Skip to main content
Category

Fréttir

Friðarganga á Þorlákmessu

Friðargöngur á Þorláksmessu

By Fréttir
Friðarganga á Þorlákmessu

Friðargöngur verða að venju haldnar á Þorláksmessu á þremur stöðum á landinu. Athugið að tímasetningar þeirra eru ekki allar þær sömu.

Í Reykjavík stendur Samstarfshópur friðarhreyfinga fyrir göngu niður
Laugaveginn, en sú hefð hefur staðið óslitið frá árinu 1980. Líkt og í
fyrra verður að þessu sinni ekki safnast saman á Hlemmi, heldur á
Laugavegi neðan Snorrabrautar. Er það hugsað til að auka öryggi
þátttakenda og losna við truflun vegna umferðar.

Notast verður við bæði vaxkyndla og fjölnota friðarljós. Þau verða
seld í upphafi göngu og kosta 500 kr.

Safnast verður saman kl. 17:45 og gengið af stað á slaginu 18:00.
Hamrahlíðarkórinn og kór Menntaskólans við Hamrahlíð ganga fremst og
syngja viðeigandi lög. Í göngulok verður stuttur fundur á Austurvelli
þar sem Drífa Snædal forseti ASÍ flytur ávarp og Eyrún Ósk Jónsdóttir
skáld les friðarljóð. Fundarstjóri verður Daníel E. Arnarsson
framkvæmdastjóri Samtakanna 78.

Á Ísafirði hefst aðgerðin einnig kl. 18 og er gengið frá
Ísafjarðarkirkju. Eiríkur Örn Norðdahl flytur ávarp og Iwona Samson
les ljóð.

Friðargangan á Akureyri verður að venju á Þorláksmessu kl. 20 á vegum
Friðarframtaks. Gengið verður frá Samkomuhúsinu niður á Ráðhústorgi.
Hlynur Hallsson myndlistarmaður flytur ávarp og Félagar úr Hymnódíu
syngja.

Góður gestur á landsfundi SHA

By Fréttir

Dr. Edward Horgan er gestur landsfundar SHA á laugardag. Hann er lykilmaður í PANA, írsku friðarsamtökunum, sem m.a. hafa beitt sér gegn notkun Bandaríkjahers áShannon-flugvelli í Dublin og hefur verið kærður fyrir borgaralega óhlýðni vegna þessa (og raunar líka fyrir að reyna að handtaka George W. Bush fyrir stríðsglæpi).

Ferilskrá hans er stórmerkileg, því hann þjónaði lengi í írska hernum og var friðargæsluliði um víða veröld áður en hann sneri sér að friðarbaráttunni. Varði svo doktorsritgerð um umbætur á Sameinuðu
þjóðunum fyrir um áratug. Mætið til að hlusta á hann í Friðarhúsi kl. 14 á laugardaginn.

Hvalamorðingjar háloftanna?

By Fréttir

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum þeim sem fylgdust með fréttum að óvenjumiklar fregnir voru af hvalrekum við Íslandsstrendur á liðnu ári. Reglubundin skráning á hvalrekum hófst á Íslandi um aldamótin og gengu mun fleiri dýr á land í fyrra en nokkurt hinna mælingaráranna.

Þótt afar sé að sýna fram á óyggjandi orsakasamband, hallast náttúruvísindamenn að því að hernaðaræfingum sé um að kenna. Einkum þegar djúpsprengjum sé beitt, sem skemmt geta heyrn dýranna sem treysta alfarið á hana til þess að rata. Þá er kafbátaleit Nató-véla nefnd sem líkleg skýring, sem og umferð kafbáta. Hvort tveggja getur valdið því að hvalir í djúpköfun syndi of hratt upp á yfirborðið og kunni þar með að fá kafaraveiki, sem reynst getur dýrunum lífshættuleg.

Fyllsta ástæða er til að kalla eftir því að samspil þessara þátta: hernaðar og hvaladráps verði kannað nánar. Ábendingar vísindamanna eru í það minnsta góð áminning um að stríðsleikir geta verið dauðans alvara.

Friðarvefurinn rankar úr rotinu

By Fréttir

Loksins, eftir alltof langa bið, er Friðarvefur Samtaka hernaðarandstæðinga kominn í loftið á ný. Síðan lá niðri í vel á annað ár, en upphaf þessara vandræða má rekja til ýmissa tæknilegra vandamála ásamt almennri frestunaráráttu.

Í tengslum við hina nýju opnun síðunnar hefur verið ráðist í ýmsar útlitsbreytingar og má búast við því að ýmsar nýjungar verði kynntar hér til sögunnar á næstunni. Jafnframt er líklegt að ýmsir agnúar kunni að koma í ljós og verður reynt að bæta úr þeim jafnóðum.

Lesendur eru hvattir til að senda póst með ábendingum um hvaðeina sem betur mætti fara á netfang samtakanna, sha@fridur.is