Skip to main content

30. mars

By Uncategorized

427175377EUHtYW phÞann 30. mars 1949 var innganga Íslands í NATO samþykkt á Alþingi. Friðarsinnar hafa upp frá því minnst þessa óheillaskrefs og helgað daginn baráttunni fyrir herlausu landi utan hernaðarbandalaga.

Í ár efna SHA til kvikmyndasýningar í Friðarhúsi fimmtudaginn 30. mars kl. 20. Þar verða sýndar tvær fágætar myndir sem sjaldan hafa komið fyrir almenningssjónir.

Annars vegar er um að ræða fréttamynd sem tekin var á Austurvelli daginn örlagaríka og sýnir glögglega atburðarásina og átökin sem þar brutust út.

Hin myndin var sömuleiðis tekin á Austurvelli, en fjörutíu árum síðar. Nefnist hún Nafnakall á Austurvelli og sýnir sviðsetningu fjölmargra landskunnra leikara á atkvæðagreiðslunni um NATO-inngönguna á Alþingi og umræður um hana. Sviðsetning þessi var á vegum Samtaka herstöðvaandstæðinga á Menningardögum SHA vorið 1989.

Árni Björnsson þjóðháttafræðingur gerir grein fyrir myndunum tveimur og ýtir umræðum úr vör.

Að myndasýningum loknum munu friðarsinnar sitja áfram, ræða málin og gera sér glaðan dag.

Allir velkomnir.

Fjórða Kaíró-ráðstefnan 23.-26. mars

By Uncategorized

The International Campaign Against U.S. & Zionist Occupation Nú um helgina, 23.-26. mars, var haldin fjórða Kaíró-ráðstefnan. Þessar ráðstefnur hafa verið haldnar árlega undanfarin ár. Fyrsta ráðstefnan var haldin í aðdraganda innrásarinnar í Írak, 17.-18. desember 2002, og hittust það einstaklingar og fulltrúa baráttusamtaka og hreyfinga gegn stríðsundirbúningnum frá allmörgum löndum. Undirbúningur hinna fjölmennu mótmælaaðgerða 18. janúar og 15. febrúar 2003 var þá í uppsiglingu. Á þessari ráðstefnu voru lögð drög að enn frekara alþjóðlegu samstarfi og samþykkt yfirlýsing, Fyrsta Kaíró-yfirlýsingin. Í þeirri yfirlýsingu voru stríðsáform Bandaríkjastjórnar sett í víðara samhengi. Bent var á pólitíska, efnahagslega og hernaðarlega yfirburði Bandaríkjanna í hinu kapítalíska hanttvæðingarferli og hvernig Bandaríkin voru fyrir 11. september farin að beita ofbeldi og yfirgangi til að viðhalda stöðu sinni og styrkja hana.

Önnur ráðstefna var haldin 12.-13. desember 2003 og sendi hún frá sér Aðra Kaíró-yfirlýsinguna. Þríðja ráðstefnan var haldin 24.-27. mars 2005.

Nánari upplýsingar:
Wikipedia
Nej til krig
Stop the War Coalition

Herstöðvaandstæðingar og Suðurnesjamenn taki höndum saman!

By Uncategorized

RNB merkiEin af þversögnum nútímafjölmiðla er sú staðreynd að þótt fréttatímum og umræðuþáttum um þjóðmál fjölgi í sífellu, bendir fátt til að sú aukning verði þess valdandi að fleiri sjónarmið heyrist eða að umræðan endurspegli endilega almenn viðhorf í þjóðfélaginu. Maraþonumræður síðustu daga um hermálið eru gott dæmi um þetta.

Gríðarlegum tíma er nú varið í að ræða framtíð herstöðvarinnar á Miðnesheiði, en hið ríkjandi sjónarmið í þeirri fjölmiðlaumræðu virðist vera á þá leið að stjórnvöld eigi að leita allra leiða til að tryggja einhvers konar áframhaldandi herstöðvarrekstur með öllum tiltækum ráðum. Þessi viðhorf eru verulega á skjön við þá umræðu sem heyra má hvarvetna annars staðar í þjóðfélaginu. Um fátt er meira rætt manna á milli en tíðindin í herstöðvarmálinu, en í hugum þorra fólks snýst sú umræða ekki um að reyna að hverfa aftur í tímann.

Fólk veltir fyrir sér praktískum atriðum varðandi framtíð Keflavíkurflugvallar og mögulegum áhrifum varðandi innanlandsflug. Menn íhuga framtíð Landhelgisgæslunnar og þyrlubjörgunarsveitarinnar. Aðrir spyrja hvernig Bandaríkjamenn eigi að skila af sér landinu, meðal annars með tilliti til mengunarspjalla? Spurningin sem langflestir velta svo vöngum yfir er þessi: hvað tekur nú við – hvernig nýtum við best aðstöðuna á vellinum?

Í hugum þorra fólks fela fregnir af yfirvofandi brottför hersins ekki í sér neina krísu. Sú krísa er einungis til í huga tiltölulega fámenns hóps. Illu heilli eru stjórnmálamenn og fréttaskýrendur fjölmennir í þeim hópi.

Gjáin sem myndast hefur milli almennings og ráðamanna í þessu máli hlýtur að vera sérstakt áhyggjuefni fyrir þann þjóðfélagshóp sem hefur hvað mestra hagsmuna að gæta, íbúa Suðurnesja. Fyrir Suðurnes gæti brottför hersins falið í sér fjölda tækifæra og orðið uppspretta aukinnar hagsældar. Forsenda þess að svo geti orðið er á hinn bóginn að herstöðinni verði lokað fyrir fullt og allt, að sómasamlega verði að brottflutningnum staðið og að svæðið vertði hreinsað með bestu fáanlegu tækni.

Ekkert af þessu er hins vegar á dagskrá íslenskra stjórnvalda. Markmið þeirra virðist vera að breyta herstöðivnni í draugaþorp til að halda í hana að nafninu til. Þar með myndi aðstaðan ekki nýtast á nokkurn hátt, nýsköpun yrði ómöguleg og ekkert færi fyrir hreinsun.

Sú staða er nú komin upp í hermálinu að herstöðvaandstæðingar og Suðurnesjamenn – hvar í flokki sem þeir standa – þurfa að snúa bökum saman. Saman verðum við að berjast gegn öllum hugmyndum um draugaþorp stöðnunar á Miðnesheiði. Krafan um algjöra og tafarlausa lokun herstöðvarinnar er augljóst sameiginlegt baráttumál eins og staðan er nú. Herinn burt!

Greinin birtist einnig í Blaðinu mánudaginn 27. mars.

Stefán Pálsson