Skip to main content

Fjáröflunarmálsverður, 1. maí kaffi & Dagfari

By Uncategorized

Föstudagskvöldið 29. apríl verður hinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss. Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi verður yfirkokkur og verður matseðillinni einfaldur:

* Matarmiklar tómatsúpur: annars vegar með kjúlkingi en hins vegar með grænmeti
* Lífrænt brauð úr Brauðhúsinu, Grímsbæ
* Bragðgóður eftirréttur

Borðhald hefst að venju kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Alli velkmnir. Verð kr. 1.500

* * *

Morgunkaffi SHA á 1. maí er ómissandi byrjun á baráttudegi verkalýðsins. Það hefst kl. 11 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87 og stendur fram að kröfugöngu verkalýðsfélaganna sem leggur af stað kl. 13:30. Líkt og undanfarin aldarfjórðung er kaffigjaldið litlar 500 krónur.

* * *

Dagfari, tímarit SHA, er kominn í prentun. Félagsmenn fá blaðið sent heim til sín og eru þeir sem nýverið hafa flutt heimili sitt því hvattir til að tilkynna breytinguna hið fyrsta, t.d. með því að senda póst á sha@fridur.is

Friðarsinnar heimsækja herskip 16. apríl kl. 14

By Uncategorized

Skömmu fyrir hádegi fimmtudaginn 14. apríl komu þrjú þýsk herskip til hafnar í Reykjavík. Brandenburg og Berlin liggja við Skarfabakka og Reinland Pfalz við Sundabakka. Almenningi er boðið að skoða skipin á laugardag og sunnudag kl. 13-16.

Hópur friðarsinna hyggst þiggja þetta boð á sinn hátt kl. 14 á laugardag. Þeir munu safnast saman við Skarfabakka kl. 13:30. Friðarsinnar, fjölmennum!

Líbýustríði mótmælt

By Uncategorized

Óformlegur hópur fólks sem andæft hefur stríðinu í Líbýu og þátttöku Nató í því boðar til mótmælafundar:

Gegn stríði – útifundur á Lækjartorgi.

Fimmtudaginn 14. apríl klukkan 17:00 verður útifundur á Lækjartorgi. Látum í ljós óánægju okkar, sökum aðildar Íslands að NATO erum við nú, á vormánuðum árið 2011, þáttakendur í þremur stríðum. Á þessu ári á nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar að skila niðurstöðum um aðdraganda stuðnings Íslands við innrásina í Írak. Krafist er afléttingar leyndar skjala sem leiddu til stuðnings okkar við stríðið og að þau verði gerð opinber.

Krafa okkar fyrir þetta stríð er engu minni: Við krefjumst þess að öll gögn sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og fulltrúar í utanríkismálanefnd Alþingis höfðu aðgang að og byggðu stuðning sinn við ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á, verði þegar í stað gerð opinber. Geðþóttaákvarðanir stjórnvalda eru brot á mannréttindum og því er áríðandi að almenningur geti lagt sjálfstætt mat á það hvort að nú líkt og áður hafi kjörnir fulltrúar byggt ákvörðun sína um stuðning við loftárásir á einkahagsmunum.

Mælendur verða:
Lárus Páll Birgisson
Sólveig Jónsdóttir
Kristín Ómarsdóttir
María S. Gunnarsdóttir

Undirbúningsfundur f. andófsaðgerðir

By Uncategorized

Lárus Páll Birgisson (Lalli sjúkraliði) boðar til fundar í Friðarhúsi föstudaginn 8. apríl kl. 20 til að undibúa aðgerðir gegn stríðinu í Líbíu. Í fundarboði segir:

Íslensk stjórnvöld hafa ekkert lært af hryllilegum stríðsrekstri undanfarinna ára í Írak og Afganistan og eru við sama heygarðashornið í stuðningi sínum við loftárásir í Líbíu. Það er krafa friðarsinna á Íslandi að íslensk stjórnvöld snúi baki við þeirri hugmyndafræði að loftárásir og annar hernaður sé ásættanleg leið til að ná fram pólitískum markmiðum. Stríð er vandamál en ekki lausn. Hernaður er helsi en ekki frelsi. Við hvetjum alla friðelskandi menn að mæta og skipuleggja aðgerðir gegn þátttöku Íslands í hryllingnum í nafni frelsis og mannréttinda.

Ályktun frá SHA vegna „loftrýmisgæslu“

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga lýsa vonbrigðum sínum með fréttir af því að hingað komi til lands kanadískar herþotur til svokallaðs loftrýmiseftirlits. Sagt hefur verið frá því í fréttum að flugsveit sú sem nú kemur til landsins, hafi verið kölluð til með skömmum fyrirvara, þar sem sú sveit sem upphaflega átti að koma hingað var kölluð til verkefna í tengslum við hernaðinn í Líbýu.

Þessar fregnir ættu að vekja almenning til umhugsunar um raunverulegt eðli þeirra heræfinga sem eiga sér reglubundið stað hér á landi undir merkjum loftrýmiseftirlits. Hér er um að ræða hefðbundnar æfingar loftherja sem hafa það að helsta takmarki að vera til taks í hernaði og varpa sprengjum á fátækt fólk í fjarlægum löndum. Æfingar þessar fara fram með vilja og stuðningi íslenskra stjórnvalda. Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla því harðlega að stjórnvöld leggi til aðstöðu á Íslandi og fjármagn til að þjálfa erlenda heri til manndrápa hvort sem er í Líbýu, Írak, Afganistan eða hvar annarsstaðar sem er í veröldinni.

„Los cincos“ – Kúbumennirnir fimm

By Uncategorized

Kynningarfundur um mál fimmenninganna verður í sal MÍR, Hverfisgötu 105, fimmtudagskvöldið 31. mars klukkan 19:30. Irma González, dóttir eins af fimmenningunum, segir frá. Léttar veitingar verða í boði á vægu verði frá klukkan 19.

Irma González, dóttir eins hinna svokölluðu „fimmmenninga“ frá Kúbu sækir Norðurlöndin heim á næstunni og verður hér á landi dagana 30.-31. mars, ásamt frænda sínum Orlando Sandoval. Hún talar máli föður síns og fjögurra annarra sem hlutu þunga dóma í Bandaríkjunum af pólitískum ástæðum.

Réttarhöldin yfir þeim Gerardo Hernández, Antonio Guerrero, Ramón Labañino, Fernando González og René González hafa verið fordæmd alþjóðlega, en þeir hafa nú setið á þrettánda ár í bandarískum fangelsum, lengi í einangrun. Irma talar einnig máli móður sinnar og annarar konu sem fá ekki að heimsækja eiginmenn sína. „Glæpurinn” sem fimmmenningarnir drýgðu var að fylgjast með starfsemi hægrisinnaðra hópa af kúbönskum uppruna sem hafa staðið fyrir ofbeldisaðgerðum og hryðjuverkum á Kúbu og í lofthelgi Kúbu mörg undanfarin ár, með vitund og vilja bandarískra stjórnvalda. Þetta eru glæpahópar á borð við Alpha 66, F4 Commandos, Cuban American National Foundation og Brothers to the Rescue.

Mennirnir voru handteknir 1998. Réttarhöldin fóru fram 2001 í Miami, borg þar sem stjórnvöld hafa lent í átökum við hægrisinna af kúbönskum uppruna og hatramt andrúmsloft ríkir gagnvart Kúbu. Markaðist samsetning kviðdómsins af því. Amnesty International lýsti því yfir „verulegum efasemdum“ um að réttarhöldin 2001 yrðu „sanngjörn og hlutlaus“. Tillögu verjanda um að flytja þau annað var hafnað. Þá kom saksóknari með „sannanir“ sem verjandinn fékk ekki að sjá. Fimmmenningarnar hlutu þunga dóma sem voru síðar „mildaðir“ árið 2008. Þeir voru dæmdir til 15–30 ára fangelsisvistar og hlaut einn þeirra tvöfaldan lífstíðardóm plús 15 ár fyrir upplogna ákæru um „samsæri um að fremja morð“.

Robert Pastor, þjóðarráðgjafi Jimmy Carters fyrrum forseta Bandaríkjanna í málefnum Rómversku Ameríku hefur látið hafa eftir sér að það sé álíka sanngjarnt að rétta í Miami yfir þessum fimm mönnum og að rétta yfir ísraelskum leyniþjónustumönnum í Teheran.

Fjölskyldur fimmmenninganna og stuðningsmenn þeirra hafa aflað víðtæks stuðnings. Í þeim hópi eru kunnir talsmenn mannréttinda, stjórnmálamenn og listamenn, þar á meðal Nóbelsverðlaunahafar. Þeir hafa hvatt til þess að mennirnir verði leystir úr haldi og að eiginkonurnar fái að koma til Bandaríkjanna til að hitta þá.

Nú gefst tækifæri hér á landi til þess að kynnast málavöxtum og sjónarmiðum fimmmenninganna og stuðningsmanna þeirra frá fyrstu hendi. Irma González mun tala á opinberum fundi fimmtudagskvöldið 31. mars klukkan 19:30 í sal MÍR, Hverfisgötu 105 í Reykjavík. Léttar veitingar verða í boði frá klukkan 19.

Nokkrir tenglar:

http://mbl.is/folk/frettir/2010/09/17/penn_og_del_toro_kalla_eftir_lausn_kubverskra_njosn/
http://www.change.org/petitions/end_the_injustice_free_the_cuban_5_now#?opt_new=t
http://news.bbc.co.uk/2/hi/americas/8537932.stm
http://www.iacenter.org/cuba/walker-cuban5082609/

Stjórn Vináttufélags Íslands og Kúbu (VÍK) – www.simnet.is/cuba – cuba@simnet.is