Friðarganga

Friðarganga á Þorláksmessu

By Fréttir, Viðburður

Frá árinu 1980 hafa íslenskar friðarhreyfingar staðið fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu til að leggja áherslu á kröfuna um afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Gangan í ár fer fram í skugga blóðugra hernaðarátaka víða um veröldina og vaxandi hernaðarhyggju sem birtist meðal annars í hugmyndum um stórfellda vígvæðingu og
hernaðarútgjöld. Kerfisbundið er grafið undan alþjóðlegum
afvopnunarsamningum og ráðamenn heimsins gæla við beitingu
kjarnorkuvopna. Það hefur því sjaldan verið brýnna að ganga fyrir friði.

Í Reykjavík verður safnast saman milli Snorabrautar og Hlemms og á
slaginu 18:00 mun gangan leggja af stað niður Laugaveginn undir söng kórs Söngfjelagsins sem Hilmar Örn Agnarsson stjórnar. Á Austurvelli verður stuttur útifundur þar sem Kolbrún Halldórsdóttir flytur ávarp. Fundarstjóri verður Askur Hrafn Hannesson. Fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum verða seld í göngubyrjun á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur til endurvinnslu að göngu lokinni.

Vilji fólk styrkja gönguna um jafngildi eins kertis er hægt að gera það með því að smella hér.

Á Ísafirði og Akureyri verða göngur á sama tíma. Ísfirðingar safnast saman við Ísafjarðarkirkju og ganga að Silfurtorgi. Á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorgi. Ræðumaður á Akureyri er Kristín S. Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur, formaður Vonarbrúar.

Friðargangan í Reykjavík er haldin á vegum Samstarfshóps
friðarhreyfinga. Hann skipa ýmis félagasamtök:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
Búddistasamtökin SGI á Íslandi

Mark Rutte og Donald Trump

Yfirlýsing vegna heimsóknar framkvæmdastjóra Nató

By Ályktun, Í brennidepli
Mark Rutte og Donald Trump

Í tengslum við Íslandsheimsókn Mark Rutte, framkvæmdastjóra Nató, minna Samtök hernaðarandstæðinga á að bandalag það sem hann veitir forstöðu er í fararbroddi vígvæðingar í heiminum í dag. Nató er hernaðarbandalag sem hefur kjarnavopn og beitingu þeirra sem grunnstoð í vígbúnaðarstefnu sinni. NATO og þau ríki innan þess sem aðild eiga að öryggisráði SÞ hafa beitt sér hatrammlega gegn samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Nató hefur á liðnum árum rekið árásargjarna stefnu utan landamæra sinna og forysturíki þess staðið í styrjöldum víða um heim, auk þess að framleiða stóran hluta af þeim vopnum sem beitt er á öllum ófriðarsvæðum. Kröfur Nató til aðildarríkja sinna um stóraukin útgjöld til hernaðarmála þjóna þeim tilgangi að ala á ótta og óvild til að færa vopnaframleiðendum auð. Ísland ætti að standa utan Nató en treysta þess í stað á sjálfstæða og friðsama utanríkisstefnu. Friður er pólitísk lausn án morða.

Fullveldisfögnuður

Fullveldisfögnuður SHA í Friðarhúsi

By Viðburður
Jólahlaðborð SHA ber að þessu sinni upp á föstudaginn 28. nóvember.
Að venju verður stillt fram veglegu hlaðborði. Meðal rétta:
  • Heimaverkuð sænsk jólaskinka með kartöflusalti, og sinnepssósu
  • Rækjufrauð
  • Kjúklingalifrarpaté
  • Reykt nautatunga með piparrótarrjóma
  • Austfirsk sælkerasíld
  • Hnetusteik fyrir grænkera
  • Hummus
  • Baba ganoush
  • Kaffi og konfekt

Sest verður að snæðingi kl. 19.

Að borðhaldi loknu verður menningardagskrá. Aðgerðasinninn og söngvaskáldið Hörður Torfason tekur lagið og gerir grein fyrir nýútkominni bók sinni og Anna Ragna Fossberg Jóhönnudóttir les úr nýrri skáldsögu sinni.
Verð kr. 3.000. Öll velkomin.
Gentle, Angry Women

„Gentle, Angry Women“ – kvikymyndasýning í Friðarhúsi

By Viðburður
Gentle, Angry women

Fimmtudaginn 20. nóvember kl. 20:00 sýnum við glænýja kvikmynd um Greenham Common-friðarbúðirnar, sem settar voru á stofn í Bretlandi árið 1981, „Gentle, Angry Women“. Íbúar friðarbúðanna voru allt róttækar konur, friðaraktívistar, sem hikuðu ekki við að grípa til beinna aðgerða í baráttu sinni.

Að sýningu myndarinnar lokinni mun kvikmyndagerðakonan Barbara Santi sitja fyrir svörum á Zoom.

Aðgangur ókeypis. Öll velkomin.