Skip to main content

Átökin í Kákasus

By Uncategorized

eftir Árna Þór Sigurðsson

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 11. ágúst

Hernaðarátökin í Kákasus eru hörmuleg eins og stríðsrekstur ævinlega er. Það eru saklausir borgarar sem líða og falla fyrir sprengjum og skotárásum á báða bóga. Það er því brýnt að stöðva átökin milli Georgíu og Rússlands og koma á vopnahléi til að unnt verði að leita pólitískra lausna á deilunni.

Skyggnst í söguna
Á Vesturlöndum er sú skoðun almenn að hér séu Rússar með enn einn yfirganginn gegn litlu ríki, Georgíu, sem vill treysta sjálfstæði sitt í sessi. Það er líka sú mynd sem stjórnvöld hér vestra og fjölmiðlar draga gjarnan upp, það er jú ósköp þægilegt að hafa óvin eins og Rússa til að benda á og gera að blóraböggli. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins er hér engin undantekning.

En það getur verið hollt að skyggnast bak við tjöldin, skoða söguna og bera saman við önnur dæmi sem geta haft þýðingu gagnvart þeirri deilu sem uppi er í Kákasus. Vitaskuld er unnt að setja þessa deilu í það samhengi að hún snúist um hugsanlega aðild Georgíu að NATO og hernaðarlegar afleiðingar þess fyrir Rússa, það er hægt að nefna olíuna sem leidd er í gegnum þetta svæði o.fl. Átökin á Balkanskaga snerust á sinn hátt líka um yfirráð stórvelda, stöðu þeirra í alþjóðastjórnmálum og viðskiptum. Stríðsreksturinn í Írak nú og fyrr sömuleiðis. Og því miður hneigjast menn til að horfa eingöngu á þetta yfirborð.

Arfleifð Stalíns
Sjálfsstjórnarhéruðin Suður-Ossetía og Abkhasía liggja innan landamæra Georgíu eins og þau eru viðurkennd af alþjóðasamfélaginu. Þess er nú krafist að þau landamæri séu virt. Á hitt er að líta að þarna búa þjóðir sem vilja sjálfstæði, hafa eigin menningu, sögu og tungumál. Og þær hafa verið þvingaðar undir georgísk yfirráð. Barátta þeirra fyrir því að ráða sér sjálfar er ekki ný af nálinni. Rússeska keisaradæmið fór með hernaði gegn þeim á 19. öld. Í kjölfar rússnesku byltingarinnar stofnuðu Menshevíkar sjálfstætt ríki Georgíu þar sem Abkhazía var hluti en áttu í miklum erjum við íbúana sem kærðu sig ekkert um þá tilhögun. Þegar Georgía samdi um aðild sína að Sovétríkjunum varð t.d. Abkhazía sjálfstætti lýðveldi í tengslum við Georgíu. Það var hins vegar ákvörðun Jósefs Stalíns að þessi sjálfsstjórnarhéruð yrðu hluti af Sovétlýðveldinu Georgíu. Og í kjölfarið hóf sá illræmdi Lavrentíj Bería, yfirmaður KGB, að skipuleggja fólksflutninga, m.a. að flytja Georgíumenn til héraðanna. Það er við þessa arfleifð stjórnar Stalíns sem þjóðirnar eru m.a. að berjast í dag. Og það er í raun skömm að því að Vesturlönd skuli ekki sýna þessum þjóðum stuðning við að brjótast undan stalínismanum ef svo má að orði komast.

Sjálfsákvörðunarréttur – sjálfsögð mannréttindi
Ossetar og Abkhasar eru ekki Georgíumenn. Eiga raunar lítið sameiginlegt með þeim nema hin formlegu landamæri. Suður-Ossetar eru hluti af stærri þjóð, þar sem meirihlutinn býr í Norður-Ossetíu sem tilheyrir Rússlandi. Meirihluti þessara þjóða ber rússneskt ríkisfang. Það er hægt að gera lítið úr því og segja að Rússar hafi útbýtt vegabréfum til þeirra sem það vildu hafa. Hin hliðin á þeim peningi er auðvitað spurningin hvers vegna Georgíustjórn hefur ekki veitt þessum þjóðum sjálfsögð borgaraleg réttindi eins og ríkisfang? (Ég hef hér ekkert minnst á þriðja sjálfsstjórnarhéraðið í Georgíu, Adjaríu, þar sem það hefur ekki dregist inn í þessi átök.)

Burtséð frá því hvar menn kunna að standa í deilum stórveldanna, með eða móti NATO eða ESB o.s.frv., þá stendur í mínum huga eftir spurningin um sjálfsákvörðunarrétt ossetísku og abkhösku þjóðanna. Er réttur þeirra annar og minni en til dæmis Albana í Kosovo? Eða hver yrði afstaða okkar ef Færeyingar lýstu yfir sjálfstæði? Það er fyrst og fremst vanvirða og lítilsvirðing við þessar þjóðir að horfa fram hjá áralangri baráttu þeirra fyrir sjálfsákvörðunarrétti en beina sjónum þess í stað aðallega að átökum stjórveldanna, framferði Rússa, hagsmunum NATO og Bandaríkjanna. Um það allt má vissulega margt segja og flest heldur miður. En eftir standa hagsmunir þjóða, sem eiga sína djúpu og ríku sögu og menningu, og sem vilja berjast fyrir sjálfstæði sínu. Það myndi sæma betur öllum þeim sem vilja berjast fyrir mannréttindum og lýðræði að taka málstað þessara þjóða og leita pólitískra lausna sem tryggja rétt þeirra til að ráða málum sínum sjálfar.

Bandarísk eldflaugastöð í Póllandi

By Uncategorized

Í dag, fimmtudaginn 14. ágúst, náðist samkomulag milli Bandaríkjanna og Póllands um að setja upp í Póllandi herstöð fyrir tíu gagneldflaugar. Þetta er liður í gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna en fyrir rúmum mánuði, 8. júlí, var undirritaður samningur milli Tékklands og Bandaríkjanna um aðstöðu í Tékklandi fyrir radarstöð í þessu kerfi. Mikil barátta hefur verið gegn þessum fyrirætlunum bæði í Póllandi og þó enn meir í Tékklandi. Núverandi stjórn í Póllandi var þó ekki eins samvinnulipur við Bandaríkin og fyrri stjórn og krafðist einhverrar umbunar þannig að Bandaríkin voru farin að þreifa fyrir sér í Litháen, en nú hefur sem sagt gengið saman með ríkjunum.

Grafið undan afvopnun
Auk andstöðu heima fyrir hefur þessi áætlun Bandaríkjanna víða verið gagnrýnd og Rússar hafa andmælt henni kröftuglega, enda telja þeir hana beinast að sér þótt Bandaríkjamenn segi hana beinast einkum gegn Íran. Margir hafa líka gagnrýnt þessa áætlun á þeim forsendum að hún auki spennu milli Bandaríkjanna og Vesturveldanna annars vegar og Rússlands hins vegar og setji í uppnám áætlanir um afvopnun, bæði kjarnorkuafvopnun og almenna. Forsenda þessarar áætlunar var að Bandaríkjamenn sögðu upp hinum mikilvæga ABM-sáttmála um takmörkun gagnflaugakerfa og í kjölfarið tilkynntu Rússar að afvopnunarsamningur um hefðbundinn herafla í Evrópu frá 1990 væri úr gildi fallinn.

Velþóknun íslenskra stjórnvalda
NATO kemur ekki beint að þessum áætlunum Bandaríkjanna en leiðtogafundurinn í Búkarest í vor lýsti velþóknun sinni á henni. Í yfirlýsingu fundarins, sem fulltrúar allra ríkja stóðu að, þ.á.m. forsætis- og utanríkisráðherrar Íslands, segir að sá gagnflaugabúnaður, sem Bandaríkin hyggjast koma sér upp, sé mikilvægt framlag til verndar bandalagsríkjunum. Í skoðun sé hvernig tengja megi þessar eldflaugavarnir Bandaríkjanna núverandi viðleitni NATO til eldflaugavarna og tryggja að þær verði hluti af framtíðarskipulagi NATO á þessu sviði. Fastaráði NATO (Council in Permanent Session) er falið að þróa slíkt skipulag þannig að það nái til alls þess svæðis bandalagsins, sem ekki verður dekkað af eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna, og skal leiðtogafundurinnn 2009 taka nánari ákvörðun um þá þróun.

Sjá einnig á Friðarvefnum:

Samtök hernaðarandstæðinga leita svara um vígbúnaðarstefnu ríkisstjórnarinnar
Samkomulag um gagnflaugastöð undirritað í Prag
Rússar og NATO í nýtt kalt stríð?
Alþjóðleg ráðstefna í Prag gegn hervæðingu Evrópu
Evrópa án kjarnavopna
Mikil andstaða í Tékklandi gegn fyrirhugaðri gagnflaugastöð
Undirskriftasöfnun gegn bandarískum herstöðvum í Tékklandi

Minningar frá Hiroshima

By Uncategorized

Helga Nína Heimisdóttir var fundarstjóri á kertafleytingunni á Reykjavíkurtjörn 6. ágúst sl. Hún sendi Friðarvefnum minningarbrot frá heimsókn sinni til Hiroshima.

imagesÁrið 1995 fór ég til Hiroshima og sem einn af fulltrúum friðarhreyfingar Soka Gakkai afhentum við Borgarstjóranum í Hiroshima peningagjöf til uppbyggingar á heimili fyrir öldruð fórnarlömb sprengjunnar. Við fórum líka og afhentum blóm á einu elliheimilinu. Maðurinn sem tók við blómunum úr minni hendi var með dæld í höfuðkúpunni, afleyðing sprengingarinnar, ég gat ekki haldið aftur af tárunum. Ég skoðaði líka Stríðsminjasafnið í Friðargarðinum í Hiroshima þar er Dúman eða – The Atom Bomb Dome – sem var eina húsið sem stóð eftir sprengjuna.

Safnið er í þremur byggingum og þegar komið er inn blasa við líkön af Hiroshima bæði fyrir og eftir sprengjuna, á veggjunum voru myndir af hrundum húsium og ástandinu eftir sprengjuna. Í öðrum sal á efrihæðinni voru meira áþreidanlegir hlutir eins og þríhjól sem meira og minna var bráðnað, glerflaska bráðin, blóðugar tætlur af fötum fórnarlambanna og allskonar munir illafarnir, það sem var samt hryllilegast voru vaxmyndir af standandi fólki sem húðin hafði bráðnað af svo sá í beinin eins og þau væru raunveruleg. Við útganginn er svo mynd af Gorbatsjov að skoða safnið. Það sem Hiroshima búar gera er að þeir kenna börnunum strax í leikskóla að biðja fyrir friði, á meðan þau eru að því búa þau til litlar pappírsfígúrur,sem þau síðan koma með í Friðargarðinn.

Börnin í Soka Kindergarden kyrja Nam Mjó Hó Ren Ge Kjó á meðan þau brjóta saman oregami fuglana sem hafa orðið nokkurskonar tákn fyrir frið í hugum margra. Þegar ég var þarna úti var ég hvött til að setja mér ásetning, og ég hét því að koma aftur að tíu árum liðnum með börnin mín til að sýna þeim safnið, sem ég gerði 2005. Ég tel að heimurinn yrði friðvænlegri ef öll börn jarðarinnar fengju að sjá hvaða afleiðingar kjarnorkusprengjur hafa og þeim væri kennt að byðja fyrir friði frá blautu barnsbeini eins og börnunum í Hiroshima er kennt sama hvaða trúarhópum þau tilheyra.

Með þökk fyrir að lesa þetta.
Helga Nína Heimisdóttir.

Ávarp á kertafleytingu á Akureyri

By Uncategorized

Á Akureyri stóð Samstarfshópur um frið (SHA og ÆSKÞ) að kertafleytingu við Minjasafnstjörnina kl. 22.30 fimmtudaginn 7. ágúst í góðu veðri. Ávarp flutti sr. Svavar Jónsson sóknarprestur á Akureyri. Að því loknu fleyttu þátttakendur kertum sínum út á kvöldkyrra tjörnina.

Við söfnumst hér saman til að minnast fórnarlamba, tæplega tvöhundruð þúsunda, sem fyrir rúmum sex áratugum fórust í eyðandi eldi tveggja kjarnorkjusprengja í japönsku borgunum Hiroshima og Nagasaki.

Máttur mannsins er mikill, stundum skelfilegur. Hann er fær um að eyða sjálfum sér og saga mannkyns er ofin blóðrauðum þræði sjálfseyðingaráráttu þess. Manneskjan smíðar tæki og tól til að granda sér. Hún stundar rányrkju og skipulega eyðileggingu á hinni góðu sköpun. Þar með stefnir hún í voða lífmöguleikum sínum á þessari plánetu. Og manneskjan smíðar af hugkvæmni sinni þjóðfélagsleg kerfi sem fæða af sér ranglæti og misskiptingu.

Þar lifa fáir útvaldir í andstyggilegum ofgnóttum en stór hluti mannkyns í andstyggilegri örbirgð og er dauðadæmdur áður en hann fæðist.

Eldur er tvírætt tákn. Friðsælt er flökt á litlum ljósum. Við tendrum eld á friðarkertum. Við berum friðarkyndla.

En eldurinn er líka tákn eyðileggingarinnar. Eldar loga í helvíti. Eldurinn er ófriðarbál. Sprengjan er eyðandi funi.

Og friðurinn er líka tvíræður. Við viljum öll frið. Við viljum búa saman hér á þessari jörð í sátt og samlyndi.

En sumt má ekki láta í friði ef friður á að verða. Ég sagði hér áðan að við værum hér samankomin til að minnast fórnarlamba.Við erum hér ekki einungis til þess. Við erum ekki bara hér til að minnast heldur til að áminna. Áminna okkur um eitt mesta ódæði mannkynssögunnar. Við megum ekki láta það gleymast, ekki láta það í friði – né önnur níðingsverk mannsins.

Sá friður sem felst í sinnuleysi og áhugaleysi, sá friður sem er máttleysi og hugleysi, sá friður sem er þögn um ranglætið og ofbeldið í mannheimum, hann er friður eyðileggingarinnar; hann er djöfullegur friður. Hann er friður sama eðlis og sá sem ríkir í yfirgefnum skotgröfum og í borgunum þar sem búið er að eyða öllu. Hann er friðurinn sem ógnar lífinu en þjónar því ekki.

Hér ætlum við ekki að láta nægja að líta sextíu og þrjú ár aftur í tímann. Við ætlum líka að líta í kringum okkur, horfa á heiminn eins og hann er. Eldurinn sem logar á flotkertunum nýtur sín vel í húminu. Við skulum láta hann bregða birtu á það sem þar leynist. Líka það sem illa þolir dagsljósið. Það sem ekki má segja og fáir vilja heyra.

Við horfumst í augu við fórnarlömb stríðssjúkra yfirvalda okkar tíma, við sjáum þau sem þjást vegna ranglætis og ofbeldis, þau sem ekki fá borið hönd fyrir höfuð sér, þau sem enga málsvara eiga.

Ef til vill finnst mörgum það heldur klént framlag til friðarins í veröldinni að kveikja á litlum kertum og í ofanálag að ýta þeim út á vatn, sem hæglega getur kæft þessi litlu friðarljós með einni nettri skvettu.

En þannig er hlutskipti friðflytjandans. Hann er í raun alltaf að kveikja á svona litlum kertum. Friðurinn á erfitt uppdráttar. Besta sönnun þess er ástandið í veröldinni. Friðurinn flöktir eins og fljótandi kerti í hvassviðri.

Það getur reynst jafn erfitt að kveikja á kerti úti í strekkingnum og að vekja frið í beljanda samtíðarinnar.

Og það getur verið jafn auðvelt að kæfa friðinn og það er fyrir vindinn að feykja loganum af kveiknum á einu litlu kerti.

Þess vegna á hver friðflytjandi aldrei nóg af kertum og eldspýtum.

Við skulum ekki gefast upp. Við skulum halda áfram, hvert með sínu lagi, hvert á sínum stað, hvert með sinni rödd, hvert eftir sinni sannfæringu, í smáu sem stóru.

Við skulum standa í flæðarmáli vettvangsins og halda áfram að senda friðarkerti út á höfin.

Þannig minnumst við þeirra best sem dóu í Hiroshima og Nagasaki. Og þannig reynumst við þeim best sem þessa stundina eru fórnarlömb ófriðarins á jörðinni.

Megi ljós friðarins eflast í veröldinni.