Skip to main content

Þjóðarhreyfingin – með lýðræði – mótmælir breyttum varnarsamning og krefst uppsagnar hans

By Uncategorized

Ályktun

Þjóðarhreyfingin – með lýðræði minnir á, að þótt varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna 1951 væri í fyrstu skipað með bráðabirgðalögum, var varnarsamningurinn að sjálfsögðu lagður fyrir Alþingi til umræðu og endanlegrar samþykktar.

Þjóðarhreyfingin telur einsýnt að sama hátt hefði átt að hafa á við meiriháttar breytingu á samningnum, eins og nú hefur verið undirrituð í Washington af ráðherrum í ríkisstjórninni án umboðs frá Alþingi.
Forystumenn stjórnarflokkanna endurtaka hér sömu vinnubrögðin og þeir viðhöfðu þegar nafn Íslands var dregið inn í stríðsrekstur í Írak með því að skipa Íslandi á lista hinna vígfúsu þjóða gegn vilja allt að 85% þjóðarinnar, án þess samráðs við Utanríkismálanefnd Alþingis sem þingsköp mæla fyrir um, án nokkurs umboðs frá þinginu og að þjóðinni gersamlega forspurðri.

Þjóðarhreyfingin mótmælir þeirri leynd sem hvílir yfir stórum hluta samningsins, sem gerir varnir Íslands og öryggismál að einkamáli tveggja eða þriggja ráðherra og embættismanna bandarískra hernaðar- og lögregluyfirvalda.

Þjóðarhreyfingin mótmælir því einnig að í milliríkjasamningi af þessu tagi sé að finna skuldbindingar um að Alþingi komi á með lögum leynilegum stofnunum, sem frá upphafi er ætlað að starfa náið með bandarískum stofnunum að greiningu mála eins og ,,landráðastarfsemi” og ,,starfsemi sem beinist gegn stjórnskipulagi ríkisins”. Þetta býður heim pólitískum ofsóknum af því tagi sem viðgengust á tímum kalda stríðsins. Þjóðarhreyfingin telur að Alþingi beri að meta þörfina á starfsemi slíkra stofnana út frá hagsmunum Íslands sem fullvalda ríkis einvörðungu og telur að samstarfi við sambærilegar stofnanir erlendis beri að skipa eftir eðli máls hverju sinni, án sérstakra lagafyrirmæla fyrirfram um náið samstarf við bandaríska sendiráðið og bandarískar leyniþjónustur eða hernaðaryfirvöld.

Þjóðarhreyfingin telur að með samningi þessum hafi verið stigið stórt óheillaskref til framsals íslensks valds í hendur stofnana þess stórveldis sem um þessar mundir er talið helsti ófriðarvaldur í heiminum samkvæmt nýlegum könnunum virtra bandarískra stofnana á viðhorfum til Bandaríkjanna meðal almennings um allan heim, og varar sérstaklega við því að tengja íslensku Landhelgisgæsluna hernaðarvél Bandaríkjanna.

Þjóðarhreyfingin telur öryggi íslenskrar þjóðar best borgið með vinsamlegum samskiptum Íslands og Bandaríkjanna sem jafnrétthárra ríkja. Það er besta vörn Íslands í ,,stríðinu gegn hryðjuverkum”.

Þjóðarhreyfingin tekur því undir þá skoðun tveggja fyrrverandi utanríkisráðherra, þeirra Jóns Baldvins Hannibalssonar og Davíðs Oddssonar, að við þessi tímamót hefði átt að nýta uppsagnarákvæði varnarsamningsins við Bandaríkin og treysta á þá vernd sem aðild að NATO veitir með því að árás á hvert eitt aðildarríkja þess telst árás á þau öll.

Þjóðarhreyfingin skorar því á núverandi stjórnarandstöðuflokka að lýsa því yfir nú þegar, að myndi þeir ríkisstjórn eftir kosningar að vori, verði varnarsamningnum sagt upp með það fyrir augum að sambúð Íslands og Bandaríkjanna komist í eðlilegt horf svo sem hæfir sambandi tveggja sjálfstæðra og fullvalda ríkja.

Reykjavík, 13. október 2006

Þjóðarhreyfingin – með lýðræði
info@thjodarhreyfingin.is
www.thjodarhreyfingin.is

Ofbeldi leysir engan vanda

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Þórðar Sveinssonar birtist í styttri útgáfu í Fréttablaðinu

Oft er hamrað á því við börn og unglinga að ofbeldi leysi engan vanda. Ég sem hernaðarandstæðingur er mjög svo hallur undir þetta sjónarmið, en hið sama held ég að gildi raunar um flesta Íslendinga. Við teljum okkur vera friðsöm og má segja að það sé einn ríkasti þátturinn í sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Þess vegna erum við líka flestöll stolt af því að ekki er til íslenskur her – nema ef vera skyldu friðargæsluliðarnir í Afganistan.

En þrátt fyrir þetta hefur það verið staðföst stefna íslenskra stjórnvalda um alllangt skeið – með örfáum undantekningum þó – að hér verði að vera erlendur her og að Ísland verði að eiga aðild að hernaðarbandalaginu NATO. Annars sé öryggi okkar stefnt í voða, svo sem vegna hernaðar- eða hryðjuverkárása. Þessar ógnir hafa hins vegar löngum verið í meira lagi óljósar. Þannig blasir það við að ekkert ríki hefur nokkurn minnsta áhuga á að ráðast á Ísland. Þá hafa hryðjuverkamenn hingað til ekki beint árásum sínum að herlausum smáríkjum eins og Íslandi heldur einbeitt sér að stærri löndum, enda liggur það í augum uppi að árásir á smáríkin hafa lélegt áróðursgildi og eru því síst á meðal forgangsverkefna hryðjuverkakóna.

Í ljósi þessa þykir mér sem hernaðarandstæðingi kjörið að við Íslendingar göngum á undan með góðu fordæmi og höfnum öllum vígbúnaði og hernaðarbrölti. Ímynd okkar sem friðsamrar þjóðar – sem að vísu beið talsverðan hnekki vegna stuðningsins við Íraksstríðið – á að vera okkur næg vörn. Og þess vegna eigum við að sýna það og sanna fyrir umheiminum að vel má lifa í samræmi við það sjónarmið að ofbeldi leysir engan vanda – ekki aðeins á skólalóðinni og í samskiptum borgaranna innbyrðis heldur einnig á alþjóðlegum vettvangi.

Til að svo megi verða gengur ekki að hér sé erlendur her og er því vel að bandaríski herinn sé farinn frá Miðnesheiði. Og ekki gengur heldur að Ísland sé aðili að hernaðarbandalaginu NATO. Grunnforsendan fyrir tilvist herja og hernaðarbandalaga er jú einmitt sú að stundum sé ofbeldi lausn vandans. Herir hafa enda beinlínis það hlutverk að beita ofbeldi og drepa fólk þegar svo ber undir og má úti um allan heim sjá glögg dæmi þess hversu „góðum“ árangri þeir ná í slíku. Í Írak, Sri Lanka, Súdan, Afganistan og Kólumbíu, svo að nokkur dæmi séu nefnd, blasir hann við á hverjum einasta degi, en hann birtist í örkumlum og harmkvæladauða ótölulegs fjölda karla, kvenna og barna.

Þetta fólk þjáist og deyr vegna þeirrar hugmyndar, sem á sér svo mikinn hljómgrunn, að nauðsynlegt sé að hafa heri og vopnabúnað. Og á meðan sú hugmynd lifir mun fólki áfram verða fórnað á altari hernaðarhyggjunnar. Enginn veit hversu stórar styrjaldir framtíðarinnar verða, en ljóst er að með skæðustu vopnum nútímans – kjarnorkusprengjunum – má eyða öllu lífi á jörðinni. Er það því brýnt hagsmunamál allra jarðarbúa að öllum slíkum vopnum verði eytt. Vera Íslands í NATO útilokar að Ísland geti barist fyrir slíkum málstað, enda eru kjarnorkuvopn meðal vígbúnaðar bandalagsins sem telur þau nauðsynlegan þátt í að tryggja frið og öryggi.

Það er hins vegar mikill misskilningur. Kjarnorkuvopn tryggja alls ekki frið og öryggi heldur stofna hvoru tveggja í bráða og stórfellda hættu. Hið sama gildir auðvitað um öll vopn. Og þess vegnum eigum við að hafna öllum vígbúnaði og hernaðarbrölti og lifa sem friðsöm þjóð. Þetta sem hamrað er á við börnin og unglingana um gagnsleysi ofbeldis er jú engin lygi. Það blasir við í Írak. Það blasir við í Afganistan. Og það blasir við úti um allt. Ofbeldi leysir engan vanda.

Þórður Sveinsson

Kjarnorkuógn núna?

By Uncategorized

Alþjóðlegt átak til afvopnunar

Friðarfundur á Ingólfstorgi laugardag kl. 15

Við minnum á friðarfundinn á Ingólfstorgi laugardaginn 14. október n.k. kl. 15.00. Það er Húmanistahreyfingin sem beitir sér fyrir þessum fundi en hann er liður í alþjóðlegu átaki húmanista um allan heim fyrir afvopnun. Af þessu tilefni birtum við eftirfarandi grein eftir Júlíus Valdimarsson og hvetjum lesendur Friðarvefsins til að fjölmenna á fund Húmanistahreyfingarinnar á laugardaginn.

Já, kjarnorkuógn núna? Var hún ekki bara á dögum kaldastríðsins? Allavega eru ekki lengur stórar samkomur um allan heim til þess að mótmæla kjarnavopnum og krefjast afvopnunar. Skyldi það vera vegna þess að kjarnorkuvopn ógni ekki lengur jarðarbúum? Skyldi það vera vegna þess að nú sé mun friðvænlegra í heiminum heldur en þegar Sovétríkin og Bandaríkin stóðu hvort frammi fyrir öðru öðru með puttann á rauða hnappinum tilbúin til að senda kjarnorkuskeytin á víxl og hefja þannig tortímingu jarðarinnar?

Valdhafar hóta að beita kjarnavopnum
Í dag er talið að kjarnavopn séu um 30.000 talsins. Munu þau ekki verða notuð? Kjarnavopn hafa þegar verið notuð. Bandaríkjamenn hafa tvisvar varpað kjarnorkusprengjum, á Hirosima og Nagasaki í ágúst 1945. Mörghundruð þúsund manns létust og vansköpuð börn fæddust í mörg ár á eftir vegna afleiðinga þessa voðaverks af hendi lögmætrar ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Nú eru kjarnavopn í höndum fleiri ríkja en á tímum kaldastríðsins og óttast er að þau séu einnig í höndum ýmissa glæpasamtaka og annarra samtaka sem beita ofbeldi ekki síður en hinir svonefndu lögmætu valdhafar. Frakklandsforseti hefur nýlega látið að því liggja í opinberri ræðu að Frakkar muni svara hryðjuverkaárás með því að beita kjarnavopnum.

Alþjóðleg herferð fyrir afvopnum
Húmanistar hafa nú hafið alþjóðlega herferð fyrir afvopnun til þess að vekja athygli á þessari stærstu vá sem að mannkyninu steðjar á okkar dögum. Það þarf ekki að hugleiða nema augnablik til þess að sjá hve gífurlegt áfall það yrði í heimsbyggðinni ef kjarnorkusprengja yrði send á stórborg einhversstaðar í heiminum. Ímyndum okkur þau keðjuverkandi áhrif sem slíkur voðaatburður hefði í för með sér. Árásin á tvíburaturnana í New York 11. september 2001 yrði í samanburði við slíkan atburð eins og léttur löðrungur þótt sá hryllilegi atburður hafi eigi að síður kveikt stigvaxandi ófriðarbál sem gert hefur heiminn enn hættulegri en fyrr.

40 ríki með kjarnavopn eftir 20 ár
8 ríki viðurkenna nú þegar að eiga kjarnorkuvopn. 10 ríki til viðbótar eru grunuð um að vera að þróa kjarnorku á sviði hernaðar. Spáð er af Alþjóða kjarnorkustofnuninni að innan 20 ára hafi um 40 ríki yfir kjarnavopnum að ráða. Eyðileggarmáttur þeirra er geigvænlegur og getur haft úrslita áhrif á líf allra jarðarbúa. Við getum spurt okkur sjálf; slepp ég við afleiðingar kjarnasprenginga? Sleppa börnin mín? Sleppa barnabörnin mín?

Afnám ofbeldis NÚNA
Ofbeldi leiðir af sér ofbeldi. Það er engin leið önnur fær en afnám ofbeldisins nú. Silo, upphafsmaður Húmanistahreyfingarinnar og andlegur leiðbeinandi fjölda fólks um allan heim, hefur sett fram skýran boðskap til heimsins sem birtist um þessar mundir í lítilli sjónvarpsauglýsingu víða um heim. Í þessari orðsendingu segir meðal annars: “Til að hindra kjarnorkuvá í framtíðinni þurfum við að sigrast á ofbeldinu núna.”

Friðarathöfn á Ingólfstorgi laugardag 14. okt. kl. 15.00
Húmanistar á Íslandi gangast fyrir friðarathöfn laugardaginn 14. október n.k. þar sem sett er fram ósk um algjöra afvopnun núna. Verður myndað friðarmerki með litríkum blöðrum til þess að túlka þetta ákall um frið á jörðu. Ég hvet alla hugrakka menn og konur að mæta á þennan fund. Til þess að forðast ógnir kjarnorkuvopna þurfa ALLIR að taka þátt í baráttu fyrir friðsamlegum heimi fyrir okkur sem lifum nú og fyrir komandi kynslóðir.

Júlíus Valdimarsson
Höfundur starfar sem ráðgjafi og er leiðbeinandi í Húmanistahreyfingunni