Kæri þingmaður
Til hamingju með það verkefni sem þér hefur verið falið að sitja á Alþingi fyrir hönd þjóðarinnar. Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga óskar þér velfarnaðar í þessu hlutverki. Við viljum jafnframt nýta tækifærið til að vekja athygli þína á ýmsu því er snýr að friðar- og afvopnunarmálum.
Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennustu baráttusamtök friðar- og afvopnunarsinna á Íslandi. Þau voru stofnuð árið 1972 en rekja sögu sína þó aftur til ársins 1960. Frá upphafi hefur megináhersla samtakanna verið barátta gegn hvers kyns vígvæðingu og hernaði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kjarnorkuvopnum, aðild Íslands að hernaðarbandalögum og hernaðarumsvifum hér á landi.
- Á síðustu árum hafa blóðugar styrjaldir átt sér stað í Miðausturlöndum með óheyrilegu mannfalli og hruni samfélaga. Í þeim eiga vestræn ríki stóran hlut að máli sem stríðsaðilar eða bakhjarlar og vopnasalar. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að stórveldin láti af íhlutunarstefnu sinni og að böndum verði komið á alþjóðlega vopnasölu.
- Síðustu misseri hefur fleira fólk þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka en nokkru sinni frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Nató-ríki bera þar þunga ábyrgð og er ólíðandi ef sömu lönd ætla að skjóta sér undan því að axla afleiðingar gerða sinna. Við skourm á þið að berjast fyrir því að Ísland styðji flóttamannahjálp, þar á meðal með því að taka við mun fleira fólki.
- Ísland er aðili að hernaðarbandalaginu Nató, sem er hernaðarlegt tæki til að styðja við hagsmuni lykilríkja þess og þá einum Bandaríkjanna. Allt tal um lýðræðislegt eðli bandalagsins er hlálegt ef horft er til aðildar Tyrklands að Nató og framgöngu stjórnvalda þar á liðnum árum. Við skorum á þig að vinna að úrsögn Íslands úr Nató.
- Milli Íslands og Bandaríkjanna er í gildi svokallaður Varnarsamningur, sem felur í sér víðtækar heimildir Bandaríkjastjórnar til að koma sér upp hernaðaraðstöðu á Íslandi. Nýlegar bókanir við samninginn eru til marks um aukin vilja til slíkra umsvifa. Það er mat okkar að rétt sé að segja samningnum upp nú þegar og leggja grunn að sjálfstæðri utanríkisstefnu. Við skorum á þig að leggja þeirri uppsögn lið og standa gegn öllum áformum um aukna viðveru erlendra herja hér á landi.
- Nokkrum sinnum á ári er hér á landi skipulagt æfingaflug orrustuflugmanna Nató-ríkja í æfingum sem kallaðar hafa verið loftrýmisgæsla. Hér er einungis um að ræða niðurgreiddar heræfingar sem eru engum til gagns en mörgum til ama. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að flugæfingum þessum verði hætt hið snarasta.
- Kjarnorkuvopn eru í dag mesta ógn sem að mannkyni stafar og er þó af ýmsum óværum að taka. Kjarnorkuveldum fjölgar og sífellt auðveldara er að framleiða þessi vopn. Sérstakt áhyggjuefni í þessu sambandi er sú stefna Bandaríkjastjórnar að þróa „hagnýt“ kjarnorkuvopn, sem auðveldara yrði að beita í hefðbundnum hernaði. Fræðimenn telja að nú séu síðustu forvöð að grípa í taumana ef útrýming þessara skaðræðisvopna á að vera möguleg. Þess vegna hafa 122 ríki Sameinuðu þjóðanna stutt sáttmála um útrýmingu kjarnorkuvopna. Nató-ríki hafa skipað sér í sveit með kjarnorkuveldunum í andstöðu við sáttmálann. Við skorum á þig að tala máli kjarnorkuafvopnunar, að Ísland gerist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum og að Ísland og íslensk lögsaga verði friðlýst fyrir allri geymslu og meðferð þessara vopna.
- Styrjaldir og átök í heiminum eiga sér undantekningarlítið efnahagslegar rætur. Friður á traustum grunni verður aldrei tryggður nema með félagslegu réttlæti í heiminum. Við skorum á að vinna í störfum þínum gegn kúgun, arðráni og ofbeldi í hvaða mynd sem er.