Skip to main content

Landsfundur SHA 12. september

By Tilkynningar, Viðburður

Að öllu jöfnu hefði landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga verið haldinn í marsmánuði en vegna heimsfaraldurs varð að fresta honum. Nýr fundartími hefur verið ákveðinn, laugardagurinn 12. september kl. 11.

Fundurinn verður haldinn í Friðarhúsi að viðhöfðum bestu sóttvarnarráðstöfunum. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf. Þau sem kynnu að vilja taka þátt í starfi miðnefndnar á komandi starfsári eru hvött til að gefa sig fram, t.d. með því að senda póst á netfang samtakanna: sha@fridur.is

Kertafleyting 2020

Kertafleyting 2020

By Tilkynningar, Viðburður

Í dag, 6. ágúst, eru 75 ár liðin frá kjarnorkuárásunum á Hírósíma og Nagasakí. Allt frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst þessa voðaverks og minnt á kröfuna um kjarnorkuvopnalausa veröld með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn. Við eðlilegar kringumstæður hefði margmenni mætt á bakka Reykjavíkurtjarnar til að sýna samstöðu.

Af sóttvarnarástæðum var ekki unnt að halda fleytinguna með hefðbundnum hætti. Þess í stað var efnt til fámennrar og táknrænnar fleytingar kl 23:15 að kvöldi 5. ágúst, á nákvæmlega sama tíma og sprengjan féll á Hírósíma fyrir 75 árum. Sigurður Skúlason leikari las við það tilefni ávarp Samstarfshóps friðarhreyfinga.

Kertafleyting

Kertafleyting með óvenjulegu sniði

By Fréttir, Tilkynningar

75 ár eru um þessar mundir frá því að Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengju á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasaki. Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst fórnarlamba þessara árása og um leið minnt á kröfuna um heim á kjarnorkuvopna með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn.

Kertafleytingin hefur verið fjölsóttur atburður enda málefnið brýnt. Ljóst er að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu er ekki unnt að halda aðgerðina með hefðbundnu sniði, vegna reglna um fjöldatakmarkanir. Þess í stað hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga ákveðið að haldin verði táknræn aðgerð þar sem fáeinir friðarsinnar koma saman, sem verði tekin upp og streymt á netinu að kvöldi 6. ágúst. Upptakan mun hins vegar fara fram klukkan ellefu að kvöldi hins 5. ágúst, um sama leyti og Hírósímasprengjan sprakk fyrir 75 árum.

Kjarnorkuvopn eru síst minni ógn í dag en á tímum Kalda stríðsins og eru nýlegar fréttir af áformum stórvelda, jafnt Nató-ríkja og Rússlands, um þróun nýrra og öflugri vopna til marks um það. Samstarfshópur friðarhreyfinga hvetur íslensk stjórnvöld til að snúast á sveif með þeim ríkjum sem undirritað hafa sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Friðarsinnar munu á ný koma saman við Reykjavíkurtjörn að ári.

Aldrei aftur Hírósíma – aldrei aftur Nagasaki!

Her­væðing lög­reglunnar

By Í brennidepli

Þeir sem eitthvað hafa fylgst með í fréttum og samfélagsmiðlum ættu að vera meðvitaðir um mótmælaölduna í Bandaríkjunum eftir að George Floyd var myrtur á hrottalegan hátt af lögreglumanni. Það er þó einföldun að telja að þetta eina atvik hafi hrundið af stað mótmælunum heldur eru þau afsprengi aldagamals kerfisbundins rasisma. Þeldökkt fólk í Bandaríkjunum er þrisvar sinnum líklegra til að verða drepið af lögreglunni heldur en aðrir kynþættir, og þó líklegra til þess að vera drepið óvopnað. Fannie Lou Hamer svaraði því hví hún héldi ótrauð áfram að ýta eftir réttindum svartra ,,I‘m sick and tired of being sick and tired.“ Tel ég að það sé betri útskýring á mótmælunum og umfangi þeirra. Fólk er sick and tired of being sick and tired.

Í Bandaríkjunum bera lögreglumenn ekki bara kylfur, handjárn og piparúða líkt og hér á Íslandi. Í mótmælunum í Bandaríkjunum sést lögreglan nota brynvörð farartæki, skriðdreka, og á götunum marsera lögreglumenn með hríðskotabyssur á meðan drónar og þyrlur svífa yfir. Þetta eru hergögn notuð gegn þeirra eigin borgurum. Hergögn sem eiga að vernda hvít forréttindi eru í höndum þeirra sem framfylgja og viðhalda kerfisbundnum rasisma.

Afhverju er ég að skrifa um þetta? Jú af því að allt of oft hefur verið reynt að hervæða lögreglunnar hér á landi. Síðasta tilvikið var núna í maí síðastliðnum þegar tekinn var í notkun sérhannaður bíll til að sinna landamæraeftirliti sem „mun nýtast vel…þar sem þörf er á að skoða og sannreyna skilríki svo sem í vinnustaðaeftirliti“ segir á vefsíðu lögreglunnar. Árið 2014 keypti íslenska lögreglan hríðskotabyssur frá norska hernum. Enn er óvíst hvernig það mál endaði, hvort að byssurnar séu enn hér í landi eða að þeim hafi verið skilað aftur til Noregs eftir mótmæli almennings. Árið 2017 voru sýnilega vopnaðir lögreglumenn á fjölskylduskemmtuninni Color Run. Þáverandi ríkislögreglustjóri sagði þetta vera gert vegna mannskæðra árása í erlendum borgum og auknum fjölda erlendra borgara á Íslandi.

Á Íslandi er inngróinn kerfisbundinn rasismi í lögreglunni og Útlendingastofnun. Ítrekað hefur lögreglan tekið þátt í að flytja flóttamenn úr landi og handtekið farandverkamenn án starfsleyfis. Í mars 2019 beitti lögreglan táragasi í friðsælum mótmælum hælisleitenda á Austurvelli. Við viljum ekki að þannig stofnanir hafi völd og rétt til að drepa okkar eigin George Floyd. Lausnin liggur frekar í því að fjölga lögreglumönnum og semja við þá um mannsæmandi kjör (lögreglumenn hafa nú verið samningslausir í 15 mánuði og eru án verkfallsrétts). Látum ekki undan þeirri kröfu sem heyrist núna að lögreglan hér á landi verði vopnuð enn frekar til að bregðast við ofbeldi.

Á sama tíma vil ég hvetja fólk til að kynna sér hvít forréttindi, rasisma á Íslandi, hlusta á sögur fólks af rasisma og valdefla það.

Ólína Lind, ritari