Skip to main content

Friðargöngur á Þorláksmessu

By Uncategorized

Fugl dagsinsEfnt verður til þriggja friðarganga á Þorláksmessu í ár, í Reykjavík, á Ísafirði og á Akureyri.

Enn hafa ekki borist upplýsingar um tilhögun göngunnar fyrir vestan, en um leið og þær berast verður dagskráin kynnt á þessum vettvangi.

Í Reykjavík verður að vanda lagt af stað kl. 18 frá Hlemmi. Friðarsinnar eru hvattir til að mæta tímanlega, til að geta keypt sér kyndla í tíma af fulltrúum Samstarfshóps friðarhreyfinga.

Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans í Hamrahlíð undir stjórn Þorgerðar Ingólfssonar kórstjóra tekur að vanda þátt í blysförinni sem endar með stuttum fundi á Ingólfstorgi. Þar mun séra Bjarni Karlsson halda stutt ávarp. Fundinum lýkur síðan með friðarsöng. Fundarstjóri verður Birgitta Jónsdóttir skáldkona.

Gangan á Akureyri verður þó seinna en sú í Reykjavík en þar verður lagt af stað frá Menntaskólanum á Akureyri, Eyrarlandsvegi 28 klukkan 20. Göngunni lýkur með fundi þar sem Margrét Heinreksdóttir lögfræðingur flytur ávarp og kór Akureyrarkirkju syngur.

Samstarfshópur friðarhreyfinga

Fjölmenni á málsverði

By Uncategorized

VeislugestirFrábær mæting var á fjáröflunarmálsverð Friðarhúss á föstudagskvöld, en um fimmtíu manns mættu og gæddu sér á veitingunum. Stemningin var sömuleiðis eins og best verður á kosið og fóru meðal annars fram miklar og góðar umræður um mótmæli og mótmælamenningu undir stjórn Hrundar Ólafsdóttur.

Guðrún Bóasdóttir átti veg og vanda að eldamennskunni, en hún tók jafnframt nokkrar myndir um kvöldið og má skoða þær hér.

Á laugardeginum var svo staðið fyrir spurningakeppni SHA í annað sinn og var gerður góður rómur að spurningunum. Ljóst er að samkomur þessar eru komnar til að vera, bæði málsverðirnir og spurningakeppnin. Sú hugmynd hefur þó komið fram að þess verði gætt í framtíðinni að setja þessa atburði ekki niður á sömu helginni.

Fjáröflunarmálsverður í Friðarhúsi

By Uncategorized

Fjáröflunarmálsverður til styrktar Friðarhúsi verður haldinn að kvöldi föstudagsins 16. desember og hefst kl. 19. Húsið verður opnað hálftíma fyrr. Yfirkokkur að þessu sinni verður Guðrún Bóasdóttir, en máltíðin kostar litlar 1.000 krónur. Léttar veitingar á vægu verði.