Skip to main content

Gunnar Karlsson – kveðja frá SHA

By Tilkynningar

Gunnar Karlsson sagnfræðingur lést í Reykjavík á dögunum, rétt rúmlega áttræður að aldri. Hann var dyggur félagið í Samtökum hernaðarandstæðinga og átti í tvígang sæti í miðnefnd samtakanna sem varamaður og aðalmaður á áttunda og níunda áratugnum. Árið 1984 var hann einn af aðstandendum Samtaka um friðaruppeldi sem störfuðu af krafti um nokkurra missera skeið, en um þær mundir spratt upp fjöldi lítilla friðar- og afvopnunarsamtaka hér á landi sem annars staðar.

Sem fræðimaður lagði Gunnar Karlsson sitt að mörkum til rannsókna á sögu herstöðvamálsins. Árið 1976 tók hann saman ritaskrá um sögu hernámsbaráttunnar og árið 1980 sá hann um útgáfu „Sex ritgerða um herstöðvamál“, sem gefin var út af Sagnfræðistofnunar og hefur að geyma mikilsverðar rannsóknir ungra sagnfræðinga á málaflokknum. Þá liggur eftir Gunnar mikill fjöldi blaðagreina um friðarmál.

Samtök hernaðarandstæðinga kveðja góðan samherja og votta aðstandendum innilega samúð.

kjúklingaréttur

Októbermálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður
kjúklingaréttur

Fjáröflunarmálsverður Samtaka hernaðarandstæðinga verður í Friðarhúsi fös. 25. okt. Kokkurinn er að þessu sinni fyrrum miðnefndarfulltrúi, Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir. Hún er lystakokkur og hefur t.a.m. rekið veitingahús.

Matseðill:
* „Afrískur“ kjúklingaréttur með ristuðum kókos og bönunum
* Grænmetis kókospottur
* Hrísgrjón
* Salat
* Brauð
* Kaffi og konfekt

Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2.000. Að borðhaldi loknu mun Sigríður K. Þorgrímsdóttir segja frá og lesa upp úr nýrri bók sinni um Jakobínu Sigurðardóttur skáldkonu, eitt helsta skáld íslensku friðarhreyfingarinnar.

Öll velkomin.

Septembermálsverður

By Viðburður

Fyrsti fjáröflunarmálsverður SHA haustið 2019 verður haldinn föstudaginn 27. september í Friðarhúsi. Daníel E. Arnarsson sér um matinn en fyrri málsverðir hans hafa slegið í gegn.

Matseðill:

Kúrbíts- og spínatlasagna

Grískt salat

Hvítlauksbrauð

Tómatsúpa

Bananakaramellufrauð

Kaffi

Að málsverði loknum mun Hreindís Ylva Garðarsdóttir taka lagið. Verð 2000 kr. öll velkomin.

Baráttufundur vegna komu varaforseta Bandaríkjanna

By Viðburður

Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna er á leið til Íslands eins og rækilega hefur komið fram í fjölmiðlum. Alkunna er að stefna og framkoma varaforsetans og ríkisstjórnar hans er í andstöðu við skoðanir og gildi fjölmargra Íslendinga. Af því tilefni hafa fjöldi félagasamtaka tekið sig saman um að boða til útifundar á Austurvelli miðvikudaginn 4. september kl. 17:30 undir yfirskriftinni: „Partý gegn Pence: stöndum með friði, frelsi og grænni framtíð“.

Fundurinn er hugsaður sem vettvangur fyrir fólk úr öllum áttum til að tjá afstöðu sína til stefnu Trump-stjórnarinnar í friðar- og afvopnunarmálum, kvenfrelsismálum, málefnum hinseginfólks, á sviði umhverfisverndar og framkomu við flóttafólk. Félagasamtökin sem að fundinum standa vinna einmitt að þessum málaflokkum.

Flutt verða fimm stutt ávörp, en ræðumenn verða Guttormur Þorsteinsson formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, María Helga Guðmundsdóttir fv. formaður Samtakanna 78, Hildur Knútsdóttir rithöfundur og umhverfisverndarsinni, Randi Stebbins mannréttindalögfræðingur og Isabella Rivera sem hefur búið sem innflytjandi í Bandaríkjunum. Einnig verður boðið upp á tónlistaratriði. Almenningur er hvattur til að mæta á Austurvöll og láta skoðun sína í ljós, hver með sínu nefi.