Skip to main content

Friðarganga á Þorláksmessu

By Uncategorized

kertiÍslenskir friðarsinnar standa að blysför niður Laugaveginn á Þorláksmessu.
Safnast verður saman á Hlemmi og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Friðargangan á Þorláksmessu er nú orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra. Gangan í ár er sú tuttugasta og sjöunda í röðinni. Að venju munu friðarhreyfingarnar selja kyndla á Hlemmi í upphafi göngunnar.

Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur kórstjóra tekur að vanda þátt í blysförinni sem endar með stuttum fundi á Lækjartorgi.
Þar mun Falasteen Abu Libdeh frá Palestínu halda stutt ávarp. Fundarstóri verður Arnar Jónsson leikari. Fundinum lýkur síðan með friðarsöng.

Friðargöngur verða einnig á Akureyri og Ísafirði á Þorláksmessukvöld.

Enn fjölgar í hópi kjarnorkuvopnalausra sveitarfélaga

By Uncategorized

Fugl dagsinsSíðla árs 1999 hvöttu SHA íslensk sveitarfélög til að friðlýsa sig fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum. Undirtektir voru almennt góðar og í árslok 2002 var þorri sveitarfélaga búinn að gera slíkar samþykktir.

Á dögunum barst Samtökum hernaðarandstæðinga staðfesting á að nýtt sveitarfélag hefði bæst í hópinn. Húnavatnshreppur varð til í ár með sameiningu Bólstaðarhlíðarhrepps, Sveinsstaðahrepps, Svínavatnshrepps, Torfalækjarhrepps og Áshrepps. Tveir fyrstnefndu hrepparnir höfðu samþykkt friðlýsingu en erindinu ýmist verið vísað frá eða ekki fengist afgreitt í hinum hreppunum þremur.

Eftir þessa samþykkt Húnvetninga eru einungis tíu íslensk sveitarfélög sem ekki hafa fallist á þetta sjálfsagða baráttumál og standa vonir til að þeim muni fækka enn á næstu vikum. Sveitarfélögin sem hér um ræðir eru:

Garðabær
Gerðahreppur
Grindavík
Grímsnes- og Grafningshreppur
Hornafjörður
Reykjanesbær
Sandgerði
Skagabyggð
Skútustaðahreppur
& Vatnsleysustrandarhreppur

Tilkynnt verður jafnóðum um gang þessara mála hér á Friðarvefnum.