Skip to main content

„Stríðið gegn hryðjuverkum“ kallar á hryðjuverk

By Uncategorized

Hryðjuverkin í Lundúnum í morgun, þann 7. júlí 2005, eru óafsakanleg. Slíkan verknað, sem bitnar á óbreyttum borgurum, er ekki hægt að réttlæta. Sem eðlilegt er fylltumst við óhug þegar fréttirnar bárust frá Lundúnum í morgun. Þegar þetta er skrifað síðla dags má lesa í vefútgáfum fjölmiðlanna að 33 manns séu látnir og hátt í þrjuhundruð manns særðir, margir alvarlega. Okkur verður hugsað til þessa fólks og til aðstandenda þess og við höfum áhyggjur af Íslendingum sem er búsettir eða á ferð í Lundúnum. Þetta eru eðlileg viðbrögð og þetta eru góð viðbrögð. Okkur stendur ekki á sama.

Í vefútgáfu Morgunblaðsins í morgun er lítil frétt tímasett klukkan 10.39: „Lögregla hóf skothríð á um 1.000 mótmælendur í borginni Tíkrit, heimaborg Saddams, í Írak í dag. Fólkið mótmælti drápi á einum af helstu embættismönnum borgarráðsins, að sögn yfirvalda. Að minnsta kosti fjórir menn særðust.“ Flesta daga berast fréttir af sprengjutilræðum í Írak, 10-30 manns farast, og við tökum varla eftir því. Okkur finnst tíðindalaust af austurvígstöðvunum meðan ekki berast aðrar fréttir. Samkvæmt Iraq Body Count hafa að minnsta kosti 25 þúsund manns, sennilega miklu fleiri, látið lífið í Írak síðan George Bush og Tony Blair fyrirskipuðu innrás þar fyrir rúmum tveimur á árum með fulltingi Halldórs Ásgrímssonar og annarra peða í heimsvaldaskákinni.

Þessir herramenn geta ekki firrt sig ábyrgð á hryðjuverkum eins og þeim sem framin voru í Lundúnum í morgun. Ofbeldi kallar á ofbeldi. Þeir voru varaðir við því að innrásin í Írak yrði upphafið að langvarandi átökum og miklu blóðbaði og mundi kalla á hryðjuverk. En í hroka sínum hlustuðu þeir ekki á varnaðarorðin. Þeir tóku ekki mark á stjórnmálamönnum, fræðimönnum, talsmönnum mannúðarsamtaka og milljónum manna sem fóru út á göturnar um allan heim veturinn 2002 til 2003 til að mótmæla fyrirhugaðri innrás.

Þessir menn koma ekki lengur saman nema í víggirtum köstulum meðan þúsundir lögreglumanna eru kallaðir út til að hafa hemil á tugþúsundum mótmælenda. Yfirgnæfandi meirihluti þessara mótmælenda er friðsamt fólk sem vill mótmæla því óréttlæti sem auðvald og heimsvaldastefna veldur um allan heim. Þetta er fólk sem ekki lætur sér á sama standa.

Meðan valdamennirnir sitja á rökstólum í víggirtum köstulum verður almenningur fyrir barðinu á trufluðum hryðjuverkamönnum sem spanast upp af yfirgangi og hroka þessara valdamanna. Og þessir valdamenn reyna nú að tengja hryðjuverkin við þann almenning sem hefur lýst andúð sinni á athöfnum þeirra og stefnu á götum Edinborgar undanfarna daga. Því miður færa hryðjuverkamennirnir hinum vestrænu valdamönnum vopn í hendurnar, áróðursvopn og átyllu til að auka enn frekar eftirlit með almennum borgurum, skerða frelsi þeirra og herða stríðið gegn hryðjuverkum, stríð sem í raun er útþenslustríð, heimsvaldastríð og mun aldrei koma í veg fyrir hryðjuverk. Þvert á móti felst það sjálft í hryðjuverkum og mun kalla á enn meiri hryðjuverk og grafa enn frekar undan öryggi almennings.

Hryðjuverk ber að fordæma, hvort sem þau er framin með ríkisreknum sprengjuflugvélum eða með sprengju sem laumað er um borð í neðanjarðarlestir og strætisvagna.

Einar Ólafsson

Kjarnorkuvopnabúr Rússlands

By Uncategorized

Bulletin of the Atomic Scientist er virtasta tímarit á sviði umfjöllunar um kjarnorkuvopnamál. Tímaritið er einkum þekkt fyrir “kjarnorku-klukkuna” í haus blaðsins. Það, hversu margar mínútur klukkuna vantar í miðnætti, byggir á mati útgefenda á því hversu líklegt sé að komi til kjarnorkuátaka á næstu árum. Ritstjórn tímaritsins hefur breytt klukkunni allnokkrum sinnum á síðustu árum og áratugum. Hana vantar nú sjö mínútur í tólf – sem gefur til kynna meiri hættu en oft á dögum kalda stríðsins.

Í nýlegu hefti tímaritsins birtist umfjöllun um kjarnorkuvopnaeign Rússlandsstjórnar. Fyllsta átæða er til að vekja athygli á greininni og hinum vantaða vef blaðsins.

Ályktun frá miðnefnd SHA

By Uncategorized

Miðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga fordæmir misbeitingu lögreglu og dómstóla á gæsluvarðhaldi yfir Bretanum Paul Gill vegna mótmælaaðgerða hans og tveggja Íslendinga 14. júní sl. Hvaða skoðun sem menn annars hafa á þessum aðgerðum þá stofnuðu þær engum manni í hættu og geta ekki talist alvarlegt afbrot.

Gæsluvarðhald yfir eina útlendingnum í hópnum hefur verið réttlætt með því að hætta sé á að hann flýi land. Hér er augljóslega um tylliástæðu að ræða því að það krefst mikillar útsjónarsemi að komast vegabréfslaus úr landi. Forsendur þessa gæsluvarðhaldsúrskurðar hljóta að vera pólitískar. Hér á að sýna að ekki verður tekið á þeim með vettlingatökum sem dirfast að mótmæla ríkjandi stefnu. Miðnefnd SHA mótmælir þessari misbeitingu yfirvalda á heimild sinni til að fangelsa menn.

Miðnefnd SHA

Athyglisverð yfirlýsing Þorsteins Pálssonar

By Uncategorized

Ráðstefna stjórnarskrárnefndar með fulltrúum frjálsra félagasamtaka var haldin að Hótel Loftleiðum í gær, laugardag. Samtök herstöðvaandstæðinga voru í hópi þeirra félaga sem létu þar til sín taka, eins og fram hefur komið. Fulltrúi SHA í pallborðsumræðum var Einar Ólafsson, ritari samtakanna.

Nokkra athygli vakti í umræðunum að Þorsteinn Pálsson, einn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í endurskoðunarnefndinni, vék sérstaklega að tillögum SHA þess efnis að bundið yrði í stjórnarskrá að Ísland mætti ekki segja öðrum þjóðum stríð á hendur.

Að mati Þorsteins væri slíkt ákvæði of “heftandi” fyrir stjórnvöld. Það er afar merkileg yfirlýsing frá fyrrum forsætisráðherra Íslands að mikilvægt sé að stjórnvöld geti gerst aðilar að stríði og að óæskilegt sé að setja skorður við slíku í undirstöðulögum þjóðarinnar.

Nú kann það vel að vera skoðun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefndinni að Íslendingar eigi að blanda sér í hernaðarátök í heiminum með beinni hætti en verið hefur í framtíðinni. Ef sú er raunin, hljóta Sjálfstæðismenn hins vegar að beita sér fyrir því að sett verði ákvæði í stjórnarskrá um það hvernig standa skuli að slíkum stríðsyfirlýsingum – enda mun vandfundin sú stjórnarskrá í veröldinni sem ekki felur í sér ákvæði um hvernig fara skuli með það vald.

Hætt er þó við að þessi afstaða Þorsteins Pálssonar njóti lítils stuðnings landsmanna.

Stefán Pálsson