Skip to main content
Upphafið að endalokum sprengjunnar

Upphafið að endalokum Sprengjunnar! – Friðarsinnar bjóða í bíó!

By Viðburður
Upphafið að endalokum sprengjunnar

Nærri 75 ár eru liðin frá því að fyrstu kjarnorkusprengjurnar voru
notaðar í hernaði. Upp frá því hefur mannkynið lifað í skugga þessara hræðilegu vopna sem eytt gætu siðmenningunni á svipstundu. Kjarnorkuveldunum fjölgar og ný vopn eru þróuð sem aldrei fyrr.

Heimildarmyndin Upphafið að endalokum Sprengunnar!, The Beginning of the End of Nuclear Weapons, eftir spænska leikstjórann Álvaro Orús var frumsýnd fyrr á þessu ári og hefur vakið mikla athygli. Hún rekur sögu baráttunnar gegn kjarnorkuvopnum og fjallar sérstaklega um baráttu samtakanna ICAN, sem komu því til leiðar að 122 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu sáttmála um bann við kjarnavopnum á árinu 2017. Fyrir það afrek hlutu samtökin friðarverðlaun Nóbels. Næsta baráttumál friðarsinna er að fá sem flest ríki til að undirrita og fullgilda sáttmálann. Þar á meðal Ísland og önnur Nató-ríki sem hingað til hafa neitað að gera það.

Samstarfshópur friðarhreyfinga um kjarnorkuvopnabann býður til sýningar á myndinni í Bíó Paradís laugardaginn 30. nóvember kl. 16:00.

Öll velkomin.

Gunnar Karlsson – kveðja frá SHA

By Tilkynningar

Gunnar Karlsson sagnfræðingur lést í Reykjavík á dögunum, rétt rúmlega áttræður að aldri. Hann var dyggur félagið í Samtökum hernaðarandstæðinga og átti í tvígang sæti í miðnefnd samtakanna sem varamaður og aðalmaður á áttunda og níunda áratugnum. Árið 1984 var hann einn af aðstandendum Samtaka um friðaruppeldi sem störfuðu af krafti um nokkurra missera skeið, en um þær mundir spratt upp fjöldi lítilla friðar- og afvopnunarsamtaka hér á landi sem annars staðar.

Sem fræðimaður lagði Gunnar Karlsson sitt að mörkum til rannsókna á sögu herstöðvamálsins. Árið 1976 tók hann saman ritaskrá um sögu hernámsbaráttunnar og árið 1980 sá hann um útgáfu „Sex ritgerða um herstöðvamál“, sem gefin var út af Sagnfræðistofnunar og hefur að geyma mikilsverðar rannsóknir ungra sagnfræðinga á málaflokknum. Þá liggur eftir Gunnar mikill fjöldi blaðagreina um friðarmál.

Samtök hernaðarandstæðinga kveðja góðan samherja og votta aðstandendum innilega samúð.

kjúklingaréttur

Októbermálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður
kjúklingaréttur

Fjáröflunarmálsverður Samtaka hernaðarandstæðinga verður í Friðarhúsi fös. 25. okt. Kokkurinn er að þessu sinni fyrrum miðnefndarfulltrúi, Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir. Hún er lystakokkur og hefur t.a.m. rekið veitingahús.

Matseðill:
* „Afrískur“ kjúklingaréttur með ristuðum kókos og bönunum
* Grænmetis kókospottur
* Hrísgrjón
* Salat
* Brauð
* Kaffi og konfekt

Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2.000. Að borðhaldi loknu mun Sigríður K. Þorgrímsdóttir segja frá og lesa upp úr nýrri bók sinni um Jakobínu Sigurðardóttur skáldkonu, eitt helsta skáld íslensku friðarhreyfingarinnar.

Öll velkomin.

Septembermálsverður

By Viðburður

Fyrsti fjáröflunarmálsverður SHA haustið 2019 verður haldinn föstudaginn 27. september í Friðarhúsi. Daníel E. Arnarsson sér um matinn en fyrri málsverðir hans hafa slegið í gegn.

Matseðill:

Kúrbíts- og spínatlasagna

Grískt salat

Hvítlauksbrauð

Tómatsúpa

Bananakaramellufrauð

Kaffi

Að málsverði loknum mun Hreindís Ylva Garðarsdóttir taka lagið. Verð 2000 kr. öll velkomin.