Skip to main content

Ályktun vegna leiðtogafundar Nató

By Ályktun, Í brennidepli
Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga mótmælir harðlega þeim ákvörðunum leiðtogafundar Nató að efna til hernaðaruppbyggingar af fáheyrðri stærðargráðu. Samþykktir þessar eru gerðar í því skyni að þóknast stjórnvöldum í Bandaríkjunum, sem hafa áratugum saman staðið í stríðsrekstri vítt um heim, grafið með kerfisbundnum hætti undan alþjóðalögum og vikið til hliðar afvopnunarsamningum.
Yfirlýsing leiðtoga Nató um margföldun hernaðarútgjalda er undirbúningur stríðs sem ógnar friði í heiminum. En hún er jafnframt árás á þau gildi sem flest lönd Evrópu hafa viljað standa fyrir með því að taka fjármagn frá öflugri samneyslu, velferðar- og heilbrigðiskerfi. Forgangsröðun til vígvæðingar og hernaðaruppbyggingar í þessum mæli er glæpsamlegt athæfi á tímum þar sem brýn og aðkallandi verkefni blasa við á sviði félagsmála og umhverfismála.
Á sama tíma og NATO samþykkir að stórefla stríðsundirbúning í Evrópu, er hvorki vikið orði eða evrum að því hvað NATO ríkin ætla að leggja af mörkum til að stuðla og friði í Evrópu. Friður byggir á samtali og samvinnu milli fólks og ríkja. Þótt friðarleið verði ekki auðveld, þá verður hún í alla staði miklu farsælli en sú hernaðarleið sem nú er stefnt að.
Íslensk stjórnvöld eiga að hafna þessari siðferðislega gjaldþrota stefnu. Hagsmunum Íslendinga og öryggi er best borgið með því að standa utan hernaðarbandalaga og allrar hernaðarþátttöku. Það er forsenda þess að Ísland geti verið trúverðugur boðberi friðar.
ICAN

Yfirlýsing ICAN vegna loftárása Bandaríkjanna á Íran

By Fréttir, Í brennidepli
Samtök hernaðarandstæðinga vekja athygli á yfirlýsingu ICAN, alþjóðlegu friðarsamtakanna fyrir útrýmingu kjarnorkuvopna. ICAN er friðarverðlaunahafi Nóbels frá árinu 2017 fyrir þátt sinn í samþykkt Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Samtök hernaðarandstæðinga eru meðal aðildarsamtaka ICAN. Yfirlýsingin er á þessa leið:
„ICAN fordæmir ólögmætar hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna gegn kjarnorkustöðvum í Íran. Með því að taka þátt í árásum Ísraels eru Bandaríkin að brjóta gegn alþjóðalögum og stefna í voða vinnu alþjóðasamfélagsins við að koma böndum á útbreiðslu kjarnorkuvopna.“
Melissa Parke forystukona ICAN segir ennfremur: „Með því að fylgja Ísraelum í herferð sinni gegn Íran eru Bandaríkin brotleg við alþjóðalög. Árásir eru ekki leiðin til að takast á við áhyggjur af kjarnorkuáætlun Írana. Bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa sjálfar nýverið lýst því yfir að Íran sé ekki að vinna að smíði slíkra vopna. Hér er því um að ræða vanhugsaða og ábyrgðarlausa aðgerð sem kann að grafa undan alþjóðlegum aðgerðum sem miða að því að hindra útbreiðslu kjarnorkuvopna.
Bandaríkin hefðu átt að halda áfram að beita diplómatískum leiðum áður en Ísrael greip til árása. Atburðir þessir munu hvorki auka öryggi á svæðinu né í heiminum öllum. Þvert á móti. Árásir á kjarnorkustöðvar eru sérstaklega bannaðar með alþjóðalögum enda fylgir þeim mikil hætta vegna geislavirkni sem getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir fólk og náttúru. Hernaðinum verður að linna og samningaleiðin að taka við.“
1. maí kaffi SHA

1. maí kaffi SHA

By Viðburður

Samtök hernaðarandstæðinga bjóða í sitt árlega 1. maí kaffi kl. 11:00 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, áður en að safnast er saman í kröfugöngu verkalýðsins sem leggur af stað frá Skólavörðuholti 13:30.
Vöfflur og veglegar veitingar að venju á kostakjörum, aðeins 1.000 krónur.
Öll velkomin.

Kokkahúfur

Aprílmálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður

Þrátt fyrir páska og tíða frídaga er enginn bilbugur á hernaðarandstæðingum sem halda sinn mánaðarlega fjáröflunarmálsverð í Friðarhúsi föstudagskvöldið 25. apríl. Sigrún Guðmundsdóttir og Ævar Örn Jósepsson elda oní mannskapinn.

* Hakkabuff
* Grænmetisbuff
* Allt tilheyrandi meðlæti
* Kaffi og eftirréttur kynntur síðar

Að borðhaldi loknu mun Eyrún Ósk Jónsdóttir lesa friðarljóð, Egill Arnarson segja frá nýrri þýðingu sinni á verkinu Fyrir eilífum friði eftir Kant og tónlistarmaðurinn Sveinn Guðmundsson tekur lagið.

Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2.500. Öll velkomin.