Skip to main content

Kertafleytingar: Reykjavík 9. ágúst & Akureyri 11. ágúst

By Uncategorized

Hin árlega kertafleyting í Reykjavík verður haldin þriðjudaginn 9.ágúst. Verður safnast saman við suðvesturbakka Tjarnarinnar (við Skothúsveg) klukkan 22:30. Þar mun borgarstjórinn í Reykjavík Jón Gnarr flytja ávarp og kveðjur frá borgarstjóranum í Nagasakí Tomihisa Taue. Kristján Hans Óskarsson leikari flytur ljóðið Klukkurnar í Nagasakí. Fundarstjóri verður Auður Lilja Erlingsdóttir framkvæmdastýra. Að venju verða flotkerti og friðarmerki seld á staðnum.

* * *

Á Akureyri verður kertafleyting fimmtudagskvöldið 11. ágúst. kl. 22:30 við Minjasafnstjörnina. Kertum hefur verið fleytt á Akureyri frá 1998. Ávarpið að þessu sinni flytur Áki Sebastian Frostason.

Kertafleytingar á fjórum stöðum

By Uncategorized

Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar fleytt kertum í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí 6. og 9.ágúst 1945 og til að leggja áherslu á kröfu sína um friðsaman heim án kjarnorkuvopna. Um er að ræða hefð sem upprunin er í Japan, en kertafleytingar af þessu tagi fara fram víða um lönd í ágúst ár hvert.

Að þessu sinni verður kertum fleytt á fjórum stöðum á landinu. Tvær kertafleytingar verða laugardagskvöldið 6.ágúst á Egilstöðum og Seyðisfirði en þriðjudagskvöldið 9. ágúst fleyta friðarsinnar á Akureyri og í Reykjavík kertum.

* * *
Laugardaginn 6. ágúst kl. 22:30 verður kertum fleytt við Lómatjörn á Egilsstöðum og á Seyðisfirði við lónið. Ljóð eftir Sigurður Ingólfsson menntaskólakennara verður flutt samtímis á báðum stöðum. Bæði íbúar og allir sem eru á ferð fyrir austan eru hvattir til að mæta og sýna samstöðu gegn stríði og fordómum. Seld verða kerti á staðnum.

* * *

Í Reykjavík verður kertafleytingin þriðjudaginn 9.ágúst. Verður safnast saman við suðvesturbakka Tjarnarinnar (við Skothúsveg) klukkan 22:30. Þar mun borgarstjórinn í Reykjavík Jón Gnarr flytja ávarp og kveðjur frá borgarstjóranum í Nagasakí Tomihisa Taue. Kristján Hans Óskarsson leikari flytur ljóðið Klukkurnar í Nagasakí. Fundarstjóri verður Auður Lilja Erlingsdóttir framkvæmdastýra. Að venju verða flotkerti og friðarmerki seld á staðnum.

Kertafleytingin í Reykjavík er á vegum Samstarfshóps friðarhreyfinga, sem er samstarfsverkefni sjö friðarsamtaka og -hópa.

* * *

Á Akureyri efnir Samstarfshópur um frið til kertafleytingar þriðjudagskvöldið 9.ágúst við Minjasafnstjörnina. Kertum hefur verið fleytt á Akureyri frá 1998.

Fundur um byltinguna í Egyptalandi

By Uncategorized

Þriðjudagskvöldið 5. júlí kl. 20 verður haldinn fundur í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, á vegum Samtaka hernaðarandstæðinga.

Konný Benjamínsdóttir hagfræðingur og enskukennari, sem búið hefur um allnokkurt skeið í Egyptalandi og upplifði byltinguna þar í landi fyrr á þessu ári mun segja frá reynslu sinni.

Erindið verður flutt á ensku. Allir velkomnir.

Vinstri stjórnin og NATO

By Uncategorized

Hnattvætt vestrænt auðvald rekur grimma og sívaxandi hernaðarstefnu gegn öðrum heimshlutum, gegn öllum sem þvælast fyrir efnahagslegum og pólitískum hagsmunum þess. Alþýðu heimsins stafar engin stórhætta af Talíbönum, Gaddafí eða hryðjuverkamönnum. Hins vegar boða sprengjukastarar Bandaríkjanna og NATO henni mikla hættu. Stuðningur Íslands við sprengjukastarana minnkar ekki heldur eykst.

1. Íslensk stjórnvöld gera leiðtogafundum NATO hátt undir höfði, þar mæta helst bæði forsætis- og utanríkisráðherra Íslands.

2. Heræfingarnar „Norðurvíkingur“ á vegum Bandaríkjahers og „loftferðaeftirlit“ NATO eiga að tryggja yfirráð hinna vestrænu stórvelda á norðurslóðum. Íslensk stjórnvöld leggja fúslega fram land og aðstöðu.

3. Þátttaka Íslands á stríðssvæðum minnkar ekki. Helstu stríðin sem stendur eru Afganistanstríðið (sem breiðist út til Pakistans) og Líbýustríðið. Fyrsta júlí hélt Bisogniero varaframkvæmdastjóri NATO fyrirlestur í Öskju og þakkaði framlag Íslands í því stríði: „Áður hjálpuðuð þið við flugumferðarstjórn á flugvellinum í Kabúl, sem var mjög mikilvægt. Og núna veitið þið framúrskarandi stuðning við skrifstofu borgaralegra fulltrúa“, sagði hann. Stuðningur Íslands við árásina á Líbýu hefur einnig verið skilyrðislaus frá byrjun.

Íslenskt auðvald hefur verið í þessu liði frá 1949. Vinstri stjórnir koma og fara en framlag Íslands til heimsfriðarins breytist núll komma ekkert við það. Í orði eru ráðherrar VG miklir friðarsinnar en á borði er stuðningur íslenskra stjórnvalda við hernaðinn stöðugur og fumlaus.

Þórarinn Hjartarson
formaður Norðurlandsdeildar SHA