All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

Friðargangan 2022

Ávarp Kolbrúnar Halldórsdóttur eftir friðargöngu 2025

By Í brennidepli

Kæru harðkjarna-friðarsinnar! Það er ánægjulegt að sjá hversu mörg við erum hér saman komin í aðdraganda hátíðar ljóss og friðar, þrátt fyrir gula veðurviðvörun.

Vissulega hefði legið beint við að tala hér um yfirstandandi þjóðarmorð Ísraels á Palestínufólki en það get ég ekki. Mér líður eins og Kristínu Ómarsdóttur rithöfundi, sem skrifar sögur um formæður sínar sem lifðu á átjándu og nítjándu öld, hún segir að það sé einfaldara en að skrifa um samtímann. Í viðtali um daginn sagði Kristín: Maður hefur ekki tök á orðunum til að lýsa því sem er að gerast á Gaza. . .

Nýlega kynntu íslensk stjórnvöld drög að varnar- og öryggismálastefnu fyrir Ísland. Varnar og öryggismálastefnu! Hún veldur áhyggjum, m.a. vegna þess að hún gerir ráð fyrir aukinni og umtalsverðri þátttöku Íslendinga í vopnakaupum. Merkilegt, því það er ekki það sem almenningur vill!

Í stefnudrögunum er kveðið á um mikla aukningu fjárútláta til varnar- og öryggismála. En hvaðan verða þeir fjármunir fengnir? Varla með aukinn skattheimtu? Er ekki líklegra að þeir verði teknir frá grunnstoðum samfélags okkar; heilbrigðis- og velferðarkerfunum, eða mennta- og menningarstofnunum okkar? Viljum við það?

Stjórnvöld segjast með stefnunni vera að bregðast við þeim ógnum sem að okkur steðja, en hvaða ógnir eiga þau við? Tala þau nægilega skýrt? Og eru þau alveg heiðarleg gagnvart okkur? Og hvaðan kemur þeirra leiðsögn?

Í umfjöllun Dagfara um stefnudrögin segir að Ísland gerði mun betur í að vera kröftug rödd friðar- og afvopnunar, fremur en að vera veikasta tístið í kór hervelda.

Síðustu ár hef ég varið starfskröftum mínum í starf á vettvangi samtaka launafólks. Það er gefandi starf og spannar vítt svið. Það eru ekki ný sannindi, en verkalýðshreyfingin er öðru fremur mannréttindahreyfing. Hún á rætur sínar í mannréttindabaráttu og reyndar líka baráttu fyrir lýðræði og friði.

Norrænt samstarfsnet samtaka launafólks (NFS) hélt fyrir skemmstu málþing um ógnirnar sem stafa að lýðræðinu um þessar mundir. Einn frummælenda var framkvæmdastjóri Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC), Luc Triangle, og það sem situr mest í mér af því sem kom fram í máli hans er það sem hann sagði um stríð og frið. Hann sagði: Hættum að fjárfesta í hernaði – Fjárfestum í friði!

Opnum augu okkar fyrir því að með því að fjárfesta í hernaði sköpum við hættu fyrir fólkið sem verður fyrir barðinu á hernaðaraðgerðunum. Þannig færumst við áratugi aftur í tímann, á vit kalda stríðsins og kjarnorkuógnanirnar sem ég og mínir jafnaldrar ólumst upp við. Viljum við það?

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga hefur um árabil unnið ötullega að vitundarvakningu um alvarlegar lýðræðisógnir, sem stafa, ekki bara að þeim ríkjum þar sem lýðræði stendur nokkuð traustum fótum, heldur ekki síður að þeim sem búa við hálfgildings lýðræði . Ógnir þessar eru bæði af pólitískum og hernaðarlegum toga. Þær birtast einna helst í vaxandi bandalagi milljarðamæringa, vopnaframleiðenda og andstéttarfélagslegra stórfyrirtækja, – fyrirtækja sem kynda undir hervæðingu, öfgahægri stjórnmálum og árásum á lýðræðið. Stjórnendur slíkra fyrirtækja hafa komið ár sinni þannig fyrir borð að þeir eiga sæti í innsta hring með ráðamönnum um allan heim sem um þessar mundir endurmóta valdakerfi heimsins.

Á lista Alþjóðasamtaka verkalýðsfélaga yfir fyrirtæki, sem þarf að hafa auga með í þessu sambandi, eru nokkur sem eiga það sameiginlegt að styðja atlögu að réttindum launafólks, félagslegum verndarkerfum og lýðræðislegum stofnunum og skapa þannig heim sem þjónar einkahagnaði á kostnað fólks og Móður Jarðar.

Framkvæmdastjóri Alþjóðasambands verkalýðsfélaga sagði líka á málþinginu um daginn:

„Við erum vitni að valdaráni milljarðamæringa gegn lýðræðinu. Þeir sem græða á stríði, kúgun og ójöfnuði nota nú auð sinn og áhrif til að setja reglur alþjóðahagkerfisins“ Viljum við það?

Ógnirnar eru vel sýnilegar, við sjáum fyrirtæki sem tvinna saman hernaðaraðgerðir og alþjóðlegt gervihnattaeftirlit.

Fyrirtæki sem eru burðarásar nútíma eftirlitsinnviða, en með sterk tengsl við innflytjendaeftirlit og einræðisstjórnir.

Fyrirtæki sem þróa sjálfvirk vopn og eftirlitskerfi og lýsa fyrirlitningu á opinberu aðhaldi.

Fyrirtæki sem vinna að hervæðingu gervigreindartækja, magna upp hægri áróður og reka pólitíska hentistefnu.

Fyrirtæki sem hagnast á þróun kjarnavopna og eyða fúlgum fjár í að grafa undan vopnaeftirliti alþjóðastofnana.

Fyrirtæki sem hagnast á gríðarstórum varnarsamningum á sama tíma og þau styðja öfgahægri öfl og bæla niður verkalýðsfélög.

Fyrirtæki sem fjárfesta í kjarnavopnum og nota lífeyrissparnað launafólks til að fjármagna andlýðræðislegan áróður um vald stórfyrirtækja.

Á sama tíma og fyrirtæki af þessu tagi kynda undir hernaði, grafa af afli undan alþjóðastofnunum, sérstaklega stofnunum Sameinuðu þjóðanna, og hatast út í frjáls félagasamtök.

Þættir Ríkisútvarpsins um konungssinnana í Kísildal voru framleiddir í upphafi árs og eru eru nú endurteknir. Okkur þóttu þeir lygilegir þegar þeir fóru fyrst í loftið, en finnum núna að veruleiki konungssinnanna, sjónarmið þeirra og áróður, eru að ná tökum á stjórnmálamönnum um víða veröld og þar með efnahagskerfi heimsins.

Hættumerkin eru augljós!

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga kallar eftir brýnum umbótum til að hemja áhrif stórfyrirtækja, gera stofnanir lýðræðislegri og seigari og setja sameiginlegt öryggi fólks um allan heim ofar hervæðingu. Ákallið er skýrt og fjöldi frjálsra félagasamtaka um samfélagsmál hefur tekið undir!

En þó við tökum undir það, hvað getum við gert?

Við getum staðið saman um kröfur til íslenskra stjórnvalda um að:

  • beina sameiginlegum fjármunum okkar til að bæta úr raunverulegum ógnum sem að okkur steðja á borð við náttúruvá og félagslegt óréttlæti
  • og til brýnna þarfa mannlegrar þróunar í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna; til loftslagsaðgerða og alþjóðlegrar heilbrigðisþjónustu, en ekki til hernaðaraðgerða og vopnakaupa í erlendum styrjöldum.
  • Við getum vakið þau til umhugsunar um samþættingu afvopnunar og sjálfbærni loftslagsaðgerða
  • og hvatt þau til að tryggja að fjármunum okkar verði varið í að styðja við borgaraleg verkefni á vettvangi almannavarna og björgunarsveita.
  • Við getum líka hvatt íslensk stjórnvöld til að undirrita og fullgilda sáttmálann um bann við kjarnavopnum (TPNW)
  • en við getum líka vakið þau til vitundar um mikilvægi þess að innleiða framsækna skattastefnu í alþjóðaviðskiptum, sem tryggt getur að auðmenn heimsins og fyrirtæki greiði sanngjarnan hlut til samfélagsins í stað þess að moka milljörðum á milljarða ofan í stríðstól, kjarnavopn og vígvélar knúnar gervigreind.
  • Við getum hvatt íslensk stjórnvöld til að standa vörð um lýðræðið og til að standa með okkur, og milljónum annarra í löndum um alla jörð, um að virða friðarhugsjónina.

Hvetjum íslensk stjórnvöld til að fjárfesta í friði!

-Kolbrún Halldórsdóttir

Tjöld flóttamanna á Gasa í flóði

Ávarp fundarstjóra friðargöngunnar 2025

By Í brennidepli
Kæru vinir, kæra fólk.
Það er slagveður úti og viðvaranir vegna veðurs. En hér erum við samt. Á meðan við getum valið að leita skjóls, þá eru milljónir manna um heim allan sem hafa ekki þann möguleika.
Fyrsta friðargangan var gengin á Þorláksmessu árið 1980.
Í dag, 45 árum síðar, stöndum við frammi fyrir grimmum veruleika: yfir 120 milljónir manna um alla veröld hafa neyðst til að flýja heimili sín.
Þetta eru ekki tölur á blaði — þetta er fólk. Fjölskyldur. Börn. Líf sem hafa verið rifin úr rótum sínum og svipt sínum helgasta rétti.
Fólk á flótta eru helstu þolendur hernaðarhyggju, ofbeldis og óréttlætis í heiminum.
Þegar stríð er réttlætt, þegar virði mannslífa er vegið og metið eftir uppruna eða stöðu, þá er það alltaf fólkið sem hafði enga aðkomu að hernaðarbröltinu, sem ber þyngstu byrðina.
Að ganga hér saman í dag er ekki aðeins krafa um frið — það er yfirlýsing.
Yfirlýsing um að við neitum að sætta okkur við heim þar sem ofbeldi og harðstjórn er álitin styrkur og samkennd er gerð að veikleika.
Samstaða með fólki á flótta er samstaða með friði.
Og samstaða með friði er samstaða með réttlæti fyrir alla.
Við munum halda áfram að berjast fyrir friði.
Með orðum, með verkum og samstöðu.
Fyrir öll þau sem berjast fyrir friði, hér og annars staðar.
Og fyrir öll þau sem vita, innst inni og af heilum hug,
að engin manneskja er ólögleg.
Mannúð, heimsfriður og frelsi er fyrir okkur öll!!!
Askur Hrafn Hannesson
Friðarganga

Friðarganga á Þorláksmessu

By Fréttir, Viðburður

Frá árinu 1980 hafa íslenskar friðarhreyfingar staðið fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu til að leggja áherslu á kröfuna um afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Gangan í ár fer fram í skugga blóðugra hernaðarátaka víða um veröldina og vaxandi hernaðarhyggju sem birtist meðal annars í hugmyndum um stórfellda vígvæðingu og
hernaðarútgjöld. Kerfisbundið er grafið undan alþjóðlegum
afvopnunarsamningum og ráðamenn heimsins gæla við beitingu
kjarnorkuvopna. Það hefur því sjaldan verið brýnna að ganga fyrir friði.

Í Reykjavík verður safnast saman milli Snorabrautar og Hlemms og á
slaginu 18:00 mun gangan leggja af stað niður Laugaveginn undir söng kórs Söngfjelagsins sem Hilmar Örn Agnarsson stjórnar. Á Austurvelli verður stuttur útifundur þar sem Kolbrún Halldórsdóttir flytur ávarp. Fundarstjóri verður Askur Hrafn Hannesson. Fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum verða seld í göngubyrjun á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur til endurvinnslu að göngu lokinni.

Vilji fólk styrkja gönguna um jafngildi eins kertis er hægt að gera það með því að smella hér.

Á Ísafirði og Akureyri verða göngur á sama tíma. Ísfirðingar safnast saman við Ísafjarðarkirkju og ganga að Silfurtorgi. Á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorgi. Ræðumaður á Akureyri er Kristín S. Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur, formaður Vonarbrúar.

Friðargangan í Reykjavík er haldin á vegum Samstarfshóps
friðarhreyfinga. Hann skipa ýmis félagasamtök:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
Búddistasamtökin SGI á Íslandi

Mark Rutte og Donald Trump

Yfirlýsing vegna heimsóknar framkvæmdastjóra Nató

By Ályktun, Í brennidepli
Mark Rutte og Donald Trump

Í tengslum við Íslandsheimsókn Mark Rutte, framkvæmdastjóra Nató, minna Samtök hernaðarandstæðinga á að bandalag það sem hann veitir forstöðu er í fararbroddi vígvæðingar í heiminum í dag. Nató er hernaðarbandalag sem hefur kjarnavopn og beitingu þeirra sem grunnstoð í vígbúnaðarstefnu sinni. NATO og þau ríki innan þess sem aðild eiga að öryggisráði SÞ hafa beitt sér hatrammlega gegn samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Nató hefur á liðnum árum rekið árásargjarna stefnu utan landamæra sinna og forysturíki þess staðið í styrjöldum víða um heim, auk þess að framleiða stóran hluta af þeim vopnum sem beitt er á öllum ófriðarsvæðum. Kröfur Nató til aðildarríkja sinna um stóraukin útgjöld til hernaðarmála þjóna þeim tilgangi að ala á ótta og óvild til að færa vopnaframleiðendum auð. Ísland ætti að standa utan Nató en treysta þess í stað á sjálfstæða og friðsama utanríkisstefnu. Friður er pólitísk lausn án morða.

Fullveldisfögnuður

Fullveldisfögnuður SHA í Friðarhúsi

By Viðburður
Jólahlaðborð SHA ber að þessu sinni upp á föstudaginn 28. nóvember.
Að venju verður stillt fram veglegu hlaðborði. Meðal rétta:
  • Heimaverkuð sænsk jólaskinka með kartöflusalti, og sinnepssósu
  • Rækjufrauð
  • Kjúklingalifrarpaté
  • Reykt nautatunga með piparrótarrjóma
  • Austfirsk sælkerasíld
  • Hnetusteik fyrir grænkera
  • Hummus
  • Baba ganoush
  • Kaffi og konfekt

Sest verður að snæðingi kl. 19.

Að borðhaldi loknu verður menningardagskrá. Aðgerðasinninn og söngvaskáldið Hörður Torfason tekur lagið og gerir grein fyrir nýútkominni bók sinni og Anna Ragna Fossberg Jóhönnudóttir les úr nýrri skáldsögu sinni.
Verð kr. 3.000. Öll velkomin.
Gentle, Angry Women

„Gentle, Angry Women“ – kvikymyndasýning í Friðarhúsi

By Viðburður
Gentle, Angry women

Fimmtudaginn 20. nóvember kl. 20:00 sýnum við glænýja kvikmynd um Greenham Common-friðarbúðirnar, sem settar voru á stofn í Bretlandi árið 1981, „Gentle, Angry Women“. Íbúar friðarbúðanna voru allt róttækar konur, friðaraktívistar, sem hikuðu ekki við að grípa til beinna aðgerða í baráttu sinni.

Að sýningu myndarinnar lokinni mun kvikmyndagerðakonan Barbara Santi sitja fyrir svörum á Zoom.

Aðgangur ókeypis. Öll velkomin.

Saag ghost

Októbermálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður
Lagfæringum í Friðarhúsi eftir lekann fyrr í haust má heita lokið og nú er blásið til fyrsta fjáröflunarmálsverðar haustsins á hrekkjavökunni sjálfri, föstudaginn 31. október. Jón Yngvi Jóhannsson sér um eldamennskuna en Eskihlíðargengið útbýr grænkeraréttinn.
Matseðill:
* Saag ghost – spínatkarrí með lambi og tilheyrandi meðlæti í pakistönskum anda.
* Dahl með spínati
* Kaffi og konfekt
Að borðhaldi loknu mun Júlía Margrét Einarsdóttir lesa úr nýlegri skáldsögu sinni. Gunna Lára tekur lagið. Verð kr. 2.500. Sest verður að snæðingi kl. 19. Öll velkomin.

Hermang og hræðsluáróður

By Í brennidepli, Viðburður
Samtök hernaðarandstæðinga boða til óformlegs umræðufundar um hervæðingu Íslands og mótspyrnu gegn henni í Friðarhúsi miðvikudaginn 29. október kl. 20:00.
SHA leggja áherslu á að raunverulegir öryggishagsmunir Íslands byggi á friði og herleysi og kalla eftir umræðu um hvernig er hægt að vekja athygli á því meðal almennings og pressa á stjórnvöld um friðvænlegri stefnu.
Síðustu mánuði hafa dunið yfir okkur fréttir af því hvernig Ísland dregst sífellt lengra inn í stríðsæsinginn í Evrópu. Háum fjárhæðum er lofað í vopnakaup, hernaðartengdar framkvæmdir fyrir erlenda heri á Íslandi og sífellt fleiri viljayfirlýsingar eru undirritaðar um hernaðarsamvinnu. Á sama tíma hefur komið upp háværari umræða um stofnun íslensks hers. Allt gerist þetta í skugga þess að heimsmynd íslenskra- og evrópskra hernaðarsinna og talsmanna vestrænnar samvinnu hefur hrunið. Það er því langt síðan gefist hefur betra tækifæri til og verið meiri þörf á því að tala fyrir friðsamlegum valkostum.
Þjóð gegn þjóðarmorði, 6. september, Austurvöllur.

Þjóð gegn þjóðarmorði

By Viðburður
Þjóð gegn þjóðarmorði, 6. september, Ísafjörður, Reykjavík, Egilstaðir, Akureyri. Taktu daginn frá!

Fjöldafundur laugardaginn 6. september kl 14:00 á Austurvelli í Reykjavík

Samtök hernaðarandstæðinga eru meðal ótalmargra félagasamtaka sem standa að fjöldamótmælum á Austurvelli gegn þjóðarmorði Ísralshers í Palestínu á laugardaginn kemur. Fjölmennum og gerum þetta að stærstu pólitísku mótmælaaðgerðum ársins. Stríðinu verður að linna!

Í nær tvö ár hefur heimsbyggðin fylgst með sífellt versnandi og óbærilegum þjáningum almennra borgara í Palestínu með hryllingi. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfir fimmta og þar með efsta stigi hungursneyðar. Hún er alfarið manngerð af völdum Ísrael sem hefur lagt ræktanlegt landsvæði í rúst á Gaza og lokað fyrir að matvæli berist til íbúa. Samkvæmt gögnum ísraelska hersins eru 83% þeirra sem Ísrael hefur myrt almennir borgarar. Þar af eru a.m.k. 18.500 börn eða um 28 börn á hverjum einasta degi, álíka mörg og heill bekkur í grunnskóla á hverjum degi.

Þjóðarmorð stendur yfir af hálfu Ísraelsríkis gagnvart palestínsku þjóðinni. Stríðsglæpi Ísraels verður að stöðva.

Ríkisstjórn Íslands hefur líkt og aðrar ríkisstjórnir vestrænna ríkja ekki brugðist við glæpum Ísraels í samræmi við alvarleika þeirra. Nú hafa heildarsamtök launafólks, verkalýðsfélög, mannúðarsamtök, fagfélög og önnur samtök tekið saman höndum til að halda mótmælafundi um land allt þar sem almenningur kemur saman til að sýna samstöðu sína með Palestínsku þjóðinni og krefjast þess að íslensk ríkisstjórn grípi til alvöru aðgerða til að sýna afstöðu sína gegn þjóðarmorðinu!

Við höfnum þjóðarmorði og brotum Ísraels á alþjóðalögum. Tími yfirlýsinga og undanbragða er liðinn, tími aðgerða er runninn upp!

Fjölmennum á Austurvöll þann 6. september klukkan 14.00 og krefjumst tafarlausra og markvissra aðgerða íslenskra stjórnvalda gegn þjóðarmorðinu!

Kertafleyting við Tjörnina 2025

Ávarp við Reykjavíkur­tjörn 6. ágúst

By Í brennidepli

Áttatíu ár frá Hírósíma og Nagasakí

Í dag eru 80 ár liðin frá hinni grimmilegu kjarnorkuárás Bandaríkjamanna á Hírósíma sem fylgt var eftir með árás á Nagasakí þremur dögum síðar. Áttatíu ár frá atburðum er yfir hundrað þúsund saklausra borgara voru myrt í einni svipan í vítislogum tveggja kjarnorkuárása.
Tugþúsundir fórust í eldhafinu sem geisaði klukkustundum saman í kjölfar sprengjanna, enn fleiri á næstu vikum og mánuðum af völdum brunasára, vegna bráðrar geislunarveiki, skorts á læknisaðstoð, sýkinga og örvilnan yfir missi fjölskyldu, vina og samfélagshruns. Áður en árið 1945 var úti er talið að meira en tvö hundruð þúsund manns hafi látist vegna árásanna, um helmingur í högg- og hitabylgjunni sem fylgdi sprengingunum, hin í kjölfarið.
Og fleiri áttu eftir að deyja. Á áratugunum sem fylgdu féllu tugþúsundir í valinn – af völdum geislunar, aukinnar tíðni krabbameina og annarra langvinnra sjúkdóma. Rannsóknir benda til þess að hátt í hálf milljón manna hafi beint og óbeint látið lífið vegna gereyðingarvopnanna sem beitt var gegn Hírósíma og Nagasakí.
80 ár eru mannsævi. Bernska, ungdómur, fullorðinsár. Ævintýri, tækifæri, gleði og sorg. Lykt, bragð, hljóð, snerting, tilfinningar. Af þeim sem létust í Hírósíma og Nagasakí voru um 38 þúsund börn. Börnin sem brunnu og dóu saklaus ættu nú með réttu að njóta kyrrláts ævikvölds, fylgjast með afkomendum, rifja upp minningar, hugsa til bernskuára. Fyrir 80 árum voru þau af fullkomnu miskunnarleysi svipt framtíð sinni á kvalarfullan hátt.

Kjarnorkuváin vofir enn yfir

Tólf þúsund og þrjú hundruð kjarnaoddar eru taldir vera til í vopnabúrum níu kjarnorkuvelda og þúsundir þeirra eru í skotstöðu, reiðubúnir til notkunar hvenær sem er.
Kjarnorkusprengjur dagsins í dag eru flestar margfalt öflugri en sprengjurnar sem sprengdar voru yfir Hírósíma og Nagasakí. Ef aðeins einn þessara kjarnaodda væri sprengdur yfir stórborg myndu milljónir deyja í skelfilegri þjáningu.
Þessar níu þjóðir eiga hver um sig nægan fjölda kjarnavopna til að valda hnattrænum hörmungum – ekki þarf að sprengja nema brot af gjöreyðingarvopnum heimsins til að valda stórfelldu áfalli og jafnvel hruni siðmenningar eins og við þekkjum hana. Staðbundið kjarnorkustríð tveggja kjarnorkuvelda myndi vafalaust valda skelfilegum hörmungum fyrir allt mannkyn.
Við verðum að horfast í augu við stöðu Íslendinga í þessu samhengi. Þrátt fyrir yfirgnæfandi stuðning almennings hérlendis við bann við kjarnavopnum hafa íslensk stjórnvöld staðfastlega neitað að skrifa undir samning Sameinuðu þjóðanna um bann við vopnum af þessu tagi frá árinu 2021. Af trúmennsku við hernaðarbandalag sem lítur á kjarnavopn sem ómissandi hluta af vopnabúri sínu.

Heimshorfur

Það eru ekki friðvænlegar horfur í heiminum um þessar mundir og enn er saklaust fólk myrt unnvörpum.
Þótt kjarnorkuárásirnar á Hírósíma og Nagasakí fjarlægist í tíma munum við mörg önnur grimmileg stríð og níðingsverk frá árunum eftir seinni heimsstyrjöldina allt til dagsins í dag.
Nöfn landanna ýta við okkur; Víetnam, Kambódía, Afganistan, Írak, Bosnía, Rúanda, Súdan, Sýrland, Úkraína, Palestína …
Eins og nú voru illvirkin framin af herjum sem stýrt var af þjóðarleiðtogum og herforingjum sem unnu skipulega að afmennskun ímyndaðs óvinar. Á bak við ódæðin dyljast hagsmunir stórvelda og vopnaframleiðanda, hugmyndir kynþáttahyggju, trúarofstækis og alræðis.
Um þessar mundir horfum við upp á ólýsanlega stríðsglæpi Ísraelsmanna sem hafa látið sprengjum rigna yfir Palestínumenn á Gazaströndinni í hátt í tvö ár með gjöreyðingu þessa þéttbýla landsvæðis. Í helför sinni á Gaza hafa Ísraelsmenn myrt tugi þúsunda, örkumlað hundruð þúsundir að auki og leitt yfir saklausa íbúa hungursneyð, lyfja- og vatnsskort með því að koma í veg fyrir alþjóðlega neyðaraðstoð.
Engum dylst að miskunnarlausar árásir kjarnorkuveldisins Ísraels á Gaza eru margfaldir stríðsglæpir og þjóðarmorð sem munu hafa djúpstæð áhrif á palestínsku þjóðina um alla framtíð, jafnvel þótt glæpirnir yrðu stöðvaðir strax í dag.
Samfélagið á Gaza er hrunið til grunna en munum að rasistarnir í ríkisstjórn Netanjahús eru ekki einir á báti. Þeir eru í heilögu bandalagi – efnahagslegu og pólitísku – við Vesturlönd, sem hafa um árabil fóðrað ísraelska herinn með stríðstólum af fullkomnustu gerð. Í Ísrael hefur mannkærleikur beðið skipbrot en trúarofstæki og kynþáttahatur tekið öll völd. Á meðan fasísk stjórnvöld murka lífið úr íbúum Gaza horfa yfirvöld á Vesturlöndum í hina áttina.

Friður

Við þurfum frið. Friður hverfist um samhygð og umhyggju fyrir lífi hvers einstaklings. Hann snýst um mannlega reisn og réttindi allra til að lifa í óttaleysi frá árásum og ofsóknum. Ófriður er andstæða þessa. Hann snýst um valdatafl stórvelda, vopnaframleiðslu, uppgang öfgastefnu og afmennskun annarra þjóða og minnihlutahópa. Stríð byggjast á miskunnarleysi, yfirgangi og fullkomnu skeytingarleysi um manngildi og mannréttindi.
Áttatíu ár eru kappnógur tími til að gleyma – en sumt má ekki falla í gleymskunnar dá.
Tveimur árum eftir kjarnorkuárásirnar komu japanskir friðarsinnar saman í Hírósíma til að minnast fórnarlamba árásanna. Þeir fleyttu kertum niður Motoyasu-ána – framhjá Genbaku-hvelfingunni, minnisvarðanum sem stóð af sér árásina á borgina. Þetta hafa þeir gert hvert ár síðan til að minnast þeirra sem svipt voru lífi sínu og vonum – og tala fyrir friði og heimi án kjarnavopna.
Minningarathafnir um kjarnorkuárásirnar eru nú haldnar um allan heim. Fyrsta kertafleytingin á Reykjavíkurtjörn var haldin 6. ágúst 1985. Þá voru fjörutíu ár liðin frá árásunum, núna eru þau áttatíu. Fljótt verður öld liðin og þannig líða ár og áratugir frá atburðunum.
Fæst okkar sem hér stöndum voru komin til vits og ára árið 1945. Kjarnorkuárásirnar eru okkur ekki persónuleg minning heldur hryllilegur stríðsglæpur í fortíðinni sem ekki má gleymast. Við komum hér saman – ekki til að rifja upp eigin upplifun – heldur til þess að halda á lofti minningu þeirra sem létu lífið í kjarnorkuárásunum og brýna hvert annað til dáða í baráttunni fyrir friði og heimi án kjarnavopna.

– Snæbjörn Guðmundsson