Skip to main content

Fyrsti málsverður haustsins

By Uncategorized

Fyrsti fjáröflunarmálsverður Friðarhúss á þessu hausti verður haldinn n.k. föstudagskvöld, 30. september. Kokkar kvöldsins verða þau Líf Magneudóttir og Snorri Stefánsson og verður matseðillinni rammþjóðlegur:

* Kraftmikil kjötsúpa
* Bragðmikil grænmetissúpa, fyrir þá sem ekki borða kjöt
* Brauð
* Salat
* Royal-búðingur í eftirrétt

Að borðhaldi loknu mun Harpa Arnardóttir leikkona og söngkona taka lagið. Bryndís Björgvinsdóttir rithöfundur les úr glænýrri verðlaunabók, Flugunni sem stöðvaði stríðið.

Borðhald hefst að venju kl. 19:00, en húsið verður opnað um hálftíma fyrr. Verð kr. 1.500. Allir velkomnir.

Norðlendingar í fullu fjöri

By Uncategorized

Norðurlandsdeild SHA stóð fyrir félagsfundi á Akureyri sk. mánudagskvöld. Umræðuefnið var „Nýja Nató og þátttaka Íslands“. Í fundarlok var ný stjórn deildarinnar kjörin og almennum aðalfundarstörfum sinnt.

Norðurlandsdeildin hefur verið starfrækt frá því síðla árs 2002 og er enginn bilbugur á fólki nyrðra.

Samstaða með sjálfstæðri Palestínu

By Uncategorized

Vakin er athygli á mótmælastöðu Íslands-Palestínu fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna fimmtudaginn 22.september klukkan 17:00. Elva Björk Barkardóttir – Laganemi við friðarháskóla SÞ tekur til máls og ræðir ástandið í Palestínu.

Farsinn í héraðsdómi

By Uncategorized

Mánudaginn 19. september kl. 15 hefst næsti þáttur í farsanum Ákæruvaldið gegn Lalla sjúkraliða. Þá verður dómþing í sal 202 í Héraðsdómi við Lækjargötu, efnið er munnleg frávísunarkrafa í hinu makalausa dómsmáli gegn Lárusi Páli Birgissyni, sem var handtekinn fyrir að standa einn með skilti á gangstéttinni fyrir framan bandaríska sendiráðið.

Öll málaferlin eru hneyksli og alvarleg aðför að mótmælafrelsi í landinu. Samtök hernaðarandstæðinga hvetja áhugafólk um mannréttindi til að mæta og sýna Lárusi samstöðu.

Til að undirstrika enn frekar fáránleika málsins, munu félagar í SHA mæta á hálftímafresti frá kl. 12 á hádegi til kl. 17 þennan sama dag á vettvang „glæpsins“ og fremja þetta sama ódæði – að standa með spjald eða skilti innan við steypukerin sem standa í leyfisleysi á almennri gangstétt.