Skip to main content
All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

76 ár frá inngöngu í Nató og ályktun landsfundar

By Ályktun, Fréttir
Í dag, 30. mars, eru 76 ár síðan Alþingi samþykkti Nató-aðild Íslands í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Í tilefni þess birtum við hér ályktun landsfundar Samtaka hernaðarandstæðinga frá því í gær um aukna hervæðingu Evrópu og Íslands:

Ályktun um evrópskt vopnafár og þátt Íslands

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025, varar eindregið við því vígvæðingarfári sem brotist hefur út meðal evrópskra leiðtoga á liðnum vikum og mánuðum. Síðustu misseri hefur hernaðardýrkun og stríðsæsingastefna verið allsráðandi í evrópskum stjórnmálum þar sem kallað hefur verið verið eftir síauknum vopnakaupum og stækkun herja í álfunni. Samhliða því hafa skynsemisraddir friðarsinna og kröfur um afvopnun verið þaggaðar niður miskunnarlaust.
Upp á síðkastið hafa heitstrengingar ráðamanna keyrt um þverbak með stórkarlalegum yfirlýsingum um margföldun framlaga til hernaðarmála, gríðarlega uppbyggingu vopnaframleiðslu og opinskáum viljayfirlýsingu um stórfellda fjölgun og aukna útbreiðslu kjarnorkuvopna í trássi við gildandi sáttmála og alþjóðalög. Saga Evrópu ætti að kenna hvílíkar hörmungar hljótast af vígbúnaðarkapphlaupi og hótunum í stað friðsamlegrar samvinnu.
Það eru sár vonbrigði að íslensk stjórnvöld skipi sér í sveit þeirra afla sem hvetja áfram þessa öfugþróun í stað þess að reyna að andæfa henni. Yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar um stóraukin framlög til hermála, ítrekuð loforð um framlög til vopnakaupa, daður við hugmyndir um stofnun íslensks hers og tillögur um að breyta nafni utanríkisráðuneytisins þannig að það vísi einnig til varnarmála eru allt alvarleg hættumerki. Hagsmunum Íslendinga væri miklu betur borgið og öryggi landsmanna betur tryggt með tafarlausri úrsögn úr Nató og uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Þess í stað beiti Ísland sér á virkari hátt fyrir friði, afvopnun, alþjóðlegri samvinnu og friðsamlegri lausn deilumála.
Lasagna

Marsmálsverður SHA

By Viðburður
Nú er komið að marsmálsverði SHA, föstudaginn 28. mars í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, kvöldið fyrir landsfund. Þorvaldur Þorvaldsson og Lowana Veal úr miðnefnd SHA sjá um matseld.
Matseðill:
* Lasagne með kjöti
* Eþíópiskur linsubaunaréttur með sætum kartöflum
* Pakora buff
* Hrísgrjón
* Salat
* Bláberja flapjack og hjónabandssæla með kaffinu
Að borðhaldi loknu mun Eva Rún Snorradóttir lesa úr nýlegri skáldsögu sinni „Eldri konur“ og tónlistarmaðurinn Markús tekur nokkur lög.
Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2500. Öll velkomin

Landsfundur SHA 2025

By Viðburður

Landsfundur SHA verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, laugardaginn 29. mars.

Dagskrá hefst kl. 11 með stjórnarkjöri og almennum aðalfundarstörfum.

Léttur hádegisverður í boði.

Klukkan 13 verður rætt um Grænland og pólitíska stöðu þess, m.a. í ljósi ásælni Bandaríkjamanna. Steinunn Þóra Árnadóttir hernaðarandstæðingur og fyrrum formaður Vestnorræna ráðsins & Skafti Jónsson fyrrum aðalræðismaður Íslands á Grænlandi hafa framsögu á undan almennum umræðum.

Að málstofunni lokinni halda fundarstörf áfram en áætlað er að fundi ljúki eigi síðar en kl. 16.

Íslenska sveitin í Kabúl

Hænsnaforinginn – myndasýning í Friðarhúsi

By Í brennidepli, Viðburður

Fram hafa komið hugmyndir á síðustu dögum um stofnun íslensks hers. Þar vill gleymast að fyrr á öldinni eignuðust Íslendingar sína eigin hersveit, sem starfrækt var í Kabúl í Afganistan. Friðrik Guðmundsson og Kristinn Hrafnsson gerðu frábæra heimildarmynd, „Chicken Commander“ (Ísl: Íslenska sveitin) um þetta furðufyrirbæri. Myndin verður sýnd í Friðarhúsi miðvikudagskvöldið 5. mars kl. 20:00 og eru öll velkomin meðan húsrúm leyfir.

Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Vopnakaup á þriggja ára stríðsafmæli

By Ályktun, Í brennidepli
Í gær voru liðin þrjú ár frá því að innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Hún var gróft brot gegn fullveldi Úkraínu og hefur haft í för með sér hörmulegt mannfall og stríðsglæpi. En því miður brást ríkisstjórn Íslands ekki við þessum tímamótum með kalli eftir frið og mannúð heldur illa duldum framlögum til áframhaldandi stríðsreksturs og manndrápa. Miðnefnd SHA sendi því frá sér eftirfarandi áskorun:

Styðjum frið en ekki stríð

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla harðlega þeirri ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að taka þátt í stríðinu í Úkraínu með auknum beinum fjárframlögum til stríðsrekstursins.
Þessi framlög eru nú komin upp í 3,6 milljarða króna og eru sögð til varnarmála, sem þýðir í raun að þau séu til stríðsreksturs. Ítrekuðum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um að fjárframlög og annar stuðningur við Úkraínu eigi að vera eftir pöntunum frá ríkisstjórninni þar og ekki bundin neinum skilyrðum, er fráleit afstaða. Ísland á aldrei að veita neinum fjárstuðning nema það sé bæði opinbert og ljóst til hvers hann sé veittur og að hvaða skilyrðum uppfylltum.
Íslendingum er bæði rétt og skylt að veita mannúðaraðstoð þar sem stríð geisa og stuðning við uppbyggingu samfélaga að styrjöldum loknum, en aldrei til viðgangs stríðs. Það á jafnt við hver sem málstaður stríðsaðila er. Það sama á t.d. að gilda um stuðning við íbúa Palestínu og Úkraínu.
Samtök hernaðarandstæðinga hafa frá upphafi fordæmt innrás Rússlands í Úkraínu og hvatt stjórnvöld Íslands til að beita sér fyrir tafarlausu vopnahléi og friðarsamningum í framhaldinu. Með því hefði mátt afstýra þeim glórulausu fórnum sem sem í 3 ár hafa hafa ekkert gott haft í för með sér.
Samtök hernaðarandstæðinga skora á Alþingi og ríkisstjórn að standa við fyrirheit íslensku þjóðarinnar allt frá stofnun lýðveldis okkar, um að við erum friðsöm þjóð og tökum ekki þátt í hernaði. Við styðjum frið, en ekki stríð.
Bandaríski kafbáturinn USS Indiana úti fyrir ströndum Íslands í október.

Kjarnorkukafbátar í íslenskri landhelgi

By Fréttir, Í brennidepli
Utanríkisráðuneytið sendi í morgun frá sér fréttatilkynningu um þjónustuheimsókn kjarnorkuknúna árásarkafbátsins USS Delaware út í Eyjafjörð þar sem landhelgisgæslan slær heiðursvörð um þetta stríðstæki. Samkvæmt fréttatilkynningunni er þetta sjötta heimsókn slíks kafbáts síðan að utanríkisráðuneytið heimilaði slíkar heimsóknir í apríl 2023.
Þetta er sagt “liður í varnarskuldbindingum Íslands og mikilvægt framlag til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins” en þjónar augljóslega ekki hagsmunum Íslands þar sem að eltingarleikur kjarnorkukafbáta á íslensku hafsvæði er ógn við bæði öryggi og lífríki landsins. Nýleg valdaskipti vestra hafa einnig varpað ljósi á að allt tal um sameiginlegar varnir Nató er hjákátleg óskhyggja.
Chili

Málsverður febrúar

By Viðburður
Nú er komið að febrúarmálsverð SHA, föstudaginn 28. febrúar í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, og að venju er maturinn ljúffengur og dagskráin ríkuleg. Sæþór Benjamín Randalsson sér um aðal- og eftirrétt en Þórhildur Heimisdóttir um grænkerana.
Aðalréttur
  • Sterkt og bragðmikið íslenskt kalkúna chili con carne, eldað í vel krydduðum tómatgrunni. Stökkar maísflögur, bræddur ostur og frískandi sýrður rjómi til hliðar.
  • Ljúffengt grænkera chili sin carne.

Til hliðar

  • Fullkomlega kryddaðar reyktar svartar baunir.
  • Hressandi rauðrófusalat.

Eftirréttur

  • Munúðarfull og djúsí súkkulaðibrúnterta, kaffi og konfekt.
Að borðhaldi loknu mun Þorvaldur Örn Árnason taka lagið og gera grein fyrir ferli Arnar Bjarnasonar, sem var áberandi í tónlistarlífi friðarsinna hér áður fyrr.
Húsið opnar kl. 18:30, matur er borinn fram 19:00 og kostar 2.500 kr.
Öll velkomin
Maklouba með kjúkling

Málsverður janúarmánaðar

By Viðburður

Boðið verður til fyrsta málsverðar ársins í Friðarhúsi föstudaginn 31. janúar kl. 19:00 í samstarfi við MFÍK.

Kokkar janúarmánaðar eru stjórnarkonur í MFÍK með aðstoð palestínskra vinkvenna. Matseðillinn er í takt við vopnahléð á Gaza:

  • Maklouba með kjúkling
  • Vegan Maklouba
  • Eftirréttir frá Mið-Austurlöndum
Að borðhaldi loknu mun Þorvaldur Örn Árnason taka lagið og gera grein fyrir ferli Arnar Bjarnasonar, sem var áberandi í tónlistarlífi friðarsinna hér áður fyrr.
Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2500. Öll velkomin!
Friðardúfa

Öflug baráttukona fyrir friði fallin frá

By Tilkynningar
Guðrún Valgerður Bóasdóttir

Guðrún Valgerður Bóasdóttir, betur þekkt sem Systa, er fallin frá 67 ára að aldri. Hún varð starfsmaður Samtaka herstöðvaandstæðinga um miðjan níunda áratuginn, á miklum umsvifatímum í sögu friðarhreyfingarinnar í miðju Köldu stríði og kjarnorkukapphlaupi stjórnveldanna. Systa tók meðal annars virkan þátt í alþjóðastarfi samtakanna og átti stærstan þátt í að SHA tóku virkan þátt í Græna netinu svokallaða í árdaga internetsins.

Baráttan gegn stríði og ofbeldi átti huga Systu alla tíð. Hún var drifkraftur í starfsemi Samstarfshóps friðarhreyfinga um áratuga skeið, sem skipulagt hafa kertafleytingar gegn kjarnorkuvopnum og friðargöngur á Þorláksmessu. Eftir að samtökin komu sér upp eigin félagsmiðstöð, Friðarhúsi, árið 2005 tók hún ástfóstri við verkefnið og á hvað stærstan þátt í þróun Friðarhúss í gegnum árin.

Samtök hernaðarandstæðinga votta fjölskyldu og vinum Guðrúnar Valgerðar Bóasdóttur innilega samúð. Hennar verður sárt saknað í friðarhreyfingunni.

Þeim sem vilja minnast hennar er bent á reikning Friðarhúss:
Kt. 600404-2530
Rn. 0130-26-002530

Friðarganga á Austurvelli 2024

Ræða Ingunnar Ásdísardóttur eftir Friðargöngu 2024

By Í brennidepli
Ingunn Ásdísardóttir

Það eru ekki slysaskot í Palestínu þessa dagana – ástandið þar er svo voðalegt að það er líklega ekki einu sinni hægt að yrkja um það ljóð. Þar falla skotin af ásetningi. Sama má segja um Úkraínu, Sýrland. Í Súdan er fólk höggvið niður með lagvopnum!

Um þessi ósköp á maður engin orð, getur ekki ímyndað sér hvernig þetta er.

Og getur ekkert sagt, ekkert sem skiptir máli. Við, almennir borgarar hér uppi á friðsæla Íslandi, höfum varla nokkrar forsendur til að skilja svona hrylling. 

Þess vegna ætla ég að tala um okkur hér – og frið.

Við sem nú lifum hér, þekkjum ekki annað en frið, þau átök sem við heyrum og sjáum í fjölmiðlum þekkjum við ekki á okkar eigin skinni. Við lifum í velsæld og friði og kunnum ekki annað.

Samt rífumst við. 

Við rífumst um pólitík, rífumst um útlendinga, rífumst um hátt verðlag, holótta vegi. Margt á rétt á sér og mætti ræða á málefnalegri grundvelli en oftast er gert, en við virðumst líka oft rífast bara til að rífast, við rífumst við annað fólk, jafnvel ættingja og vini, við rífumst við afgreiðslufólk í búðum, rífumst út af bílastæðum, við rífumst á samfélagsmiðlum – notum stundum orðbragð sem hneykslar, særir og skaðar, – og svo rífumst við út af því. 

Oft og tíðum finnst mér eins og yfirspenna, æsingur og úlfúð ráði ríkjum í samfélaginu. Hér hjá þessari litlu þjóð í miðri velsældinni og friðsemdinni. Allt er blásið upp í æsifréttastíl, bæði prívat milli manna og opinberlega á vettvangi samfélagsumræðunnar þar til æsingurinn er orðinn nógu mikill til að ósannindi, falsfréttir og ásakanir hafa náð yfirhöndinni. 

Þá er skrattanum skemmt. 

Af hverju getum við ekki bara haldið friðinn?

Við búum jú ekki við ófrið. Hér eru engin stríð.

En kunnum við að meta þann frið sem við búum við? Er ekki stundum dálítið grunnt á því? 

Hér alast upp börn sem fá ekki þá andlegu næringu og uppfræðslu sem öll börn í friðsælu samfélagi ættu að fá. Hér alast upp börn sem geta varla tjáð sig á máli sem ætti að vera – eða verða – þeirra móðurmál, því hér eiga þau heima. Hér alast upp börn sem eru varla læs, hvorki á eitt tungumál né annað. Hér alast upp börn sem hópast í gengi og beita ofbeldi. Hér alast upp börn sem beita hnífum! 

Hvað er að hér í friðsemdinni? Erum við orðin vitlaus af velsæld?

Ætti kannski að senda okkur öll í lífsþjálfun til Palestínu? Til Úkraínu? Til Sýrlands? Til Súdan? Láta okkur hitta konur sem hefur verið massanauðgað, karla sem hafa horft upp á misþyrmingar og nauðganir á konum sínum og börnum. Sjálfum verið nauðgað og misþyrmt. Senda okkur gangandi margra klukkustunda leið eftir vatnsdreitli? Búa klæðlítil og eldsneytislaus í tjaldi í flóttamannabúðum um nokkurra vikna skeið? Láta leiða okkur um fangelsi Assads – ég held það sé ekki nóg að skreppa og skoða Auswitch, það er yesterday‘s paper. 

En þannig eru stríð – sem við þekkjum ekki, kunnum ekkert á, vitum ekkert hvað er eða hvað felur í sér fyrir einstaklinginn.

Í stríði er manneskjan, einstaklingurinn, einskis virði. Mannslífið byssufóður eða pyntingamatur.

Ekkert svona þekkjum við af eigin raun. Þess vegna skiljum við þetta ekki, heldur æðum áfram í okkar ofurvelsæld, eyðum og spennum í okkur sjálf, og friðum samviskuna með nokkrum Amnesty-póstkortum eða gjafabréfum fyrir brunnum og geitum í Afríku, og látum það viðgangast að hér gangi um ofurríkir burgeisar sem bæði stela af hinum almennu borgurum og heiminum sem á bágt og gæti notað einhverja aura til að komast betur af og lifa í meiri friði. Höfum við heyrt minnst á Namibíu? Tortóla?

Nú vil ég ekki staðhæfa að við séum ómöguleg og óalandi af því að við höfum ekki upplifað stríð. 

En ég held að við megum að ósekju skoða hug okkar betur en við gerum varðandi hve gott við höfum það og hvernig við getum hugsanlega nýtt einmitt þá staðreynd til að efla frið, nýtt okkur þessi ótrúlegu forréttindi, bæði hér heima og úti í veröldinni, til að efla frið í milli einstaklinga og nákominna, frið  milli hópa og samfélagseininga, frið milli þjóða, frið við náttúruna, frið í allri hugsun. 

Ég hef ekki svarið við þessu, það verður hver og einn að finna hjá sjálfum sér, í hjarta sínu. En ég held að það væri okkur sem þjóð, íbúum þessa friðsæla lands, hollt og þroskandi að leita þess innra með sér og breyta samkvæmt því. 

Að lokim vil ég minna okkur öll á að auk hinar ágætu kveðju: Gleðileg jól – ég ég vitaskuld óksa ykkur öllum, eigum við aðra ekki síðri kveðju á okkar fallegu íslensku: Ég óska því ykkur öllum og öllum landsmönnum árs og friðar.

Takk fyrir