Skip to main content
Fáni Palestín

Ályktun vegna innrásar Ísraelshers í Rafah

By Ályktun

Í ljósi þess að Ísraelsher hefur hafið innrás í Rafah þar sem ein og hálf milljón Palestínumanna hefst við áréttar miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga kröfu landsfundar um tafarlaust vopnahlé á Gasa og ákall til íslenskra stjórnvalda um aðgerðir til að knýja það fram. Árásirnar ógna lífi óbreyttra borgara, þar á meðal hundruða þúsunda barna og hafa nú þegar komið í veg fyrir streymi lífsnauðsynlegra hjálpargagna sem voru af skornum skammti fyrir.

Í ljósi þess að Ísrael hefur hafnað friðarsamkomulagi við Hamas og ráðist á Rafah þrátt fyrir viðvaranir allra helstu alþjóðastofnanna og bandamanna sinna verður alþjóðasamfélagið og Ísland að senda kröftug skilaboð.

Ísland verðu að krefjast tafarlauss vopnahlés og mannúðaraðstoðar til að forða frá enn frekara mannfalli. Til að fylgja því eftir verða íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir því á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna að hernaður Ísraelsríkis á Gasa verði úrskurðaður brot á alþjóðalögum og hvetja til þess að Alþjóðaglæpadómstóllinn kæri ráðamenn í Ísrael fyrir stríðsglæpi. Ísland á jafnframt að setja viðskiptabann á Ísrael og fyrirtæki sem styðja hernaðinn á Gasa og beita sér fyrir því að önnur ríki geri hið sama. Í framhaldi ætti að lýsa því yfir að hernaðarlegur stuðningur, vopnasala og vopnaflutningar til Ísraels verði taldir samsekt með stríðsglæpum.

Í kjölfarið ættu íslensk stjórnvöld að hvetja báða aðila til áframhaldandi friðarsamninga sem miða að lausn gísla beggja aðila og varanlegu friðarsamkomulagi sem tryggir öryggi og frelsi beggja þjóða.

1. maí kaffi SHA

1. maí kaffi SHA

By Fréttir
Hitið upp fyrir kröfugönguna með hinu hefðbundna og einkar veglega 1. maí kaffi Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, frá kl. 11 til 13. Gangan leggur svo af stað af Skólavörðuholti.
Í boði verða vöfflur eins og þið getið í ykkur látið og annað heimagert góðgæti. Aðgangseyrir einungis 500 krónur.

Ályktun SHA um þingsályktunartillögu um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028.

By Ályktun, Í brennidepli

Utanríkisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028, sem allt stefnir í að senn verði samþykkt á Alþingi.

Í þessarri stefnu felst sú kúvending á stefnu Íslands að hverfa frá því að taka ekki beinan þátt í styrjöldum með fjármögnun eða öðrum hernaðarstuðningi. Þótt þessi stefna sé nú fyrst borin upp á Alþingi, eru fulltrúar Íslands búnir að fylgja henni í raun og kom það m.a. fram í samþykkt yfirlýsinga á leiðtogafundi NATO í Vilníus í júlí 2023, þar sem samþykkt var margvísleg hernaðarþátttaka í stríðinu í Úkraínu. Þá er þegar í fjárlögum fyrir árið 2024 gert ráð fyrir 1 milljarðs kr. efnahags- og mannúðarstuðningi við Úkraínu með vinstri hendi, en jafnframt að leggja svo með hægri hendi fram 750 milljónir til viðbótar til hernaðarstuðnings sem brýtur niður efnahag og mannslíf.

Í stefnu þessari er líka bein hvatning til íslenskra fyrirtækja um að flytja hergögn og að framleiða vörur fyrir heri. Þar á eftir eru beinar tillögur sem leiða til að hlutleysi íslensks björgunarliðs verði ógnað ef stríð geysar, með því tengja þær stríðsrekstri á þann hátt að fela Landhelgisgæslunni að þjálfa erlenda sjóliða og einnig að falast eftir búnaði frá íslenskum neyðarviðbragðsaðilum.

Í greinargerð með nýju stefnunni er vitnað til gildandi Þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, þar sem sé kveðið á um að „tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.“ Hin nýja stefna slekkur á þessu leiðarljósi, því í henni er hvergi að finna neinar aðgerðir sem stefna að friðsamlegri lausn deilumála eða afvopnun, ekki einu sinni vopnahlé. Þvert á móti er þar lagt til að styðja ófriðsamlega lausn.

Á Íslandi er skiljanlega ríkur stuðningur við íbúa Úkraínu eftir hernaðarinnrás Rússlands og hernám hluta Úkraínu. SHA lýsa stuðningi við að veita íbúum Úkraínu mannúðaraðstoð og að veita þeim sem hingað leita vegna stríðsins hæli meðan þess er óskað. Þá styðja SHA líka að Úkraínu verði veittur pólitískur stuðningur og einnig stuðningur til enduruppbyggingar innviða landsins með því að koma atvinnulífi, mannlífi og stjórnarháttum sem fyrst í gott horf að stríðinu loknu. SHA hafna hins vegar alfarið öllum aðgerðum og fjármögnun Íslands á stríðsrekstri í Úkraínu.

Allur sá hluti þessarar þingsályktunatillögu Alþingis og greinargerðarinnar með henni sem lýtur að þátttöku Íslands í hernaði í Úkraínu, vanvirðir bæði samþykkta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og þau gildi sem Ísland hefur haft í heiðri um að vinna að friði og taka ekki þátt í stríði. Þar er á ósvífinn hátt verið að vefja hernaðarþátttöku inn í sáraumbúðir.
Gurra grís með tómatsósu

Aprílmálsverður Friðarhúss – Pálínuboð miðnefndar

By Viðburður
Apríl fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður föstudagskvöldið 26. apríl. Að þessu sinni munu meðlimir miðnefndar leggja á hlaðborð. Þar mun öllu ægja saman: hrossakjöti, kjúklingarétti, afrískum og indverskum grænmetismat, fiskisúpu og heimabökuðu brauði með hummus. Kaffi og kaka í eftirmat.
Sest verður að snæðingi kl. 19. Að borðahaldi loknu mun tónlistarmaðurinn Gímaldin spila en frekari menningardagskrá verður kynnt síðar.
Verð kr. 2.500. Öll velkomin.