Skip to main content

Engar herstöðvar suður með sjó

By Uncategorized

Landsráðstefna SHA, haldin 27.-28. nóvember 2009 sendi frá sér eftirfarandi ályktun um hernaðarmannvirki:

Landsráðstefna SHA hafnar hugmyndum þeim sem kynntar hafa verið um rekstur einkaherstöðvar á Keflavíkurflugvelli, þar sem ætlunin er að þjónusta orrustuþotur sem notaðar eru til heræfinga. Slík starfsemi á ekkert erindi hér á landi og hefur engu jákvæðu hlutverki að gegna.

Jafnframt árétta SHA kröfur sínar um að síðustu eftirhreytum bandarísku herstöðvarinnar á Miðnesheiði verði rutt á brott, s.s. kafbátafjarskiptastöðinni við Grindavík. SHA lýsa stuðningi við kröfur Grindvíkinga um að stöðinni verði lokað, hún fjarlægð og landinu skilað.

Leggjum niður Varnarmálastofnun

By Uncategorized

Landsráðstefna SHA, haldin 27.-28. nóvember 2009 sendi frá sér eftirfarandi ályktun um málefni Varnarmálastofnunnar:

Landsráðstefna Samtaka hernaðarandstæðinga minnir á að samtökin gagnrýndu á sínum tíma harðlega stofnun Varnarmálastofnunnar. Bent var á að stofnunin hefði engu sýnilegu hlutverki að gegna og myndi líklega á undraskjótum tíma breytast í peningahít. Allir þessir spádómar hafa nú ræst. Varnarmálastofnun er sífellt í fréttum í tengslum við ábyrgðarlausa nýtingu á almannafé. Verkefni hennar eru léttvæg og eina markmið stofnunarinnar virðist fólgið í því að finna eigin tilverugrundvöll.

SHA leggja til að Varnarmálastofnun verði tafarlaust lögð niður. Borgaraleg verkefni hennar, sem mikilvæg teljast, verði falin öðrum ríkisstofnunum en hinum hætt. Þá verði tekið fyrir heræfingar NATO-sveita hér á landi og svokölluðu „loftrýmiseftirliti“ NATO-ríkja hætt nú þegar.

Tafarlausa kjarnorkufriðlýsingu

By Uncategorized

Landsráðstefna SHA, haldin 27.-28. nóvember 2009 sendi frá sér eftirfarandi ályktun um kjarnorkuafvopnun:

Samtök hernaðarandstæðinga fagna nýlegum fregnum af því að skriður sé kominn á viðræður Bandaríkjamanna og Rússa um umtalsverða fækkun kjarnorkuvopna á næstu árum. Stefna ber að allsherjarútrýmingu kjarnorkuvopna innan fárra ára. Meðan nokkur herveldi þráast við að viðhalda kjarnorkuvopnabúrum sínum, er ekki við öðru að búast en að fleiri ríki reyni að komast í klúbb þeirra.

Íslendingar geta lagt sitt að mörkum til kjarnorkuafvopnunar heimsins með því að samþykkja tafarlaust friðlýsingu landsins fyrir umferð og geymslu kjarnorkuvopna, líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. SHA krefjast þess að Alþingi afgreiði málið eins skjótt og kostur er.