Skip to main content

Ályktun frá SHA vegna komu bandaríska herskipsins USS Wasp

By Uncategorized

Samtök herstöðvaandstæðinga lýsa vanþóknun sinni á svokallaðri vináttuheimsókn bandaríska herskipsins USS Wasp. Íslenskt land, íslenskar hafnir og allt það hafsvæði sem tilheyrir Íslandi á að vera í friði fyrir herskipum eða öðrum hernaðartólum.

Einkum og sér í lagi frábiðjum við okkur heimsóknir frá því herveldi sem nú er árásagjarnast, stendur í blóðugum styrjöldum í kjölfar innrása sinna í Írak og Afganistan, brýtur mannréttindasáttmála og alþjóðalög með fangabúðum og pyndingum fanga og stendur í endurnýjun og þróun kjarnorkuvopna þvert á alþjóðasamninga og áratugalanga viðleitni til kjarnorkuafvopnunar.

Samtök herstöðvaandstæðinga átelja harðlega það samkomulag sem gert hefur verið um áframhaldandi samstarf Íslands og Bandaríkjanna á sviði hernaðar og hvernig borgararlegum stofnunum eins og landhelgisgæslunni og lögreglunni skal þvælt í hernaðarlegt samstarf. Sú svívirða kemur nú berlega í ljós við heimsókn herskipsins USS Wasp, en meðan á dvöl skipsins stendur er ætlunin að áhöfnin vinni með landhelgisgæslunni og lögreglunni við að undirbúa þjálfun og æfingar í framtíðinni.

Þá vilja Samtök herstöðvaandstæðinga minna borgar- og hafnaryfirvöld á samþykkt borgarstjórnar frá 21. mars 2002: „Borgarstjórn samþykkir að bönnuð verði í borgarlandinu umferð og geymsla kjarnorku- efna- og sýklavopna.“ Í samræmi við þess samþykkt ber hafnar- og borgaryfirvöldum að ganga úr skugga um hvort kjarnorkuvopn séu um borð í herskipinu USS Wasp. Ef ekki er hægt að fá staðfest að svo sé ekki ber yfirvöldum að koma í veg fyrir að skipið komi inn á höfn í Reykjavík.

Bandarískt herskip væntanlegt á fimmtudag kl. 19

By Uncategorized

USS Wasp Fimmtudaginn 12. október er áætlað að bandaríska herskipið USS Wasp komi til Reykjavíkur og leggist að Skarfabakka, vestasta hafnarbakka Sundahafnar, kl. 19.

Skv. fréttatilkynningu bandaríska sendiráðsins (http://reykjavik.usembassy.gov/) kemur skipið í heimsókn í tilefni af nýgerðu samkomulagi íslenskra og bandarískra stjórnvalda. Meðan á dvöl skipsins stendur er ætlunin að áhöfnin vinni með landhelgisgæslunni og lögreglunni við að undirbúa framtíðar þjálfun og æfingar „í samræmi við öryggisumhverfi 21. aldarinnar“, eins og það er orðað í fréttatilkynningunni.

Þá er sagt að konur og karlar úr áhöfn USS Wasp muni njóta frelsis í Reykjavík og íslenskri landsbyggð. Því miður, segir í fréttatilkynningunni, verður skipið ekki opið almenningi en tekið verður á móti gestum bandaríska sendiráðsins.

Wasp er sagt 40 þúsund tonna skip, það er svokallað „amphibious ship“, en það mun þýða að því sé ætlað að gera árásir af hafi. Í frétt í Morgunblaðinu á þriðjudaginn er fengið af vef bandaríska sjóhersins að skipum í sama flokki og USS Wasp sé ætlað lykilhlutverk í áætlunum flotans um innrás af hafi. Frá þeim sé hægt að senda árásarþyrlur og Harrier-þotur og einnig lendingarpramma sem geta borið skriðdreka, fallbyssur og önnur stríðstól auk hermanna og birgða.

Á vef Faxaflóahafna er að finna svofellda tilkynningu frá Landhelgisgæslu Íslands:

„Vegna komu bandaríska herskipsins Wasp til Reykjavíkur sem mun leggjast að bryggju við Skarfabakka mun svæðið umhverfis bryggjuna verða lokað fyrir skipa- og bátaumferð frá miðvikudeginum 11. október fram til brottfarar skipsins. Varðbáturinn Baldur mun verða með gæslu á lokunarsvæðinu. Stjórnendur skipa og báta sem leið eiga um Viðeyjarsund er bent á að Landhelgisgæslan verður með hlustvörslu á rás 12 VHF um borð í Baldri.“

Vert er að minna á eftirfarandi samþykkt sem borgarstjórn Reykjavíkur gerði 21. mars 2002:

„Borgarstjórn samþykkir að bönnuð verði í borgarlandinu umferð og geymsla kjarnorku- efna- og sýklavopna.“

Þess er því að vænta að leitað verði svara við því hvort kjarnorkuvopn séu um borð í skipinu.

MFÍK: Fundur um Palestínu í Friðarhúsi miðvikudag kl. 19

By Uncategorized

Frá MFÍK

Opinn félagsfundur miðvikudaginn 11.október
kl. 19 í Friðarhúsi (á horni Njálsgötu og Snorrabrautar).

Fyrsti fundur vetrarins er helgaður ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs:
Amal Tamimi talar um Palestínu, ástandið á Gaza og Vesturbakkanum og segir frá daglegu lífi íbúa á svæðinu.

Seldur verður léttur kvöldverður m.a. palestínsk ADAS-súpa og fleiri Miðjarðarhafsréttir – ágóði verður sendur til Palestínu.

Fjölmennum og tökum með okkur gesti.

————————————-

Hjálparbeiðni frá líbönskum konum vegna uppbyggingar í Líbanon.

Fjáröflun til stuðnings uppbyggingu í Líbanon.

Menningar- og friðarsamtökunum MFÍK hefur borist hjálparbeiðni frá líbönskum konum. Við ætlum að bregðast við þessari beiðni og leitum eftir samstarfi við önnur félög, stofnanir, samtök og einstaklinga sem vilja leggja þeim lið. Fénu verður varið til enduruppbyggingar skólastarfs og heilsugæslu barna.

Tengsl MFÍK við Líbanon hafa einkum verið í gegnum Alþjóðasamtök lýðræðissinnaðra kvenna. Í desember 2002 fóru María S. Gunnarsdóttir og Jóhanna Bogadóttir til Beirút á alþjóðlega kvennaráðstefnu og kynntust gestrisni Líbana er þær gistu hjá líbanskri fjölskyldu. Þótti þátttakendum héðan nóg um hvað fólk á svæðinu hafði þá þegar mátt þola en dáðust að æðruleysi og dugnaði íbúa.
Eftir síðustu atburði hefur stjórn MFÍK á ný verið í sambandi við líbönsku kvennasamtökin Ligue des droits de la femme libanaise og fregnað að vinkonur okkar séu heilar á húfi eða jafn heilar og hægt er miðað við aðstæður. Margvíslegrar aðstoðar er þörf og mikil uppbygging er fyrir höndum í landinu.

Þær konur sem MFÍK er í beinu sambandi við ábyrgjast að fénu verði komið til bæjarfélaga þar sem þörfin er brýnust. Þær munu senda staðfestingu bæjarfélaganna á móttöku fjárins.

Fólk sem vill leggja eitthvað af mörkum hafi samband við undirritaðar eða leggi inn á reikning 526 – 26 – 484394
kennit. 610174 – 4189, merkt Líbanon.

Með friðarkveðju,

María S. Gunnarsdóttir Guðrún Hannesdóttir
maria@seltjarnarnes.is gudrunha@mmedia.is
s. 5510586 / 5959258 5536037 / 6986037