Category

Fréttir

Ný miðnefnd SHA kosin á landsfundi

By Fréttir

Landsfundur SHA 2022 fór fram núna um helgina og var vel sóttur. Skýrsla miðnefndar var lögð fram og línurnar lagðar fyrir næsta starfsár þar sem verður stefnt að meiri virkni eftir ládeyðu kófsins.

Nína Helgadóttir frá Rauða krossinum kom til okkar eftir hádegishlé og sagði okkur frá málefnum flóttafólks og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir vegna stríðsins í Úkraínu. Það var mjög fræðandi og það sköpuðust líflegar umræður í kjölfarið. Greinilegt er að það er margt sem mætti betur fara í móttöku flóttafólks en vonandi verður aukinn vilji til þess að hjálpa fórnarlömbum stríðs til þess að eitthvað breytist.

Guttormur Þorsteinsson var endurkjörinn sem formaður og ný miðnefnd tók til starfa. Hana skipa Anna Lísa Björnsdóttir sem kemur ný inn, Friðrik Atlason, Gyða Dröfn Jónudóttir Hjaltadóttir, Karl Héðinn Kristjánsson sem kemur einnig nýr inn, Lowana Veal, Sigurður Flosason, Stefán Pálsson og Þorvaldur Þorvaldsson. Til vara voru kosin Alexandra Ýr van Erven, Ólína Lind og Þórarinn Snorri Sigurgeirsson sem kemur nýr inn. Hinsvegar er ekki hefð fyrir því að gera greinarmun á aðal- og varamönnum.

Við hlökkum til að starfa saman að verkefnum næsta árs enda af nógu að taka.

B-2 sprengjuþota á Keflavíkurflugvelli

Rýr svör við spurningum um sprengjuþotur

By Fréttir, Í brennidepli

Í Dagfara síðasta haust var fjallað um viðveru B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli og hvað fælist í því að landið væri skilgreint sem útstöð fyrir þær. Til að fylgja málinu eftir sendu Samtök hernaðarandstæðinga eftirfarandi fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins:

Í fréttatilkynningu Bandaríkjahers þann 29. ágúst árið 2019 kom fram að herinn liti á Ísland sem útstöð (forward location) fyrir B-2 sprengjuflugvélar sínar. Vélar þessar eru taldar mikil tækniundur og er ætlað að fljúga óséðum langt inn á yfirráðasvæði mögulegra óvina og varpa þar sprengjum, þar með talið kjarnorkusprengjum.

Þessi yfirlýsing frá 2019 var nýverið rifjuð upp í tengslum við endurkomu véla af þessari tegund til Keflavíkurflugvallar.
Samtök hernaðarandstæðinga vilja því spyrja utanríkisráðuneytið eftirfarandi spurninga:

      1. Hvað felst að mati ráðuneytisins í hugtakinu útstöð?
      2. Felur tilvitnuð yfirlýsing Bandaríkjahers í sér breytingu á hernaðarlegri stöðu Keflavíkurflugvallar?
      3. Hefur verið gert sérstakt samkomulag við íslensk stjórnvöld um viðveru og umsvif þessara véla hér á landi?
      4. Hvert væri efni slíks samkomulags?
      5. Telur ráðuneytið að staða Keflavíkurflugvallar sem útstöðvar véla sem m.a. eru ætlaðar til beitingar kjarnorkuvopna samrýmist markmiðum og anda þjóðaröryggisstefnu Íslands sem tiltekur sérstaklega bann við slíkum vopnum hér á landi?

Að endingu barst stuttaralegt svar frá utanríkisráðuneytinu:

Almennt gildir að vera liðsafla og búnaðar Bandaríkjanna hér á landi er á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og síðari viðaukum við hann og afleiddra samninga. Staða Keflavíkurflugvallar er óbreytt frá 2006 þegar varanlegri viðveru Bandaríkjahers lauk hér á landi. Ekki eru gerðir sérstakir samningar um viðdvöl einstakra flugvéla eða haffara, en ávallt er haft samráð við utanríkisráðuneytið um komur þeirra.

Hvað varðar vangaveltur um komur loftfara eða skipa sem mögulega geta borið kjarnorkuvopn skal undirstrikað að þjóðaröryggsstefnan er afdráttarlaus hvað varðar þá stefnu að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum. Þessi yfirlýsta stefna Íslands hefur verið kynnt og áréttuð við öll þau bandalagsríki Íslands sem búa yfir kjarnavopnum.

Hér er ýmsu ósvarað. Ef þetta er öll sagan þá virðist sem að ekkert samráð hafa verið haft við íslensk stjórnvöld um veru sprengjuþotana hér. Utanríkisráðuneytið virðist heldur ekki vilja eða geta lagt neitt mat á hvaða hernaðarlegu þýðingu það hefur fyrir landið að vera nú skilgreint sem útstöð þessara sprengjuþota. Það hallar augljóslega nokkuð á þann aðila að varnarsamning sem hefur ekki áhuga á að skilgreina hernaðarlega stöðu landsins. Hér dúkar svo aftur upp sú túlkun að viljayfirlýsingin um að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum í þjóðaröryggisstefnunni jafngildi slíkri friðlýsingu og að Bandaríkin hljóti að taka mið af því. Það teljum við ekki fullnægjandi tryggingu fyrir því að kjarnorkuvopn séu ekki flutt til landsins.

Það er sérstaklega mikilvægt nú þegar stríð hefur brotist út í Evrópu og Nató-ríkin auka viðbúnaðarstig sitt og vígvæðingu að íslensk stjórnvöld hafi allavega einhverja aðkoma að því að skilgreina hvað teljist til varna landsins, að þau hafi einhverjar forsendur til þess að setja mörk við því hve frjálslega bandaríski herinn megi túlka varnarsamninginn til að breyta Keflavíkurflugvelli í herstöð í árásarskyni. Þetta svar gefur ekki mikla von til þess.

Samtökin hafa vakið athygli á þessum rýru svörum við þingmenn og vonir standa til þess að eftir þeim leiðum fáist haldbetri svör frá utanríkisráðuneytinu. Við fylgjum því máli eftir og munum gera grein fyrir því.

Friðargangan fellur niður í annað sinn

By Fréttir, Tilkynningar

Kæri hernaðarandstæðingur

Friðarganga á Þorláksmessu var fyrst haldin í Reykjavík árið 1980 og hélst sú hefð óslitin þar til í fyrra þegar ekki var hægt að halda göngu vegna samkomutakmarkanna. Því miður gefur staðan í faraldrinum ekki kost á að taka upp þráðinn að þessu sinni. Annað árið í röð mun friðargangan í Reykavík falla niður. Þó mun samstarfshópur friðarhreyfinga senda frá sér ávarp á Þorláksmessu.

Á Akureyri verður sömuleiðis ekki haldin nein ganga í ár.

Athugið að hætt var við gönguna á Ísafirði vegna nýrra samkomutakmarkanna.

Gleðilega friðarhátíð.

Fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins vegna B-2 véla Bandaríkjahers

By Fréttir, Í brennidepli

Miðnefnd SHA samþykkti í byrjun mánaðar að senda eftirfarandi fyrirspurn á utanríkisráðuneytið vegna B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers sem höfðu viðveru hér í ágúst og september:

 

Í fréttatilkynningu Bandaríkjahers þann 29. ágúst árið 2019 kom fram að herinn liti á Ísland sem útstöð (forward location) fyrir B-2 sprengjuflugvélar sínar. Vélar þessar eru taldar mikil tækniundur og er ætlað að fljúga óséðum langt inn á yfirráðasvæði mögulegra óvina og varpa þar sprengjum, þar með talið kjarnorkusprengjum.

Þessi yfirlýsing frá 2019 var nýverið rifjuð upp í tengslum við endurkomu véla af þessari tegund til Keflavíkurflugvallar.

Samtök hernaðarandstæðinga vilja því spyrja utanríkisráðuneytið eftirfarandi spurninga

  1. Hvað felst að mati ráðuneytisins í hugtakinu útstöð?
  2. Felur tilvitnuð yfirlýsing Bandaríkjahers í sér breytingu á hernaðarlegri stöðu Keflavíkurflugvallar?
  3. Hefur verið gert sérstakt samkomulag við íslensk stjórnvöld um viðveru og umsvif þessara véla hér á landi?
  4. Hvert væri efni slíks samkomulags?
  5. Telur ráðuneytið að staða Keflavíkurflugvallar sem útstöðvar véla sem m.a. eru ætlaðar til beitingar kjarnorkuvopna samrýmist markmiðum og anda þjóðaröryggisstefnu Íslands sem tiltekur sérstaklega bann við slíkum vopnum hér á landi?
Radarstöðin á Sornfelli

Samstöðumótmæli með Færeyingum

By Fréttir, Viðburður
Færeyskir hernaðarandstæðingar efna til mótmæla í Þórshöfn vegna áforma um að reisa á ný ratsjárstöð sem hluta af vígbúnaðarkerfi Nató og Bandaríkjahers. Saga hersetunnar í Færeyjum er ljót og einkennist af lygum Nató og danskra yfirvalda.
Hernaðarandstæðingar koma saman við sendiskrifstofu Færeyja, Túngötu 14 Reykjavík á miðvikudaginn 21. júlí kl. 20:00 til að styðja baráttu frændsystkina okkar og mótmæla hervæðingu í Norður-Atlantshafi. Hún birtist t.d. í herskipakomu í Reykjavíkurhöfn þessa dagana.
Sýnum samstöðu!
Ráðherrafundur Rússlands og Bandaríkjanna

Kjarnorkuveldunum mótmælt

By Fréttir, Viðburður

Stöðvum vígvæðingu norðurslóða

Í kvöld, 19. maí, munu utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands setjast niður til fundar í Hörpu. Þar mætast fulltrúar þeirra ríkja sem hafa yfir flestum kjarnorkuvopnum að búa og sem setja náttúru og líf íbúa norðurslóða í stöðuga hættu með kjarnorkuvopnabúrum sínum. Samtök hernaðarandstæðinga efna til stuttrar mótmælastöðu gegnt Hörpu klukkan 20:00, við gafl Seðlabankans, þar sem minnt verður á kröfuna um veröld án kjarnorkuvopna og að allri hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum verði hætt.

Stutt ávörp flytja Drífa Snædal forseti ASÍ og Guttormur Þorsteinsson formaður SHA.

Landsfundur SHA 29. maí

By Fréttir, Viðburður

Vegna samkomutakmarkanna neyddumst við til þess að fresta landsfundi SHA sem átti að fara fram þann 27. mars síðastliðinn. Nú hefur verið slakað nægjanlega á þeim til þess að við treystum okkur til að boða til fundar laugardaginn 29. maí.

Byrjað verður á almennum fundarstörfum opnum meðlimum SHA en eftir hádegishlé er dagskrá opin öllum sem hafa áhuga svo lengi sem sóttvarnarráðstafanir leyfa.

Dagskrá fundar:

11:00 Fundur verður settur í Friðarhúsi, almenn fundarstörf.

12:30 Hádegishlé.

13:00 Jakob Beat Altman, þýskur háskólanemi, fjallar um stöðu mála í Vestur-Sahara.

13:45 Högni Höydal, formaður Þjóðveldisins segir frá því sem er að gerast í hernaðarmálum í Færeyjum.

Sjáumst sem flest.

Landsfundur 2021 *Frestað*

By Fréttir, Viðburður
Landsfundur SHA verður í Friðarhúsi laugardaginn 27. mars n.k. Dagskrá er eftirfarandi:
Kl. 11:00 Byrjað á venjulegum aðalfundarstörfum.
Kl. 13:00 Mun Jakob Beat Altman, þýskur háskólanemi, fjalla um stöðu mála í Vestur-Sahara.
Kl. 13:45 Segir Högni Hoydal frá því sem er að gerast í hernaðarmálum í Færeyjum.
Þau sem kynnu að hafa áhuga á að starfa í eða með nýrri miðnefnd eru hvött til að senda skilaboð á sha@fridur.is

Andstaða við kjarnorkuvopn þvert á flokkslínur – áhugaverð tölfræði úr skoðanakönnun

By Fréttir, Í brennidepli

Í tilefni af því að Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum hefur tekið gildi, kynntu alþjóðlegu afvopnunarsamtökin ICAN og samstarfsaðilar þeirra niðurstöður könnunar sem fram fór í sex Nató-löndum seint á síðasta ári. Aðalniðurstöður könnunarinnar voru þær að 86% aðspurðra Íslendinga sögðust styðja að Ísland gerðist aðili að sáttmálanum en einungis 3% voru því andvíg. Rétt um 10% sögðust ekki vera viss.

Þetta eru merkilegar niðurstöður og senda skýr skilaboð til stjórnvalda. Margt fleira er þó áhugavert þegar rýnt er í tölurnar.

Niðurstöðurnar byggja á svörum 751 manneskju. Konur reyndust ívið hlynntari sáttmálanum en karlar, þannig sögðust 5% karla andsnúnir því að Ísland undirritaði hann en einungis 1% kvenna. Lítill merkjanlegur munur reyndist milli einstakra landsvæða og sama gilti um aldurshópa, þó yngstu og elstu hóparnir hafi verið örlítið jákvæðari en fólk á miðjum aldri sem var líklegra til að segjast ekki vita svarið.

Forvitnilegast er þó að rýna í svörin með tilliti til stuðnings við stjórnmálaflokka. Rétt er þó að taka fram að þegar kemur að einstökum flokkum getur verið um svo fáa einstaklinga að skekkjumörk verða talsverð.

Meðal stuðningsfólks Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar, Framsóknarflokks, Sósíalistaflokksins og Miðflokksins var stuðningurinn á bilinu 84-95%. Meðal Sjálfstæðismanna vildu 75% staðfesta sáttmálann og einungis 6% voru því mótfallin. Flokkur fólksins skar sig nokkuð úr með 70% stuðning og 30% sem sögðust óviss, en hafa ber í huga að alltof fáir eru á bak við þá tölu til að unnt sé að draga miklar ályktanir. Ef horft er til þess hversu margir svöruðu spurningunni neitandi var hlutfallið á bilinu 0-8% hjá öllum nema Miðflokki þar sem 13% svöruðu á þá leið.

Fíllinn í stofunni…

Í ljósi þess að nær allir sitjandi þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Flokks fólksins hafa lýst sig fylgjandi sáttmálanum um bann við kjarnorkuvopnum ætti einarður stuðningur mögulegra kjósenda þessara flokka, sem og Sósíalistaflokksins ekki að koma á óvart. Tíðindin eru hins vegar hversu mikill stuðningurinn er hjá stuðningsfólki Viðreisnar, Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sem og hjá Framsókn sem hefur ekki verið afdráttarlaust í afstöðu sinni til málsins.

Nú kynni einhver að velta því fyrir sér hvort hinn mikli stuðningur kynni að skýrast af því að almenningur viti lítið um Sáttmálann um bann við kjarnorkuvopnum og geri sér ekki grein fyrir að samþykkt hans kynni að hafa afleiðingar. Til að bregðast við slíkum vangaveltum var því bætt við framhaldsspurningu, þar sem spurt var hvort fólk vildi að Ísland yrði í hópi fyrstu aðildarríkja Nató til að undirrita sáttmálann, jafnvel þótt að slíkt kynni að verða til þess að Bandaríkjastjórn beitti landið þrýstingi?

Þessi viðbótarspurning skilaði nálega sömu niðurstöðum hjá stuðningsfólki Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Sósíalistaflokksins þar sem á bilinu 84-94% svöruðu játandi. Óákveðnum fjölgaði nokkuð í hópi stuðningsmanna Viðreisnar en engu að síður svaraði 81% játandi þrátt fyrir að Bandaríkjastjórn kynni að styggjast.

Stuðningur Framsóknarmanna fór niður í 74% og hjá Miðflokki og Flokki fólksins var talan um 60%. Minnstur var stuðningurinn hjá stuðningsfólki Sjálfstæðisflokksins, en þó svöruðu 57% játandi. Greinilegt er að mikill meirihluti íslenskra kjósenda telur algjörlega óþarft að fylgja öðrum Nató-ríkjum sérstaklega í þessu málefni og þeir kæra sig kollótta þótt stjórnin í Washington styggist.

Flest þeirra sem kusu að breyta svari sínu milli spurninganna tveggja breyttu því úr „já“ yfir í „veit ekki“. Þó svöruðu 20% stuðningsmanna Miðflokksins seinni spurningunni neitandi og 15% Sjálfstæðismanna. Hjá öðrum var sú tala á bilinu 0-8%.

Þetta eru mikilvægar upplýsingar sem hljóta að verða stjórnmálaflokkunum efni til umhugsunar ekki hvað síst þar sem kosningar nálgast.