Skip to main content

Risaveldi á flótta – mótmælum frestað!

By Uncategorized

Bandaríska herveldið virðist hafa hörfað undan friðarvilja Norðlendinga. Aðflugsæfingum hefur a.m.k. verið frestað um óákveðinn tíma. Fyrir vikið hafa Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi ákveðið að fresta fyrirhugaðri mótmælastöðu við Akureyrarflugvöll klukkan 14.30, laugardaginn 8. ágúst.

Samtökin hafa þó haft njósnir af því að hernaðarbrölti sé ekki lokið á Akureyrarflugvelli og að umræddar æfingar muni fara fram síðar í vikunni. Því verður boðað til nýrrar mótmælastöðu um leið og það liggur fyrir hvenær þær verða.

Mótmælastaða við Akureyrarflugvöll laugardaginn 8. ágúst klukkan 14.30

By Uncategorized

f 16 Á úlfurinn að vernda lambið?

Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi efna til mótmælastöðu við Akureyrarflugvöll laugardaginn 8. ágúst klukkan 14.30 til að mótmæla aðflugsæfingum bandarískra orrustuflugvéla og vörslu hergagna á flugvellinum.

Samtökin mótmæla harðlega þeim heræfingum NATO sem hér eru stundaðar undir yfirskyni loftrýmisgæslu fyrir Ísland. Þær ógnir sem nú steðja að íslensku sjálfstæði eru frá amerískum og evrópskum fjármálakapítalisma. NATO er hernaðararmur þeirra afla. NATO er úlfurinn sem á að vernda lambið.

Í janúar sl. var haldin í Reykjavík mikilvæg NATO-ráðstefna undir heitinu: „Öryggishorfur á Norðurheimskautssvæðinu“, og er það í samræmi við nýjan áhuga stórveldanna á þessu svæði. Hernaðarlegar áherslur Bandaríkjanna og NATO verða ekki aðskildar frá efnahagslegum hagsmunum. Það liggur beint við að tengja aukinn áhuga NATO á Íslandi og norðurslóðum ekki aðeins við vaxandi hernaðarlega þýðingu svæðisins heldur vaxandi mikilvægi flutningaleiða í Norðurhöfum og olíuvinnslu í framtíðinni.

Nánari upplýsingar veitir Þórarinn Hjartarson, formaður Félags hernaðarandstæðinga á Norðurlandi (sími 462 4804/netfang thjartar@internet.is).

Kertafleyting 6. ágúst í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum

By Uncategorized

kertafleyting4 Kertafleyting verður á fjórum stöðum á landinu fimmtudagskvöldið 6. ágúst kl. 22:30: í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum.

Í Reykjavík verður safnast saman við suðvesturbakka Tjarnarinnar (við Skothúsveg). Þar mun Stefán Pálsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga flytja stutt ávarp. Fundarstjóri verður Eva María Jónsdóttir dagskrárgerðarkona. Að venju verða flotkerti og friðarmerki seld á staðnum.

Kertafleytingin í Reykjavík er á vegum Samstarfshóps friðarhreyfinga, sem er samstarfsverkefni sjö friðarsamtaka og -hópa.

* * *

Á Akureyri efnir Samstarfshópur um frið til kertafleytingar á sama tíma, við Minjasafnstjörnina. Ávarp flytur Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur. Kertum hefur verið fleytt á Akureyri frá 1998.

* * *

Á Egilsstöðum verður í fyrsta sinn efnt til kertafleytingar að þessu tilefni. Komið verður saman við Lómatjörn í Tjarnargarðinum og flutt stutt dagskrá, þar sem Broddi Bjarnason flytur ávarp og lesin verða ljóð og sungið saman. Fundarstjóri verður Philip Vogler.

* * *

Nánari upplýsingar um aðgerðina í Vestmannaeyjum liggja ekki fyrir.

Kertafleyting á Reykjavíkurtjörn 6. ágúst 2009

By Uncategorized

kertafleyting3 Íslenskar friðarhreyfingar standa að kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn fimmtudaginn 6. ágúst 2009. Safnast verður saman við Suðvesturbakka Tjarnarinnar (við Skothúsveg) klukkan 22:30 en þar mun Stefán Pálsson formaður Samtaka hernaðarandstæðinga flytja stutt ávarp. Fundarstjóri verður Eva María Jónsdóttir dagskrárgerðarmaður. Að venju verða flotkerti og friðarmerki seld á staðnum.

Einnig verða kertafleytingar á Akureyri og Egilsstöðum.

Fleytt er kertum í minningu fórnarlamba kjarnorkueldanna í japönsku borgunum Hírósíma og Nagasakí dagana 6. og 9.ágúst 1945. Þetta er tuttugasta og fimmta kertafleytingin á Tjörninni af þessu tilefni. Fyrsta kertafleytingin var í ágúst 1985 þegar 40 ár voru liðin frá kjarnorkuárásunum. Þá sendu japanskir “hibakushar” (en svo eru eftirlifandi fórnarlömb kjarnorkuárásanna nefnd) hingað til lands kerti með beiðni um stuðning við baráttu þeirra gegn kjarnorkuvopnum. Tveir fulltrúar þeirra komu einnig hingað til lands í boði Samtaka herstöðvaandstæðinga.

Um leið og friðarsinnar minnast þeirra sem féllu í kjarnorkuárásunum leggja þeir áherslu á kröfuna: Aldrei aftur Hírósíma! Aldrei aftur Nagasakí! Rödd friðar þarf að heyrast og hljóma um allan heim. Yfirvöld verða að fá skýr skilaboð um að stríð sé ekki valkostur. Loftárásir og heræfingar tryggja ekki frið. Vandamál heimsins verða ekki leyst með ofbeldi og vopnavaldi heldur samvinnu og viðræðum. Krafa okkar er friðsamur og kjarnorkuvopnalaus heimur.

Samstarfshópur friðarhreyfinga:
Félag leikskólakennara.
Friðar og mannréttindahópur BSRB
Friðar og mannréttindanefnd Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar
Heimsganga í þágu friðar og tilveru án ofbeldis
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samtök hernaðarandstæðinga
SGI á Íslandi (Friðarhópur búddista)

Nánari upplýsingar gefa:
Ingibjörg Hararldsdóttir, sími:8495273 netfang: inghar@centrum.is
Steinunn Þóra Árnadóttir, sími: 690 2592 netfang: steiarn@hi.is