga kominn í loftið á ný. Síðan lá niðri í vel á annað ár, en upphaf þessara vandræða má rekja til ýmissa tæknilegra vandamála ásamt almennri frestunaráráttu.
Í tengslum við hina nýju opnun síðunnar hefur verið ráðist í ýmsar útlitsbreytingar og má búast við því að ýmsar nýjungar verði kynntar hér til sögunnar á næstunni. Jafnframt er líklegt að ýmsir agnúar kunni að koma í ljós og verður reynt að bæta úr þeim jafnóðum.
Lesendur eru hvattir til að senda póst með ábendingum um hvaðeina sem betur mætti fara á netfang samtakanna, sha@fridur.is
Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025 stendur með sjálfsákvörðunarrétti Grænlendinga og hafnar því að örlög smáþjóða og hjálendna séu skiptimynt í baktjaldamakki stórvelda og nýlenduvelda. Að forseti Bandaríkjanna ýi að því að hægt sé að kaupa lönd eða innlima þau með valdi er óverjandi. Eins er það óásættanlegt að danskir stjórnmálamenn tali um Grænland sem órjúfanlegan hluta ríkisins. Ákvörðunin um sjálfstæði Grænlands eða áframhaldandi tengsl við Danmörku liggur eingöngu hjá Grænlendingum sjálfum.
Orðræða bandarískra ráðamanna sem láta sér ekki nægja að hafa herstöð á Grænlandi og sjálfdæmi um hernaðaruppbyggingu þar ætti að vera íslenskum stjórnvöldum víti til varnaðar. Það að bjóða erlendu herveldi aðstöðu og fylgispekt er líklegra til þess að ógna fullveldi landsins og gera það að skotmarki en að tryggja varnir þess.
Landsfundur SHA verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, laugardaginn 29. mars.
Dagskrá hefst kl. 11 með stjórnarkjöri og almennum aðalfundarstörfum.
Léttur hádegisverður í boði.
Klukkan 13 verður rætt um Grænland og pólitíska stöðu þess, m.a. í ljósi ásælni Bandaríkjamanna. Steinunn Þóra Árnadóttir hernaðarandstæðingur og fyrrum formaður Vestnorræna ráðsins & Skafti Jónsson fyrrum aðalræðismaður Íslands á Grænlandi hafa framsögu á undan almennum umræðum.
Að málstofunni lokinni halda fundarstörf áfram en áætlað er að fundi ljúki eigi síðar en kl. 16.
Fram hafa komið hugmyndir á síðustu dögum um stofnun íslensks hers. Þar vill gleymast að fyrr á öldinni eignuðust Íslendingar sína eigin hersveit, sem starfrækt var í Kabúl í Afganistan. Friðrik Guðmundsson og Kristinn Hrafnsson gerðu frábæra heimildarmynd, „Chicken Commander“ (Ísl: Íslenska sveitin) um þetta furðufyrirbæri. Myndin verður sýnd í Friðarhúsi miðvikudagskvöldið 5. mars kl. 20:00 og eru öll velkomin meðan húsrúm leyfir.
Oft var þörf en nú er nauðsyn.