Skip to main content

Bandarískar herstöðvar í Afríku og baráttan gegn þeim.

By Uncategorized

africa Þegar nafni samtaka okkar var breytt í Samtök hernaðarandstæðinga hættu þau ekki að vera samtök herstöðvaandstæðinga. Ástæða þess að Bandaríkjastjórn ákvað að flytja herlið sitt frá Íslandi var ekki að hún væri almennt að leggja niður herstöðvar heldur er hún að færa herstöðvar sínar til og meðal annars eru Bandaríkin nú að vinna að uppbyggingu herstöðvanets í Afríku.

Á 7. Alþjóðlega samfélagsþinginu í Nairobi í janúar skipulögðu Alþjóðasamtök herstöðvaandstæðinga (International Network for the Abolition of Foreign Military Bases) málþing um bandarískar herstöðvar í Afríku. Bandaríkin hafa að undanförnu verið að styrkja hernaðarstöðu sína í Afríku, meðal annars í Alsír, Malí, Guineu og Djibouti. Sérsveitir bandaríska hersins hafa þegar komið sér fyrir á horni Afríku og áformað er að koma á fót sérstakri herstjórn fyrir Afríku á sama hátt og Kyrrahafsherstjórnin sinnir megninu af Asíu og Kyrrahafinu og Suðurherstjórnin sinnir Rómönsku Ameríku. Bandarísk stjórnvöld segja þetta vera vegna hryðjuverkahættunnar og nú er Afríka sunnan Sahara skilgreind sem hluti af hinum ótrygga hluta heimsins („global arc of instability“) þar sem þörf er á að Bandaríkin styrki hernaðarstöðu sína. Hin raunverulega ástæða er þó líklega frekar sú að 16% af orkuinnfutningi Bandaríkjanna kemur nú frá Guinea-flóanum og verður trúlega 25% árið 2015.

Það er því full ástæða fyrir herstöðvaandstæðinga að efla starf sitt í Afríku. Um það snerist annað málþing sem Alþjóðasamtök herstöðvaandstæðinga héldu á samfélagsþinginu í Nairobi. Á alþjóðlegri ráðstefnu herstöðvaandstæðinga sem hefst í Ekvador í næstu viku er stefnt að því að koma á öflugra skipulagi herstöðvaandstæðinga á heimsvísu. Í Evrópu, Asíu og Rómönsku Ameríku er starfsemi herstöðvaandstæðinga þegar allöflug. Með ráðstefnunni í Ekvador og uppbyggingu alþjóðlegs samstarfs er stefnt að því að efla þetta starf enn frekar og þá meðal annars að styðja við skipulagningu herstöðvaandstæðinga í Afríku.

www.afrol.com/articles/14269
www.globalsecurity.org

Höfnum heræfingum á Íslandi! Höfnum innrás í Íran!

By Uncategorized

Ástæða er til að vekja athygli á tveimur greinum sem nýlega hafa birst á vefritinu Múrnum.

Annarsvegar fjallar Huginn Freyr Þorsteinsson um þann áróður sem nú er hafinn gegn Íran og minnir mjög á undirbúninginn að innrásinni í Írak fyrir fjórum árum. Grein Hugins heitir Íran og Morgunblaðið.

Hinsvegar er grein eftir Steinunni Þóru Árnadóttur þar sem fjallað er um áætlanir um reglulegar heræfingar hér á landi. „Hver veit nema hermennirnir sem nú drepa íraska borgara hafi einmitt æft aðferðirnar hér á landi?“ segir Steinunn. Grein hennar heitir Höfnum heræfingum á Íslandi!

Byrjum Safnanótt í Friðarhúsi

By Uncategorized

KokkurSafnanótt Reykjavíkur verður haldin föstudagskvöldið 23. febrúar n.k. Boðið verður upp á frábæra dagskrá um alla borg, sem stendur til miðnættis og jafnvel lengur.

Er hægt að hugsa sér betri byrjun á Safnanótt en að fá sér staðgóðan kvöldverð í Friðarhúsi áður en haldið er út á menningargaleiðuna?

Á menningarnótt í fyrra var troðfullt hús á málsverði þessum, en þá las rithöfundurinn Andri Snær Magnason í fyrsta sinn opinberlega upp úr nýútkominni bók sinni, Draumalandinu.

Að þessu sinni hefst málsverðurinn með fyrra fallinu – kl. 18:30 – en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Yfirkokkar verða að þessu sinni mæðginin Unnur Jónsdóttir og Gísli & Friðrik Atlasynir. Málsverðurinn kostar sem fyrr 1.500 kr.

Matseðill:
Pasta w Pesto SauceKarrí kjúklingasúpa
Pastasalat
Hrísgrjónaréttur
Nýbökuð brauð og hummus

Þar sem Vetrarhátíð Reykjavíkur er að þessu sinni helguð fransk/íslenskum menningarsamskiptum, varð að ráði að nota kvöldið til að rifja upp Gervasoni-málið, sem skók íslenskt þjóðfélag í upphafi níunda áratugarins. Þar var tekist á um grundvallaratriði sem enn eru í fullu gildi.

Margrét Jónasdóttir og Eva María Jónsdóttir segja frá Gervasoni málinu og sýna brot úr heimildarmynd sinni. – Umræður og innlegg fróðra.

Þorvaldur Þorvaldsson syngur Le Deserteur