
* Lasagne með kjöti
* Eþíópiskur linsubaunaréttur með sætum kartöflum
* Pakora buff
* Hrísgrjón
* Salat
* Bláberja flapjack og hjónabandssæla með kaffinu
Landsfundur SHA verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, laugardaginn 29. mars.
Dagskrá hefst kl. 11 með stjórnarkjöri og almennum aðalfundarstörfum.
Léttur hádegisverður í boði.
Klukkan 13 verður rætt um Grænland og pólitíska stöðu þess, m.a. í ljósi ásælni Bandaríkjamanna. Steinunn Þóra Árnadóttir hernaðarandstæðingur og fyrrum formaður Vestnorræna ráðsins & Skafti Jónsson fyrrum aðalræðismaður Íslands á Grænlandi hafa framsögu á undan almennum umræðum.
Að málstofunni lokinni halda fundarstörf áfram en áætlað er að fundi ljúki eigi síðar en kl. 16.
Fram hafa komið hugmyndir á síðustu dögum um stofnun íslensks hers. Þar vill gleymast að fyrr á öldinni eignuðust Íslendingar sína eigin hersveit, sem starfrækt var í Kabúl í Afganistan. Friðrik Guðmundsson og Kristinn Hrafnsson gerðu frábæra heimildarmynd, „Chicken Commander“ (Ísl: Íslenska sveitin) um þetta furðufyrirbæri. Myndin verður sýnd í Friðarhúsi miðvikudagskvöldið 5. mars kl. 20:00 og eru öll velkomin meðan húsrúm leyfir.
Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Til hliðar
Eftirréttur
Boðið verður til fyrsta málsverðar ársins í Friðarhúsi föstudaginn 31. janúar kl. 19:00 í samstarfi við MFÍK.
Kokkar janúarmánaðar eru stjórnarkonur í MFÍK með aðstoð palestínskra vinkvenna. Matseðillinn er í takt við vopnahléð á Gaza:
Guðrún Valgerður Bóasdóttir, betur þekkt sem Systa, er fallin frá 67 ára að aldri. Hún varð starfsmaður Samtaka herstöðvaandstæðinga um miðjan níunda áratuginn, á miklum umsvifatímum í sögu friðarhreyfingarinnar í miðju Köldu stríði og kjarnorkukapphlaupi stjórnveldanna. Systa tók meðal annars virkan þátt í alþjóðastarfi samtakanna og átti stærstan þátt í að SHA tóku virkan þátt í Græna netinu svokallaða í árdaga internetsins.
Baráttan gegn stríði og ofbeldi átti huga Systu alla tíð. Hún var drifkraftur í starfsemi Samstarfshóps friðarhreyfinga um áratuga skeið, sem skipulagt hafa kertafleytingar gegn kjarnorkuvopnum og friðargöngur á Þorláksmessu. Eftir að samtökin komu sér upp eigin félagsmiðstöð, Friðarhúsi, árið 2005 tók hún ástfóstri við verkefnið og á hvað stærstan þátt í þróun Friðarhúss í gegnum árin.
Samtök hernaðarandstæðinga votta fjölskyldu og vinum Guðrúnar Valgerðar Bóasdóttur innilega samúð. Hennar verður sárt saknað í friðarhreyfingunni.
Þeim sem vilja minnast hennar er bent á reikning Friðarhúss:
Kt. 600404-2530
Rn. 0130-26-002530
Það eru ekki slysaskot í Palestínu þessa dagana – ástandið þar er svo voðalegt að það er líklega ekki einu sinni hægt að yrkja um það ljóð. Þar falla skotin af ásetningi. Sama má segja um Úkraínu, Sýrland. Í Súdan er fólk höggvið niður með lagvopnum!
Um þessi ósköp á maður engin orð, getur ekki ímyndað sér hvernig þetta er.
Og getur ekkert sagt, ekkert sem skiptir máli. Við, almennir borgarar hér uppi á friðsæla Íslandi, höfum varla nokkrar forsendur til að skilja svona hrylling.
Þess vegna ætla ég að tala um okkur hér – og frið.
Við sem nú lifum hér, þekkjum ekki annað en frið, þau átök sem við heyrum og sjáum í fjölmiðlum þekkjum við ekki á okkar eigin skinni. Við lifum í velsæld og friði og kunnum ekki annað.
Samt rífumst við.
Við rífumst um pólitík, rífumst um útlendinga, rífumst um hátt verðlag, holótta vegi. Margt á rétt á sér og mætti ræða á málefnalegri grundvelli en oftast er gert, en við virðumst líka oft rífast bara til að rífast, við rífumst við annað fólk, jafnvel ættingja og vini, við rífumst við afgreiðslufólk í búðum, rífumst út af bílastæðum, við rífumst á samfélagsmiðlum – notum stundum orðbragð sem hneykslar, særir og skaðar, – og svo rífumst við út af því.
Oft og tíðum finnst mér eins og yfirspenna, æsingur og úlfúð ráði ríkjum í samfélaginu. Hér hjá þessari litlu þjóð í miðri velsældinni og friðsemdinni. Allt er blásið upp í æsifréttastíl, bæði prívat milli manna og opinberlega á vettvangi samfélagsumræðunnar þar til æsingurinn er orðinn nógu mikill til að ósannindi, falsfréttir og ásakanir hafa náð yfirhöndinni.
Þá er skrattanum skemmt.
Af hverju getum við ekki bara haldið friðinn?
Við búum jú ekki við ófrið. Hér eru engin stríð.
En kunnum við að meta þann frið sem við búum við? Er ekki stundum dálítið grunnt á því?
Hér alast upp börn sem fá ekki þá andlegu næringu og uppfræðslu sem öll börn í friðsælu samfélagi ættu að fá. Hér alast upp börn sem geta varla tjáð sig á máli sem ætti að vera – eða verða – þeirra móðurmál, því hér eiga þau heima. Hér alast upp börn sem eru varla læs, hvorki á eitt tungumál né annað. Hér alast upp börn sem hópast í gengi og beita ofbeldi. Hér alast upp börn sem beita hnífum!
Hvað er að hér í friðsemdinni? Erum við orðin vitlaus af velsæld?
Ætti kannski að senda okkur öll í lífsþjálfun til Palestínu? Til Úkraínu? Til Sýrlands? Til Súdan? Láta okkur hitta konur sem hefur verið massanauðgað, karla sem hafa horft upp á misþyrmingar og nauðganir á konum sínum og börnum. Sjálfum verið nauðgað og misþyrmt. Senda okkur gangandi margra klukkustunda leið eftir vatnsdreitli? Búa klæðlítil og eldsneytislaus í tjaldi í flóttamannabúðum um nokkurra vikna skeið? Láta leiða okkur um fangelsi Assads – ég held það sé ekki nóg að skreppa og skoða Auswitch, það er yesterday‘s paper.
En þannig eru stríð – sem við þekkjum ekki, kunnum ekkert á, vitum ekkert hvað er eða hvað felur í sér fyrir einstaklinginn.
Í stríði er manneskjan, einstaklingurinn, einskis virði. Mannslífið byssufóður eða pyntingamatur.
Ekkert svona þekkjum við af eigin raun. Þess vegna skiljum við þetta ekki, heldur æðum áfram í okkar ofurvelsæld, eyðum og spennum í okkur sjálf, og friðum samviskuna með nokkrum Amnesty-póstkortum eða gjafabréfum fyrir brunnum og geitum í Afríku, og látum það viðgangast að hér gangi um ofurríkir burgeisar sem bæði stela af hinum almennu borgurum og heiminum sem á bágt og gæti notað einhverja aura til að komast betur af og lifa í meiri friði. Höfum við heyrt minnst á Namibíu? Tortóla?
Nú vil ég ekki staðhæfa að við séum ómöguleg og óalandi af því að við höfum ekki upplifað stríð.
En ég held að við megum að ósekju skoða hug okkar betur en við gerum varðandi hve gott við höfum það og hvernig við getum hugsanlega nýtt einmitt þá staðreynd til að efla frið, nýtt okkur þessi ótrúlegu forréttindi, bæði hér heima og úti í veröldinni, til að efla frið í milli einstaklinga og nákominna, frið milli hópa og samfélagseininga, frið milli þjóða, frið við náttúruna, frið í allri hugsun.
Ég hef ekki svarið við þessu, það verður hver og einn að finna hjá sjálfum sér, í hjarta sínu. En ég held að það væri okkur sem þjóð, íbúum þessa friðsæla lands, hollt og þroskandi að leita þess innra með sér og breyta samkvæmt því.
Að lokim vil ég minna okkur öll á að auk hinar ágætu kveðju: Gleðileg jól – ég ég vitaskuld óksa ykkur öllum, eigum við aðra ekki síðri kveðju á okkar fallegu íslensku: Ég óska því ykkur öllum og öllum landsmönnum árs og friðar.
Takk fyrir
Frá árinu 1980 hafa íslenskar friðarhreyfingar staðið fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu til að leggja áherslu á kröfuna um afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Gangan í ár fer fram í skugga ófriðarskýja um víða veröld. Blóðugar styrjaldir eiga sér stað með skelfilegum hörmungum fyrir almenning. Vígvæðing hefur sjaldan verið meiri og lítið ber á röddum þeirra sem hafna hernaðarbandalögum og ofbeldi í samskiptum manna og þjóða. Það hefur því sjaldan verið brýnna að ganga fyrir friði.
Í Reykjavík verður safnast saman fyrir ofan Hlemm og á slaginu 18:00 mun gangan leggja af stað niður Laugaveginn undir söng kórs Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar. Á Austurvelli verður stuttur útifundur þar sem Ingunn Ásdísardóttir flytur ávarp. Fundarstjóri verður Haukur Guðmundsson. Fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum verða seld í göngubyrjun á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur til endurvinnslu að göngu lokinni.
Á Ísafirði og Akureyri verða göngur á sama tíma. Ísfirðingar safnast saman við Ísafjarðarkirkju og ganga að Silfurtorgi. Á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorgi. Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur flytur ávarp og Svavar Knútur tekur lagið.
Friðargangan í Reykjavík er haldin á vegum Samstarfshóps
friðarhreyfinga. Hann skipa ýmis félagasamtök:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
Búddistasamtökin SGI á Íslandi