Skip to main content
All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

Fáni Palestín

Stöðvum þjóðarmorðið á Gasa

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025, fordæmir þau grímulausu þjóðarmorð sem Ísraelsríki fremur nú í Palestínu. Landsfundur ítrekar kröfu sína um vopnahlé á Gasa. Koma verður á varanlegum og réttlátum friði, auk þess sem alþjóðasamfélagið verður að styðja við uppbyggingu samfélagsins á Gasa. Íslendingar voru fyrsta landið í Vestur-Evrópu til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu og leggur það okkur aukna ábyrgð á herðar að koma Palestínumönnum til varnar á alþjóðavettvangi og tala máli friðar.

Virðingarleysi Ísraelsstjórnar fyrir alþjóðalögum og mannréttindum er algert. Ljóst er að lokatakmark hennar er að hrekja sem allra flesta Palestínumenn úr landi og má samfélög þeirra af yfirborði jarðar. Við þetta njóta þeir fulltingis Bandaríkjastjórnar með þegjandi samþykki Evrópusambandsins. Þetta grefur undan öllum þeim alþjóðlegum lögum, mannréttindum og gildum sem tryggja lágmarks virðingu fyrir mannslífum. Eins hafa ofsóknir gegn Palestínumönnum og málsvörum þeirra grafið undan tjáningarfrelsi og mannréttindum heima fyrir. Skýr afstaða íslenskra stjórnvalda gegn glæpum Ísraels og frumkvæði á alþjóðavettvangi um aðgerðir gegn þeim væri lítið en nauðsynlegt skref í að vinda ofan þessari helstefnu.

Loksins, eftir alltof langa bið, er Friðarvefur Samtaka hernaðarandstæðinga kominn í loftið á ný. Síðan lá niðri í vel á annað ár, en upphaf þessara vandræða má rekja til ýmissa tæknilegra vandamála ásamt almennri frestunaráráttu.

Í tengslum við hina nýju opnun síðunnar hefur verið ráðist í ýmsar útlitsbreytingar og má búast við því að ýmsar nýjungar verði kynntar hér til sögunnar á næstunni. Jafnframt er líklegt að ýmsir agnúar kunni að koma í ljós og verður reynt að bæta úr þeim jafnóðum.

Lesendur eru hvattir til að senda póst með ábendingum um hvaðeina sem betur mætti fara á netfang samtakanna, sha@fridur.is

Stöndum með Grænlandi

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025 stendur með sjálfsákvörðunarrétti Grænlendinga og hafnar því að örlög smáþjóða og hjálendna séu skiptimynt í baktjaldamakki stórvelda og nýlenduvelda. Að forseti Bandaríkjanna ýi að því að hægt sé að kaupa lönd eða innlima þau með valdi er óverjandi. Eins er það óásættanlegt að danskir stjórnmálamenn tali um Grænland sem órjúfanlegan hluta ríkisins. Ákvörðunin um sjálfstæði Grænlands eða áframhaldandi tengsl við Danmörku liggur eingöngu hjá Grænlendingum sjálfum.

Orðræða bandarískra ráðamanna sem láta sér ekki nægja að hafa herstöð á Grænlandi og sjálfdæmi um hernaðaruppbyggingu þar ætti að vera íslenskum stjórnvöldum víti til varnaðar. Það að bjóða erlendu herveldi aðstöðu og fylgispekt er líklegra til þess að ógna fullveldi landsins og gera það að skotmarki en að tryggja varnir þess.

76 ár frá inngöngu í Nató og ályktun landsfundar

By Ályktun, Fréttir
Í dag, 30. mars, eru 76 ár síðan Alþingi samþykkti Nató-aðild Íslands í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Í tilefni þess birtum við hér ályktun landsfundar Samtaka hernaðarandstæðinga frá því í gær um aukna hervæðingu Evrópu og Íslands:

Ályktun um evrópskt vopnafár og þátt Íslands

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025, varar eindregið við því vígvæðingarfári sem brotist hefur út meðal evrópskra leiðtoga á liðnum vikum og mánuðum. Síðustu misseri hefur hernaðardýrkun og stríðsæsingastefna verið allsráðandi í evrópskum stjórnmálum þar sem kallað hefur verið verið eftir síauknum vopnakaupum og stækkun herja í álfunni. Samhliða því hafa skynsemisraddir friðarsinna og kröfur um afvopnun verið þaggaðar niður miskunnarlaust.
Upp á síðkastið hafa heitstrengingar ráðamanna keyrt um þverbak með stórkarlalegum yfirlýsingum um margföldun framlaga til hernaðarmála, gríðarlega uppbyggingu vopnaframleiðslu og opinskáum viljayfirlýsingu um stórfellda fjölgun og aukna útbreiðslu kjarnorkuvopna í trássi við gildandi sáttmála og alþjóðalög. Saga Evrópu ætti að kenna hvílíkar hörmungar hljótast af vígbúnaðarkapphlaupi og hótunum í stað friðsamlegrar samvinnu.
Það eru sár vonbrigði að íslensk stjórnvöld skipi sér í sveit þeirra afla sem hvetja áfram þessa öfugþróun í stað þess að reyna að andæfa henni. Yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar um stóraukin framlög til hermála, ítrekuð loforð um framlög til vopnakaupa, daður við hugmyndir um stofnun íslensks hers og tillögur um að breyta nafni utanríkisráðuneytisins þannig að það vísi einnig til varnarmála eru allt alvarleg hættumerki. Hagsmunum Íslendinga væri miklu betur borgið og öryggi landsmanna betur tryggt með tafarlausri úrsögn úr Nató og uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Þess í stað beiti Ísland sér á virkari hátt fyrir friði, afvopnun, alþjóðlegri samvinnu og friðsamlegri lausn deilumála.
Lasagna

Marsmálsverður SHA

By Viðburður
Nú er komið að marsmálsverði SHA, föstudaginn 28. mars í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, kvöldið fyrir landsfund. Þorvaldur Þorvaldsson og Lowana Veal úr miðnefnd SHA sjá um matseld.
Matseðill:
* Lasagne með kjöti
* Eþíópiskur linsubaunaréttur með sætum kartöflum
* Pakora buff
* Hrísgrjón
* Salat
* Bláberja flapjack og hjónabandssæla með kaffinu
Að borðhaldi loknu mun Eva Rún Snorradóttir lesa úr nýlegri skáldsögu sinni „Eldri konur“ og tónlistarmaðurinn Markús tekur nokkur lög.
Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2500. Öll velkomin

Landsfundur SHA 2025

By Viðburður

Landsfundur SHA verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, laugardaginn 29. mars.

Dagskrá hefst kl. 11 með stjórnarkjöri og almennum aðalfundarstörfum.

Léttur hádegisverður í boði.

Klukkan 13 verður rætt um Grænland og pólitíska stöðu þess, m.a. í ljósi ásælni Bandaríkjamanna. Steinunn Þóra Árnadóttir hernaðarandstæðingur og fyrrum formaður Vestnorræna ráðsins & Skafti Jónsson fyrrum aðalræðismaður Íslands á Grænlandi hafa framsögu á undan almennum umræðum.

Að málstofunni lokinni halda fundarstörf áfram en áætlað er að fundi ljúki eigi síðar en kl. 16.

Íslenska sveitin í Kabúl

Hænsnaforinginn – myndasýning í Friðarhúsi

By Í brennidepli, Viðburður

Fram hafa komið hugmyndir á síðustu dögum um stofnun íslensks hers. Þar vill gleymast að fyrr á öldinni eignuðust Íslendingar sína eigin hersveit, sem starfrækt var í Kabúl í Afganistan. Friðrik Guðmundsson og Kristinn Hrafnsson gerðu frábæra heimildarmynd, „Chicken Commander“ (Ísl: Íslenska sveitin) um þetta furðufyrirbæri. Myndin verður sýnd í Friðarhúsi miðvikudagskvöldið 5. mars kl. 20:00 og eru öll velkomin meðan húsrúm leyfir.

Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Vopnakaup á þriggja ára stríðsafmæli

By Ályktun, Í brennidepli
Í gær voru liðin þrjú ár frá því að innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Hún var gróft brot gegn fullveldi Úkraínu og hefur haft í för með sér hörmulegt mannfall og stríðsglæpi. En því miður brást ríkisstjórn Íslands ekki við þessum tímamótum með kalli eftir frið og mannúð heldur illa duldum framlögum til áframhaldandi stríðsreksturs og manndrápa. Miðnefnd SHA sendi því frá sér eftirfarandi áskorun:

Styðjum frið en ekki stríð

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla harðlega þeirri ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að taka þátt í stríðinu í Úkraínu með auknum beinum fjárframlögum til stríðsrekstursins.
Þessi framlög eru nú komin upp í 3,6 milljarða króna og eru sögð til varnarmála, sem þýðir í raun að þau séu til stríðsreksturs. Ítrekuðum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um að fjárframlög og annar stuðningur við Úkraínu eigi að vera eftir pöntunum frá ríkisstjórninni þar og ekki bundin neinum skilyrðum, er fráleit afstaða. Ísland á aldrei að veita neinum fjárstuðning nema það sé bæði opinbert og ljóst til hvers hann sé veittur og að hvaða skilyrðum uppfylltum.
Íslendingum er bæði rétt og skylt að veita mannúðaraðstoð þar sem stríð geisa og stuðning við uppbyggingu samfélaga að styrjöldum loknum, en aldrei til viðgangs stríðs. Það á jafnt við hver sem málstaður stríðsaðila er. Það sama á t.d. að gilda um stuðning við íbúa Palestínu og Úkraínu.
Samtök hernaðarandstæðinga hafa frá upphafi fordæmt innrás Rússlands í Úkraínu og hvatt stjórnvöld Íslands til að beita sér fyrir tafarlausu vopnahléi og friðarsamningum í framhaldinu. Með því hefði mátt afstýra þeim glórulausu fórnum sem sem í 3 ár hafa hafa ekkert gott haft í för með sér.
Samtök hernaðarandstæðinga skora á Alþingi og ríkisstjórn að standa við fyrirheit íslensku þjóðarinnar allt frá stofnun lýðveldis okkar, um að við erum friðsöm þjóð og tökum ekki þátt í hernaði. Við styðjum frið, en ekki stríð.
Bandaríski kafbáturinn USS Indiana úti fyrir ströndum Íslands í október.

Kjarnorkukafbátar í íslenskri landhelgi

By Fréttir, Í brennidepli
Utanríkisráðuneytið sendi í morgun frá sér fréttatilkynningu um þjónustuheimsókn kjarnorkuknúna árásarkafbátsins USS Delaware út í Eyjafjörð þar sem landhelgisgæslan slær heiðursvörð um þetta stríðstæki. Samkvæmt fréttatilkynningunni er þetta sjötta heimsókn slíks kafbáts síðan að utanríkisráðuneytið heimilaði slíkar heimsóknir í apríl 2023.
Þetta er sagt “liður í varnarskuldbindingum Íslands og mikilvægt framlag til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins” en þjónar augljóslega ekki hagsmunum Íslands þar sem að eltingarleikur kjarnorkukafbáta á íslensku hafsvæði er ógn við bæði öryggi og lífríki landsins. Nýleg valdaskipti vestra hafa einnig varpað ljósi á að allt tal um sameiginlegar varnir Nató er hjákátleg óskhyggja.
Chili

Málsverður febrúar

By Viðburður
Nú er komið að febrúarmálsverð SHA, föstudaginn 28. febrúar í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, og að venju er maturinn ljúffengur og dagskráin ríkuleg. Sæþór Benjamín Randalsson sér um aðal- og eftirrétt en Þórhildur Heimisdóttir um grænkerana.
Aðalréttur
  • Sterkt og bragðmikið íslenskt kalkúna chili con carne, eldað í vel krydduðum tómatgrunni. Stökkar maísflögur, bræddur ostur og frískandi sýrður rjómi til hliðar.
  • Ljúffengt grænkera chili sin carne.

Til hliðar

  • Fullkomlega kryddaðar reyktar svartar baunir.
  • Hressandi rauðrófusalat.

Eftirréttur

  • Munúðarfull og djúsí súkkulaðibrúnterta, kaffi og konfekt.
Að borðhaldi loknu mun Þorvaldur Örn Árnason taka lagið og gera grein fyrir ferli Arnar Bjarnasonar, sem var áberandi í tónlistarlífi friðarsinna hér áður fyrr.
Húsið opnar kl. 18:30, matur er borinn fram 19:00 og kostar 2.500 kr.
Öll velkomin
Maklouba með kjúkling

Málsverður janúarmánaðar

By Viðburður

Boðið verður til fyrsta málsverðar ársins í Friðarhúsi föstudaginn 31. janúar kl. 19:00 í samstarfi við MFÍK.

Kokkar janúarmánaðar eru stjórnarkonur í MFÍK með aðstoð palestínskra vinkvenna. Matseðillinn er í takt við vopnahléð á Gaza:

  • Maklouba með kjúkling
  • Vegan Maklouba
  • Eftirréttir frá Mið-Austurlöndum
Að borðhaldi loknu mun Þorvaldur Örn Árnason taka lagið og gera grein fyrir ferli Arnar Bjarnasonar, sem var áberandi í tónlistarlífi friðarsinna hér áður fyrr.
Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2500. Öll velkomin!