Skip to main content
All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

Kertafleyting við Tjörnina 2025

Ávarp við Reykjavíkur­tjörn 6. ágúst

By Í brennidepli

Áttatíu ár frá Hírósíma og Nagasakí

Í dag eru 80 ár liðin frá hinni grimmilegu kjarnorkuárás Bandaríkjamanna á Hírósíma sem fylgt var eftir með árás á Nagasakí þremur dögum síðar. Áttatíu ár frá atburðum er yfir hundrað þúsund saklausra borgara voru myrt í einni svipan í vítislogum tveggja kjarnorkuárása.
Tugþúsundir fórust í eldhafinu sem geisaði klukkustundum saman í kjölfar sprengjanna, enn fleiri á næstu vikum og mánuðum af völdum brunasára, vegna bráðrar geislunarveiki, skorts á læknisaðstoð, sýkinga og örvilnan yfir missi fjölskyldu, vina og samfélagshruns. Áður en árið 1945 var úti er talið að meira en tvö hundruð þúsund manns hafi látist vegna árásanna, um helmingur í högg- og hitabylgjunni sem fylgdi sprengingunum, hin í kjölfarið.
Og fleiri áttu eftir að deyja. Á áratugunum sem fylgdu féllu tugþúsundir í valinn – af völdum geislunar, aukinnar tíðni krabbameina og annarra langvinnra sjúkdóma. Rannsóknir benda til þess að hátt í hálf milljón manna hafi beint og óbeint látið lífið vegna gereyðingarvopnanna sem beitt var gegn Hírósíma og Nagasakí.
80 ár eru mannsævi. Bernska, ungdómur, fullorðinsár. Ævintýri, tækifæri, gleði og sorg. Lykt, bragð, hljóð, snerting, tilfinningar. Af þeim sem létust í Hírósíma og Nagasakí voru um 38 þúsund börn. Börnin sem brunnu og dóu saklaus ættu nú með réttu að njóta kyrrláts ævikvölds, fylgjast með afkomendum, rifja upp minningar, hugsa til bernskuára. Fyrir 80 árum voru þau af fullkomnu miskunnarleysi svipt framtíð sinni á kvalarfullan hátt.

Kjarnorkuváin vofir enn yfir

Tólf þúsund og þrjú hundruð kjarnaoddar eru taldir vera til í vopnabúrum níu kjarnorkuvelda og þúsundir þeirra eru í skotstöðu, reiðubúnir til notkunar hvenær sem er.
Kjarnorkusprengjur dagsins í dag eru flestar margfalt öflugri en sprengjurnar sem sprengdar voru yfir Hírósíma og Nagasakí. Ef aðeins einn þessara kjarnaodda væri sprengdur yfir stórborg myndu milljónir deyja í skelfilegri þjáningu.
Þessar níu þjóðir eiga hver um sig nægan fjölda kjarnavopna til að valda hnattrænum hörmungum – ekki þarf að sprengja nema brot af gjöreyðingarvopnum heimsins til að valda stórfelldu áfalli og jafnvel hruni siðmenningar eins og við þekkjum hana. Staðbundið kjarnorkustríð tveggja kjarnorkuvelda myndi vafalaust valda skelfilegum hörmungum fyrir allt mannkyn.
Við verðum að horfast í augu við stöðu Íslendinga í þessu samhengi. Þrátt fyrir yfirgnæfandi stuðning almennings hérlendis við bann við kjarnavopnum hafa íslensk stjórnvöld staðfastlega neitað að skrifa undir samning Sameinuðu þjóðanna um bann við vopnum af þessu tagi frá árinu 2021. Af trúmennsku við hernaðarbandalag sem lítur á kjarnavopn sem ómissandi hluta af vopnabúri sínu.

Heimshorfur

Það eru ekki friðvænlegar horfur í heiminum um þessar mundir og enn er saklaust fólk myrt unnvörpum.
Þótt kjarnorkuárásirnar á Hírósíma og Nagasakí fjarlægist í tíma munum við mörg önnur grimmileg stríð og níðingsverk frá árunum eftir seinni heimsstyrjöldina allt til dagsins í dag.
Nöfn landanna ýta við okkur; Víetnam, Kambódía, Afganistan, Írak, Bosnía, Rúanda, Súdan, Sýrland, Úkraína, Palestína …
Eins og nú voru illvirkin framin af herjum sem stýrt var af þjóðarleiðtogum og herforingjum sem unnu skipulega að afmennskun ímyndaðs óvinar. Á bak við ódæðin dyljast hagsmunir stórvelda og vopnaframleiðanda, hugmyndir kynþáttahyggju, trúarofstækis og alræðis.
Um þessar mundir horfum við upp á ólýsanlega stríðsglæpi Ísraelsmanna sem hafa látið sprengjum rigna yfir Palestínumenn á Gazaströndinni í hátt í tvö ár með gjöreyðingu þessa þéttbýla landsvæðis. Í helför sinni á Gaza hafa Ísraelsmenn myrt tugi þúsunda, örkumlað hundruð þúsundir að auki og leitt yfir saklausa íbúa hungursneyð, lyfja- og vatnsskort með því að koma í veg fyrir alþjóðlega neyðaraðstoð.
Engum dylst að miskunnarlausar árásir kjarnorkuveldisins Ísraels á Gaza eru margfaldir stríðsglæpir og þjóðarmorð sem munu hafa djúpstæð áhrif á palestínsku þjóðina um alla framtíð, jafnvel þótt glæpirnir yrðu stöðvaðir strax í dag.
Samfélagið á Gaza er hrunið til grunna en munum að rasistarnir í ríkisstjórn Netanjahús eru ekki einir á báti. Þeir eru í heilögu bandalagi – efnahagslegu og pólitísku – við Vesturlönd, sem hafa um árabil fóðrað ísraelska herinn með stríðstólum af fullkomnustu gerð. Í Ísrael hefur mannkærleikur beðið skipbrot en trúarofstæki og kynþáttahatur tekið öll völd. Á meðan fasísk stjórnvöld murka lífið úr íbúum Gaza horfa yfirvöld á Vesturlöndum í hina áttina.

Friður

Við þurfum frið. Friður hverfist um samhygð og umhyggju fyrir lífi hvers einstaklings. Hann snýst um mannlega reisn og réttindi allra til að lifa í óttaleysi frá árásum og ofsóknum. Ófriður er andstæða þessa. Hann snýst um valdatafl stórvelda, vopnaframleiðslu, uppgang öfgastefnu og afmennskun annarra þjóða og minnihlutahópa. Stríð byggjast á miskunnarleysi, yfirgangi og fullkomnu skeytingarleysi um manngildi og mannréttindi.
Áttatíu ár eru kappnógur tími til að gleyma – en sumt má ekki falla í gleymskunnar dá.
Tveimur árum eftir kjarnorkuárásirnar komu japanskir friðarsinnar saman í Hírósíma til að minnast fórnarlamba árásanna. Þeir fleyttu kertum niður Motoyasu-ána – framhjá Genbaku-hvelfingunni, minnisvarðanum sem stóð af sér árásina á borgina. Þetta hafa þeir gert hvert ár síðan til að minnast þeirra sem svipt voru lífi sínu og vonum – og tala fyrir friði og heimi án kjarnavopna.
Minningarathafnir um kjarnorkuárásirnar eru nú haldnar um allan heim. Fyrsta kertafleytingin á Reykjavíkurtjörn var haldin 6. ágúst 1985. Þá voru fjörutíu ár liðin frá árásunum, núna eru þau áttatíu. Fljótt verður öld liðin og þannig líða ár og áratugir frá atburðunum.
Fæst okkar sem hér stöndum voru komin til vits og ára árið 1945. Kjarnorkuárásirnar eru okkur ekki persónuleg minning heldur hryllilegur stríðsglæpur í fortíðinni sem ekki má gleymast. Við komum hér saman – ekki til að rifja upp eigin upplifun – heldur til þess að halda á lofti minningu þeirra sem létu lífið í kjarnorkuárásunum og brýna hvert annað til dáða í baráttunni fyrir friði og heimi án kjarnavopna.

– Snæbjörn Guðmundsson

Minningarorð við Anda­pollinn á Reyðarfirði 6. ágúst

By Fréttir, Í brennidepli
Börn fleyta við Andapollinn, Reyðarfirði. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir.

Í dag 6. ágúst, 80 árum eftir kjarnorkuárásina á Hiroshima og Nagasaki, komum við hér saman við Andapollinn á Reyðarfirði til að fleyta kertum. Kertin sem við setjum á yfirborð vatnsins eru ekki aðeins tákn um þau miklu sár sem urðu eftir árásina, heldur einnig tákn um það sem við ætlum að varðveita – vonina, friðinn og samstöðu sem heimurinn þarf að halda fast í.
Ég hef verið þeirrar gæfu að njótandi að fá að ferðast til Japan og heimsótti m.a. Hiroshima. Þar skoðaði ég friðarsafnið sem sýnir hvaða afleiðingar sprengingin hafði á borgina. Ég man að á safninu ríkti grafar þögn og ég var djúpt snortin vegna þeirra þjáninga og hörmunga sem Japanir þurftu að ganga í gegnum í kjölfar sprengingarinnar. Þetta var sérstök upplifun sem ég mun aldrei gleyma. Fórnarlömbin urðu mörg þar sem margir létust samstundis en aðrir glímdu við afleiðingar alla sína ævi. Eitt þessara fórnarlamba var Sadako Sasaki, en saga hennar er þekkt vegna baráttu ungrar stúlku sem var fórnarlamb kjarnorkuárásarinnar á Hiroshima. Hún sýndi hugrekki sem gerði hana að hetju í Japan.
Sadako Sasaki fæddist 7. janúar 1943 í Hiroshima, rétt tveimur árum áður en Bandaríkin slepptu kjarnorkusprengju á borgina þann 6. ágúst 1945. Þegar sprengjan féll, var hún aðeins 2 ára gömul og var stödd tveimur kílómetrum frá þeim stað þar sem sprengjan sprakk. Flestir nágrannar hennar létust en hún var heppin að lifa af, en eins og margir aðrir var hún ekki laus við langtímaáhrif geislavirkni.
Fram að 7. bekk var Sadako bara venjuleg, lífleg og hamingjusöm stúlka. Hún var í hlaupaliði skólans, var góð í íþróttum og tók virkan þátt í kapphlaupum. Svo var það dag einn þegar hún tók þátt í hlaupi fyrir skólann sinn að svimaköstin byrjuðu, hún upplifði mikla þreytu og endurtekin svimaköst í kjölfarið. Foreldrar hennar fóru með hana á sjúkrahús og niðurstaðan lá fyrir, hún greindist með hvítblæði sem á þeim tíma var kallað sprengjusjúkdómurinn. Þá varð hún að takast á við erfiðasta kapphlaup lífs síns, sem var kapphlaup við tímann.
Á meðan hún var inniliggjandi á sjúkrahúsinu, kom Chizuko vinkona hennar til hennar og minnti hana á japönsku þjóðsöguna um trönuna, heilagan fugl í Japan og þá staðreynd að ef einstaklingur gerði 1000 pappírströnur, þá myndi hann fá ósk sína uppfyllta. Á þeim tíma var Sadako fullviss um að henni myndi batna ef hún næði að búa til 1000 trönur.
Þannig byrjaði Sadako að brjóta saman pappírströnur, eða þar til hún lést aðeins 12 ára gömul. Hún hafði þá brotið saman 644 pappírströnur. Þrátt fyrir að hún hafi ekki náð að ljúka 1000 trönum, þá varð hún tákn fyrir baráttu gegn kjarnorkuvopnum, fyrir réttindum barna og fyrir friði.
Árið 1958, þremur árum eftir andlát hennar, var minnisvarði reistur í Hiroshima til að heiðra minningu hennar og ber minningarreiturinn nafn hennar. Á þessum stað er skúlptúr af henni haldandi á pappírströnu og þar er líka minningarskilti sem segir frá sögu hennar. Þegar börn heimsækja minnisvarðann, leggja þau pappírströnur á minningarreitinn, sem tákn um frið í heiminum.
Saga Sadako hefur haft mikil áhrif á heiminn og hefur verið notuð til að undirstrika hættuna af kjarnorkuvopnum og mikilvægi þess að berjast fyrir friði. Hún er einnig tákn fyrir allar þær fórnir sem barn hefur þurft að þola vegna stríðs og ofbeldis.
En hvað með börnin í dag? Þegar við minnumst Sadako, þá eigum við einnig að horfa á þau börn sem búa við raunverulegar hörmungar í nútímanum, núna árið 2025. Börn sem verða fyrir stríðsátökum, áföllum og ofbeldi á stöðum eins og Gaza, eða öðrum svæðum þar sem árásir og hamfarir eru daglegt brauð svo sem í Sómalíu og í Úkraínu. Börn sem þjást ekki bara á líkamlegan hátt, heldur einnig á andlegan og tilfinningalegan hátt, eins og Sadako, sem vissi hvað það var að berjast fyrir lífi sínu, en líka fyrir draumum um betri heim.
Börn sem búa við þessa hörmungar eins og í Gaza hafa ekki þann möguleika að búa til pappírströnur, eða vonast eftir friði. Þau líða stöðugt fyrir átök sem þau geta ekki stjórnað. Þau eru réttdræp af grimmu fólki þar sem ráðamenn Ísraels hafa gert Gaza að grafreit fyrir börn og þau þeirra sem lifa af eru fórnarlömb hungursneyðar sem er að raungerast þessa dagana. Börn deyja ekki aðeins – því mörg eru með hungur í maganum og gleymast á meðan þau lifa. Börnin eru með sár á líkama og sál og ótta í augunum. Það er óskiljanlegt hvað mannskepnan getur verið grimm.
Í minningu Sadako og allra þeirra sem hafa þjáðst, eru við minnt á ábyrgð okkar – að verja börn og tryggja að þau fái að lifa í friði. Sadako bjó til pappírströnur í þeirri von um að þær myndu fljúga í átt til friðar. Kertin sem við fleytum hér á vatninu á eftir eru líka pappírsfuglar, fljúgandi á vatninu. Þegar kertin fljóta fram hjá okkur á Andapollinum, verður hvert kerti tákn um eitt og eitt barn – ekki aðeins í Hiroshima, heldur í öllum heimshornum þar sem börn dreyma um betri heim. Kertin sem fljóta á Andapollinum eru friðartákn og börnin í Gaza sem búa við ótta, hungur og sprengjuregn eiga líka rétt á kertaljósi. Rétt á friði. Rétt á framtíð.
Ljósið sem við sendum frá okkur í kvöld fer ekki alla leið til Gaza. En kannski nær það hjörtum þeirra sem heyra. Kannski verður það kveikja um von.
Við biðjum ekki um óraunhæfa hluti, aðeins að börn fái að vera börn. Að þau fái að leika, læra, hlæja og lifa. Með hverju ljósi sem fleytir fram sendum við ósk um frið.
Friður byrjar með einu kertaljósi. Látum það lifa áfram í okkur.

-Hildur Magnúsdóttir

Kertafleyting

80 ár frá kjarnorkuárásunum á Hírósíma og Nagasakí – minningardagskrá

By Í brennidepli, Viðburður
Miðvikudaginn 6. ágúst kl. 22:30 stendur Samstarfshópur friðarhreyfinga fyrir kertafleytingu til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí. Komið verður saman við suðvesturenda Reykjavíkurtjarnar. Snæbjörn Guðmundsson formaður Náttúrugriða flytur ávarp og Steinunn Þóra Árnadóttir verður fundarstjóri. Flotkerti verða seld á staðnum og kosta 1.000 krónur.
Í ár eru 80 ár frá því að Bandaríkjaher varpaði kjarnorkusprengjum á Hírósíma og Nagasakí. Samstarfshópur friðarhreyfinga stendur því einnig fyrir málþingi í Ráðhúsinu kl. 15-17 sem Sanna Magdalena Mörtudóttir forseti borgarstjórnar setur. Guðni Th. Jóhannesson prófessor, Rósa Magnúsdóttir prófessor og Stefán Pálsson sagnfræðingur verða með erindi og Hörður Torfason flytur tónlist.
Strax á undan kertafleytingunni verður svo ljóðalestur á friðarljóðum í Hljómskálanum og hefst hann kl. 21. Þar koma fram ljóðskáldin Anton Helgi Jónsson, Eygló Jónsdóttir, Eyrún Ósk Jónsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Sigurður Skúlason, Soffía Bjarnadóttir og Valdimar Tómasson.
Kertafleytingar verða einnig haldnar sama kvöld á Akureyri, Ísafirði, Patreksfirði, Reyðarfirði og Seyðisfirði.
Við ítrekum kröfuna: Aldrei aftur Hírósíma, aldrei aftur Nagasakí.
Félag leikskólakennara
Friðar og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
Búddistasamtökin SGI á Íslandi
Dagskráin er styrkt af BSRB, Eflingu og Sameyki.
Kort af Tjörninni með staðsetningu kertafleytingarinnar merkta inn á

Ályktun vegna leiðtogafundar Nató

By Ályktun, Í brennidepli
Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga mótmælir harðlega þeim ákvörðunum leiðtogafundar Nató að efna til hernaðaruppbyggingar af fáheyrðri stærðargráðu. Samþykktir þessar eru gerðar í því skyni að þóknast stjórnvöldum í Bandaríkjunum, sem hafa áratugum saman staðið í stríðsrekstri vítt um heim, grafið með kerfisbundnum hætti undan alþjóðalögum og vikið til hliðar afvopnunarsamningum.
Yfirlýsing leiðtoga Nató um margföldun hernaðarútgjalda er undirbúningur stríðs sem ógnar friði í heiminum. En hún er jafnframt árás á þau gildi sem flest lönd Evrópu hafa viljað standa fyrir með því að taka fjármagn frá öflugri samneyslu, velferðar- og heilbrigðiskerfi. Forgangsröðun til vígvæðingar og hernaðaruppbyggingar í þessum mæli er glæpsamlegt athæfi á tímum þar sem brýn og aðkallandi verkefni blasa við á sviði félagsmála og umhverfismála.
Á sama tíma og NATO samþykkir að stórefla stríðsundirbúning í Evrópu, er hvorki vikið orði eða evrum að því hvað NATO ríkin ætla að leggja af mörkum til að stuðla og friði í Evrópu. Friður byggir á samtali og samvinnu milli fólks og ríkja. Þótt friðarleið verði ekki auðveld, þá verður hún í alla staði miklu farsælli en sú hernaðarleið sem nú er stefnt að.
Íslensk stjórnvöld eiga að hafna þessari siðferðislega gjaldþrota stefnu. Hagsmunum Íslendinga og öryggi er best borgið með því að standa utan hernaðarbandalaga og allrar hernaðarþátttöku. Það er forsenda þess að Ísland geti verið trúverðugur boðberi friðar.
ICAN

Yfirlýsing ICAN vegna loftárása Bandaríkjanna á Íran

By Fréttir, Í brennidepli
Samtök hernaðarandstæðinga vekja athygli á yfirlýsingu ICAN, alþjóðlegu friðarsamtakanna fyrir útrýmingu kjarnorkuvopna. ICAN er friðarverðlaunahafi Nóbels frá árinu 2017 fyrir þátt sinn í samþykkt Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Samtök hernaðarandstæðinga eru meðal aðildarsamtaka ICAN. Yfirlýsingin er á þessa leið:
„ICAN fordæmir ólögmætar hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna gegn kjarnorkustöðvum í Íran. Með því að taka þátt í árásum Ísraels eru Bandaríkin að brjóta gegn alþjóðalögum og stefna í voða vinnu alþjóðasamfélagsins við að koma böndum á útbreiðslu kjarnorkuvopna.“
Melissa Parke forystukona ICAN segir ennfremur: „Með því að fylgja Ísraelum í herferð sinni gegn Íran eru Bandaríkin brotleg við alþjóðalög. Árásir eru ekki leiðin til að takast á við áhyggjur af kjarnorkuáætlun Írana. Bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa sjálfar nýverið lýst því yfir að Íran sé ekki að vinna að smíði slíkra vopna. Hér er því um að ræða vanhugsaða og ábyrgðarlausa aðgerð sem kann að grafa undan alþjóðlegum aðgerðum sem miða að því að hindra útbreiðslu kjarnorkuvopna.
Bandaríkin hefðu átt að halda áfram að beita diplómatískum leiðum áður en Ísrael greip til árása. Atburðir þessir munu hvorki auka öryggi á svæðinu né í heiminum öllum. Þvert á móti. Árásir á kjarnorkustöðvar eru sérstaklega bannaðar með alþjóðalögum enda fylgir þeim mikil hætta vegna geislavirkni sem getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir fólk og náttúru. Hernaðinum verður að linna og samningaleiðin að taka við.“
1. maí kaffi SHA

1. maí kaffi SHA

By Viðburður

Samtök hernaðarandstæðinga bjóða í sitt árlega 1. maí kaffi kl. 11:00 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, áður en að safnast er saman í kröfugöngu verkalýðsins sem leggur af stað frá Skólavörðuholti 13:30.
Vöfflur og veglegar veitingar að venju á kostakjörum, aðeins 1.000 krónur.
Öll velkomin.

Kokkahúfur

Aprílmálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður

Þrátt fyrir páska og tíða frídaga er enginn bilbugur á hernaðarandstæðingum sem halda sinn mánaðarlega fjáröflunarmálsverð í Friðarhúsi föstudagskvöldið 25. apríl. Sigrún Guðmundsdóttir og Ævar Örn Jósepsson elda oní mannskapinn.

* Hakkabuff
* Grænmetisbuff
* Allt tilheyrandi meðlæti
* Kaffi og eftirréttur kynntur síðar

Að borðhaldi loknu mun Eyrún Ósk Jónsdóttir lesa friðarljóð, Egill Arnarson segja frá nýrri þýðingu sinni á verkinu Fyrir eilífum friði eftir Kant og tónlistarmaðurinn Sveinn Guðmundsson tekur lagið.

Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2.500. Öll velkomin.

Fáni Palestín

Stöðvum þjóðarmorðið á Gasa

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025, fordæmir þau grímulausu þjóðarmorð sem Ísraelsríki fremur nú í Palestínu. Landsfundur ítrekar kröfu sína um vopnahlé á Gasa. Koma verður á varanlegum og réttlátum friði, auk þess sem alþjóðasamfélagið verður að styðja við uppbyggingu samfélagsins á Gasa. Íslendingar voru fyrsta landið í Vestur-Evrópu til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu og leggur það okkur aukna ábyrgð á herðar að koma Palestínumönnum til varnar á alþjóðavettvangi og tala máli friðar.

Virðingarleysi Ísraelsstjórnar fyrir alþjóðalögum og mannréttindum er algert. Ljóst er að lokatakmark hennar er að hrekja sem allra flesta Palestínumenn úr landi og má samfélög þeirra af yfirborði jarðar. Við þetta njóta þeir fulltingis Bandaríkjastjórnar með þegjandi samþykki Evrópusambandsins. Þetta grefur undan öllum þeim alþjóðlegum lögum, mannréttindum og gildum sem tryggja lágmarks virðingu fyrir mannslífum. Eins hafa ofsóknir gegn Palestínumönnum og málsvörum þeirra grafið undan tjáningarfrelsi og mannréttindum heima fyrir. Skýr afstaða íslenskra stjórnvalda gegn glæpum Ísraels og frumkvæði á alþjóðavettvangi um aðgerðir gegn þeim væri lítið en nauðsynlegt skref í að vinda ofan þessari helstefnu.

Loksins, eftir alltof langa bið, er Friðarvefur Samtaka hernaðarandstæðinga kominn í loftið á ný. Síðan lá niðri í vel á annað ár, en upphaf þessara vandræða má rekja til ýmissa tæknilegra vandamála ásamt almennri frestunaráráttu.

Í tengslum við hina nýju opnun síðunnar hefur verið ráðist í ýmsar útlitsbreytingar og má búast við því að ýmsar nýjungar verði kynntar hér til sögunnar á næstunni. Jafnframt er líklegt að ýmsir agnúar kunni að koma í ljós og verður reynt að bæta úr þeim jafnóðum.

Lesendur eru hvattir til að senda póst með ábendingum um hvaðeina sem betur mætti fara á netfang samtakanna, sha@fridur.is

Stöndum með Grænlandi

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025 stendur með sjálfsákvörðunarrétti Grænlendinga og hafnar því að örlög smáþjóða og hjálendna séu skiptimynt í baktjaldamakki stórvelda og nýlenduvelda. Að forseti Bandaríkjanna ýi að því að hægt sé að kaupa lönd eða innlima þau með valdi er óverjandi. Eins er það óásættanlegt að danskir stjórnmálamenn tali um Grænland sem órjúfanlegan hluta ríkisins. Ákvörðunin um sjálfstæði Grænlands eða áframhaldandi tengsl við Danmörku liggur eingöngu hjá Grænlendingum sjálfum.

Orðræða bandarískra ráðamanna sem láta sér ekki nægja að hafa herstöð á Grænlandi og sjálfdæmi um hernaðaruppbyggingu þar ætti að vera íslenskum stjórnvöldum víti til varnaðar. Það að bjóða erlendu herveldi aðstöðu og fylgispekt er líklegra til þess að ógna fullveldi landsins og gera það að skotmarki en að tryggja varnir þess.

76 ár frá inngöngu í Nató og ályktun landsfundar

By Ályktun, Fréttir
Í dag, 30. mars, eru 76 ár síðan Alþingi samþykkti Nató-aðild Íslands í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Í tilefni þess birtum við hér ályktun landsfundar Samtaka hernaðarandstæðinga frá því í gær um aukna hervæðingu Evrópu og Íslands:

Ályktun um evrópskt vopnafár og þátt Íslands

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025, varar eindregið við því vígvæðingarfári sem brotist hefur út meðal evrópskra leiðtoga á liðnum vikum og mánuðum. Síðustu misseri hefur hernaðardýrkun og stríðsæsingastefna verið allsráðandi í evrópskum stjórnmálum þar sem kallað hefur verið verið eftir síauknum vopnakaupum og stækkun herja í álfunni. Samhliða því hafa skynsemisraddir friðarsinna og kröfur um afvopnun verið þaggaðar niður miskunnarlaust.
Upp á síðkastið hafa heitstrengingar ráðamanna keyrt um þverbak með stórkarlalegum yfirlýsingum um margföldun framlaga til hernaðarmála, gríðarlega uppbyggingu vopnaframleiðslu og opinskáum viljayfirlýsingu um stórfellda fjölgun og aukna útbreiðslu kjarnorkuvopna í trássi við gildandi sáttmála og alþjóðalög. Saga Evrópu ætti að kenna hvílíkar hörmungar hljótast af vígbúnaðarkapphlaupi og hótunum í stað friðsamlegrar samvinnu.
Það eru sár vonbrigði að íslensk stjórnvöld skipi sér í sveit þeirra afla sem hvetja áfram þessa öfugþróun í stað þess að reyna að andæfa henni. Yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar um stóraukin framlög til hermála, ítrekuð loforð um framlög til vopnakaupa, daður við hugmyndir um stofnun íslensks hers og tillögur um að breyta nafni utanríkisráðuneytisins þannig að það vísi einnig til varnarmála eru allt alvarleg hættumerki. Hagsmunum Íslendinga væri miklu betur borgið og öryggi landsmanna betur tryggt með tafarlausri úrsögn úr Nató og uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Þess í stað beiti Ísland sér á virkari hátt fyrir friði, afvopnun, alþjóðlegri samvinnu og friðsamlegri lausn deilumála.