Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir einhliða uppsögn Bandaríkjastjórnar á INF-samkomulaginu um takmörkun kjarnorkuvopna sem hefur stuðlað að öryggi og friði í Evrópu í rúmlega þrjátíu ár. Á sínum tíma dró sáttmáli þessi verulega úr kjarnorkuvopnakapphlaupi risaveldanna, sem hélt mannkyni öllu á heljarþröm. Samtök hernaðarandstæðinga vara við því andvaraleysi sem ríkt hefur gagnvart kjarnorkuvopnum undanfarin ár og hefur leitt af sér þá ævintýramennsku sem birtist í þessari stórhættulegu ákvörðun.