Skip to main content

Gylfi Gíslason myndlistarmaður látinn

By Uncategorized

Gylfi Gíslason myndlistarmaður er látinn. Gylfi kom fram á sjónarsviðið á umbrotatímum í íslenskri myndlist, tók þátt í SÚM-hópnum, en gat sér fyrst og fremst orð fyrir teikningar sínar þar sem hann sýndi oft nýstárlegan og frumlegan stíl. Hann myndskreytti bækur, hannaði leikmyndir og var einnig liðtækur fræðimaður um íslenska myndlist, ekki síst teikningu, átti m.a. þátt í nýútkominni bók um Kjarval sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin.

Samtök herstöðvaandstæðinga nutu þess oft að eiga Gylfa að. Hann gerði myndir og plaköt fyrir samtökin og veitti baráttu herstöðvaandstæðinga og friðarsinna lið á ýmsan hátt. Nokkrar þessara mynda hafa hangið upp á vegg í Friðarhúsinu frá því það var opnað í haust. Samtök herstöðvaandstæðinga þakka Gylfa Gíslasyni samfylgdina og liðstyrkinn og senda vinum hans og aðstandendum samúðarkveðjur.

Viðræðurnar í Washington ættu að snúast um uppsögn herstöðvasamningsins og úrsögn Íslands úr NATO

By Uncategorized

undirritun bókunar 9.4.96 Viðræðum um framtíð herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli er nú lokið í bili án þess að niðurstaða hafi fengist. Sendimenn utanríkisráðuneytisins hafa sem fyrr grátbeðið Bandaríkjamenn um að halda fjórum orrustuflugvélum hér en hafa í staðinn boðið að Íslendingar taki yfir verkefni þyrlusveitarinnar og samkvæmt fréttum hefur verið tekið vel í það.

Samtök herstöðvaandstæðinga hafa alltaf krafist þess að Íslendingar segi upp herstöðvasamningnum, að Bandaríkjamenn hverfi burt af landinu með allt sitt hafurtask, hreinsi til eftir sig og að Íslendingar segi sig úr NATO.

Samtökin hafa bent á að það sé alls ekki ætlun Bandaríkjamanna að leggja niður herstöðina. Valur Ingimundarson sagnfræðingur vék að þessu í fróðlegu viðtali í Ríkisútvarpinu 3. febrúar. Hann sagði m.a. að Bandaríkjamenn hefðu engan hug á að segja upp herstöðvasamningnum heldur vildu þeir halda aðstöðunni hér með lágmarksmannafla sem væri þá bara örfáir menn. Þeir gætu þá nýtt þessa aðstöðu aftur ef aðstæður breyttust án þess að þurfa að gera nýjan samning.

Eins og Valur benti líka á þessu viðtali eru Bandaríkjamenn að færa mannafla sinn og hernaðartæki til mikilvægari átakasvæða, svo sem Mið-Asíu og Miðausturlanda. Og tilboð Íslendinga um að taka yfir verkefni þyrlusveitarinnar hentar þeim vel því að þyrlur eru einmitt mjög mikilvæg tæki t.d. í Afganistan og synd fyrir þá að hafa þær bundnar hér við að bjarga sjómönnum eða flytja slasaða Íslendinga.

Nú þætti einhverjum kannski rökrétt að við sem friðarsinnar krefðumst þess að Bandaríkjamenn haldi áfram fullum styrk hér með þyrlum og orrustuflugvélum og koma þannig í veg fyrir að þær verði notaðar til óþurftarverka í öðrum heimsálfum. Við ættum kannski að skipuleggja Keflavíkurgöngu í því skyni! En einmitt með tilliti til þessa alþjóðlega samhengis, þessa alþjóðlega herstöðvanets Bandaríkjanna, er mikilvægast að við tökum þátt í sívaxandi alþjóðlegri baráttu gegn herstöðvum Bandaríkjanna um allan heim. Hér heima fyrir felst sú barátta í því að herstöðin verði lögð niður fyrir fullt og allt, herstöðvasamningnum verði sagt upp og síðast en ekki síst að Ísland segi sig úr NATO.

Einar Ólafsson

Gegn Íraksstríðinu 18. mars – og aftur 29. apríl!

By Uncategorized

Bring the Troops Home Friðarhreyfingar um allan heim vinna nú á fullu við að undirbúa mótmælaaðgerðir gegn Íraksstríðinu 18.-19. mars. En friðarhreyfingar í Bandaríkjunum ætla ekki að láta þar við sitja. Jafnframt undirbúningum að aðgerðunum 18.-19. mars eru þær nú farnar að undirbúa aðgerðir 29. apríl. Tvenn stærstu regnhlífarsamtök friðarhreyfinga í Bandaríkjunum, ANSWER og United for Peace and Justice hafa boðað aðgerðir þann dag undir kjörorðunum: Stöðvum stríðið í Írak, kallið hersveitirnar heim!