Skip to main content

Mannlegt friðarmerki, 2. október

By Uncategorized

2. október er fæðingardagur Mahatma Gandhi og hafa Sameinuðu þjóðirnar tileinkað daginn baráttunni fyrir tilveru án ofbeldis. Af því tilefni standa Samhljómur menningarheima ásamt fjölmörgum samtökum á Íslandi fyrir Mannlegu friðarmerki á Klambratúni (sjá viðfest plakat á íslensku og ensku).

Yfirskrift dagsins í ár verður: „Lærum að sporna gegn ofbeldinu innra með okkur og í umhverfinu”.

Tilgangurinn með þessum baráttudegi er að leggja áherslu á nauðsyn þess að ráðast að rótum ofbeldisins, og benda á að ofbeldi er grundvallarvandamál okkar tíma. Það er ekki aðeins líkamlegt og birtist í stríði og líkamsárásum – það birtist einnig sem efnahagslegt ofbeldi, sálrænt, trúarlegt, kynferðislegt og kynþáttabundið ofbeldi. Opin og einlæg samskipti og hin gullna regla að koma fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur ætti að hjálpa okkur að vinna bug á ofbeldinu og nálgast takmark okkar um tilveru án obeldis.

Allir – samtök og einstaklingar eru hvattir til að gera þennan dag að tilefni til þess að leggja þessari baráttu lið. Samtök eru hvött til að fjalla um málið í samræmi við starfssvið sitt og einstaklingar eru hvattir til að hugsa um ofbeldið eins og það birtist bæði í umhverfi okkar og hjá okkur sjálfum í persónulegu lífi og hvernig við getum spornað gegn því.

Verkefnið er algjörlega sjálfbært, sala kyndla stendur undir framkvæmdinni og öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu og tæki og tól eru látin í té af stuðningsaðilum sem eru m.a. Seglagerðin Ægir, Tæki.is og Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Sjálfboðaliðar frá Reyjavíkurdeild Rauðakross Íslands sér hjálpa til meðal annars ef óhöpp verða í sambandi við eldinn.

Samtökin Seeds munu bjóða uppá heitt kakó og tengja m.a. leik með tilvitnunum í orð Gandhis. Að lokinni hinni formlegu athöfn munu verða ýmsar uppákomur sjálfsprottnar eða undirbúnar, t.d. munu búddistar úr félaginu SGI á Íslandi kyrja og félagar í samtökunum Við erum Litháar munu hafa táknræna athöfn um að “leggja niður vopnin” og er fólk hvatt til að koma með stíðsleikföng, byssur o.fl. sem hægt er að leggja niður.

Þátttakendum er frjálst að auglýsa daginn í fjölmiðlum ef þeir hafa fjárhag og/eða vilja til.

Þetta er 3. árið sem við stöndum fyrir þessum verkefni. Það byrjaði sem viðburður í verkefninu „Heimsganga í þágu friðar og tilveru án ofbeldis” og hefur þróast í að verða að árlegum viðburði.

Fyrsta árið var fulltrúi frá Samhljómi menningarheima aðal ræðumaður við Mannlegt friðarmerki, svo á síðast ári sendiherra Indlands og í ár verður aðal ræðumaður Harpa Stefánsdóttir frá Hernaðarandstæðingum.
Við hvetjum alla til að mæta og taka þátt í þessari friðarstund.

Athöfnin verður á Miklatúni/Klambratúni kl. 20.

AUS, ESN, FFWPU, Húmanistaflokkurinn, Ísland Panorama, Kvenfélagasamband Íslands, KSÍ, Litháísk-íslenska félagið, Við erum Litháar, Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar, MFÍK, Salsafélag Íslands, Samhljómur menningarheima, Samtök hernaðarandstæðinga, SEEDS, SGI á íslandi, UN WOMEN, UNICEF, UPF, World Harmony Run, Society of new Icelanders, Seglagerðin Ægir, Tæki.is og Vinir Afríku.

Fyrsti málsverður haustsins

By Uncategorized

Fyrsti fjáröflunarmálsverður Friðarhúss á þessu hausti verður haldinn n.k. föstudagskvöld, 30. september. Kokkar kvöldsins verða þau Líf Magneudóttir og Snorri Stefánsson og verður matseðillinni rammþjóðlegur:

* Kraftmikil kjötsúpa
* Bragðmikil grænmetissúpa, fyrir þá sem ekki borða kjöt
* Brauð
* Salat
* Royal-búðingur í eftirrétt

Að borðhaldi loknu mun Harpa Arnardóttir leikkona og söngkona taka lagið. Bryndís Björgvinsdóttir rithöfundur les úr glænýrri verðlaunabók, Flugunni sem stöðvaði stríðið.

Borðhald hefst að venju kl. 19:00, en húsið verður opnað um hálftíma fyrr. Verð kr. 1.500. Allir velkomnir.

Norðlendingar í fullu fjöri

By Uncategorized

Norðurlandsdeild SHA stóð fyrir félagsfundi á Akureyri sk. mánudagskvöld. Umræðuefnið var „Nýja Nató og þátttaka Íslands“. Í fundarlok var ný stjórn deildarinnar kjörin og almennum aðalfundarstörfum sinnt.

Norðurlandsdeildin hefur verið starfrækt frá því síðla árs 2002 og er enginn bilbugur á fólki nyrðra.

Samstaða með sjálfstæðri Palestínu

By Uncategorized

Vakin er athygli á mótmælastöðu Íslands-Palestínu fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna fimmtudaginn 22.september klukkan 17:00. Elva Björk Barkardóttir – Laganemi við friðarháskóla SÞ tekur til máls og ræðir ástandið í Palestínu.

Farsinn í héraðsdómi

By Uncategorized

Mánudaginn 19. september kl. 15 hefst næsti þáttur í farsanum Ákæruvaldið gegn Lalla sjúkraliða. Þá verður dómþing í sal 202 í Héraðsdómi við Lækjargötu, efnið er munnleg frávísunarkrafa í hinu makalausa dómsmáli gegn Lárusi Páli Birgissyni, sem var handtekinn fyrir að standa einn með skilti á gangstéttinni fyrir framan bandaríska sendiráðið.

Öll málaferlin eru hneyksli og alvarleg aðför að mótmælafrelsi í landinu. Samtök hernaðarandstæðinga hvetja áhugafólk um mannréttindi til að mæta og sýna Lárusi samstöðu.

Til að undirstrika enn frekar fáránleika málsins, munu félagar í SHA mæta á hálftímafresti frá kl. 12 á hádegi til kl. 17 þennan sama dag á vettvang „glæpsins“ og fremja þetta sama ódæði – að standa með spjald eða skilti innan við steypukerin sem standa í leyfisleysi á almennri gangstétt.

Hiroshima

By Uncategorized

(Ljóð þetta var flutt á kertafleytingu friðarsinna á Egilsstöðum í ágúst sl.)

Og enn þann dag í dag
er dauðinn að þvælast fyrir sólinni.

Hann ber himininn sér í hag
og heldur því fram
af fullkomnu siðleysi

að þetta hafi þurft að gerast.

Hann skilar sínu
klukkan átta fimmtán, fjörutíu og fimm

og segir ennþá okkur hinum
að þetta hafi nú lokið heimstyrjöld.

Að þetta hafi þurft að gerast.

Og án þess að blikna,
segir hann okkur

að við gætum alveg
búist við sömu útreið.

Og alveg pollrólegur
og búinn að missa af öllu
sem skiptir máli

missir hann af þvi þegar við
spyrjum okkur,

búin að finna sólina
hvort

þetta hafi þurft að gerast.

Sigurður Ingólfsson