Skip to main content

Rússar og NATO í nýtt kalt stríð?

By Uncategorized

natoexpansion Rússar og NATO í nýtt kalt stríð? Þetta er fyrirsögn á fréttasíðum Textavarps Ríkisútvarpsins í dag. Tilefnið er að Rússlandsstjórn sagðist í dag ekki ætla að tilkynna aðildarríkjum NATO né öðrum ríkjum um herflutninga innan eigin landamæra, eins og kveðið er á um í afvopnunarsamningi um hefðbundinn herafla í Evrópu frá 1990, og Pútin, forseti Rússlands, hefur tilkynnt að afvopnunarsamningurinn sé úr gildi fallinn.

Þetta er svar við ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að koma fyrir gagnflaugakerfi í Tékklandi og Póllandi. Pútín segir flaugarnar vera beina ógn við þjóðaröryggi Rússlands en Bandaríkjastjórn segir tilganginn að verjast hryðjuverkamönnum og ríkjum eins og Íran.

Þetta gerist á sama tíma og Rússar gagnrýna eistnesk stjórnvöld harðlega og hafa stöðvað útflutning á olíu og kolum til Eistlands umdeilds vegna flutnings á minnismerki í Tallín um sovéska hermenn í seinni heimstyrjöldinni.

Rússum ögrað
Það er auðvitað stóralvarlegt mál ef Rússar tilkynna það að afvopnunarsamningurinn frá 1990 sé fallin úr gildi. En eins og fram kemur í frétt RÚV hefur þetta sinn aðdraganda. Í rauninni hafa Rússar mátt sætt sig við ótrúlega ögrun af hendi Bandaríkjanna og NATO undanfarinn áratug. NATO hefur stækkað til austurs, frá því 1999 hafa tíu fyrrverandi austantjaldslönd gengið í NATO, þar á meðal þrjú fyrrverandi Sovétlýðveldi, og þrjú eru í inngönguferli. Tvö fyrrum Sovétlýðveldi, Úkraína og Georgía, eru í ferli sem miðar að inngöngu í NATO, þótt ekki sé enn um beinar aðildarviðræður að ræða, og önnur fjögur, Aserbaídsjan, Armenía, Kasakstan og Móldóva, hafa samstarf við NATO sem er þróað áfram með formlegum hætti.

Þá hafa Bandaríkin margvíslegt hernaðarlegt samstarf við þessi ríki, þar á meðal herstöðvar eða aðra hernaðarlega aðstöðu. Hér er auðvitað gífurleg breyting frá tímum kalda stríðsins þegar öll Austur-Evrópa var milli NATO og Sovétríkjanna. Nú er NATO komið upp að landamærum Rússlands norðan við Hvíta-Rússland og með náið samstarf við nágrannaríki Rússlands þar fyrir sunnan og austan, í sumum tilvikum með stefnu þeirra á aðild. Rússland hefur dregið allt herlið sitt út úr gömlu austantjaldsríkjunum og mörgum fyrrum Sovétlýðveldum og er að draga það út úr öðrum, en um leið og jafnvel áður koma NATO og Bandaríkin með sitt herlið eða hernðarráðgjafa í staðinn.

Árið 2002 sögðu Bandaríkin einhliða upp ABM-samningnum frá 1972 um takmörkun gagnflaugakerfa, samning sem þótti mjög mikilvægur í afvopnunarviðleitninni, og síðan hafa Bandaríkin verið að byggja upp gagnflaugakerfi í samráði við NATO og eru m.a. að koma upp aðstöðu fyrir gagnflaugar í Póllandi og Tékklandi.

En það er ekki nóg með að NATO hafi stækkað upp að landamærum Rússlands, NATO er líka farið að starfa utan síns svæðis, sem það gerði ekki á tímum kalda stríðsins, fyrst á Balkanskaganum á tíunda áratugnum, gerði síðan innrás í Júgóslavíu gegn vilja Rússa 1999 og stendur svo í hernaði í Afganistan og Írak auk ýmiskonar annarrar starfsemi.

Rússum er boðið upp á ýmiskonar samstarf og samráð, svo sem gegnum Samstarf í þágu friðar (Partnership for Peace – PfP) og fleira, og hafa þegið það. En allt er þetta á forsendum NATO og Bandaríkjanna. Samstarf í þágu friðar þröngvar sér inn á vettvang Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) en í stað þess að allir koma jafnir og á samskonar forsendum að ÖSE er PfP algerlega á forsendum Bandaríkjanna og NATO. Auðvitað er öllum sjálfstæðum ríkjum frjálst að ganga í NATO ef NATO vill taka við þeim. En það breytir því ekki að Rússum er ekki aðeins ögrað heldur eru þeir niðurlægðir og sáttfýsi þeirra og vilja til samvinnu er mætt með útþenslu NATO og auknum vígbúnaði í vestri. Þannig má segja að Bandaríkin og NATO hafi allt frá lokum kalda stríðins verið að búa í haginn fyrir nýtt kalt stríð.

Einar Ólafsson
Mynd: http://germanhistorydocs.ghi-dc.org/map.cfm?map_id=603

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir – I.hluti, varnarsamningur Íslands og BNA

By Uncategorized

kosningarÍ aðdraganda Alþingiskosninga 2007 sendi miðnefnd SHA spurningalista til íslensku stjórnmálaflokkanna, þar sem þeir voru inntir eftir afstöðu sinni til öryggis- og friðarmála.

Svör bárust frá fjórum framboðum. Frjálslyndi flokkurinn benti á stefnuskrá sína en sagðist ekki hafa tíma til að svara spurningunum. Engin viðbrögð bárust frá Sjálfstæðisflokki þrátt fyrir ítrekanir. Svörin við spurningalistanum hafa þegar birst í Dagfara, en verða sömuleiðis sett hér á Friðarvefinn á næstu dögum.

1. Spurning
Hver er afstaða framboðsins til varnarsamnings Íslands og BNA? Er framboðið hlynnt því eða andvígt að samningnum verði sagt upp?


Svar Framsóknarflokksins (Sæunn Stefánsdóttir, ritari Framsóknar, svaraði fyrir hönd flokksins):

Framsóknarflokkurinn er andvígur því að varnarsamningi Íslands og
Bandaríkjanna frá árinu 1951 verði sagt upp. Varnarsamningurinn við Bandaríkin hefur þjónað tilgangi sínum í áranna rás og eru varnarskuldbindingar Bandaríkjanna, sem í samningnum felast, sérstaklega mikilvægar herlausri þjóð. Það er frumskylda stjórnvalda að gera ráðstafanir svo verja megi land og borgara þess gegn utanaðkomandi vá. Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna gegnir þar veigamiklu hlutverki og með undirritun varnarsamkomulags milli ríkjanna í október á síðasta ári var gildi hans enn áréttað.

Svar Íslandshreyfingarinnar:

Íslandshreyfingin Lifandi land er andvíg því að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin. Varnarsamningurinn hefur frá 1951 verið trygging fyrir öryggi Íslands á viðsjárverðum tímum og sannaði gildi sitt með öflugu eftirliti Bandaríkjamanna í lofthelgi Íslands á dögum kalda stríðsins. Gildi varnarsamningsins hefur ekki minnkað þótt að þörfin fyrir veru bandarískra herflugvéla hér á landi hafi lokið eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins og herstöðinni í Keflavík hafi verið lokað. Það er skylda íslenskra stjórnvalda að tryggja öryggi landsmanna og þótt að í augnablikinu séu ekki til staðar neinar áþreifanlegar ógnir frá hendi annars ríkis þá geta veður skipast fljótt á lofti.

Svar Samfylkingarinnar:

Við höfum ekki lagt til uppsögn varnarsamningsins.

Svar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs:

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafði það frá upphafi á stefnuskrá sinni að Ísland yrði herlaust land og engar herstöðvar skyldu leyfðar í landinu. Nú hefur það góðu heilli gerst að Bandaríkjaher er horfinn af landi brott. Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur rétt að kasta fyrir róða öllum leifum þess úrelta ástands sem grundvallaðist á svokölluðum „varnarsamningi” við Bandaríkin, og þá ekki síst plagginu sjálfu.

Vera hersins á Íslandi jók aldrei á öryggi þess, heldur var hann þvert á móti skotmark, hvort heldur litið er til tímabilsins fyrir eða eftir 1990. Tilraunir ríkisstjórna síðustu 15 ára til að halda í herstöðina á Miðnesheiði og lengja lífdaga áðurnefnds samnings, voru Íslandi ekki til framdráttar og leiddu á endanum til eins dapurlegasta atburðar sem orðið hefur í utanríkismálum landsins frá lýðveldisstofnun, þ.e. stuðnings ríkisstjórnarinnar við innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak.

1. maí kaffi SHA

By Uncategorized

kaffibolliMunið 1. maí kaffi Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi frá kl. 11. Setið verður að spjalli fram að kröfugöngu, sem leggur af stað frá Hlemmi kl. 13:30.