Endum stríð með friði

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla harðlega áformum íslenskra stjórnvalda um að kaupa vopn til að senda á vígvöll í öðrum löndum. Á Íslandi býr herlaus þjóð og mikilvægt er að Íslendingar stofni aldrei her. Sem þjóð án hers eru Íslendingar í kjöraðstöðu til að standa við stefnu um frið án hernaðar og vera málsvarar friðsamlegra leiða til að leysa margvíslegan ágreining víða um heim. Lengst af á þeim 75 árum sem eru frá því að Alþingi samþykkti aðild Íslands að hernaðarbandalaginu NATO, tók Ísland ekki þátt í herráði NATO og lagði því hvorki til hermenn né drápstól.

Á seinni árum hafa vígfúsir stjórnmálamenn hins vegar bætt æ meir í þátttöku Íslands í vígbúnaði og hernaðarátökum. Gróft dæmi þess var þegar íslenskir ráðherrar settu Ísland á lista yfir þjóðir sem væru viljugar til að heyja stríð í Írak. Síðan hefur Landhelgisgæslu Íslands smám saman verið blandað inn í allskyns heræfingar, sem er mjög varasöm aðgerð, þegar sjófarendur við Ísland eiga að geta treyst á hernaðarlegt hlutleysi þess mikilvæga björgunaraðila sem Landhelgisgæslan er, bæði á friðartímum og þegar stríðsógnir eru uppi. Þá eru stjórnmálamenn líka farnir að leggja til að Íslendingar leggi til hermenn í mögulegan norrænan her. Nú síðast lýsa íslensk stjórnvöld því yfir að þau ætli að fjármagna kaup á vopnum og flutning þeirra til að auka enn á stríðshörmungar í Úkraínu. Þessa þróun og stefnubreytingu er brýnt að stöðva og það strax.

Innrás Rússlands í Úkraínu er í alla staði óréttlætanleg og Samtök hernaðarandstæðinga ítreka fordæmingu sína á þeim yfirgangi. Hver dagur sem stríðið hefur staðið, hefur kostað fjölda fólks líf sitt, brotið og bramlað samfélög og spillt náttúru. Hver dagur sem stríðið mun standa áfram, mun verða framhald á sömu hörmungum. Þúsundir ungra karlmanna hafa dáið og örkumlast í þessu stríði og nú er verið að sækja ungar konur til að falla í þessum vonlausu skotgröfum líka. Þessu galna stríði lýkur ekki með „sigri“ á vígvöllum, áframhaldandi stríð í Úkraínu mun bara versna. Eina lausnin á þessu stríði er tafarlaust vopnahlé og friðarviðræður í kjöfarið. Það er skylda okkar Íslendinga að standa föstum fótum sem herlaus þjóð og beita okkur fyrir friðsamlegri lausn á stríðinu í Úkraínu.