Skip to main content

Hiroshima og Nagasaki enn í umræðunni

By Uncategorized

60 ár verða senn liðin frá kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki. Afmæli þessara hræðilegu sprenginga, sem margir telja versta stríðsglæp sögunnar, hefur orðið tilefni til upprifjunar á þessum atburðum víða um lönd.

Í nýlegu tölublaði hins vita tímarits New Scientist, birta tveir nafnkunnir sagnfræðingar Mark Selden og Peter Kuznick grein um árásirnar, þar sem þeir hafna alfarið þeirri viðteknu söguskoðun Bandaríkjamanna að þeim hafi verið ætlað að knýja fram uppgjöf Japana, heldur hafi markmiðið fyrst og fremst verið að undirbúa Kalda stríðið og sýna Sovétmönnum eyðingarmátt kjarnorkusprengjunnar. Um þetta má lesa nánar hér.

Til gamans má geta að Samstarfshópur friðarhreyfinga, sem stendur að kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn þriðjudagskvöldið 9. ágúst n.k., reyndi að fá Mark Selden hingað til lands að því tilefni. Selden þakkaði kærlega fyrir boðið, en var því miður upptekinn vegna fundarhalda í tengslum við New Scientist-greinina. Vonandi munu annað tækifæri gefast til að fá Mark Selden til Íslands.

Enn er unnið að stofnun Friðarhúss

By Uncategorized

Á síðustu landsráðstefnum SHA hafa verið samþykktar ályktanir þess efnis að unnið skuli að því að samtökin komist í húsnæði fyrir rekstur skrifstofu, varðveislu gripa og almennt friðarstarf. Á fundum þessum hefur sú skoðun verið nokkuð almenn að húsnæðisleysið standi starfsemi félagsins fyrir þrifum. Friðarhús á góðum stað í miðborg Reykjavíkur er forsenda þess að herstöðvaandstæðingum takist að fá í sínar raðir það unga fólk sem hverri pólitískri baráttu er lífsnauðsyn.

Eftir nákvæma athugun á leigumarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu komst miðnefnd SHA að þeirri niðurstöðu að hagkvæmara væri að festa kaup á húsnæði en að vera upp á ótryggt og fokdýrt leiguhúsnæði komin. Einkahlutafélagið Friðarhús SHA ehf. var stofnað til að vinna að þessu markmiði og byrjað að safna hlutafé meðal félagsmanna í SHA.

Fyrsti aðalfundur Friðarhúss SHA eftir stofnfund var haldinn 25. maí síðastliðinn. Þar var ný stjórn kjörin en hana skipa: Elvar Ástráðsson (formaður), Sigurður Flosason, Ingibjörg Haraldsdóttir, Sveinn Birkir Björnsson og Páll Hilmarsson (fulltrúi SHA í stjórn). Varamenn eru: Stefán Pálsson, Sverrir Jakobsson og Sigríður Gunnarsdóttir.

Á aðalfundi félagsins var fullkomin samstaða um að ekki væri eftir neinu að bíða að ráðast í húsnæðisleit og undirbúa hlutafjársöfnun af fullum krafti. Talsvert starf hefur verið unnið í þessum málum á síðustu vikum, þrátt fyrir sumarleyfi. Vonir standa til að hægt verði að flytja nánari fregnir af framvindu mála á þessum vettvangi innan skamms.

Þeim sem áhuga hafa á að gerast félagsmenn í Friðarhúsi er bent á ofangreinda stjórnarmenn eða að senda tölvupóst á sha@fridur.is til að afla nánari upplýsinga eða skrá sig fyrir hlutafé. Verð á hlut er 10.000 krónur.

SHA andæfa herskipaheimsókn

By Uncategorized

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá fréttaáhorfendum að rússnesk herskip halda til í Reykjavíkurhöfn. Fréttaflutningur af heimsókninni hefur einkum snúist um fáránleg aukaatriði á borð við það hversu mörgum skotum hafi verið hleypt af fallstykkjum skipanna til “heiðurs” einstökum íslenskum stjórnmálamönnum.

Fulltrúar frá SHA mættu í dag, þriðjudag, að rússnesku skipunum á þeim tíma sem þau höfðu verið auglýst opin almenningi. Þar dreifðu þeir flugriti með eftirfarandi texta, undirrituðum með nafni SHA:

Engin drápstól í Reykjavíkurhöfn!

Íslenskir friðarsinnar frábiðja sér “kurteisisheimsóknir” á borð við þau rússnesku herskip sem nú hafast við í Reykjavík.

* Rússland og Bandaríkin búa yfir þorra þeirra kjarnorkuvopna sem til eru í heiminum. Bæði ríkin hafa dregið lappirnar við að fækka þessum vopnum, þrátt fyrir að tilvist þeirra sé stöðug ógnun við mannkynið.

* Herskip og kafbátar rússneska hersins bera fjölda kjarnorkuvopna og geta slys um borð í þeim valdið gríðarlegu tjóni á lífríki hafsins. Rússnesk kjarnorkuskip eru einhver alvarlegasta ógn við undirstöður íslensks efnahagslífs.

* Rússland er í hópi helstu vopnaframleiðsluríkja veraldar. Ríkisstjórn Rússlands hefur staðið gegn sáttmálum sem miða að því að draga úr vopnaframleiðslu og tryggja að vopn séu ekki seld til fátækra og stríðshrjáðra ríkja.

* Rússnesk stjórnvöld hafa staðið fyrir miklum grimmdarverkum í Téténíu og þverbrjóta mannréttindi í nafni “stríðs gegn hryðjuverkum”.

Ályktun vegna kom rússneskra herskipa til Reykjavíkur

By Uncategorized

Samtök herstöðvaandstæðinga mótmæla komu rússnesku herskipanna Levtsjenkó aðmíráls og Vjazma til Reykjavíkur og árétta að slík herskip eigi ekki erindi í Reykjavíkurhöfn. Það er óskiljanlegt að Reykjavíkurborg skuli ítrekað hleypa slíkum drápstólum að bryggju.

Einnig mótmælir SHA fallbyssuskothríð rússnesku skipanna sem að sögn var gerð í “virðingarskyni við Ísland”. Við viljum árétta að slíkar seremóníur eru ekki í samræmi við hefðir vopnlausrar þjóðar og að ýmsar aðrar leiðir eru til að sýna Íslandi og Íslendingum virðingu.

SHA