Skip to main content

Svör flokkanna, 1 . spurning: Friður, afvopnun og hernaðarþátttaka?

By Í brennidepli

Líkt og fyrir fyrri kosningar sendu Samtök hernaðarandstæðinga spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu.

Hér fylgja svör þeirra flokka sem svöruðu spurningunni: Hver er stefna flokksins í friðarmálum, afvopnunarmálum og hernaðarþátttöku

Miðflokkurinn:
Miðflokkurinn leggur áherslu á og styður allar aðgerðir sem tryggja frið. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þær afleiðingar sem stríð og ófriður hefur á saklaust fólk. Því styður flokkurinn allar aðgerðir til afvopnunar og til að efla frið.

Sjálfstæðisflokkurinn:
Stærsta hagsmunamál Íslands í utanríkismálum er að virðing sé borin fyrir alþjóðalögum og þeim stofnunum sem ætlað er að gæta þeirra. Alþjóðakerfið, með stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna að grundvelli, hefur þann megintilgang að koma í veg fyrir stríðsátök. Sjálfstæðisflokkurinn telur að Ísland eigi að stuðla að friði í heiminum með því að standa með og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á þeim grundvelli.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að stefnt sé að afvopnun sem víðast á grundvelli trygginga og eftirlits. Einhliða afvopnun er ekki skynsamleg.
Ísland er aðili að öryggis- og varnarbandalagi, Atlantshafsbandalaginu og ætti ætíð að leita leiða til þess að leggja bandalagsríkjum lið. Eðli málsins samkvæmt er það jafnan á grundvelli borgaralegs framlags, enda hefur Ísland ekki her.

Lýðræðisflokkurinn:
Stefna Lýðræðisflokksins er sú að vera málsvari friðar og sátta. Við teljum að Ísland, sem herlaus þjóð, eigi hvergi að hella olíu á ófriðarbál.

Vinstri græn:
Ísland á að beita sér fyrir friði og hafna hernaðaríhlutun, beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um frið og afvopnun sem og að vinna gegn vopnaframleiðslu og vígbúnaði. Stríð og hernaður leysa engin vandamál, þótt hernaðarsinnar haldi því fram að barist sé fyrir friði og mannréttindum. Auk þess er vígvæðing og hernaður gegndarlaus sóun auðlinda og lífs. Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi. Þá minnum við á að stríðum lýkur ekki með orrustum heldur friðarsamningum.

Sósíalistaflokkurinn:
Ísland er herlaus þjóð og að á að beita sér fyrir afvopnun og friði á hinu alþjóðlega sviði. Við eigum að standa með þeim undirokuðu, standa með mannréttindum og alþjóðalögum. Ekki bara er það hið siðferðislega rétta að gera heldur varðar það hagsmuni Íslands að alþjóðalög og mannréttindi séu virt og að hægt sé að koma í veg fyrir stigmögnun átaka.

Samfylkingin:
Samfylkingin leggur áherslu á að Ísland beiti sér fyrir jöfnuði og mannréttindum um allan heim og sé ávallt málsvari friðar, mannúðar, jafnréttis og lýðræðis. Sjaldan hefur verið jafn mikilvægt og nú að frjálslynt og lýðræðislega sinnað fólk fylki sér um grunngildi opins lýðræðisþjóðfélags og standi vörð um það sem áunnist hefur í alþjóðasamvinnu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Ísland á að reka mannúðlega utanríkisstefnu sem miðar í senn að því að styrkja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og leggja okkar af mörkum við úrlausn þeirra risavöxnu áskorana sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir.

Framsóknarflokkurinn:
Framsókn leggur áherslu á að Ísland haldi áfram að vera herlaust land og styður við alþjóðlegt samstarf um frið og afvopnun. Flokkurinn vill að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegum aðgerðum sem stuðla að friði og öryggi, og leggur áherslu á að efla mannúðarsjónarmið í alþjóðamálum.

Píratar:
Píratakóðinn, sameiginleg gildayfirlýsing Pírataflokka um allan heim, byrjar á orðunum: Píratar eru friðelskandi. Þetta birtist m.a. í því að lengi hefur stefna Pírata kveðið á um að hafna skuli hvers kyns hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum.
Píratar hafa ítrekað þrýst á ríkisstjórnina að vera rödd skynseminnar í afvopnunarmálum, eins og með því að mæta á fundi aðildarríkja TPNW, samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í gegnum fyrirspurnir á Alþingi hefur fráfarandi ríkisstjórn ekki einu sinni fallist á að sækja fundina sem áheyrnarfulltrúi líkt og nokkur Natóríki gera.
Þegar þjóðaröryggisstefna Íslands var uppfærð vorið 2023 lögðu Píratar til að ákvæði um friðlýsingu landsins fyrir kjarnavopnum væri gert skýrara og afdráttarlausara. Breytingartillagan, varatillaga og tillaga til þrautavara voru allar felldar í atkvæðagreiðslu og nutu aðeins stuðnings þingflokks Pírata og eins fulltrúa Flokks fólksins.
Innan Alþingis hafa Píratar dregið fram í dagsljósið upplýsingar um þá gríðarlegu uppbyggingu sem undanfarin ár hefur átt sér stað á varnarsvæðinu á Keflavík og gagnrýnt þá stefnubreytingu sem virðist þar hafa orðið án nokkurrar opinberrar umræðu. 

Bókarkápa Gengið til friðar, sögu herstöðvarbaráttunnar

Útgáfuhóf – Opið hús í Friðarhúsi

By Viðburður

Til að fagna útkomu bókarinnar Gengið til friðar efna Samtök hernaðarandstæðinga til útgáfuhófs í Friðarhúsi laugardaginn 23. nóvember milli kl. 15 og 17.
Vinir og velunnarar eru boðin velkomin. Þorvaldur Örn Árnason rifjar upp lög úr baráttunni og Guðni Th. Jóhannesson fjallar um herstöðvabaráttuna út frá sjónarhorni sagnfræðingsins.

Bókin verður til sölu á sérstöku tilboðsverði og boðið verður upp á léttar veitingar og milliþungar.

Bókarkápa Gengið til friðar, sögu herstöðvarbaráttunnar

Útgáfuhóf

By Fréttir, Viðburður

Hóf Skruddu vegna útgáfu sögu herstöðvarbaráttunnar: “Gengið til friðar” verður haldið í bókabúð Forlagsins á Fiskislóð 39 fimmtudaginn 14. nóv kl. 16:00. Þar verða léttar veitingar í boði og stuttur upplestur.
Við munum svo auglýsa útgáfuhóf í Friðarhúsi sem verður haldið síðar í mánuðinum.

Ofnbakað grænmeti

Októbermálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður
Það er gott í vændum í Friðarhúsi á föstudagskvöld, 25. október . Á fjáröflunarmálsverðinum verður því fagnað að bókin Gengið til friðar: saga andófs gegn herstöðvum og vígbúnaðarhyggju er komin út. Kokkurinn verður hin frábæra Dóra Svavars, sem hefur alltaf slegið í gegn.
Matseðill:
* Lambasíða brasseruð með rabarbarasultu
* Bygg- og baunahleifur
* Bakað rótargrænmeti m/þurrkuðum ávöxtum og kryddum
* Salat
* Nýbakað brauð
* Hrísgrjón
* Kaffi og konfekt
Sest verður að snæðingi kl. 19. Að borðhaldi loknu tekur við menningardagskrá. Kristín Svava Tómasdóttir segir frá bókinni „Dunu: sögu kvikmyndargerðarkonu“ sem kemur út á næstu dögum. Þá mun „karlinn á lýrukassanum“ – Guðmundur Guðmundsson lýrukassaleikari koma, segja frá hljóðfærinu og taka nokkur vel valin lög.
Öll velkomin. Verð kr. 2.500