Skip to main content

Meirihluti þjóðarinnar vill uppsögn herstöðvasamningsins

By Uncategorized

Herinn burt veggspjald 1 Samkvæmt nýrri skoðankönnun Gallup er meirihluti þjóðarinnar hlynntur uppsögn herstöðvasamningsins. Skv. könnuninni eru 53,9 mjög eða frekar hlynnt uppsögn samningsins en aðeins 24,8% mjög eða frekar andvíg. 21,3% sagði hvorki né. Munurinn er þó meira afgerandi ef betur er rýnt í tölurnar, því að 33,2% eru mjög hlynnt uppsögninni en aðeins 9,4% mjög mótfallin:

Mjög hlynnt(ur): 33,2%
Frekar hlynnt(ur): 20,6%
Hvorki né: 21,3%
Frekar andvíg(ur): 15,4%
Mjög andvíg(ur): 9,4%

Í könnunni var einnig greind afstaða eftir tekjum, menntun, kyni, aldri og afstöðu til stjórnmálaflokka. Meirihluti er með uppsögn meðal fylgismanna allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins, en þar eru þó fleiri með uppsögn en móti, eða 41,3% á móti 37,8% meðan 20,8% segja hvorki né.

Þessi skoðanakönnun var gerð fyrir Helga Hjörvar alþingismann og má lesa nánar um hana á heimasíðu hans en þar er einnig tilvísun í greinargerð Gallup fyrir könnuninni þar sem skoða má nánari greiningu á henni.

Í grein sinni segir Helgi einnig: „Samfylkingin hefur kallað eftir því að virkjuð sé 7. grein samningsins sem setur í gang formlegt málamiðlunarferli sem lyktað getur með formlegri uppsögn samningsins. Það er auðvitað löngu tímabært að taka það skref enda ljóst að enginn áhugi er á því hjá þjóðinni að framlengja varnarsamningnum við Bandaríkin. Það er nauðsynlegt fyrir forsætisráðherra að vita þegar hann hittir fulltrúa bandaríska hersins hinn 7. júlí næstkomandi að þjóðin vill einfaldlega segja þessum samningi upp.“

Þess er einnig að geta að hinn nýi utanríkisráðherra Íslands situr þessa dagana á fundi með yfirhershöfðingja NATO, James L. Jones. Eða eins og segir á fréttasíðu Morgunblaðsins 19. júní, þar sem einnig getur að líta hjartnæma mynd af ráðherranum og hershöfðingjanum: „James L. Jones, yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins, er staddur hér á landi í boði íslenskra stjórnvalda og átti í dag fund með Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra. Á fundinum voru málefni Atlantshafsbandalagsins rædd, s.s. þróun bandalagsins, þátttaka Íslendinga í alþjóðlegu starfi og stuðningur við aðgerðir. Einnig var rætt um stöðu mála í viðræðum Íslands og Bandaríkjanna um varnarsamstarf ríkjanna, eins og segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.“

Halldór Ásgrímsson, Írak, Diego Garcia og Keflavík

By Uncategorized

Írak

Í Speglinum, fréttaskýringaþætti Ríkisútvarpsins, í dag 15. ágúst, var viðtal við Halldór Ásgrímsson. Hann var spurður um afstöðuna til Íraksstríðsins og sagði að rétt hafi verið að styðja innrásina á sínum tíma. „Hinsvegar fengum við rangar upplýsingar, það liggur fyrir, þannig að það má vel vera að við hefðum tekið aðra ákvörðun ef við hefðum haft þær upplýsingar […] En eitt veit ég, að Saddam Hussein var nú ekkert mjög heppilegur foringi á sviði lýðræðis og mannréttinda.“

Það er vissulega umhugsunarvert, ef Halldór Ásgrímsson telur að íslenska ríkisstjórnin hafi verið blekkt til að styðja innrás í annað land, að hann skuli fara frá án þess að gefa aðra yfirlýsingu en lauslegt svar við spurningu blaðamanna, og reyna svo samt að réttlæta stríðsþátttökuna með tilvísun til að Saddam Hussein hafi verið „ekkert mjög heppilegur foringi á sviði lýðræðis og mannréttinda.“

En það er líka rétt að halda því til haga að veturinn 2002 til 2003 lá það fyrir að þær upplýsingar sem Halldór Ásgrímsson er væntanlega að tala um, upplýsingar um gereyðingarvopn í eigu Íraka, voru mjög hæpnar og vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna óskuðu eftir að fá heldur meiri tíma til að fá málin á hreint. En í ljósi þeirra upplýsinga, sem fyrir lágu, var mjög ólíklegt að greyðingarvopn fyndust í Írak, öfugt við það sem Bandaríkjastjórn hélt fram. Þær upplýsingar lágu fyrir, utanríkisráðuneyti Íslands átti að hafa aðgang að þeim og reyndar gat hver sæmilega netfær maður sem var læs á ensku fundið þær á netinu. Og þá færni þurfti ekki einu sinni því að á þetta var bent í fjölmörgum greinum hér á landi, bæði í dagblöðum og á netmiðlum.

Sem dæmi má nefna að hér á Friðavefnum birtist 29. janúar 2003 greinin „Írak: Nokkar staðreyndir og upplýsingar“. Þar segir m.a.:

„Í viðtalinu við CNN 17. júlí 2002 sagði Scott Ritter [fyrrum vopnaeftirlitsmaður] að 90-95% af verkefnum vopnaeftirlitssveitanna hafi verið lokið þegar þær voru kallaðar heim í desember 1998 og öllum vopnum og verksmiðjum sem þá hefðu fundist hefði verið eytt. Rolf Ekeus tók í sama streng án þess þó að nefna neinar tölur í fyrirlestri sem hann hélt við Washington Institute for Near East Policy 12. nóvember 2002. Hann taldi líka að hinar nýju vopnaeftirlitssveitir, sem tóku til starfa í nóvember 2002, mundu finna öll þau vopn sem til væri í Írak.“

„Þegar þetta er skrifað um miðjan janúar 2003 hafa hinar nýju vopnaeftirlitssveitir fengið að starfa óáreittar og ekki fundið nein vopn sem falla undir bann Sameinuðu þjóðanna. Það er því ekkert sem bendir til að Íraksstjórn hafi brotið það.“

Diego Garcia

Í þessum sama Spegli var einnig sagt frá herstöð Bandaríkjamanna á eynni Diego Garcia í Indlandshafi og grimmdarlegum brottflutningi íbúanna þaðan fyrir rúmum þremur áratugum. Enn er þetta fólk í útlegð og krefst þess að fá að snúa heim. En herstöðin á Diego García er Bandaríkjunum mjög mikilvæg og gegndi lykilhlutverki við innrásirnar í Afganistan og Írak og mun einnig gera það ef til þess kemur að ráðist verði inn í Íran. Hér á Friðarvefnum er grein um þessa herstöð: „Herstöðin á Diego Garcia og mannréttindabrot Breta“.

Keflavík

Það er rétt að hafa það í huga að herstöðin á Keflavíkurflugvelli er hluti af sama hernaðarkerfi og herstöðin á Diego Garcia – og Guantánamo, svo að fleira sé nefnt.

Í ofangreindu viðtali gerði Halldór Ásgrímsson mikið úr vináttu Íslendinga og Breta og Bandaríkjamanna. Vissulega höfum við ekkert upp á þessar þjóðir að klaga frekar en aðrar þjóðir, en seint verður sagt að ríkisstjórnir og hernaðaryfirvöld þessara landa sé félegur félagsskapur. Og aumlegur er hlutur íslensku ríkisstjórnarinnar að væla um vernd hjá stríðsglæpamönnum sem blekktu hana til stuðnings við ólögmætt innrásarstríð.

Einar Ólafsson

Stóráfanga fagnað

By Uncategorized

party10Langþráður draumur herstöðvaandstæðinga rætist í þessari viku, þegar endanlega verður gengið frá kaupum á Friðarhúsinu. Það gerist við undirritun afsals í tengslum við lokagreiðslu útborgunar á húsnæðinu að Njálsgötu 87. Stjórn Friðarhúss SHA hefur lagt á sig ómælda vinnu við söfnun hlutafjár til að tryggja að þessi áfangi næðist, en með því er Friðarhús laust við allar lausaskuldir og einungis stendur eftir tiltölulega lágt tíu ára skuldabréf.

Hlutahafar í Friðarhúsi eru 183 talsins samkvæmt síðustu talningu, en það markmið hefur verið sett að koma tölunni yfir 200 manna markið í haust!

Til að fagna þessum merka áfanga verður haldin móttaka í Friðarhúsi föstudaginn 16. júní, þar sem hluthafar og velunnarar Friðarhúss koma saman og gera sér glaðan dag. Móttakan hefst kl. 18:30 og eru allir velkomnir.

Knattspyrnuáhugamenn úr röðum herstöðvaandstæðinga geta tekið daginn snemma, því kl. 16 verður sýndur leikur Hollands og Fílabeinsstrandarinnar á HM í beinni útsendingu á sýningartjaldi Friðarhúss. Hér er um að ræða einn af stórleikjum riðlakeppninnar og því óhætt að lofa spennandi leik.

Sjálfvígsárásir alvarlegasta ógnin?

By Uncategorized

Bréf til Fréttastofu RÚV

Í frétt, sem birtist á vefsíðu RÚV í dag (13. júní 2006), er greint frá því að samkvæmt mati „bandarískra sérfræðinga í erlendum málefnum og hryðjuverkum“ eru sjálfsvígssprengingar „alvarlegasta ógnin við Bandaríkin en hvorki efnavopn, sýklavopn né kjarnavopn.“

Ef látið er liggja milli hluta hver hafi framið árásirnar 11. september 2001, hefur enginn einstaklingur látist í Bandaríkjunum af völdum sjálfsvígssprenginga á s.l. 10 árum. Þar sem tiltölulega fáir einstaklingar deyja árlega í heiminum í hryðjuverkaárásum (í samanburði við aðrar dánarorsakir), er þess gætt að flagga ekki þessum tölum. Hætt er við að almenningur gleypi ekki við goðsögninni um hryðjuverkaógnina. Nýjasta skýrslan um umfang hryðjuverka í heiminum heitir „Country Reports on Terrorism 2005“ sem utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna útbýr árlega. Hún er fáanleg hér (á pdf-formi, sjá einnig hér ). Skýrslan er 292 bls. löng. Á bls. 289 (!) eru loksins tölur um fjölda bandarískra þegna sem dóu árið 2005 í hryðjuverkaárásum. Þar uppgötvar maður að 56 bandarískir borgarar (utan hermanna) létust það ár í hryðjuverkaárásum (þ.m.t. sjálfsvígsárásum) í heiminum. Af þeim dóu 47 manns í Írak en enginn í Norður-Ameríku. Þetta eru öll ósköpin sem leiða til þess að 117 „sérfræðingar“ telji sjálfsvígssprengingar „alvarlegustu ógnina við Bandaríkin.“

Tölur um fyrri ár hef ég birt í erindi um hryðjuverk sem ég flutti á ráðstefnu lögfræðinga í París í júní 2005. Erindið heitir „The War on Terrorism: A Double Fraud Upon Humanity“ (fáanlegt á pdf-formi hér). Þær segja svipaða sögu.

RÚV ætti frekar að birta skjalfestar tölfræðilegar upplýsingar um fórnarlömb hryðjuverka, m.a. í samanburði við aðra vá, en áróðurskennt kukl.

Virðingarfyllst,

Elías Davíðsson 13. júní 2006