All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

Friðardúfa

Öflug baráttukona fyrir friði fallin frá

By Tilkynningar
Guðrún Valgerður Bóasdóttir

Guðrún Valgerður Bóasdóttir, betur þekkt sem Systa, er fallin frá 67 ára að aldri. Hún varð starfsmaður Samtaka herstöðvaandstæðinga um miðjan níunda áratuginn, á miklum umsvifatímum í sögu friðarhreyfingarinnar í miðju Köldu stríði og kjarnorkukapphlaupi stjórnveldanna. Systa tók meðal annars virkan þátt í alþjóðastarfi samtakanna og átti stærstan þátt í að SHA tóku virkan þátt í Græna netinu svokallaða í árdaga internetsins.

Baráttan gegn stríði og ofbeldi átti huga Systu alla tíð. Hún var drifkraftur í starfsemi Samstarfshóps friðarhreyfinga um áratuga skeið, sem skipulagt hafa kertafleytingar gegn kjarnorkuvopnum og friðargöngur á Þorláksmessu. Eftir að samtökin komu sér upp eigin félagsmiðstöð, Friðarhúsi, árið 2005 tók hún ástfóstri við verkefnið og á hvað stærstan þátt í þróun Friðarhúss í gegnum árin.

Samtök hernaðarandstæðinga votta fjölskyldu og vinum Guðrúnar Valgerðar Bóasdóttur innilega samúð. Hennar verður sárt saknað í friðarhreyfingunni.

Þeim sem vilja minnast hennar er bent á reikning Friðarhúss:
Kt. 600404-2530
Rn. 0130-26-002530

Friðarganga á Austurvelli 2024

Ræða Ingunnar Ásdísardóttur eftir Friðargöngu 2024

By Í brennidepli
Ingunn Ásdísardóttir

Það eru ekki slysaskot í Palestínu þessa dagana – ástandið þar er svo voðalegt að það er líklega ekki einu sinni hægt að yrkja um það ljóð. Þar falla skotin af ásetningi. Sama má segja um Úkraínu, Sýrland. Í Súdan er fólk höggvið niður með lagvopnum!

Um þessi ósköp á maður engin orð, getur ekki ímyndað sér hvernig þetta er.

Og getur ekkert sagt, ekkert sem skiptir máli. Við, almennir borgarar hér uppi á friðsæla Íslandi, höfum varla nokkrar forsendur til að skilja svona hrylling. 

Þess vegna ætla ég að tala um okkur hér – og frið.

Við sem nú lifum hér, þekkjum ekki annað en frið, þau átök sem við heyrum og sjáum í fjölmiðlum þekkjum við ekki á okkar eigin skinni. Við lifum í velsæld og friði og kunnum ekki annað.

Samt rífumst við. 

Við rífumst um pólitík, rífumst um útlendinga, rífumst um hátt verðlag, holótta vegi. Margt á rétt á sér og mætti ræða á málefnalegri grundvelli en oftast er gert, en við virðumst líka oft rífast bara til að rífast, við rífumst við annað fólk, jafnvel ættingja og vini, við rífumst við afgreiðslufólk í búðum, rífumst út af bílastæðum, við rífumst á samfélagsmiðlum – notum stundum orðbragð sem hneykslar, særir og skaðar, – og svo rífumst við út af því. 

Oft og tíðum finnst mér eins og yfirspenna, æsingur og úlfúð ráði ríkjum í samfélaginu. Hér hjá þessari litlu þjóð í miðri velsældinni og friðsemdinni. Allt er blásið upp í æsifréttastíl, bæði prívat milli manna og opinberlega á vettvangi samfélagsumræðunnar þar til æsingurinn er orðinn nógu mikill til að ósannindi, falsfréttir og ásakanir hafa náð yfirhöndinni. 

Þá er skrattanum skemmt. 

Af hverju getum við ekki bara haldið friðinn?

Við búum jú ekki við ófrið. Hér eru engin stríð.

En kunnum við að meta þann frið sem við búum við? Er ekki stundum dálítið grunnt á því? 

Hér alast upp börn sem fá ekki þá andlegu næringu og uppfræðslu sem öll börn í friðsælu samfélagi ættu að fá. Hér alast upp börn sem geta varla tjáð sig á máli sem ætti að vera – eða verða – þeirra móðurmál, því hér eiga þau heima. Hér alast upp börn sem eru varla læs, hvorki á eitt tungumál né annað. Hér alast upp börn sem hópast í gengi og beita ofbeldi. Hér alast upp börn sem beita hnífum! 

Hvað er að hér í friðsemdinni? Erum við orðin vitlaus af velsæld?

Ætti kannski að senda okkur öll í lífsþjálfun til Palestínu? Til Úkraínu? Til Sýrlands? Til Súdan? Láta okkur hitta konur sem hefur verið massanauðgað, karla sem hafa horft upp á misþyrmingar og nauðganir á konum sínum og börnum. Sjálfum verið nauðgað og misþyrmt. Senda okkur gangandi margra klukkustunda leið eftir vatnsdreitli? Búa klæðlítil og eldsneytislaus í tjaldi í flóttamannabúðum um nokkurra vikna skeið? Láta leiða okkur um fangelsi Assads – ég held það sé ekki nóg að skreppa og skoða Auswitch, það er yesterday‘s paper. 

En þannig eru stríð – sem við þekkjum ekki, kunnum ekkert á, vitum ekkert hvað er eða hvað felur í sér fyrir einstaklinginn.

Í stríði er manneskjan, einstaklingurinn, einskis virði. Mannslífið byssufóður eða pyntingamatur.

Ekkert svona þekkjum við af eigin raun. Þess vegna skiljum við þetta ekki, heldur æðum áfram í okkar ofurvelsæld, eyðum og spennum í okkur sjálf, og friðum samviskuna með nokkrum Amnesty-póstkortum eða gjafabréfum fyrir brunnum og geitum í Afríku, og látum það viðgangast að hér gangi um ofurríkir burgeisar sem bæði stela af hinum almennu borgurum og heiminum sem á bágt og gæti notað einhverja aura til að komast betur af og lifa í meiri friði. Höfum við heyrt minnst á Namibíu? Tortóla?

Nú vil ég ekki staðhæfa að við séum ómöguleg og óalandi af því að við höfum ekki upplifað stríð. 

En ég held að við megum að ósekju skoða hug okkar betur en við gerum varðandi hve gott við höfum það og hvernig við getum hugsanlega nýtt einmitt þá staðreynd til að efla frið, nýtt okkur þessi ótrúlegu forréttindi, bæði hér heima og úti í veröldinni, til að efla frið í milli einstaklinga og nákominna, frið  milli hópa og samfélagseininga, frið milli þjóða, frið við náttúruna, frið í allri hugsun. 

Ég hef ekki svarið við þessu, það verður hver og einn að finna hjá sjálfum sér, í hjarta sínu. En ég held að það væri okkur sem þjóð, íbúum þessa friðsæla lands, hollt og þroskandi að leita þess innra með sér og breyta samkvæmt því. 

Að lokim vil ég minna okkur öll á að auk hinar ágætu kveðju: Gleðileg jól – ég ég vitaskuld óksa ykkur öllum, eigum við aðra ekki síðri kveðju á okkar fallegu íslensku: Ég óska því ykkur öllum og öllum landsmönnum árs og friðar.

Takk fyrir

Friðargangan 2022

Friðargöngur á Þorláksmessu

By Fréttir, Viðburður

Frá árinu 1980 hafa íslenskar friðarhreyfingar staðið fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu til að leggja áherslu á kröfuna um afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Gangan í ár fer fram í skugga ófriðarskýja um víða veröld. Blóðugar styrjaldir eiga sér stað með skelfilegum hörmungum fyrir almenning. Vígvæðing hefur sjaldan verið meiri og lítið ber á röddum þeirra sem hafna hernaðarbandalögum og ofbeldi í samskiptum manna og þjóða. Það hefur því sjaldan verið brýnna að ganga fyrir friði.

Í Reykjavík verður safnast saman fyrir ofan Hlemm og á slaginu 18:00 mun gangan leggja af stað niður Laugaveginn undir söng kórs Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar. Á Austurvelli verður stuttur útifundur þar sem Ingunn Ásdísardóttir flytur ávarp. Fundarstjóri verður Haukur Guðmundsson. Fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum verða seld í göngubyrjun á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur til endurvinnslu að göngu lokinni.

Á Ísafirði og Akureyri verða göngur á sama tíma. Ísfirðingar safnast saman við Ísafjarðarkirkju og ganga að Silfurtorgi. Á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorgi. Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur flytur ávarp og Svavar Knútur tekur lagið.

Friðargangan í Reykjavík er haldin á vegum Samstarfshóps
friðarhreyfinga. Hann skipa ýmis félagasamtök:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
Búddistasamtökin SGI á Íslandi

Lógó Alþingis

Opið bréf til nýkjörinna þingmanna

By Ályktun, Í brennidepli

Kæri þingmaður

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga óskar þér velfarnaðar í því hlutverki sem þér hefur verið falið að sitja á Alþingi fyrir hönd þjóðarinnar. Við viljum vekja athygli þína á mikilvægi þess að Ísland beiti sér fyrir friði í heiminum og taki þar með ekki þátt í hernaði hér á landi sem annars staðar.

Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennustu baráttusamtök friðarsinna á Íslandi. Þau voru stofnuð árið 1972 en rekja sögu sína þó aftur til ársins 1960. Frá upphafi hefur megináhersla samtakanna verið barátta gegn hvers kyns vígvæðingu og hernaði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kjarnorkuvopnum og aðild Íslands að hernaðarbandalögum og hernaðarumsvifum hér á landi.

* Kjarnorkuvopn eru í dag ein mesta ógn sem að mannkyni stafar. Þau fyrirheit sem gefin voru á fundi leiðtoga stærstu kjarnorkuveldanna í Reykjavík árið 1986, um að stefna að kjarnorkuafvopun í heiminum, eru löngu farin út um þúfur og kjarnorkuveldin halda áfram að þróa ný og hættulegri vopn. Sú hugmynd að kjarnorkuvopn hafi fælingarmátt með því að valda ógnarjafnvægi sem muni leiða til friðar, er frávita. Heimurinn hefur líkast til aldrei frá lokum síðari heimsstyrjaldar staðið nær því að lenda í kjarnorkustríði en einmitt nú, þegar verið er að hóta beitingu kjarnorkuvopna í Evrópu. Nú þegar hafa 69 ríki staðfest Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum og enn fleiri undirritað hann. Þjóðaröryggisstefna Íslands kveður nú þegar á um að stefna skuli að því að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og aðild að alþjóðlegum samningi er trúverðugasta leiðin til þess að framfylgja því.

* Ísland er aðili að stríðsbandalaginu Nató, sem hefur það grunnatriði í sinni hernaðarstefnu að búa yfir og vera reiðubúin til að beita kjarnorkuvopnum. Með þeirri aðild hefur Ísland ekki treyst sér til að fylgja eigin stefnu um friðlýsingu gegn kjarnorkuvopnum og hefur ennfremur falið Bandaríkjunum fullt vald til að nýta hernaðaraðstöðu sína á og við Ísland sem lykilstöðu í kjarnorkustríði á norðurslóðum. Við skorum á þig að vinna að úrsögn Íslands úr stríðsbandalaginu Nató.

* Milli Íslands og Bandaríkjanna er í gildi svokallaður Varnarsamningur, sem er í raun vígvæðingarsamningur er felur í sér víðtækar heimildir Bandaríkjastjórnar til að ákveða hernaðarumsvif á og við Ísland. Nýlegar bókanir við samninginn hafa heimilað aukin umsvif og framkvæmdir Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Þetta gengur þvert gegn yfirlýstri stefnu Íslands um friðsamlega nýtingu Norðurslóða, með því að draga Ísland inn í harðnandi hernaðarkapphlaup Rússlands og Nató á svæðinu. Við skorum á þig að vinna að sjálfstæðri og friðsamri leið Íslands, stöðva hernaðaruppbyggingu hér á landi nú þegar og segja upp vígvæðingarsamningnum við Bandaríkin.

* Árum saman hafa blóðugar styrjaldir átt sér stað víða um heim með óheyrilegu mannfalli og hruni samfélaga. Síðustu ár hefur fleira fólk þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka en nokkru sinni frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Í þessum styrjöldum eiga vestræn ríki stóran hlut að máli sem stríðsaðilar, bakhjarlar og vopnasalar. Bein hernaðaríhlutun stórvelda hefur hvergi leitt til góðs og dæmin sýna hversu vonlaust er að koma á lýðræði og styðja mannréttindi með stríðsaðgerðum. Íslendingar eiga að þora að standa við að vera herlaus þjóð að taka aldrei þátt í hernaðarstuðningi, sama hver málstaðurinn er. Þannig er mikilvægt að Ísland hætti þegar í stað að fjármagna hernað í Úkraínu og beiti sér eingöngu að því að veita pólitískan stuðning, mannúðaraðstoð og að hafa milligöngu um friðsamlegan endi á stríðinu þar. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að ríki heims hætti að treysta herjum fyrir friði og fari þess í stað að mynda bandalög um frið og framfarir, sem hafna ofbeldi og hernaði.

* Styrjaldir og átök í heiminum, fyrr og nú, eiga sér rætur í hagsmunabaráttu um auð og völd. Hugmyndafræðilegur ágreiningur um trúarbrögð og þjóðerni og menningu, eru aðeins fyrirsláttur til að safna fólki í andstæð lið. Friður byggir á samvinnu á mörgum sviðum samtímis, um uppbyggingu undirstaðna efnahags á hverju svæði, um gildi og fyrirkomulag lýðræðis og mannréttinda, um úrræði sem stuðla að sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda og gegn mengun, um viðskipti á jafnréttisgrunni, um virðingu fyrir menningu og miðlun hennar til að auka skilning milli þjóðfélaga, um að strengja þess heit að finna friðsamlega lausn á sérhverjum vanda og hafna hernaði.

Undir þetta ritum við öll sem erum í miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga.

Daníel Guðjón Andrason
Guttormur Þorsteinsson
Elín Oddný Sigurðardóttir
Friðrik Atlason
Harpa Kristbergsdóttir
Ingibjörg Haraldsdóttir
Lowana Veal
Sigurður Flosason
Soffía Sigurðardóttir
Stefán Pálsson
Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir
Þorvaldur Þorvaldsson

Herstöðvaandstaða í fjölmiðlum

By Fréttir, Í brennidepli

Fjölmiðlar hafa fjallað mikið um hernaðaruppbygginguna á Keflavíkurflugvelli í vikunni í kjölfar umfjöllunar RÚV og skýrslu utanríkisráðuneytisins um áherslur í „varnarmálum“ sem kom út rétt fyrir kosningar.

Samstöðin fékk Guttorm Þorsteinsson formann og Soffíu Sigurðardóttur ritara í langt spjall um friðarmál og hernaðaruppbyggingu við Rauða borðið í ljósi þessara frétta sem má sjá hér.

RÚV leitaði einnig álits hjá Guttormi um framkvæmdirnar fyrir hádegisfréttir og í Morgunútvarpi Rásar 2.

Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni var sömuleiðis rætt við Guttorm og Andrés Inga Jónsson fráfarandi þingmann Pírata um uppbygginguna og hvað það þýðir að vera friðarsinni á tímum aukinnar spennu í Evrópu.

Það hefur einnig verið nokkur umfjöllun um sögu herstöðvarbaráttunar sem fær bara aukið vægi við þessar vendingar. Egill Helgason tók viðtal við Árna Hjartarson ritstjóra Gengið til friðar í Kiljunni sem má sjá hér.

Stefán Pálsson miðnefndarmaður og einn höfunda bókarinnar ræddi hana svo í Morgunvaktinni á Rás tvö og byrjar viðtalið á 1:09:30 í þessari upptöku á netinu.

Fullveldismálsverður

Fullveldisfögnuður í Friðarhúsi – Daginn fyrir kjördag

By Viðburður
Jólahlaðborð SHA ber að þessu sinni upp á föstudaginn 29. nóvember.
Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér að venju um krásirnar. Matseðill:
• Heimaverkuð sænsk jólaskinka með kartöflusalti, og sinnepssósu
• Heimagerð lifrakæfa og heimagert rúgbrauð
• Reykt nautatunga með piparrótarrjóma
• Sérverkuð síld og sinnepssalsasíld
• Rækjufrauð
• Hnetusteik fyrir grænkera
• Kaffi og konfekt
Sest verður að snæðingi kl. 19.
Að borðhaldi loknu hefst menningardagskrá. Guðrún Eva Mínervudóttir les úr nýrri skáldævisögu og tónlistarmaðurinn Cacksakkah flytur jólapönk af frumlegustu gerð. Frekari dagskráratriði kynnt þegar nær dregur.
Verð kr. 2.500. Öll velkomin.
Donald Trump og Jens Stoltenberg

Svör flokkanna, 6. spurning: Við þurfum að tala um Trump…

By Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 6 hljómaði svo: Treystir flokkur þinn nýjum forseta Bandaríkjanna til að leiða hernaðarbandalagið NATO og vera æðsti stjórnandi herliðs á Íslandi? Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Lýðræðisflokkurinn:
Já, DT [Donald Trump] hefur lýst því yfir að hann vilji stilla til friðar og hætta blóðsúthellingum. Þær yfirlýsingar hans eru trúverðugar í ljósi reynslunnar, enda hóf hann engin stríð á valdatíma sínum 2016-2020. Fráfarandi forseti BNA hefur leitt ríkisstjórn sem aðhyllst hefur hernaðarhyggju. Allt bendir til að ný ríkisstjórn BNA muni stefna málum í betra og friðvænlegra horf.

Viðreisn:
Nýr forseti tekur við völdum í byrjun næsta árs. Reynslan verður að leiða í ljós hvaða áhrif valdataka hans mun hafa innan NATO og í samskiptum við Evrópuríkin sem og varnarsamning Íslands við Bandaríkin. Viðreisn telur að fullt tilefni sé til þess að styrkja enn sambandið við ESB og dregur valdataka nýs forseta síst úr þeirri áherslu.

Píratar:
Nei, Píratar eru áhyggjufullir yfir því hver staða mála á alþjóðavettvangi verður þegar Trump tekur aftur við embætti. 

Vinstri græn:
Nei.

Sósíalistaflokkurinn:
Nei.

Miðflokkur:
Miðflokkurinn leggur áherslu á að virða lýðræðislegan rétt annarra þjóða til að velja sér leiðtoga og leggur áherslu á gott og heilbrigt samstarf sem sjálfstæð og fullvalda þjóð við aðrar þjóðir. Það byggir á gagnkvæmri virðingu fyrir menningu, sögu og siðum viðkomandi landa.

Framsóknarflokkur:
Framsókn leggur áherslu á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og að alþjóðalög séu virt. Flokkurinn hefur ekki tekið afstöðu til einstakra leiðtoga eða þeirra hlutverka innan NATO.

Meðaldræg kjarnorkuvopn

Svör flokkanna, 5. spurning: Átakasvæði í heiminum

By Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 5 hljómaði svo: Með hvaða hætti telur flokkurinn að íslensk stjórnvöld geti best stuðlað að friði á átakasvæðum á borð við Úkraínu, Ísrael og Austur-Afríku?– Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Framsóknarflokkur:
Framsókn leggur áherslu á að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi og stuðli að friði með mannúðarsjónarmiðum og friðsamlegum lausnum. Flokkurinn vill að Ísland styðji við alþjóðlegar aðgerðir sem miða að því að leysa átök með friðsamlegum hætti og að mannréttindi séu virt. Með því að taka þátt í alþjóðlegum samtökum og styðja við diplómatískar lausnir getur Ísland stuðlað að friði á átakasvæðum.

Píratar:
Píratar hafa sérstaklega ályktað um Úkraínu og Ísrael. Þar fordæmum við innrás Rússlands í Úkraínu og styðjum úkraínsku þjóðina í baráttu fyrir fullveldi sínu og frelsi, þar sem herlaust Ísland ætti að veita mannúðaraðstoð og stuðla að friði. Jafnframt standa Píratar með Palestínumönnum og vilja stöðva þjóðarmorð á Gaza. Þeir leggja til viðskiptaþvinganir og bann á öllum vopnaviðskiptum við Ísrael, auk þess að draga úr stjórnmálasambandi við Ísrael og beita áhrifum Íslands í Mannréttindaráði SÞ til að þrýsta á Ísrael að láta af árásum sínum. Píratar styðja einnig málsókn Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir brot á hópmorðasamningi SÞ.

Miðflokkur:
Sem herlaust land hlýtur öll aðstoð Íslands að taka mið af því.

Sósíalistaflokkurinn:
Íslensk stjórnvöld ættu að tala fyrir tafarlausu vopnahléi á hverju svæði fyrir sig og  tala gegn stigmögnun átaka. Þjóðarmorð Ísraels og árásarstríð þeirra í Líbanon þarf að fordæma með afdráttarlausum hætti og kalla eftir efnahagsþvingunum og tafarlausri stöðvun vopnasendinga til Ísraels. Ísland á að styðja málsókn Suður – Afríku fyrir Alþjóðadómstólnum og beita sjálf efnahagsþvingunum gegn Ísrael. Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna á að hafa efnd til slíkra viðskiptaþvinganna en vegna neitunarvalds Bandaríkjanna hefur sú niðurstaða ekki náðst. Það ber að fordæma harðlega.
Í Úkraínu þarf að tala gegn stigmögnun átakanna og tala fyrir því að samið sé um frið. Ísland á ekki að kaupa vopn heldur styðja mannúðarstarf og uppbyggingu í Úkraínu.
Í Austur Afríku þarf að tala fyrir tafarlausu vopnarhléi, gegn stigmögnun átaka og fordæma ríki sem stigmagna átökin.

Lýðræðisflokkurinn:
Með því að tala skýrt og stöðugt frá sjónarhóli friðar og sátta. Bjóða má fram Höfða í Reykjavík sem samningsvettvang.

Vinstri græn:
Ísland á að beita sér fyrir því alþjóðalög séu virt og standa vörð um stefnu og starf Sameinuðu þjóðanna. Til að tryggja öllum íbúum jarðar mannsæmandi kjör er ljóst að deila þarf auðlindum heimsins jafnar. Til að jafna kjör fólks þarf róttækar breytingar á því hvernig völdum og gæðum er dreift jafnt milli ríkja sem innan þeirra, s.s. milli stétta, kynja, þjóðernishópa. Við krefjumst tafarlauss vopnahlés í Palestínu, friðarsamninga og að vopnaflutningar til Ísrael verði stöðvaðir. Það sama gildir um önnur átakasvæði í heiminum. 

Svör flokkanna, 4. spurning: Unnið að friði

By Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 4 hljómaði svo: Á hvaða vettvangi telur flokkurinn að Ísland geti best unnið að málstað friðar í veröldinni og með hvaða hætti? – Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Viðreisn:
Á sameiginlegum vettvangi innan NATO, á vettvangi Norðurlandanna og í auknum mæli í evrópskri samvinnu á vettvangi ESB. Þá eru Sameinuðu þjóðirnar einnig mjög miklilvægar í þessu samhengi.

Vinstri græn:
Utanríkisstefna Íslands þarf að byggjast á því sjónarmiði að við kjósum alþjóðlegt réttlæti, afvopnun og friðsamlegar lausnir deilumála og að við fordæmum hvers kyns árásarstríð og ofbeldi í samskiptum þjóða. Utanríkisstefna Íslands á að taka mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Ísland á að taka skýra afstöðu með friði, réttindum frumbyggja, sjálfbærni og náttúruvernd á norðurslóðum.Ísland á að koma fram af dirfsku á alþjóðavettvangi í baráttu fyrir kynjajafnrétti, kvenfrelsi og réttindum hinsegin fólks í heiminum. Ísland á jafnframt að beita sér fyrir aðgerðum gegn mansali á alþjóðavettvangi. Við eigum einnig að skipa okkur í sveit forystuþjóða í umhverfismálum og í baráttu gegn umhverfis- og loftslagsvá á alþjóðavettvangi.

Miðflokkur:
Miðflokkurinn hefur lagt áherslu á að aðstoða fólk sem næst sínum heimaslóðum svo fjármagn nýtist sem best og svo að auðveldlega gangi að koma fólki til síns heima þegar um hægist. 

Samfylkingin:
Samfylkingin er alþjóðasinnaður stjórnmálaflokkur og telur að Ísland geti best stuðlað að málstað friðar með því að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi, t.d. á vettvangi þeirra alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að. Samfylkingin er einnig aðili að norrænni, evrópskri og alþjóðlegri hreyfingu jafnaðarflokka og tekur virkan þátt í því samstarfi sem þar fer fram. Með því að beita sér á þeim vettvangi getur Samfylkingin komið á framfæri sjónarmiðum sínum við hreyfingar og einstaklinga sem hafa meiri áhrif á alþjóðavettvangi en Ísland getur nokkurn tímann haft.
Samfylkingin stendur með þjóðum sem þurfa að þola ólöglegt hernám og yfirgang, svo sem í Palestínu og Úkraínu, og gerir kröfu um að reglur þjóðaréttar um friðsamleg samskipti þjóða séu virtar í hvívetna. Ísland á alltaf að taka skýra afstöðu gegn mannréttindabrotum, styðja réttindabaráttu viðkvæmra hópa á heimsvísu og berjast gegn fordómum og hvers kyns mismunun.
Samfylkingin vill að íslensk stjórnvöld beiti sér af festu á alþjóðlegum vettvangi fyrir tveggja ríkja lausn milli Ísraels og Palestínu. Samfylkingin fordæmir landtökubyggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum og árásir á íbúa Gaza. Samfylkingin fordæmir með afgerandi hætti þá stríðsglæpi sem framdir hafa verið fyrir botni Miðjarðarhafs. Einnig fordæmir Samfylkingin innrás og stríðsglæpi Rússa í Úkraínu.

Lýðræðisflokkurinn:
Á Alþingi, á leiðtogafundum, hjá alþjóðastofnunum og víðar.

Sósíalistaflokkurinn:
Í gegnum alþjóðlegar stofnanir og grasrótarsamtök. Með virkri þátttöku í því að vinna að friðsömum heimi og hvatt til samskipta og málamiðlanna í stað stigmögnunar. Með því að beita okkur eftir fremsta megni fyrir fullveldi og sjálfstæði þjóða í heiminum og beita sér gegn ójöfnuði, hér heima og í heiminum. Ójöfnuður í heiminum skapar og viðheldur átökunum. Það er mikilvæg friðarstefna að stuðla að framþróun í heiminum.

Píratar:
Píratar eru í grunninn alþjóðasinnuð hreyfing sem telur gríðarlega mikilvægt að alþjóðalög séu virt til að fólk og ríki geti lifað við frið og öryggi. Mikilvægt er að Ísland taki virkan þátt á alþjóðavettvangi og eigi frumkvæði að því að berjast fyrir friði, mannúð, mannréttindum, stöðu hinsegin og kynsegin einstaklinga og að alþjóðalögum sé fylgt. Þar má sérstaklega nefna Evrópuráðið og mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna, sem dæmi um mikilvægan vettvang sem Ísland getur unnið að málstað friðar. Friðargleraugun þurfa að vera uppi í öllu alþjóðastarfi.

Framsóknarflokkur:
Framsókn telur að Ísland geti best unnið að málstað friðar í veröldinni með því að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi og mannréttindabaráttu. Flokkurinn vill að Ísland sé áfram í fararbroddi í alþjóðlegri baráttu fyrir mannréttindum og jafnrétti, og að þróunarsamvinna sé efld. Með því að leggja áherslu á mannúðarsjónarmið og friðsamlegar lausnir getur Ísland stuðlað að friði á alþjóðavettvangi.

Svör flokkanna, 3. spurning: Aðild að hernaðar­bandalögum

By Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 3 hljómaði svo: Styður flokkurinn aðild Íslands að hernaðarbandalögum og þá með hvaða áherslum eða af hverju ekki?– Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Sjálfstæðisflokkur:
Sjálfstæðisflokkurinn styður aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, aukna þátttöku í varnarsamstarfi við önnur Norðurlönd og á grundvelli JEF samstarfsins með Bretlandi, Hollandi, hinum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.

Píratar:
Flokkurinn styður ekki aðild að hernaðarbandalögum. NATO á að vera varnarbandalag. Flokkurinn hefur ekki samþykkta stefnu með eða á móti Natóaðild, en telur mikilvægt að rödd þjóðarinnar fái að heyrast hvað varðar áframhaldandi þátttöku Íslands í NATO og í öðru varnarsamstarfi. Á meðan Ísland er aðili að bandalaginu á það að tala fyrir friði innan NATO og annars staðar á alþjóðavettvangi. Íslendingar eiga að beita sér gegn hvers kyns hernaðaruppbyggingu í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum.

Samfylkingin:
Samfylkingin styður aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og telur að Íslendingar eigi að taka virkan þátt í varnarsamstarfi vestrænna þjóða á þeim vettvangi. Efla þarf Landhelgisgæsluna og alla öryggistengda innviði landsins, styrkja bæði björgunarsveitir og lögreglu, og tryggja betur net- og fjarskiptaöryggi landsins. Að auki hefur aðild Svíþjóðar og Finnlands að NATO aukið tækifærin til norræns samstarfs í varnarmálum og vill Samfylkingin beita sér fyrir metnaðarfullri þátttöku Íslands í því samstarfi.

Lýðræðisflokkurinn:
Lýðræðisflokkurinn styður aðild Íslands að NATO sem varnarbandalagi, en ekki sem árásarbandalagi.

Vinstri græn:
Nei – Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur frá stofnun verið á móti aðild Íslands að NATO. NATO er hernaðarbandalag sem áskilur sér beitingu kjarnorkuvopna að fyrrabragði og eykur ekki öryggi í heiminum. Ísland og íslenska lögsögu á að friðlýsa fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum og banna umferð þeirra. Ísland á að undirrita og lögfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

Framsóknarflokkur:
„Í ljósi vaxandi óstöðugleika á alþjóðasviðinu, þarf að gera öryggis- og varnarmálum hærra undir höfði innan utanríkisstefnunnar almennt. Framsókn styður þjóðaröryggisstefnu Íslands og framkvæmd hennar. Öryggis- og varnarmál ná nú í vaxandi mæli til málaflokka á borð við netöryggis og fjarskipta, fjölþátta ógnana og samgangna.
Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna tryggja í grundvallaratriðum öryggi landsins. Nú þegar öll Norðurlöndin eru aðilar að bandalaginu, kunna möguleikar í svæðisbundnu norrænu varnarsamstarfi að aukast. Framsókn telur mikilvægt að styrkja enn frekar stoðir þess í ljósi landfræðilegrar legu Íslands og leggur áherslu á áframhaldandi góð samskipti og samstarf við aðrar þjóðir. Raunsæi, fyrirhyggja og öflugar varnaráætlanir skipta sköpum.” – Samþykkt á 37. Flokksþingi Framsóknar 20.-21. apríl 2024

Miðflokkur:
Miðflokkurinn hefur stutt samvinnu vestrænna þjóða til að tryggja frið og standa vörð um öryggi landsins. Þar með hefur flokkurinn stutt aðild Íslands að NATO og varnarsamvinnu vestrænna ríkja. Miðflokkurinn telur að það tryggi best öryggishagsmuni landsins og um leið það samstarf og samvinnu sem Íslendingum hefur reynst best.

Viðreisn:
Já Viðreisn telur að öryggi Ísland sé best tryggt innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, með nánu samstarfi við öryggisstofnanir Evrópusambandsins sem annast innra öryggi, landamæra eftirlit og varnir gegn hryðjuverkum, ásamt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Ísland á að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, lýðræði og mannréttindi í heiminum, í samstarfi við samstarfsþjóðir okkar innan Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins.

Sósíalistaflokkurinn:
Sósíalistaflokkurinn er gegn því að Ísland sé í hernaðarbandalögum. Í stað þeirra ætti Ísland að leitast við að stofnað verði til raunverulegra friðar- og varnarsamtaka. Þjóðin var aldrei spurð um það hvort hún vildi ganga inn í Nató. Það er í stefnu Sósíalista að málið verið tekið upp sem fyrst.