Skip to main content

Kertafleyting 9.ágúst í Reykjavík og á Akureyri

By Uncategorized

kertafleyting1

Kertafleyting verður við Tjörnina í Reykjavík og við Minjasafnstjörnina á Akureyri fimmtudaginn 9.ágúst næstkomandi kl. 22:30.

Athöfnin er í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí og lögð er áhersla á kröfuna um friðsaman og kjarnorkuvopnalausan heim.

Nú eru liðin sextíu og tvö ár frá kjarnorkuárásunum á Hírósíma og Nagasakí en þær voru 6. og 9.ágúst 1945. Þetta er í tuttugasta og þriðja skiptið sem kertum er fleytt á Tjörninni í Reykjavík af þessu tilefni.

Í Reykjavík verður safnast við Suðvesturbakka Tjarnarinnar (við Skothúsveg) klukkan 22:30 en þar mun Gunnar Hersveinn heimspekingur flytja stutt ávarp áður en kertunum verður fleytt. Fundarstjóri verður Heiða Eiríksdóttir tónlistarmaður.

Á Akureyri verður safnast saman við Minjasafnstjörnina kl 22:30. Ávarp flytur Inga Þöll Þórgnýsdóttir, bæjarlögmaður.

Að venju verða flotkerti og friðarmerki seld á staðnum.

Samstarfshópur friðarhreyfinga skipuleggur kertafleytinguna í Reykjavík. Að honum standa:

Félag leikskólakennara.
Friðar og mannréttindahópur BSRB
Friðar og mannréttindanefnd Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar
Menningar og friðarsamtök íslenskra kvenna
Samtök hernaðarandstæðinga
SGI á Íslandi (Friðarhópur búddista)

Ísland úr NATÓ strax!

By Uncategorized

eftir Rúnar Sveinbjörnsson

Samkvæmt mínum upplýsingum eru 13 Íslendingar nú að störfum hjá Nató í Afganistan. Landinn er að sjálfsögðu undir vopnum eins og komið hefur fram. En skyldu menn hafa hugsað út í afleiðingar þátttöku í stríði? Getur verið að Íslendingar hugsi sem svo, að við séum svo smá og svo notaleg og góð að það taki því ekki að hugsa illa til okkar? Ekki einu sinni af hálfu Afgana; fólks sem lítur á Nató sem innrásarher í land sitt.

Hvað skyldi það nú annars þýða í alþjóðlegu samhengi að senda 13 hermenn inn í Afganistan? Bandaríkjamenn eru eitt þúsund sinnum fjölmennari en við. Ef við yfirfærðum okkar framlag í mannafla– drengina okkar 13 – yfir á bandarískar stærðargráður næmi herafli Íslands í Afganstan hvorki meira né minna en 13.000 soldátum!

Stríðið í Afganistan er eitt viðbjóðslegasta stríð sem um getur og er af nógu að taka. Inn í þetta stríð erum við óumdeilanlega komin; stríð sem hvorki getur sigrast né tapast. Nýjustu fréttir herma að Talibanar, sem studdir voru hér á árum áður af bandamönnum ,,okkar”, séu um þessar mundir að murka lífið úr einum og einum gísl – þeir munu vera frá Kóreu að því er ég best veit. Og ástæðan? Nató-leppstjórnin í Afganistan getur ekki hugsað sér að sleppa nokkrum skæruliðum Talibana úr fangelsi í skiptum fyrir gíslana. Heldur skulu saklausir gíslar drepnir en að nokkrum föngum sé sleppt! Hervaldið má ekki sýna veikleika!

Nú kemur spurningin: Hvað ef þetta væru Íslendingar? Hver yrði afstaða ríkisstjórnar Samfylkingar og Íhaldsins? Myndi hún láta drepa Íslendingana? Myndum við hverfa á brott frá Afagnistan með landana okkar 13 ef það yrði til þess að frelsa gísla í haldi Talibana?

Þetta er raunveruleg spurning. Hvert yrði svarið? Þarf ekki ríki sem vill komast í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að geta svarað einfaldri spurningu eins og þessari?
Væri ekki við hæfi að flokkur utanríkisráherrans, Samfylkingin, byrjaði á því að svara þessari spurningu? Hvers vegna spyr enginn fjölmiðill? Hvað finnst íslenskum utanríkisráðherra um nýjustu gíslatöku og kröfu um að Kóreumenn dragi sig frá Afganistan? Taka íslensk stjórnvöld afstöðu með Bush og Suður-Kóreustjórn eða með gíslunum?

Hvar eru annars gömlu samherjarnir mínir sem kusu að fara í Samfylkinguna; þeir sem gengu með mér frá Keflavík, stóðu fyrir framan bandaríska sendiráðið og börðust fyrir friði? Hvaða fána halda þeir nú á lofti? Fána baráttu fyrir réttlæti – ekki trúi ég öðru en þeir vilji hafa þann fána í hönd. En er sá fáni nú uppi í okkar nafni í Írak og í Afganistan? Getur verið að nokkur maður trúi því að sá fáni hafi verið dreginn að húni þar sem innrásarherir Nató hafa farið um? Því trúir enginn maður – allra síst held ég að gamlir baráttufélagar mínir sem gengu til liðs við Samfylkinguna séu á þessari skoðun – alla vega ekki innst inni. Ég ætla að leyfa mér að hvetja allt baráttufólk hvar í flokki sem það stendur að taka höndum saman og andæfa glórulausri árásarstefnu Bnadaríkjanna og hernaðarbandalagsins Nató, sem Bush virðist hafa í bandi og leiða að eigin vild.

Krafa okkar á að vera afdráttarlaus: Ísland úr Nató strax!

Rúnar Sveinbjörnsson

P.s. Ef Gömlu félagar mínir hafa gefist upp er það minnsta sem þeir geta gert, að gefa gömlu Keflavíkurskóna sína til Afganistan, þeir þurfa ekki að vera par, stakir duga, þökk sé Nató.
RS

„Varnarstefna“ ríkisstjórnarinnar og spurningar Þorsteins Pálssonar

By Uncategorized

Eftirfarandi grein birtist á vefriti Ögmundar Jónassonar, ogmundur.is, 30. júlí

Fram hefur komið í fréttum að ríkisstjórnin hafi samþykkt að orustuþotur Nató muni koma hingað til lands til æfinga og eftirlits ársfjórðungslega. Íslendingar muni bera allan kostnað af herliðinu auk kostnaðar af ratsjárstöðvunum fjórum. Þær upphæðir sem hér er um að tefla eru gríðarháar eða á annan milljarð króna, talsvert meira en allur rekstrarkostanður menntastofnunar á borð við Háskólann á Akureyri! Haft er eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, að kostnaður við þessa áætlun hafi ekki verið tekinn saman en hann sé lægri en hann hefði getað orðið (Fréttablaðið 29.júlí)!
Það er nefnilega það!!

En hefði ekki þótt eðlilegt að ræða það við Alþingi ef setja hefði átt á laggirnar stóra háskólastofnun á kostnað skattborgarans? Hví þá ekki tilkostnað við NATÓ?

Áður hefur utanríkisráðherra sagt að kostnaðurinn muni birtast á hausti komanda í fjárlögum fyrir næsta ár. Af því tilefni sagði ritstjóri Fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson í leiðara 27.júlí, að þetta veki “þá spurningu hvort fjárlögin eru réttur vettvangur til þess að birta í fyrsta sinn þá stefnu sem Ísland ætlar að framfylgja varðandi einstök verkefni og umsvif í varnarviðbúnaði. Þarf ekki stefnumótun þar um að liggja fyrir með rökstuddu mati á nauðsynlegri starfsemi? Er ekki eðlilegt að sjálfstæð umræða fari fram um þá stefnumótun?… Meðan varnarmálin voru alfarið á herðum Bandaríkjamanna lutu efnislegar umræður um þau fyrst og fremst að milliríkjasamningum þar að lútandi. Kostnaðurinn var ekki áhyggjuefni. Nú eru þessi mál í okkar höndum. Það kallar á opna opinbera umræðu um einstök viðfangsefni, stefnumótandi ákvarðanir og kostnaðarmat.”

Undir þetta skal tekið. Einnig vangaveltur ritstjórans almennt um framtíðarskipan ratsjáreftirlits við Ísland og þá ekki síður um stefnu okkar í öryggis- og hernaðarmálum almennt. Þannig er eðlilegt að spyrja hvar skilin eigi að vera á milli borgaralegrar öryggisgæslu og hernaðarumsvifa? Þessi umræða hefur aldrei farið fram á Alþingi þannig að stefna hafi þar verið mótuð í ljósi nýrra aðstæðna eftir brottför Bandaríkjahers. Hins vegar eru okkur að birtast ákvarðanir rétt eins og að fyrir liggi skýr stefna hvað þetta snertir. Allt tal forsvarsmanna Samfylkingarinnar um samráð og vandaða og breiða umræðu um varnarþörf Íslands og fyrirkomulag til frambúðar eru orðin tóm. Samfylkingin er þannig beint framhald Framsóknar en ekki verður sagt að risið á henni í utanríkismálum hafi verið hátt.

Augljóst er að þegar Alþingi kemur saman í haust mun fara fram rækileg umræða um varnir og öryggi Íslands, skuldbindingar okkar og markalínur á milli borgaralegra og hernaðarlegra þátta. Ekki verður betur séð en að með samningum sínum við NATÓ, skilgreiningu á hernaðarsvæði á Keflavíkurflogvelli og fjármögnun okkar á komu orustuflugvéla NATÓ sé verið að fella þá múra sem hafa verið á milli borgaralegrar starfsemi annars vegar og hernaðarlegrar hins vegar, án þess að nokkurn tíma hafi verið tekin ákvörðun um að hervæða Ísland.