Skip to main content

Samstaða í baráttunni gegn bandarískum herstöðvum í Asíu og um allan heim

By Uncategorized

Friðardúfa Frá friðarráðstefnu í Yokohama í Japan 24.-25. nóvember 2005

Okkur hefur borist skýrsla um friðarráðstefnu sem var haldin í Yokohama í Japan 24.-25. nóvember 2005. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Samstaða í baráttunni gegn bandarískum herstöðvum í Asíu og um allan heim“. Á ráðstefnunni var fjallað um baráttuna gegn fyrirhugaðri uppbyggingu nýrrar herstöðvar í Henoko á japönsku eynni Okinawa, baráttu íbúa Kanagawa-héraðsins skammt frá Tókýó gegn flutningi bandarísks herliðs frá Fort Lewis, Washington, til Zama-herstöðvarinnar í þessu héraði og baráttuna gegn aðsetri bandarísks kjarnorkuknúins flugvélamóðurskips í Yokosuka í sama héraði, en þar er mikilvægasta flotahöfn Bandaríkjanna við vestanvert Kyrrahaf.

Fimm fyrirlesarar héldu erindi á ráðstefnunni:

Í máli dr. Zia Mian, sem er frá Pakistan og kennir við Princeton University í Bandaríkjunum, kom fram að Bandaríkin hafa nú 10 þúsund kjarnorkuvopn og herstöðvar í meira en 130 löndum. Bandaríkin halda hlífiskildi yfir kjarnorkuvopnaeign Ísraels og Indlands. Hann fjallaði um hættuna sem stafaði af nýrri þróun hernaðarsamskipta Bandaríkjanna og Japans og plútóníumvinnslu í bænum Rokkasho á norðanverðri Honshu-eyju í Japan. Hann hvatti til baráttu fyrir lokun bandarískra herstöðva í Japan og að vinnslu plútóníum í Rokkasho verði hætt.

Luis Angel Saavedra frá Ekvador lýsti Manta-herstöðinni í Ekvador sem er ein helsta herstöð Bandaríkjanna í Rómönsku Ameríku. Bandarísk hernaðaryfirvöld leggja nú æ meiri áherslu á að koma í veg fyrir óæskilega þróun í álfunni. Hann lýsti skaðlegum áhrifum herstöðvarinnar á samfélagið í nágrenni herstöðvarinnar, eyðileggingu fiskiskipa undir yfirskini baráttunnar gegn eiturlyfjum, yfirtöku á jarðnæði smábænda og eyðileggingu vatnslinda vegna lagningar nýs flugvallar o.s.frv. Hann sagði frá baráttunni gegn herstöðinni og framlengingu samnings um hana sem á að renna út árið 2009.

Robin Taubenfeld frá samtökunum Everyone for a Nuclear-Free Future í Ástralíu sagði frá skaðlegum áhrifum nýlendustefnu og tilrauna með kjarnokuvopn á menningu og lífsafkomu frumbyggja á Kyrrahafinu og í Ástralíu. Hún skýrði frá þýðingu bandarísku herstöðvarinnar í Pinegap í Ástralíu við árásirnar á Írak.

Yoo Hong frá samtökunum Samstaða um frið og endursameiningu Kóreu (Solidarity for Peace and Reunification of Korea – SPARK) í Suður-Kóreu fjallaði um hvernig hernaðarleg samskipti Suður-Kóreu og Bandaríkjanna hafa verið endurskilgreind þannig að þau þjóna ekki lengur „vörnum“ Suður-Kóreu heldur hlutverki bandaríska hernaðarkerfisins í þessum heimshluta og á alþjóðavísu. Hann varaði við því að þessi endurskilgreining og endurskipulagning bandaríska herliðsins í Suður-Kóreu gæti dregið Suður-Kóreu inn í styrjaldir Bandaríkjanna víðsvegar um heim. En um leið og þetta er að gerast er almenningsálitið í Suður-Kóreu að snúast þannig að meira en helmingur þjóðarinnar vill nú að bandarísku herstöðvarnar í landinu verði lagðar niður.

Shoji Niihara frá Japönsku friðarnefndinni (Japan Peace Committee) lýsti því hvernig bandarískum herstöðvum hefði verið komið fyrir í Japan þvert á vilja japönsku þjóðarinnar til að byggja upp friðsamlegt Japan eftir seinni heimsstyrjöldina.

Í yfirlýsingu frá ráðstefnunni segir að stjórnlist hins fyrirbyggjandi (pre-emptive) stríðs, sem núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum fylgja og beittu gagnvart Írak, sé mesta ógnunin við friðinn. Út frá þessari stjórnlist eru Bandaríkin nú að þróa ný vopn, þar á meðal kjarnorkuvopn, geimvopn og eldflaugavarnir. Endurskipulagning og tilflutningur hernaðarkerfis og herafla Bandaríkjanna miðast við að greiða fyrir skjótari og árangursríkari íhlutun Bandaríkjanna. En herstöðvar og hernaðarlegar framkvæmdir Bandaríkjanna eru líka ógnun við lífsskilyrði, réttindi og umhverfi fólks sem býr í þeim löndum sem hýsa herstöðvarnar. Vera bandarískra hersveita á erlendri grund samrýmist ekki sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem leggur bann við valdbeitingu eða hótanir um valdbeitingu („Allir meðlimir skulu í milliríkjaskiptum varast hótanir um valdbeitingu eða beitingu valds gegn landamærahelgi eða stjórnmálasjálfstæði nokkurs ríkis eða á neinn annan hátt, sem kemur í bága við markmið hinn Sameinuðu þjóða.“ (2. gr., 4. liður)) og nýlendustefnu. Vaxandi alþjóðleg friðarhreyfing sem birtist í aðdraganda Íraksstríðsins opnar möguleika á sameiginlegum aðgerðum til heimsfriðar sem byggist á sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Takmarkið ætti að vera að loka herstöðvum bæði Bandaríkjanna og annarra ríkja og leggja niður hernaðarbandalög.

Gylfi Gíslason myndlistarmaður látinn

By Uncategorized

Gylfi Gíslason myndlistarmaður er látinn. Gylfi kom fram á sjónarsviðið á umbrotatímum í íslenskri myndlist, tók þátt í SÚM-hópnum, en gat sér fyrst og fremst orð fyrir teikningar sínar þar sem hann sýndi oft nýstárlegan og frumlegan stíl. Hann myndskreytti bækur, hannaði leikmyndir og var einnig liðtækur fræðimaður um íslenska myndlist, ekki síst teikningu, átti m.a. þátt í nýútkominni bók um Kjarval sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin.

Samtök herstöðvaandstæðinga nutu þess oft að eiga Gylfa að. Hann gerði myndir og plaköt fyrir samtökin og veitti baráttu herstöðvaandstæðinga og friðarsinna lið á ýmsan hátt. Nokkrar þessara mynda hafa hangið upp á vegg í Friðarhúsinu frá því það var opnað í haust. Samtök herstöðvaandstæðinga þakka Gylfa Gíslasyni samfylgdina og liðstyrkinn og senda vinum hans og aðstandendum samúðarkveðjur.

Viðræðurnar í Washington ættu að snúast um uppsögn herstöðvasamningsins og úrsögn Íslands úr NATO

By Uncategorized

undirritun bókunar 9.4.96 Viðræðum um framtíð herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli er nú lokið í bili án þess að niðurstaða hafi fengist. Sendimenn utanríkisráðuneytisins hafa sem fyrr grátbeðið Bandaríkjamenn um að halda fjórum orrustuflugvélum hér en hafa í staðinn boðið að Íslendingar taki yfir verkefni þyrlusveitarinnar og samkvæmt fréttum hefur verið tekið vel í það.

Samtök herstöðvaandstæðinga hafa alltaf krafist þess að Íslendingar segi upp herstöðvasamningnum, að Bandaríkjamenn hverfi burt af landinu með allt sitt hafurtask, hreinsi til eftir sig og að Íslendingar segi sig úr NATO.

Samtökin hafa bent á að það sé alls ekki ætlun Bandaríkjamanna að leggja niður herstöðina. Valur Ingimundarson sagnfræðingur vék að þessu í fróðlegu viðtali í Ríkisútvarpinu 3. febrúar. Hann sagði m.a. að Bandaríkjamenn hefðu engan hug á að segja upp herstöðvasamningnum heldur vildu þeir halda aðstöðunni hér með lágmarksmannafla sem væri þá bara örfáir menn. Þeir gætu þá nýtt þessa aðstöðu aftur ef aðstæður breyttust án þess að þurfa að gera nýjan samning.

Eins og Valur benti líka á þessu viðtali eru Bandaríkjamenn að færa mannafla sinn og hernaðartæki til mikilvægari átakasvæða, svo sem Mið-Asíu og Miðausturlanda. Og tilboð Íslendinga um að taka yfir verkefni þyrlusveitarinnar hentar þeim vel því að þyrlur eru einmitt mjög mikilvæg tæki t.d. í Afganistan og synd fyrir þá að hafa þær bundnar hér við að bjarga sjómönnum eða flytja slasaða Íslendinga.

Nú þætti einhverjum kannski rökrétt að við sem friðarsinnar krefðumst þess að Bandaríkjamenn haldi áfram fullum styrk hér með þyrlum og orrustuflugvélum og koma þannig í veg fyrir að þær verði notaðar til óþurftarverka í öðrum heimsálfum. Við ættum kannski að skipuleggja Keflavíkurgöngu í því skyni! En einmitt með tilliti til þessa alþjóðlega samhengis, þessa alþjóðlega herstöðvanets Bandaríkjanna, er mikilvægast að við tökum þátt í sívaxandi alþjóðlegri baráttu gegn herstöðvum Bandaríkjanna um allan heim. Hér heima fyrir felst sú barátta í því að herstöðin verði lögð niður fyrir fullt og allt, herstöðvasamningnum verði sagt upp og síðast en ekki síst að Ísland segi sig úr NATO.

Einar Ólafsson

Gegn Íraksstríðinu 18. mars – og aftur 29. apríl!

By Uncategorized

Bring the Troops Home Friðarhreyfingar um allan heim vinna nú á fullu við að undirbúa mótmælaaðgerðir gegn Íraksstríðinu 18.-19. mars. En friðarhreyfingar í Bandaríkjunum ætla ekki að láta þar við sitja. Jafnframt undirbúningum að aðgerðunum 18.-19. mars eru þær nú farnar að undirbúa aðgerðir 29. apríl. Tvenn stærstu regnhlífarsamtök friðarhreyfinga í Bandaríkjunum, ANSWER og United for Peace and Justice hafa boðað aðgerðir þann dag undir kjörorðunum: Stöðvum stríðið í Írak, kallið hersveitirnar heim!

Kjarnorkuvopnaglæpir Frakka

By Uncategorized

Kjarnorkusprengja 27. janúar sl. voru liðin 10 ár frá því að Frakkar hættu að tilraunum sínum með kjarnorkuvopn á Kyrrahafinu, en þær höfðu þá staðið í 30 ár. Á árunum 1966 til 1996 gerðu Frakkar 193 tilraunir með kjarnorkuvopn, ýmist í andrúmsloftinu eða neðanjarðar, á kóraleyjunum Moruroa og Fangataufa í Polýnesíu.

Margir halda að þetta sé bara liðin saga. En fyrir starfsmenn sem unnu við þessar tilraunir var þetta aðeins upphafið að langri baráttu, baráttu við heilsubrest og sjúkdóma sem áður voru óþekktir á svæðinu. Árið 2001 stofnuðu þeir samtök til að berjast fyrir hagsmunum sínum, Moruroa e tatou (Moruroa og við), og eru um 1000 félagar í þeim. Helstu baráttumál samtakanna eru að franska ríkið viðurkenni ábyrgð sína gagnvart starfsmönnunum, að hernaðarleg skjalasöfn verði opnuð svo að hægt verði að leiða í ljós sannleikann um hið svokallaða „meinleysi tilraunanna“, að franska þingið setji lög sem tryggi réttindi starfsmanna sem hafa misst heilsuna vegna tilraunanna og að franska ríkið borgi þeim skaðabætur. Sambærileg samtök franskra starfsmanna við tilraunir í Sahara og Polýnesíu hafa verið stofnuð og eru um 700 félagar í þeim. Rannsókn sem gerð hefur verið á heilbrigði þeirra sýnir að 85% þeirra búa við heilsubrest og 32% þeirra hafa fengið krabbamein, en meðaltíðni krabbameins í Frakklandi er 17%. Ennþá, 10 árum eftir að þessum tilraunum lauk, halda stjórnvöld því fram að þær hafi verið „hreinar“, skaðlausar.

Í herstöðinni L’Ile Longue nálægt Brest í norðvesturhluta Frakklands eru 288 kjarnaoddar sem er á við 2000 Hírósímasprengjur. Ekki mikið miðað við það sem Bandaríkin eiga, en nóg samt. 19. janúar sl. hélt Jacques Chirac forseti ræðu í þessari herstöð og hótaði þá hverju því ríki kjarnorkuárás sem beitti Frakka hryðjuverkum. Hann sagði líka að stefna Frakka varðandi fyrirbyggjandi varnir kjarnorkuvopna hefði verið víkkuð út og snerist nú einnig um að verja „mikilvæg aðföng“ landsins, og er það túlkað sem olía, en hótunina telja margir að beinist m.a. að Írak.

Og Frakkar eru að auka við kjarnorkuvopnabirgðir sínar. Meðal annars eru þeir að þróa ný flugskeyti og nýja kjarnaodda. Þetta er ótvírætt brot á 6. grein Samningsins um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (NPT-samningsins): Sérhver samningsaðili skuldbindur sig til þess að halda áfram í góðri trú samningum um raunhæfar ráðstafanir varðandi stöðvun kjarnavopnakapphlaupsins innan skamms tíma og eyðingu kjarnavopna og um samning um algjöra afvopnun undir ströngu og raunhæfu, alþjóðlegu eftirliti.

Einar Ólafsson tók saman