Skip to main content
Tag

miðnefnd

Landsfundur SHA

By Fréttir, Viðburður

Landsfundur SHA verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, laugardaginn 6. apríl.

Dagskrá hefst kl. 11 með stjórnarkjöri og almennum aðalfundarstörfum. Léttur hádegisverður í boði.

Kl. 13 mun Stefán Jón Hafsteinn halda fyrirlestur byggðan á bók sinni “Heimurinn eins og hann er” sem kom út fyrir nokkrum misserum. Stefán hefur mikla reynslu af þróunarstörfum, einkum í Afríku og hefur verk han mikið gildi fyrir friðarsinna og áhugafólk um alþjóðamál.

Að erindi loknu halda fundarstörf áfram en áætlað er að fundi ljúki eigi síðar en kl. 16.

Endum stríð með friði

By Ályktun

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla harðlega áformum íslenskra stjórnvalda um að kaupa vopn til að senda á vígvöll í öðrum löndum. Á Íslandi býr herlaus þjóð og mikilvægt er að Íslendingar stofni aldrei her. Sem þjóð án hers eru Íslendingar í kjöraðstöðu til að standa við stefnu um frið án hernaðar og vera málsvarar friðsamlegra leiða til að leysa margvíslegan ágreining víða um heim. Lengst af á þeim 75 árum sem eru frá því að Alþingi samþykkti aðild Íslands að hernaðarbandalaginu NATO, tók Ísland ekki þátt í herráði NATO og lagði því hvorki til hermenn né drápstól.

Á seinni árum hafa vígfúsir stjórnmálamenn hins vegar bætt æ meir í þátttöku Íslands í vígbúnaði og hernaðarátökum. Gróft dæmi þess var þegar íslenskir ráðherrar settu Ísland á lista yfir þjóðir sem væru viljugar til að heyja stríð í Írak. Síðan hefur Landhelgisgæslu Íslands smám saman verið blandað inn í allskyns heræfingar, sem er mjög varasöm aðgerð, þegar sjófarendur við Ísland eiga að geta treyst á hernaðarlegt hlutleysi þess mikilvæga björgunaraðila sem Landhelgisgæslan er, bæði á friðartímum og þegar stríðsógnir eru uppi. Þá eru stjórnmálamenn líka farnir að leggja til að Íslendingar leggi til hermenn í mögulegan norrænan her. Nú síðast lýsa íslensk stjórnvöld því yfir að þau ætli að fjármagna kaup á vopnum og flutning þeirra til að auka enn á stríðshörmungar í Úkraínu. Þessa þróun og stefnubreytingu er brýnt að stöðva og það strax.

Innrás Rússlands í Úkraínu er í alla staði óréttlætanleg og Samtök hernaðarandstæðinga ítreka fordæmingu sína á þeim yfirgangi. Hver dagur sem stríðið hefur staðið, hefur kostað fjölda fólks líf sitt, brotið og bramlað samfélög og spillt náttúru. Hver dagur sem stríðið mun standa áfram, mun verða framhald á sömu hörmungum. Þúsundir ungra karlmanna hafa dáið og örkumlast í þessu stríði og nú er verið að sækja ungar konur til að falla í þessum vonlausu skotgröfum líka. Þessu galna stríði lýkur ekki með „sigri“ á vígvöllum, áframhaldandi stríð í Úkraínu mun bara versna. Eina lausnin á þessu stríði er tafarlaust vopnahlé og friðarviðræður í kjöfarið. Það er skylda okkar Íslendinga að standa föstum fótum sem herlaus þjóð og beita okkur fyrir friðsamlegri lausn á stríðinu í Úkraínu.

 

UNRWA logo

Ályktun um frystingu á aðstoð við Palestínu

By Ályktun, Í brennidepli

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir þá ákvörðun utanríkisráðherra Íslands að frysta greiðslur til Palestínuhjálpar Sameinuðu þjóðanna. Það er óásættanlegt með öllu að beita neyðaraðstoð við sveltandi og deyjandi fólk sem pólitísku refsitæki líkt og gert er í þessu máli. Neyðaraðstoð verður að halda áfram að berast til Gaza án nokkurrar tafar.

Tilraunir ísraelskra stjórnvalda til að spyrða Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra við hryðjuverk verður að skilja í ljósi nýfallins úrskurðar Alþjóðadómstólsins í Haag sem felur í sér áfellisdóm yfir framferði Ísraelsmanna á Gaza undanfarnar vikur og mánuði.

Úrskurðurinn kveður sérstaklega á um að hleypa verði mannúðaraðstoð inn á Gaza. Ákvörðun utanríkisráðherra gengur þannig í berhögg við niðurstöðu Alþjóðadómstólsins og hana verður að draga til baka.

Áskorun um frið á Gaza

By Ályktun, Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga krefjast þess af ríkisstjórn Íslands að hún beiti sér fyrir því að tafarlaust verði gert vopnahlé í stríði því sem nú geysar á Gaza. Íslenska ríkið stóð að samþykkt um stofnun Ísraelsríkis og hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu og ber því skylda til að beita áhrifum sínum til að tryggja frið og velferð íbúa beggja ríkjanna.

Stríð er glæpur. Stríðsglæpur er glæpur á glæp ofan. Engin stríð hafa verið háð án stríðsglæpa.

Allt frá fyrri heimsstyrjöldinni hefur hlutfall óbreyttra borgara hækkað í samanburði við hlutfall hermanna sem deyja í stríðum og nú eru óbreyttir borgarar og varnarlaust fólk í meirihluta þeirra sem deyja og særast í lang flestum stríðum. Varnarlaust fólk er líka í miklum meirihluta þeirra sem stríðsglæpir bitna á. Stríðið á Gaza bitnar nú alfarið á varnarlausu fólki sem hefur engan stað til að flýja á, ekkert öruggt skjól og algjöran skort á lífsnauðsynjum. Helmingur íbúa Gaza eru börn og því leiða loftárásir til fjöldamorða á börnum. Árásir hafa verið gerðar á bæði sjúkrahús og sjúkrabíla og á fólk sem er að reyna að flýja.

Samtök hernaðarandstæðinga eru friðarhreyfing. Friðarsinnar leggja ekki höfuð áherslu á hverjir hafa góðan eða vondan málstað að berjast fyrir, heldur á að mál séu leyst án hernaðar og annars ofbeldis.

Það þarf að stöðva stríðið á Gaza strax með vopnahléi. Vopnahléi þarf að fylgja eftir með friðarsamningum þar sem öllu fólki verður tryggt öryggi, mannréttindi og almennt réttlæti. Friður og réttlæti fara saman, á meðan óréttlæti og yfirgangur er stærsta uppspretta stríðs. Of lengi hafa vestræn ríki horft framhjá yfirgangi öfgafullra landránsmanna studda hersetu og hernaðarofbeldi Ísraelsríkis og kæfandi herkvínni sem Gazasvæðinu hefur verið haldið í, með endurteknum brotum á alþjóðalögum. Það hefur verið vatn á myllu þeirra afla í röðum Palestínumanna sem telja einu færu leiðina að svara í sömu mynt og framlengir þannig vítahring hefnda með ofbeldi. Veruleg hætta er á að þetta stríð leiði til enn frekari stríðsátaka og hryðjuverka, sem geri lausn stríðsins ennþá erfiðari. Nú þarf að breyta um stefnu og ná víðtækri samstöðu ríkja um að stöðva þetta stríð strax, tryggja öryggi fólks á stríðssvæðinu og vinna að friðarsamningum.

365 dagar frá innrás Rússa í Úkraínu

Stöðvum stríðið í Úkraínu!

By Í brennidepli, Viðburður

Mótmælum innrás Rússa í Úkraínu og krefjumst tafarlauss friðar. Mótmæli við rússneska sendiherrabústaðinn, Túngötu 24, kl. 17:30 í dag.

24. febrúar 2023 markar 365 daga frá því að stríðið í Úkraínu hófst. Rússar gegn stríði skipuleggja viðburð til þess að sýna samstöðu með Úkraínumönnum og minnast fórnarlamba stríðsins.

Á meðal ræðumanna verða Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guttormur Þorsteinsson formaður SHA og Lida Volkova, flóttamaður frá Úkraínu. Rússneska ljóðskáldið Natasha S. mun svo flytja ljóð. Fundarstjóri er Andrei Menshenin.
Ef veður leyfir verður svo dreift myndum af fórnarlömbum stríðsins og þátttakendum boðið að hengja þær upp á staðnum.
Að lokum verður brenna þar sem kveikt verður í táknmynd rússnesku innrásarinnar. Þetta vísar í forna slavneska hefð þar sem Rússar og Úkraínumenn brenna líkneski til þess að kveðja veturinn. Að þessu sinni er ekki bara verið að kveðja kuldann fyrir utan rússneska sendiráðið heldur einnig stríð og ofbeldi.

Viðburðurinn á Facebook.

Ályktanir landsfundar SHA 2022

By Ályktun

Ísland úr Nató!

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn laugardaginn 2. apríl 2022, minnir á kröfuna um úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu. Atburðir síðustu vikna, með stríðinu í Úkraínu, sýna rækilega fram á fánýti hernaðarbandalaga.

Rússar skáka í skjóli kjarnorkuvopnaeignar sinnar, á nákvæmlega sama hátt og Nató byggir hernaðarstefnu sína á kjarnorkuvopnum, sem bandalagið áskilur sér rétt til að beita að fyrra bragði. Hver sá sem fordæmir yfirgang Rússlands hlýtur jafnframt að mótmæla þessum hornsteini í hernaðarstefnu Nató.

Stríðið í Úkraínu er nýjasta birtingarmyndin af íhlutunarstefnu stórveldanna, þeirri sömu íhlutunarstefnu og fram hefur komið í innrásum Nató-herja, svo sem í Líbýu. Og skemmst er að minnast þess hvernig ástand tveggja áratuga herseta Nató í Afganistan hefur skilið eftir sig.

Öryggi Íslands verður best tryggt með því að standa utan hernaðarbandalaga, hafna hvers kyns vígvæðingu og stugga hernaðartólum á brott úr landhelginni í stað þess að bjóða þeim hingað til heræfinga eins og nú standa yfir. Það er varasamt að þvæla þannig saman borgaralegum vörnum landsins og hernaðarbrölti Bandaríkjanna. Samþykkt Íslands á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann  við kjarnorkuvopnum, sem er skýlaus krafa SHA, væri mun farsælla skref til friðsælli framtíðar.

 

Tafarlausan frið í Úkraínu

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn laugardaginn 2. apríl 2022 fordæmir innrás Rússa í Úkraínu og krefst tafarlausra friðarsamninga til að draga úr þjáningum almennra borgara. Stríðið í Úkraínu er það alvarlegasta í Evrópu frá tímum átakanna á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar. Kjarnorkuveldi hefur ráðist inn í nágrannaland sitt með það að markmiði að breyta landamærum þess með hervaldi.

Stríðinu í Úkraínu mun ekki ljúka nema við samningaborðið. Allar vonir um að lausn stríðsins náist með stigmögnun hernaðarátaka og fleiri vopnum eru tálsýn ein. Allra leiða verður að leita til að ná tafarlausu vopnahléi og í kjölfarið friðarsamningum til að afstýra áframahaldandi þjáningum almennings í Úkraínu. Öryggi heimsins alls er að veði.

Samtök hernaðarandstæðinga hvetja stjórnvöld til að axla sína ábyrgð í að taka á móti flóttafólki vegna stríðsins í Úkraínu. Ekki er síður mikilvægt að taka á móti þeim mönnum, frá báðum fylkingum, sem samvisku sinnar vegna neita að taka þátt í stríðsátökum.

Ný miðnefnd SHA kosin á landsfundi

By Fréttir

Landsfundur SHA 2022 fór fram núna um helgina og var vel sóttur. Skýrsla miðnefndar var lögð fram og línurnar lagðar fyrir næsta starfsár þar sem verður stefnt að meiri virkni eftir ládeyðu kófsins.

Nína Helgadóttir frá Rauða krossinum kom til okkar eftir hádegishlé og sagði okkur frá málefnum flóttafólks og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir vegna stríðsins í Úkraínu. Það var mjög fræðandi og það sköpuðust líflegar umræður í kjölfarið. Greinilegt er að það er margt sem mætti betur fara í móttöku flóttafólks en vonandi verður aukinn vilji til þess að hjálpa fórnarlömbum stríðs til þess að eitthvað breytist.

Guttormur Þorsteinsson var endurkjörinn sem formaður og ný miðnefnd tók til starfa. Hana skipa Anna Lísa Björnsdóttir sem kemur ný inn, Friðrik Atlason, Gyða Dröfn Jónudóttir Hjaltadóttir, Karl Héðinn Kristjánsson sem kemur einnig nýr inn, Lowana Veal, Sigurður Flosason, Stefán Pálsson og Þorvaldur Þorvaldsson. Til vara voru kosin Alexandra Ýr van Erven, Ólína Lind og Þórarinn Snorri Sigurgeirsson sem kemur nýr inn. Hinsvegar er ekki hefð fyrir því að gera greinarmun á aðal- og varamönnum.

Við hlökkum til að starfa saman að verkefnum næsta árs enda af nógu að taka.

Ályktun miðnefndar SHA um stríðið í Úkraínu

By Ályktun, Í brennidepli
Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir innrás Rússa í Úkraínu sem hófst í morgun og gæti leitt til langvinns stríðs. Ekkert getur réttlæt slík viðbrögð og ljóst er að hernaðarátök í Úkraínu geti valdið mikilli eyðileggingu og þjáningum fólks. Hernaðurinn nú er enn eitt skipbrot þeirrar hugmyndafræði að tryggja megi frið og öryggi með vígvæðingu.
Frá lokum Kalda stríðsins hafa stórveldin látið renna sér úr greipum ótal tækifæri til afvopnunar og friðsamlegrar sambúðar. Þess í stað hefur verið grafið jafnt og þétt undan fullveldishugtakinu og viðteknum venjum í samskiptum ríkja. Við þessar aðstæður er brýnna en nokkru sinni fyrr að leita friðsamlegra lausna og standa við og styrkja enn frekar alþjóðlega afvopnunarsáttmála. Samtök hernaðarandstæðinga vara sérstaklega við öllum hugmyndum um að nýta átökin í Úkraínu sem réttlætingu fyrir auknum hernaðarumsvifum annars staðar, svo sem á vegum Nató á norðurslóðum. Samtökin vara jafnframt við inngripum sem gætu aukið á spennuna og leitt til kjarnorkustríðs.

Fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins vegna B-2 véla Bandaríkjahers

By Fréttir, Í brennidepli

Miðnefnd SHA samþykkti í byrjun mánaðar að senda eftirfarandi fyrirspurn á utanríkisráðuneytið vegna B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers sem höfðu viðveru hér í ágúst og september:

 

Í fréttatilkynningu Bandaríkjahers þann 29. ágúst árið 2019 kom fram að herinn liti á Ísland sem útstöð (forward location) fyrir B-2 sprengjuflugvélar sínar. Vélar þessar eru taldar mikil tækniundur og er ætlað að fljúga óséðum langt inn á yfirráðasvæði mögulegra óvina og varpa þar sprengjum, þar með talið kjarnorkusprengjum.

Þessi yfirlýsing frá 2019 var nýverið rifjuð upp í tengslum við endurkomu véla af þessari tegund til Keflavíkurflugvallar.

Samtök hernaðarandstæðinga vilja því spyrja utanríkisráðuneytið eftirfarandi spurninga

  1. Hvað felst að mati ráðuneytisins í hugtakinu útstöð?
  2. Felur tilvitnuð yfirlýsing Bandaríkjahers í sér breytingu á hernaðarlegri stöðu Keflavíkurflugvallar?
  3. Hefur verið gert sérstakt samkomulag við íslensk stjórnvöld um viðveru og umsvif þessara véla hér á landi?
  4. Hvert væri efni slíks samkomulags?
  5. Telur ráðuneytið að staða Keflavíkurflugvallar sem útstöðvar véla sem m.a. eru ætlaðar til beitingar kjarnorkuvopna samrýmist markmiðum og anda þjóðaröryggisstefnu Íslands sem tiltekur sérstaklega bann við slíkum vopnum hér á landi?

Miðnefnd SHA 2018-19

By Tilkynningar

Á landsfundi Samtaka hernaðarandstæðinga þann 26. mars síðastliðinn var ný miðnefnd kjörin, líkt og lög gera ráð fyrir. Guttormur Þorsteinsson var sjálfkjörinn nýr formaður samtakanna og tók þar með við keflinu af Auði Lilju Erlingsdóttur. Hann er starfsmaður Borgarbókasafns og átti fyrir sæti í miðnefnd.

Í fyrsta sinn um langt árabil þurfti að kjósa milli frambjóðenda til miðnefndar, en fjölgað var um henni úr 9 í 12 með lagabreytingu á fundinum. Kjöri náðu: Sigurður Flosason, Harpa Stefánsdóttir, Ólína Lind Sigurðardóttir, Stefán Pálsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Auður Lilja Erlingsdóttir, Bjarni Þóroddsson og Steinunn Ása Sigurðardóttir.

Varamenn voru sjálfkjörin þau Daníel Arnarsson, Bergljót Njóla Jakobsdóttir og Unnur Tryggvadóttir Flóvenz. Rétt er að taka fram að ekki er hefð fyrir því að gera greinarmun á aðal- og varafulltrúum í störfum miðnefndar.

Á fyrsta fundi nýrrar miðnefndar var Sigurður Flosason skipaður gjaldkeri en Stefán Pálsson ritari.