Skip to main content

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss

By Uncategorized

Hinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 25. mars. Kokkar kvöldsins verða Harpa Stefánsdóttir og Ármann Gunnarsson.

Boðið verður upp á indverskan kjúklingarétt með hrísgrjónum og jógúrtsósu
& afrískan grænmetispottrétt með couscous.

Guðrún Lára Pálmadóttir tekur lagið. Árni Hjartarson flytur hugvekju um baráttuna gegn Nató, enda 30. mars skammt undan.

Borðhald hefst kl. 19. Verð 1.500 kr.

Ályktun frá SHA

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga lýsa þungum áhyggjum af hernaði og ofbeldisverkum í Miðausturlöndum liðinna daga. Í Jemen hafa valdhafar framið fjöldamorð á almenningi og sagnir eru um að taugagasi hafi verið beitt. Bahrein hefur í raun verið hernumið af her Sádi-Arabíu, án þess að hósti né stuna heyrist frá alþjóðasamfélaginu. Og í Líbýu hefur geysað blóðug borgara- og ættbálkastyrjöld með morðum á báða bóga.

Í ölum þessum tilvikum er um að ræða einræðisríki sem notið hafa beins eða óbeins stuðnings Vesturlanda og átt greiðan aðgang að því að kaupa vopn frá Evrópu og Bandaríkjunum. Einræðisherrar í Arabaheiminum byggja og hafa byggt völd sín á stuðningi þeirra ríkja sem fara með neitunarvald í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Reynslan kennir okkur að friður verður hvorki tryggður né komið á með því að varpa sprengjum úr flugvélum. Stríð síðustu ára ættu sömuleiðis að hafa kennt mönnum hversu lítið er að marka frásagnir af „mannúðlegum“ nútímahernaði sem eigi aðeins að beinast að hernaðarlegum skotmörkum. Veruleikinn er allt annar. – Loftárásunum verður að linna!

Samtök hernaðarandstæðinga vara við því að alþingi eða ríkisstjórn Íslands lýsi yfir stuðningi við athæfi þeirra herskáu ríkja sem hafa misnotað samþykkt Öryggisráðsins um flugbann og notað sem átyllu til allsherjar loftárása. Reynslan af þess konar hernaði sýnir að hann bitnar óvenju harkalega á almennum borgurum þar sem markmiðið er að verja eigin hermenn fyrir hnjaski frekar en almenning á jörðu niðri. Íslenskir stjórnmálamenn ættu frekar að horfa til t.d. Svía og Þjóðverja sem hafa tekið allt aðra afstöðu til hernaðarins. Íslendingar eiga ekki að styðja aðgerðir sem leiða til aukinna þjáninga fyrir almenning í Mið-Austurlöndum.

Hvað er málið með Líbýu?

By Uncategorized

Þrátt fyrir margra vikna átök í Líbýu, hefur lítið farið fyrir dýpri umfjöllun um bakgrunn þeirra, sögu landsins og stjórnmál. Mánudagskvöldið 21. mars kl. 20 standa Samtök hernaðarandstæðinga fyrir umræðufundi um Líbýu í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Sagnfræðingarnir Gísli Gunnarsson og Sverrir Jakobsson ræða um söguna og velta vöngum yfir hverju við sé að búast.

Allir velkomnir.

Ályktun að gefnu tilefni

By Uncategorized

Ályktun frá miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga vegna kjarnorkuslyssins í Japan

Síðustu daga hafa fregnir af kjarnorkuslysinu í kjölfar náttúruhamfaranna í Japan vakið óhug um víða veröld. Það er áminning um hversu skaðleg kjarnorkutæknin getur reynst ef óvænt áföll koma upp á.

Það er einmitt ekki hvað síst vegna hættunnar á slysum eða óhöppum, sem íslenskir friðarsinnar hafa um árabil barist fyrir því að sett verði bann við umferð og geymslu kjarnorkuvopna í íslenskri landhelgi. Hættan á slysum í kjarnorkukafbátum má vera öllum kunn og óþarft að fjölyrða um hversu alvarlega afleiðingar það hefði ef slíkt óhapp yrði í námunda við landið.

Samtök hernaðarandstæðinga höfðu á sínum tíma frumkvæði að því að fá íslensk sveitarfélög til að friðlýsa sig fyrir kjarnorkuvopnum og brugðust langflest þeirra við því kalli. Raunar vildu aðeins fimm sveitarfélög ekki vera friðlýst fyrir geymslu og meðferð kjarnorkuvopna: Grímsnes- og Grafningshreppur, Reykjanesbær, Sandgerði, Skútustaðahreppur og Vogar.

Enn er þó eftir stóra málið, að Alþingi bindi í lög fortakslaust bann við slíkri umferð. Frumvarp um þetta efni liggur tilbúið í utanríkismálanefnd Alþingis. Samtök hernaðarandstæðinga skora á þingmenn að ljúka málinu fyrir vorið.

Hvað er að gerast í Miðausturlöndum?: Fundur um Jemen

By Uncategorized

Miðvikudagskvöldið 16. mars kl. 20 efna Samtök hernaðarandstæðinga til umræðufundar í Friðarhúsi. Yfirskriftin er: „Hvað er að gerast í Miðausturlöndum? – Sagt frá ástandinu í Jemen.“

Sveinn H. Guðmarsson og Þórhildur Ólafsdóttir eru nýkomin frá Jemen, þar sem þau störfuðu fyrir hjálparsamtök. Þau munu segja frá ástandinu í landinu og velta vöngum yfir því hvers sé að vænta í þessum heimshluta.

Almennar umræður. Allir velkomnir.

„…og þá voru eftir níu“ – baráttufundur fyrir mótmælafrelsi

By Uncategorized

Á dögunum féll dómur í máli ákæruvaldsins gegn hinum svokölluðu 9-menningum, sem sökuð voru um valdaránstilraun. Málatilbúnaður hins opinbera fór að mestu út um þúfur og fólkið ýmist sýknað eða sakfellt fyrir atriði sem voru miklu veigaminni en upphaflegu kærurnar gerðu ráð fyrir. Eftir stendur að talsverður kostnaður mun falla á ýmsa í hópnum.

Þótt búið sé að safna talsvert upp í fjárhæðina, er lokahnykkurinn eftir. Vegna þessa hefur hópur fólks, sem lætur sér annt um mótmælafrelsi á Íslandi, ákveðið að efna til baráttufundar í Iðnó föstudagskvöldið 11. mars. Húsið verður opnað kl. 19:30 og dagskrá hefst kl. 20.

Fram koma:

* Ragnar Aðalsteinsson
* Ingibjörg Haraldsdóttir
* Erlingur Gíslason
* Súkkat
* Jón Proppé
* Linda Vilhjálmsdóttir
* Bítladrengirnir blíðu
(Tómas M. Tómasson, Magnús R. Einarsson & Eðvarð Lárusson)
* Halla Gunnarsdóttir
* Stefán Pálsson
* Hörður Torfason

Fundarstjóri: Birna Þórðardóttir

Yfirskrift samkomunnar er:

    „…og þá voru eftir níu“ – Styðjum frelsi til mótmæla!

Tilgangurinn er tvíþættur. Annars vegar að safna því sem upp á vantar (allt þar umfram mun fara í sjóð til stuðnings öðrum sem kunna að lenda í sömu stöðu), en hins vegar að sýna samstöðu með málstaðnum.

Frjáls framlög, en muna að mæta með reiðufé. Engin kort!

Munið líka söfnunarreikninginn:
Rkn. 513-14-600813
Kt. 610174-4189

Aðalfundur Friðarhúss SHA ehf

By Uncategorized

Aðalfundur Friðarhúss SHA ehf, eignarhaldsfélagsins sem stóð að baki kaupunum á húsnæðinu að Njálsgötu 87, verður haldinn sunnudaginn 13. mars kl. 14 í húsnæði Friðarhúss.

Hluthafar hafa þegar fengið bréflegt fundarboð, en rétt er að minna hluthafa sem ekki komast á fundinn til að koma umboði á aðra fundarmenn. Fulltrúar eigenda helmings hlutafjár verða að mæta til að fundurinn teljist löglegur. Senda má skeyti á sha@fridur.is í þessum tilgangi.