Skip to main content

Málsverður í Friðarhúsi

By Uncategorized

Systa eldarFjáröflunarmálsverðurinn í Friðarhúsi, föstudagskvöldið 30. nóvember er glæsilegt jólahlaðborð, en matseðillinn er á þessa leið:

Heimalöguð sænsk jólaskinka með karöflusalti, gulrótar appelsínusalati og sinnepssósu

Heimagerð lifrakæfa (verður borin fram heit) og heimagert rúgbrauð

Karrýsíld

Tómatsalsasíld.

Fyrir þá sem ekki borða kjöt verður hnetusteik.

Kaffi og konfekt

Guðrún V. Bóasdóttir(Systa) sér um matseld.

Verð kr 1500. Húsið verður opnað kl. 19.

Ályktun IV – tilmæli til fréttastofu RÚV

By Uncategorized

Eftirfarandi tilmæli til fréttastofu Ríkisútvarpsins voru samþykkt á landsfundi SHA um helgina. (Öðrum fjölmiðlum er að sjálfsögðu heimilt að tileinka sér efni þeirra.)

Tilmæli til fréttastofu Ríkisútvarpsins

Í áratugi hafa áróðursheitin varnarsvæði, varnarlið, varnarbúnaður o.s.frv. tíðkast í umræðu um umsvif og aðstöðu bandaríska hersins á Íslandi. Nú þegar herinn er farinn og blekkingarnar um varnargildi hans öllum ljósar þjóna þessi gömlu áróðursheiti ekki hagsmunum neinna lengur (annarra en þeirra sem falsa vilja söguna). Landsfundur SHA, haldinn 24. nóvember 2007, fer því þess á leit við fréttastofu RÚV að hún leggi þessa málnotkun af og noti í staðinn hlutlaus orð s.s. setulið, herstöðvar og herstöðvasvæði um þessi fyrirbrigði en tengi það hvorki vörnum né öryggi.

Ályktun III – um almannavarnir og heræfingar

By Uncategorized

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á landsfundi SHA í Friðarhúsi, laugardaginn 24. nóvember 2007:

Um almannavarnir og heræfingar

Landsfundur SHA haldinn laugardaginn 24. nóvember 2007 varar sterklega við þeirri tilhneigingu sem orðið hefur vart á síðustu misserum að spyrða saman borgaralegar öryggisstofnanir samfélagsins, svo sem almannavarnir, landhelgisgæslu, lögreglu og björgunarsveitir við hernaðarlega starfsemi – eins og gert hefur verið m.a. í tengslum við heræfingar. Til dæmis hafa heræfingar erlendra sveita hér við land verið réttlættar með vísan til slysavarna, viðbragða við mengunarslysum og annars álíka – sem augljóslega er þó á verksviði borgaralegra aðila.

Ályktun II – um hernaðinn í Írak

By Uncategorized

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á landsfundi SHA í Friðarhúsi, laugardaginn 24. nóvember 2007:

Um stríðið í Írak

Samtök hernaðarandstæðinga lýsa yfir ánægju sinni með þá ákvörðun utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að kalla heim liðsmann Íslands í hernámsliðinu í Írak. Jafnframt minna SHA á að stuðningur Íslands við Íraksstríðið – sem samkvæmt rannsóknum hefur kostað hundruð þúsunda og jafnvel yfir milljón mannslífa – hefur enn ekki verið afturkallaður. Var það þó á meðal kosningaloforða núverandi utanríkisráðherra fyrir síðustu þingkosningar að afturkalla þennan stuðning.

SHA skora á utanríkisráðherra og ríkisstjórnina að bæta úr þessu þegar í stað og lýsa því yfir á alþjóðavettvangi að stuðningur Íslands við innrásina í Írak 2003 sé dreginn til baka og að beðist sé afsökunar á honum. Ákvörðunin um þennan stuðning – sem var réttnefnd stríðsyfirlýsing – er ein sú alversta í gervallri sögu íslenskrar utanríkisstefnu og henni má ekki sópa undir teppið.