

Fjáröflunarmálsverður SHA í Friðarhúsi fer fram föstudaginn 23. febrúar n.k. Um er að ræða sannkallaðan fjölskyldumálsverð með tveimur kokkateymum: bræðrunum Friðriki og Gísla Atlasonum & Eskhlíðingunum Stefáni, Steinunni Þóru og Nóam ÓIa.
Matseðill:
* Qidreh – palestínskur lamba- og hrísgrjónapottréttur
* Mexíkóskur grænkerapottréttur með svartbaunum og sætum kartöflum
* Heimabakað brauð
* Kaffi og brownies í eftirrétt
Að borðhaldi loknu mun Þorvaldur Friðriksson fjalla um nýlega bók sína um skrímsli í sögu Íslands. Nánari dagskrá kynnt síðar. Sest verður að snæðingi kl. 19. Varð kr. 2.500.
Öll velkomin.
Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir þá ákvörðun utanríkisráðherra Íslands að frysta greiðslur til Palestínuhjálpar Sameinuðu þjóðanna. Það er óásættanlegt með öllu að beita neyðaraðstoð við sveltandi og deyjandi fólk sem pólitísku refsitæki líkt og gert er í þessu máli. Neyðaraðstoð verður að halda áfram að berast til Gaza án nokkurrar tafar.
Tilraunir ísraelskra stjórnvalda til að spyrða Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra við hryðjuverk verður að skilja í ljósi nýfallins úrskurðar Alþjóðadómstólsins í Haag sem felur í sér áfellisdóm yfir framferði Ísraelsmanna á Gaza undanfarnar vikur og mánuði.
Úrskurðurinn kveður sérstaklega á um að hleypa verði mannúðaraðstoð inn á Gaza. Ákvörðun utanríkisráðherra gengur þannig í berhögg við niðurstöðu Alþjóðadómstólsins og hana verður að draga til baka.
Recent Comments