Skip to main content

Ályktun frá SHA

By Uncategorized

imagesMiðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga fagnar fregnum af fyrirhugaðri brottför bandaríska hersins frá Íslandi. Sagan hefur þegar sannað í hvers þágu hann hefur dvalið hér í meira en hálfa öld og það hvernig þessa ákvörðun bar að sannar hve mikla virðingu herveldið í vestri ber fyrir undirlægjuhætti og lítilþægð íslenskra stjórnvalda.

Nú þarf að standa fast á eftirfarandi kröfum:

1. Uppsögn herverndarsamningsins frá 1951. Gildi hans fyrir Íslendinga er ekkert þegar herinn er farinn og hefur raunar aldrei verið eins og sagan sýnir.

2. Standa verður fast á því að herinn hreinsi upp eftir sig. Í öllum herstöðvum hans er efnamengun og/eða haugar af drasli og rústum sem þarf að fjarlægja með ærnum kostnaði. Má þar nefna, auk herstöðvarinnar á Miðnesheiði, Hvalfjörð, Straumnesfjall, Heiðarfjall og Stokksnes.

3. Eins og bent hefur verið á af Suðurnesjamönnum er grundvallaratriði þess að mannvirki í herstöðinni verði nýtileg fyrir íslenskan atvinnurekstur að herinn fari burt með allt sitt hafurtask og engin málamyndaherstöð verði grátin út af ríkisstjórninni. Þá yrði þar aðeins draugabær með mannvirkjum sem grotna niður engum til gagns.

4. Úrsögn Íslands úr NATO. Haldleysi og gagnleysi aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu hefur margsannast á liðnum áratugum. Síðustu misserin hefur NATO afhjúpað endanlega sitt rétta eðli sem árásarbandalag er stendur fyrir árásum á önnur lönd og hernámi þeirra, t.d. Júgóslavíu, Afganistans og Íraks. Og krefur aðildarríki sín um fjármagn og herafla til þeirrar iðju.

5. Að tryggt verði að stjórnvöld reyni ekki að koma upp íslenskum her undir yfirskyni friðargæslu og þátttöku Íslendinga í hernaðarævintýrum Bandaríkjamanna og bandalagsríkja þeirra í fjarlægum löndum.

Húsfyllir í Friðarhúsi 30. mars

By Uncategorized

Húsfyllir var í Friðarhúsi að kvöldi 30. mars og var haft að orði að ekki veitt af stærra húsnæði. Á samkomunni voru sýndar tvær kvikmyndir sem sjaldan hafa komið fyrir almenningsaugu.

Annars vegar var um að ræða fréttamynd sem tekin var á Austurvelli daginn örlagaríka og sýnir glögglega atburðarásina og átökin sem þar brutust út.
Hin myndin var sömuleiðis tekin á Austurvelli, en fjörutíu árum síðar. Nefnist hún Nafnakall á Austurvelli og sýnir sviðsetningu fjölmargra landskunnra leikara á atkvæðagreiðslunni um NATO-inngönguna á Alþingi og umræður um hana. Sviðsetning þessi var á vegum Samtaka herstöðvaandstæðinga á Menningardögum SHA vorið 1989.

57 ár eru liðin frá þessum atburðum. Talsmenn inngöngunnar höfðu þá hátt um að aldrei skyldu vera hér herstöðvar á friðartímum. Hafi einhvern tíma verið friðartímar hér í þessum heimshluta, þá er það nú. Samt eru eftirmenn þeirra sem sátu við stjórnvölinn fyrir 57 árum vælandi yfir því að Bandaríkjastjórn vill kalla herliðið burtu. En það er löngu tímabært að það fari, og ekki aðeins það, heldur að herstöðin verði lögð niður og herstöðvasamningnum sagt upp. Og síðast en ekki síst að ákvörðunin sem Alþingi tók fyrir 57 árum gegn vilja mikils meirihluta þjóðarinnar verði afturkölluð. ÍSLAND ÚR NATÓ!