Skip to main content

NATO 60 ára – evrópskir NATO-andstæðingar streyma til Strasbourg

By Uncategorized

neinzurnato Atlantshafsbandalagið, NATO, verður sextíu ára í vor. Það var stofnað 4. apríl 1949. Dagana 2. til 5. apríl verður leiðtogafundur NATO-ríkjanna haldinn í Strasbourg í Frakklandi og nágrannabænum Kehl í Þýskalandi. Um alla Evrópu hefur að undanförnu verið unnið að undirbúningi mótmælaaðgerða af þessu tilefni og hafa verið skipulagðar ferðir til Strasbourg víðsvegar að úr Evrópu.

Dagskráin er þessi:

  • 1.-5. apríl. Mótmælabúðir í Strasbourg og ýmsar uppákomur alla þá daga.
  • 3. apríl. Mótmælaaðgerðir í Baden-Baden, skammt sunnan við Kehl, en þar verður utanríkisráðherrafundur og hátíðarkvöldverður.
  • 3. og 5. apríl. Alþjóðleg ráðstefna í Strasbourg.
  • 4. apríl. Alþjóðlegar mótmælaaðgerðir í miðborg Strasbourg undir kjörorðunum „Gegn stríði, gegn NATO!“
  • 4. apríl. Aðgerðir í anda borgaralegrar óhlýðni í Strasbourg í umsjá ýmissa samtaka.

Sjá nánar tilkynningu frá NO to NATO

Nokkrir félagar í Samtökum hernaðarandstæðinga munu væntanlega fara til Strasbourg og taka þátt í þessum aðgerðum.

Frést hefur að frönsk stjórnvöld ætli sér að banna þessar mótmælaaðgerðir. Sett hefur verið upp undirskriftasöfnun gegn banninu á netinu og er hægt að nálgast hana hér. Friðarvefurinn hvetur alla lesendur sína til að skrifa undir og vekja athygli á þessari undirskriftasöfnun.

Menningar- og friðarsamtökin MFÍK hafa auglýst mótmælastöðu gegn NATO á Austurvelli kl. 12 á hádegi 30. mars, en þann dag samþykkti Alþingi aðild Íslands að NATO. Samtök hernaðarandstæðinga eru einnig að undirbúa aðgerðir hér á landi og verða þær kynntar nánar á næstunni.

Nánari upplýsingar:

NEIN zu NATO – NO to NATO – NON à L’OTAN
Stop the War Coalition, Bretlandi
War Resisters’ International
NATO – 60 Jahre sind 60 zu viel
Netzwerk Friedenskooperative
Block NATO

Málsverður & játningar Moggablaðamanns

By Uncategorized

veislaFjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn n.k. föstudagskvöld, 27. febrúar eins og áður hefur verið kynnt. Sérstakur hátíðarræðumaður verður Halla Gunnarsdóttir, nýráðinn aðstoðarkona heilbrigðisráðherra. Hún mun flytja tölu í léttum dúr sem fengið hefur vinnuheitið: “Játningar Moggablaðamanns”

Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér um matseldina, en matseðillinn er í anda föstubyrjunarinnar:

* Saltkjöt og baunir

* Kaffi og rjómabollur í eftirmat

Verð kr. 1.500. – Borðhald hefst kl. 19.

Fróðlegur fundur um utanríkismálin

By Uncategorized

Félagsfundur SHA með Árna Þór Sigurðssyni, formanni utanríkismálanefndar, mánudagskvöldið 23. febrúar , var afar fróðlegur. Um 35 manns mættu og spunnust talsverðar umræður.

Árni Þór hóf fundinn á almennri umfjöllun um þau mál sem helst hafa verið á döfinni á vettvangi utanríkismálanefndar upp á síðkastið eða sem ratað hafa í fréttir fjölmiðla. Talsverður tími fór í að ræða efni svokallaðrar Stoltenberg-skýrslu, sem hinn aldni norski fv. stjórnmálamaður Thorvald Stoltenberg hefur unnið fyrir norrænu utanríkisráðherrana.

Í skýrslunni leggur Stoltenberg fram ýmsar tillögur sem ætla má að muni falla hernaðarandstæðingum misjafnlega í geð. Árni Þór taldi að skipta mætti tillögunum upp í fimm meginflokka:

i) Norrænt samstarf um friðaruppbyggingu, sem aftur mætti skipta í borgaralega og hernaðarlegan hluta. Augljóst væri að Íslendingar hefðu hvorki vilja né forsendur til að koma að síðarnefnda hlutanum, en öðru máli kynni að gegna um borgaralega þáttinn.
ii) Loftrýmiseftirlit við Ísland, en þar gerir Stoltenberg ráð fyrir verulegri þátttöku norrænna hersveita og talar jafnvel um mögulega fasta viðveru þeirra í “herstöðinni í Keflavík”. Þessi nálgun hlýtur að teljast fráleit í huga hernaðarandstæðinga sem telja þotuæfingarnar með öllu óþarfar og óæskilegar.
iii) Norrænt samstarf um eftirlit á hafsvæðum, s.s. varðandi gervihnattaeftirlit, rannsóknir á bráðnun íss o.fl.
iv) Samstarf á sviði samfélagsöryggis, s.s. eftirlit með stafrænum árásum.
v) Gagnkvæm samstöðuyfirlýsing ríkjanna ef á eitt þeirra yrði ráðist – en þetta atriði hafa ýmsir viljað túlka sem tillögu um stofnun varnarbandalags.

Talsverðar umræður spunnust um þessar hugmyndir. Sumir fundarmenn vöruðu við því að hér væri á ferðinni en nein örvæntingarfull leit að óvini eða tilraun til að skapa réttlætingu fyrir frekari vígvæðingu og sóun í hernað. Afstaða friðarsinna til þessa máls hlyti þó að mótast að því hvort mögulegt væri að norræn samvinn af þessu tagi gæti orðið til að draga úr þátttöku norrænu ríkjanna þriggja í Nató, en að hún yrði ekki hrein viðbót við þau umsvif sem fyrir eru.

Talsvert var rætt um stöðu Varnarmálastofnunar og var það mat Árna Þórs að vegna breyttrar stöðu í efnahagsmálum þjóðarinnar séu ýmsir stjórnmálamenn að endurskoða alvarlega hug sinn til stofnunarinnar. Svo kunni því að fara að verulega verði undið ofan af starfsemi hennar innan skamms, enda séu verkefni hennar ýmist óþörf eða eigi betur heima annars staðar.

Hugmyndir um kjarnorkuvopnafriðlýsingu Íslands voru talsvert ræddar, ekki hvað síst í ljósi nýlegra fregna af árekstri tveggja kafbáta á Atlantshafi. Reynt verður að koma málinu á dagskrá þingsins fyrir kosningar.

Nokkuð var rætt um stjórnarskrár, en endurskoðun stjórnarskrárinnar stendur yfir sem kunnugt er. Í þeirri vinnu mun meðal annars hafa verið rætt um ákvæði sem kæmu í veg fyrir einhliða stuðningsyfirlýsingar ríkisstjórna við stríðsrekstur líkt og gerðist í Íraksmálinu. Margir fundarmenn töldu þó fulla ástæðu til að ganga enn lengra í þessu efni og var þar meðal annars vísað til gamalla tillagna SHA í stjórnarskrármálinu.

Stefán Pálsson

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss

By Uncategorized

saltkjotHinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 27. febrúar n.k.

Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér um matseldina, en matseðillinn er í anda föstubyrjunarinnar:

* Saltkjöt og baunir

* Kaffi og rjómabollur í eftirmat

Verð kr. 1.500. – Borðhald hefst kl. 19.

Félagsfundur SHA: Afvopnun eða vígvæðing – hvað er á seyði í öryggismálum Íslendinga?

By Uncategorized

afvopnun
Samtök hernaðarandstæðinga efna til opins félagsfundar mánudagskvöldið 23. febrúar kl. 20 í Friðarhúsi, Njálsgötu 89.

Gestur fundarins verður Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Það er margt að gerast á sviði hernaðar- og afvopnunarmála sem Íslendingar ættu að láta sig varða. Á dögunum var kynnt skýrsla Thorvalds Stoltenbergs með tillögum um norrænt hernaðarsamstarf. Tillögur liggja fyrir Nató um stofnun fastahers. Árekstur kjarnorkukafbáta í Atlantshafi hefur rifjað upp gamlar kröfur um kjarnorkufriðlýsingu. Og deilt er um stöðu og framtíðarhlutverk Varnarmálastofnunar.

Rætt verður um þessi mál og fleiri á fundinum. Allir velkomnir.