Skrifstofa SHA í Friðarhúsi verður opin alla fimmtudaga milli kl. 16 og 19. Félagsmenn skiptast á að sitja vaktina, heitt á könnunni og von á líflegum samræðum.
Samstarfshópur friðarhreyfinga heldur undirbúningsfund vegna friðargöngu á Þorláksmessu 2005 í Friðarhúsi. Fundurinn hefst kl. 20 og er öllum opinn.
Herstöðvaandstæðingar taka til í skiltageymslunni, mála ný kröfuspjöld en endurnýja önnur. Hefst kl. 20 og eru allir velkomnir.
Það er markmið margra í lífinu að skrá hitt og þetta á spjöld sögunnar. Á fimmtudagskvöldið gefst friðarsinnum kostur á að skrá – og jafnvel mála líka – á spjöld SHA (sem eru síst ómerkilegri spjöld). Þá verður sem sagt lager SHA af gömlum mótmælaskiltum og -spjöldum tekinn í gegn, sumum skipt út en lappað upp á önnur með ferskri málningu. Segja má að þetta sé nokkurs konar jólahreingerning samtakanna.
Skiltavinna þessi hefst í Friðarhúsi kl. 20 og eru allir velkomnir á svæðið, drátthagir jafn sem myndlistarskussar. Verkefnin eru margvísleg og mismunandi.
Penslar og málning verða á staðnum, en verkfúsum er bent á að mæta ekki í sunnudagsfötunum.
Léttar veitingar verða í boði á vægu verði og kaffi á könnunni, til að auka enn á sköpunargleðina!
Recent Comments