Skip to main content

Undirbúningur fyrir 8. mars 2006

By Uncategorized

8. mars Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna (MFÍK) hafa boðað til undirbúningsfundar fyrir menningar- og baráttudagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur 8. mars næstkomandi, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti. Til fundarins er boðið fulltrúum félagasamtaka og stéttarfélaga, sem hafa fjölda kvenna innan sinna vébanda.

Á kvennaárinu 1975 lýsti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna daginn „Alþjóðlegan baráttudag fyrir jafnrétti og friði“. Mörg undanfarin ár hafa Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna boðið til samvinnu um sameiginlegan fund. Dagskráin hefur tekið mið af því sem er á döfinni hér á landi eða í heimsmálum, eftir því sem undirbúningshópur kemur sér saman um hverju sinni.

Fundurinn verður haldinn í Friðarhúsinu, Njálsgötu 87 (á horni Snorrabrautar), fimmtudaginn 26. janúar kl.17:00.

Þátttaka tilkynnist til

Maríu S. Gunnarsdóttur, form. MFÍK
maria@seltjarnarnes.is
s. 5959258 / 5510586

og

Guðrúnar Hannesdóttur, vform. MFÍK
gudrunha@mmedia.is
s. 5536037 / 6986037

Innrásin í Írak – ekki í okkar nafni

By Uncategorized

Not in Our Name Frá Þjóðarhreyfingunni – með lýðræði

ÁR FRÁ YFIRLÝSINGUNNI Í
THE NEW YORK TIMES

,,… Stuðningur Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar við innrásina í Írak er svartur blettur á nafni Íslands. Engin ein ákvörðun hefur skaðað orðstír Íslands jafn mikið á alþjóðavettvangi….”

Fyrir réttu ári, eða þann 21. janúar 2005, birti Þjóðarhreyfingin – með lýðæði heilsíðu yfirlýsingu í bandaríska stórblaðinu The New York Times ,,Innrásin í Írak – ekki í okkar nafni” þar sem mótmælt var harðlega stuðningi íslenskra stjórnvalda (sérstaklega forsætis- og utanríkisráðherra) við innrás Bandaríkjanna – og hinna ,,viljugu” bandamanna þeirra – í Írak (sjá íslenska þýðingu yfirlýsingarinnar hér að neðan). Yfirlýsingin í The New York Times vakti verðskuldaða athygli, og var hennar getið í yfir 100 fjölmiðlum víða um heim.

Þá barst Þjóðarhreyfingunni mikill fjöldi bréfa og skeyta erlendis frá þar sem lýst var yfir eindregnum stuðningi við yfirlýsinguna.

Í mars á þessu ári verða 3 ár liðin frá innrás BNA í Írak með stuðningi hinna ,,viljugu” bandamanna þeirra – þmt. Íslendinga.

Stuðningur Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar við innrásina í Írak er svartur blettur á nafni Íslands. Engin ein ákvörðun hefur skaðað orðstír Íslands jafn mikið á alþjóðavettvangi. Ákvörðun ráðherranna ber öll merki undirlægjuháttar og ósjálfstæðis í utanríkismálum.

Þessi undirlægjuháttur kemur enn og aftur fram þegar íslensk stjórnvöld tóku ekki einarða afstöðu gegn fangaflugi CIA um íslenska lofthelgi – heldur taka gildar skýringar bandarískra yfirvalda án þess að kanna þær sérstaklega.

Það er löngu kominn tími til að forsætisráðherra Íslands, Halldór Ásgrímsson, biðji þjóðina og alþjóðasamfélagið afsökunar á því að hafa látið blekkjast til liðsinnis við stríð, sem háð er á fölskum forsendum og í bága við samþykktir Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalög.

Ísland á að sýna styrk sinn með friðsamlegum aðgerðum í samræmi við alþjóðalög því að á þann hátt einan getur herlaust Ísland aflað sér trausts og virðingar í samfélagi þjóðanna.

(21. janúar 2006)

fh Þjóðarhreyfingarinnar – með lýðræði
www.thjodarhreyfingin.is

Hans Kristján Árnason viðskiptafræðingur, Ólafur Hannibalsson rithöfundur, Valgarður Egilsson prófessor og Valgerður Bjarnadóttir viðskiptafræðingur (ábyrgðarmenn söfnunarinnar)

Y F I R L Ý S I N G

Innrásin í Írak – ekki í okkar nafni

Við, ríkisborgarar Íslands*, mótmælum eindregið yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um stuðning við innrás Bandaríkjanna og ,,viljugra“ bandamanna þeirra í Írak í mars 2003. Með þeirri yfirlýsingu voru brotin íslensk lög, alþjóðalög – og íslensk lýðræðishefð.

Ákvörðun um stuðning við innrásina tóku forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands einir án þess að málið fengi fyrst umfjöllun í utanríkismálanefnd Alþingis Íslendinga. Er það þó skylt samkvæmt íslenskum lögum, sem segja að þar skuli fjalla um öll meiriháttar utanríkismál. Ákvörðun þessi hefur hvorki verið afgreidd formlega frá Alþingi né ríkisstjórn Íslands.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur lýst innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra brot á Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og þar með brot á alþjóðalögum.

Íslendingar hafa aldrei haft eigin her. Alþingi Íslendinga neitaði að lýsa yfir stríði á hendur Þýskalandi og Japan árið 1945, sem var þá skilyrði fyrir stofnaðild að Sameinuðu þjóðunum. Með stofnaðild að NATO árið 1949 tóku Íslendingar sérstaklega fram að þeir myndu ekki lýsa yfir stríði á hendur annarri þjóð.

Ákvörðun íslensku ráðherranna um að styðja innrásina í Írak er til vansæmdar íslenskri stjórnmálasögu og hnekkir fyrir lýðræðið. Gengið er í berhögg við hefðir Alþingis Íslendinga, elsta löggjafarþings heims. Allar skoðanakannanir hafa sýnt að yfirgnæfandi meirihluti íslensku þjóðarinnar er mótfallinn stuðningi íslensku ráðherranna við innrásina í Írak (84% í síðustu skoðanakönnun).

Við biðjum írösku þjóðina afsökunar á stuðningi íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak.

Við krefjumst þess að nafn Íslands verði umsvifalaust tekið út af lista hinna ,,viljugu“ innrásarþjóða.

Ísland hefur átt vinsamleg samskipti við Bandaríkin um langa hríð. Þau samskipti hafa byggst á gagnkvæmu trausti og hreinskilni.

Því teljum við skyldu okkar að koma þessum skoðunum á framfæri – bæði við Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir.

Þjóðarhreyfingin – með lýðræði
Reykjavik, Íslandi
www.thjodarhreyfingin.is

* Yfir 4.000 Íslendingar studdu með fjárframlögum birtingu þessarar yfirlýsingar. Sem íbúahlutfall jafngildir þetta að 4 milljónir Bandaríkjamanna tækju þátt í kostnaðinum.

Smelltu hér til að sjá auglýsinguna í THE NEW YORK TIMES sem birtist föstudaginn 21. janúar 2005

Friðarpípan – spurningakeppni SHA

By Uncategorized

pipanFriðarpípan, spurningakeppni SHA, verður haldin laugardaginn 21. janúar í Friðarhúsinu og hefst kl. 16. Um er að ræða keppni með svokölluðu “pub-quiz” fyrirkomulagi, að hætti breskra öldurhúsa. Gestir og gangandi mæta og glíma tveir og tveir saman við spurningarnar, sem eru úr ýmsum áttum.

Þrír spyrlar sjá um jafnmarga spurningapakka. Allir eru velkomnir.

Léttar veitingar á vægu verði.

Rokk gegn her

By Uncategorized

2k2 3toneÁ vefritinu Hugsandi birtist nýverið grein eftir sagnfræðinginn Unni Maríu Bergsveinsdóttur, fyrrum miðnefndarfulltrúa í SHA. Þar gerir hún að umfjöllunarefni fræga tónleika sem haldnir voru í Laugardalshöllinni á fyrri hluta níunda áratugarins í baráttu fyrir friði og afvopnun. Tónleikarnir Rokk gegn her og Við krefjumst framtíðar voru báðir í hópi merkari stórtónleika sem haldnir voru hér á landi á þessu árabili. Sjálfsagt er að hvetja lesendur Friðarvefsins til að kynna sér greinina.

Alþjóðlegar aðgerðir undirbúnar

By Uncategorized

20_marsÞann tuttugasta mars nk. verða þrjú ár liðin frá því að innrás Bandaríkjamanna og bandalagsríkja þeirra hófst í Írak. Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar ráðamanna á Vesturlöndum um að hylli undir lok hernaðarins í landinu, er fátt sem bendir til að sú sé raunin. Þvert á móti berast daglega fregnir af mannskæðum árásum og áframhald þeirrar mannskæðu borgarastyrjaldar sem gagnrýnendur innrásarinnar spáðu fyrir um í upphafi.

Á ársafmæli stríðsins efndu friðarhreyfingar víða um lönd til aðgerða þar sem þess var krafist að látið yrði af hernaðinum og að hernámsliðið færi brott. Ári síðar endurtóku þær leikinn, en í bæði skiptin var gríðarleg þátttaka í hinum alþjóðlegu mótmælum. Ákveðið hefur verið að dagana 18.-20. mars verði mótmæli af þessu tagi og rignir nú inn fréttum af borgum og bæjum víða um heim þar sem andstæðingar stríðsins láta ljós sitt skína.

Hér á landi voru haldnar eftirminnilegar aðgerðir í tengslum við mótmæli þessi bæði í fyrra og hitteðfyrra. 2004 voru Óskapa-verðlaunin afhent á tröppum Stjórnarráðsins, þar sem veittar voru viðurkenningar í flokkum á borð við “aumasti lygarinn” og “ósvífnasti stríðsgróðapungurinn”. Aðgerðirnar 2005 voru öllu alvörugefnari, en þar voru nöfn fjölda fórnarlamba stríðsins næld í stóran, svartan segldúk og hann borinn um miðbæinn. Báðar aðgerðirnar voru afar fjölmennar.

Miðvikudagskvöldið 18. janúar verður fyrsti formlegi undirbúningsfundur aðgerðanna í mars haldinn í Friðarhúsi á horni Snorrabrautar og Njálsgötu. Þar munu verður velt upp hugmyndum varðandi það með hvaða hætti unnt sé að mótmæla stríðinu þannig að eftir verði tekið. Allir velkomnir.