Skip to main content

Ályktanir Landsfundar SHA 2021

By Ályktun

Ályktun um vígbúnað á norðurslóðum

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. maí 2021, varar við síauknum hernaðarumsvifum á Norðurslóðum. Þeirra sér m.a. stað á Grænlandi, í Færeyjum, í Noregi og á Íslandi. Nálega stöðug viðvera hermanna á Keflavíkurflugvelli, reglubundnar heræfingar og sífelldar fréttir af draumum ýmissa aðila um stórfellda hernaðaruppbyggingu hér á landi eru áminning um mikilvægi baráttunnar gegn her í landi.

Umhverfis Ísland sigla kjarnorkukafbátar með ógurlegum eyðileggingarmætti og mengunarhættu og eiga í stöðugum eltingaleikjum við eftirlitsvélar Bandaríkjamanna sem hér eru tíðir gestir og illir. Vígvæðing norðurslóða er grafalvarleg ógn við náttúru jafnt sem öryggi íbúa svæðisins. Ísland á að tala máli afvopnunar í þessum heimshluta og ganga á undan með góðu fordæmi með því að banna heræfingar, friðlýsa landið og lögsöguna fyrir skaðræðisvopnum og segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin tafarlaust.

Ályktun um kjarnorkuafvopnun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. maí 2021 krefst þess að íslensk stjórnvöld undirriti Sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum sem öðlaðist gildi 22. janúar síðastliðinn. Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga í öllum flokkum styður undirritun sáttmálans og fjölmörg félagasamtök úr öllum geirum hafa hvatt til þess. Við hvetjum stjórnmálaflokka og frambjóðendur til Alþingis til að taka undirritun sáttmálans upp fyrir næstu kosningar svo Ísland geti gengið í lið með þeim 54 löndum sem hafa bannað kjarnorkuvopn og hverskyns fluttning á þeim, eða stuðning við framleiðslu þeirra og dreifingu. Í því samhengi er minnt á að Nató er kjarnorkubandalag og helsta hindrunin í vegi þess að Ísland skrifi undir sáttmálann.

Jafnframt lýsir landsfundur yfir áhyggjum af þróun og framleiðslu kjarnorkuveldanna á nýjum kjarnorkuvopnum. Landsfundur leggur einnig áherslu á nauðsyn þess að taka aftur upp samninga um kjarnorkuafvopnun, t.d. Samninginn við Íran og um bann við meðaldrægum kjarnorkuvopnum sem Bandaríkin sögðu upp árið 2018 og 2019, með alvarlegum afleiðingum fyrir öryggi heimsins. Við mælumst til þess að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir þessu á alþjóðavettvangi enda hafa allar þjóðir hagsmuni af því að draga úr líkum á beitingu kjarnorkuvopna.

Gamall draugur lætur á sér kræla í Færeyjum

By Í brennidepli
Radarstöðin á Sornfelli

Á landsfundi SHA mætti góður gestur, í gegnum fjarfundarbúnað þó. Það var Högni Höydal leiðtogi Þjóðveldisflokksins og forystumaður í færeyskum stjórnmálum um langt árabil. Þjóðveldisflokkurinn hefur verið lengst til vinstri á pólitíska litrófinu í Færeyjum og jafnframt sú hreyfing sem róttækust hefur verið í sjálfstæðismálum eyjanna.

Tilefni þess að Högni, sem talar afbragðsgóða íslensku, var fenginn til fundarins voru fregnir sem bárust nýverið um að dönsk yfirvöld vildu heimila Nató og Bandaríkjamönnum að koma upp ratstjárstöðvum í Færeyjum. Slíkar stöðvar voru reknar þar í landi stóran hluta kalda stríðsins með tilheyrandi viðveru bandarískra hermanna, en starfsemi þeirri var hætt skömmu eftir aldamót.

Högni rakti vel sögu hermálsins í Færeyjum og hvernig dönsk yfirvöld hafa alla tíð ráðskast með Færeyjar og Grænland þegar kemur að hernaðarmálefnum án nokkurs samráðs við heimamenn. Benti hann á að Danir hefðu í raun leikið þann leik að leggja til land undir hernaðarmannvirki á báðum stöðum og komist þannig hjá því að borga jafnmikið til hernaðarmála og reksturs Nató.

Pólitíska staðan í Færeyjum er flókin. Stjórnarandstöðuflokkarnir Jafnaðarmenn og Þjóðveldisflokkurinn eru alfarið á móti öllum áformum í þessa átt, en sumir ríkisstjórnarflokkarnir eru til í að samþykkja hvað það sem Danir leggja til í þessum málum. Stóra spurningin er um afstöðu Fólkaflokksins, sem svarar um margt til Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum. Líklegt er talið að sá flokkur kunni að standa gegn nýjum ratsjárstöðvum, sem þar með nytu ekki meirihlutastuðnings á þinginu.

Afstaða almennings er einarðari. Mikill meirihluti er á móti hugmyndum þessum, en andstaðan er þó meiri við framkvæmdir sem ákveðnar væru einhliða af Nató og Dönum heldur en ef Færeyingar yrðu hafðir með í ráðum. Pólítísku átökin um málið á þingi munu eiga sér stað nú í sumarbyrjun en síðar í sumar eru fyrirhuguð stór mótmæli í grennd við gömlu ratstjárstöðina frá kaldastríðstímanum. Samtök hernaðarandstæðinga munu fylgjast grannt með þessu máli.

Ráðherrafundur Rússlands og Bandaríkjanna

Kjarnorkuveldunum mótmælt

By Fréttir, Viðburður

Stöðvum vígvæðingu norðurslóða

Í kvöld, 19. maí, munu utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands setjast niður til fundar í Hörpu. Þar mætast fulltrúar þeirra ríkja sem hafa yfir flestum kjarnorkuvopnum að búa og sem setja náttúru og líf íbúa norðurslóða í stöðuga hættu með kjarnorkuvopnabúrum sínum. Samtök hernaðarandstæðinga efna til stuttrar mótmælastöðu gegnt Hörpu klukkan 20:00, við gafl Seðlabankans, þar sem minnt verður á kröfuna um veröld án kjarnorkuvopna og að allri hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum verði hætt.

Stutt ávörp flytja Drífa Snædal forseti ASÍ og Guttormur Þorsteinsson formaður SHA.

Landsfundur SHA 29. maí

By Fréttir, Viðburður

Vegna samkomutakmarkanna neyddumst við til þess að fresta landsfundi SHA sem átti að fara fram þann 27. mars síðastliðinn. Nú hefur verið slakað nægjanlega á þeim til þess að við treystum okkur til að boða til fundar laugardaginn 29. maí.

Byrjað verður á almennum fundarstörfum opnum meðlimum SHA en eftir hádegishlé er dagskrá opin öllum sem hafa áhuga svo lengi sem sóttvarnarráðstafanir leyfa.

Dagskrá fundar:

11:00 Fundur verður settur í Friðarhúsi, almenn fundarstörf.

12:30 Hádegishlé.

13:00 Jakob Beat Altman, þýskur háskólanemi, fjallar um stöðu mála í Vestur-Sahara.

13:45 Högni Höydal, formaður Þjóðveldisins segir frá því sem er að gerast í hernaðarmálum í Færeyjum.

Sjáumst sem flest.