Skip to main content

Ríkisfang: Ekkert

By Uncategorized

Opinn félagsfundur MFÍK verður í Friðarhúsi miðvikudaginn 19. október kl. 19.00. Sigríður Víðis Jónsdóttir mun mæta og fjalla um bók sína Ríkisfang: Ekkert. Bókin hefur fengið geysilega góða dóma en í henni segir Sigríður sögu átta einstæðra kvenna sem flúðu skelfilegar aðstæður í Al Waleed-flóttamannabúðunum og fengu hæli á Akranesi.

Léttur kvöldverður verður seldur á hóflegu verði (1000kall) í upphafi fundar. Húsið opnar kl. 18.30.

Málþing í þágu friðar

By Uncategorized

Vakin er athygli á þessu málþingi á vegum Reykjavíkurborgar:

Á morgun laugardaginn 15. október verður opið málþing á vegum Reykjavíkurborgar undir yfirskriftinni Málþing í þágu friðar í Hörpunni. Um þessar mundir eru 25 ár frá því að leiðtogafundurinn var haldinn í Höfða. Í tilefni tímamótanna hefur Reykjavíkurborg efnt til ýmissa viðburða þar sem sérstök áhersla hefur verið lögð á hlutverk friðarhreyfinga, friðarrannsókna og afvopnunarmála í samtímanum og í sögulegu samhengi og er málþingið liður í þeirri dagskrá.

Aðalfyrirlesari málþingsins er Dr. Rebecca Johnson. Dr Johnson er virtur fræðimaður og eftirsóttur alþjóðlegur ráðgjafi á sviði vopnaeftirlits, afvopnunar og friðarrannsókna. Hún veitir ráðgjafa- og rannsóknarstofnununni Acronym Institute for Disarmament Diplomacy forstöðu og vinnur einnig í sjálfboðastarfi fyrir frjáls félagasamtök sem berjast fyrir útrýmingu kjarnorkuvopna og réttindum kvenna. Aðrir frummælendur eru m.a. Jón Gnarr borgarstjóri og Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

Í lok málþingsins verða pallborðsumræður sem Hjálmar Sveinsson, varaborgarfulltrúi stýrir. Þátttakendur í pallborði eru:

Stefán Pálsson sagnfræðingur, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga og stjórnmálaskýrandi
Alyson Bailes, aðjunkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands
Auður H. Ingólfsdóttir, lektor við Háskólann á Bifröst
Khaled Mansour, sérfræðingur hjá Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna og nemandi við Alþjóðlegan jafnréttisskóla við HÍ.

Málþingið fer fram í sal í Hörpunni sem nefnist Rími og hefst klukkan 13.00
Aðgangur er ókeypis.

SHA og MFÍK funda um þjóðernisöfgastefnur

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga og MFÍK efna til sameiginlegs fundar í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, mánudagskvöldið 10. október kl. 20.

Á fundinum mun Eva Hauksdóttir, rithöfundur og aðgerðarsinni flytja erindi um þjóðernisöfgahreyfingar í Evrópu og teikn um að sambærileg öfl séu að ná fótfestu hér á landi. Erindið kallar Eva: Nazisminn bankar bakdyramegin – Um uppgang nýnazisma á Íslandi. Helstu hreyfingar og varnir gegn þjóðernisstefnu.“ Að erindi loknu verða almennar umræður.

SHA og MFÍK

Aðalfundur Norðurlandsdeildar SHA

By Uncategorized

Þann 26. sept var haldinn á Akureyri aðalfundur hjá Norðurlandsdeild SHA sem jafnframt var opinn fundur um ákveðið umræðuefni: Nýja NATO og Ísland. Framsögu hafði Stefán Pálsson formaður SHA og að henni lokinn voru umræður. Stefán fjallaði einkum um „nýju stríðin“ eftir lok Kalda stríðsins, Bosníustríð, Kososvostríð, Afganistanstríð, Íraksstríð og Líbíustríð, öll nema Íraksstríð háð undir forustu NATO. Mest ræddi hann Líbíustríðið. Afstöðu Íslenskra stjórnvalda sagði hann þar vera jafn óboðlega og í Íraksstríðinu. Össur Skarphéðinsson vísar til þess að hafa haft þingmeirihluta fyrir stuðningi sínum án þess að nokkurn tíma væru greidd um hann atkvæði. Íslendingar dragast inn í ný og ný stríð án þess að vera spurðir.

Umræður urðu mjög líflegar þó að fundurinn væri fremur fámennur.

Að loknum umræðum var gerð grein fyrir starfi deildarinnar síðustu tvö ár og kosin stjórn. Hana skipa nú:

Þórarinn Hjartarson
Jósep Helgason
Guðrún Þórsdóttir

Varamenn:
Andrea Hjálmsdóttir og Kristín Sigfúsdóttir