Skip to main content

Blysför á Akureyri í þágu friðar

By Uncategorized

AkureyriÁhugafólk um friðvænlegri heim stendur að hinni árlegu blysför í þágu friðar á Þorláksmessu, en gengið hefur verið frá árinu 2002. Gengið verður frá Samkomuhúsinu (Leikhúsinu) á Akureyri kl. 20.00 og út á Ráðhústorg.

Blysför í þágu friðar felur annars vegar í sér almennar jólaóskir um frið og hins vegar beinist hún gegn versta tilræðinu við friðinn nú um stundir, Íraksstríðinu.

Stíðið í Írak heldur áfram. Innrásaröflin verða stundum að breyta túlkun sinni á eðli þess. Flestar vestrænar fréttastofur (m.a. íslenskar) bergmála þá túlkun. Í byrjun var fylgismönnum Saddams helst kennt um ofbeldið. Síðan var áherslan lögð á al-Qaeda, ekki síst á al-Zarqawi, hinn blóðþyrsta jórdanska al-Qaedaliða. Eftir að hann var drepinn er kápunni enn snúið og nú kallast ofbeldið „átök trúarhópa” og „borgarastríð” og er túlkað sem stríð milli ofstækisfullra sía- og súnnímanna.

Stöku sinnum heyrast þó fréttir af að dauðsaveitir þær sem flesta myrða tengist svonefndri „ríkisstjórn” Íraks og C.I.A. og að allt sé þetta hluti af hinu grimmilega, löglausa og tilefnislausa ensk-bandaríska hernámi á Írak.

Innrásin og hernámið hefur enn fullan og yfirlýstan stuning Íslands.

Kjörorð okkar eru hin sömu og áður:

– Frið í Írak!
– Burt með árásar- og hernámsöflin!
– Enga aðild Íslands að stríði og hernámi!

Ávarp flytur Hlynur Hallsson, myndlistamaður
Kór Akureyrarkirkju syngur
Kerti verða seld í upphafi göngunnar.
Taka ber fram í ljósi verðurspár að aðeins verður gengið ef veður leyfir.

Áhugafólk um friðvænlegri heim

Leikarinn Sean Penn hvetur til að forseti Bandaríkjanna verði ákærður ásamt ráðherrum sínum og ráðgjöfum

By Uncategorized

penn 0 Meðal þeirra tugmilljóna manna sem mótmæltu innrásinni í Írak í mars 2003 var bandaríski leikarinn Sean Penn. 18. desember sl. var honum veitt viðurkenning kennd við leikarann látna, Christopher Reeve. Í ávarpi sem hann flutti við þetta tækifæri gagnrýndi hann bandarísk stjórnvöld harðlega

Í ávarpi sínu vék Penn meðal annars að möguleikanum á ákæru, sem gæfi „kjörnum þingmönnum okkar vald til að láta fara fram rannsókn. Vald til að leggja sannleikann á borðið. Mæður og feður missa börn sína á hræðilegan hátt í þessu stríði á hverjum degi. Hryllilegur dauði. Hryllilegar limlestingar. Var framinn glæpur með því að láta land okkar styðja þá ákvörðun að fara í þetta stríð? … Ef sönnur verða færðar á að framin hafi verið „landráð, mútur eða önnur alvarleg afbrot og afglöp“, gerum þá það sem lagt er fyrir í annarri grein fjórða kafla stjórnarskár Bandaríkjanna og víkjum „forseta, varaforseta og … embættismönnum Bandaríkjanna“ úr embætti. Ef dómsmálaráðuneytinu sýnist svo við hæfi að stinga þeim inn með Jeff Skilling [forstjóra Enron], látum þá svo vera.“

Ávarp Sean Penn má nálgast í heild á þessari slóð:
www.afterdowningstreet.org/node/16505