Skip to main content

Álfyrirtækin og Ísland – fundur á Akureyri 11. mars

By Uncategorized

Bechtel out of Iraq Stefna, félag vinstri manna, heldur umræðufund um efnið Álver og efnahagslegt sjálfstæði í Lárusarhúsi Eiðsvallagötu laugardaginn 11. mars. kl 14. Framsögu hefur Þórarinn Hjartarson.

Í fréttatilkynningu segir að með fyrirhugaðri uppbyggingu áliðnaðar verði langstærstur hluti iðnaðar hér á landi í eigu þriggja amerískra álrisa, en tveir þeirra munu reyndar vera í eigu sömu aðila. Spurt er hvaða þýðingu það hafi fyrir efnahagslegt sjálfstæði Íslands og hvernig þessi stefna nýtist byggðastefnu. Þá er spurt hvernig sakaskrá þeirra auðhringa, sem hér eru að hasla sér völl, sé á sviði umhverfismála, mannréttinda og heimsvaldastefnu?

Vert er að taka undir þetta. Friðarsinnar hafa fordæmt „öll fyrirtæki sem hagnast á styrjöldum og hernámum víðsvegar um heim, svo sem Bechtel, Halliburton, Caterpillar o.s.frv.“ eins og komist er að orði í yfirlýsingu friðarráðstenu í Tókýó vorið 2003. Bectel, sem er aðalverktaki við byggingu álversins á Reyðarfirði, hefur hagnast mjög á verkefnum sem fyrirtækið fékk í kjölfar innrásarinnar í Írak og einnig mun Alcoa hafa verið viðriðið hergagnaframleiðslu.

Bandaríkin setja upp varanlegar herstöðvar í Írak

By Uncategorized

Kort af Ã?rak Nýlega var einhver fréttaflutningur um það að Bandaríkjamenn hygðust draga allt sitt herlið út úr Írak áður en þetta ár yrði liðið. Reyndar hafa bandarískir ráðamenn alltaf sagt að ekki sé ætlunin að setja upp herstöðvar í Írak til frambúðar. Ýmislegt bendir þó til að það sé ekki raunin, þvert á móti vinni Bandaríkjamenn að því að byggja upp stórar framtíðarherstöðvar í Írak. Nú þegar hefur verið lagður gífurlegur kostnaður í uppbyggingu herstöðva þar sem öll tilhögun er slík að erfitt er að ímynda sér að þær eigi bara að vera til bráðabirgða.

Einna stærst þessara herstöðva er Balad-herstöðin um 70 km norðan við Bagdad. Blaðamaður frá Washington Post var þar á ferð fyrr í vetur og lýsti henni í grein 4. febrúar. „Balad-herstöðin er einstakt sköpunarverk,“ segir hann, „lítill amerískur bær mitt í óvinveittasta hluta Íraks.“ 20 þúsund hermenn eru í herstöðinni en fæstir þeirra fara nokkurn tíma út fyrir hana. Annarri herstöð, al-Asad, er lýst á svipaðan hátt í netútgáfu breska blaðins The Telegraph 11. febrúar. Hún er einnig á svæði þar sem hefur verið mjög óeirðasamt, en þegar inn í herstöðina er komið minnir hún helst á úthverfi í bandarískri borg, segir blaðamaðurinn.

Það eru a.m.k. fjórar slíkar risaherstöðvar í Írak og engin þeirra ber þess merki að þeim sé ætlað að vera tímabundnar. Þær eru eins og amerískar eyjar mitt í eyðimörkinni og bera öll merki þess að eiga að vera til frambúðar. En það hefur verið ótrúlega hljótt um þessar herstöðvar og þær tvær greinar sem hér hefur verið vitnað til heyra til undantekninga. Allt bendir til að þessar fjórar herstöðvar séu komnar til að vera en meiri óvissa ríkir um hina fimmtu af stærstu herstöðvunum í Írak, Camp Victory við alþjóðaflugvöllinn í Bagdad, sem og aðrar minni herstöðvar sem munu vera hátt á annað hundrað talsins. Þeim verður kannski lokað eða færðar í hendur íraska hernum, en hvort það gerist á þessu ári, það er óvíst.

Sjá nánari upplýsingar á Tomdispatch.com og Global Security vefnum.

18. mars: fundur í Háskólabíói kl 13, útifundur á Ingólfstorgi kl. 15

By Uncategorized

Fermiamo la guerra Það verður mikið um að vera í Reykjavík 18. mars þegar þess verður minnst um allan heim að þrjú ár eru liðin frá innrásinni í Írak. Klukkan eitt eftir hádegi verður fundur í Háskólabíói sem Þjóðarhreyfingingin – með lýðræði stendur fyrir. Að honum loknum verður efnt til mótmælafundar á Ingólfstorgi og hefst hann klukkan þrjú, en Samtök herstöðvaandstæðinga hafa frumkvæði að honum. Nánari dagskrá verður auglýst síðar. Takið daginn frá. Fjölmennum í Háskólabíó kl. 13 og á Ingólfstorg kl 15.

Upplýsingar um aðgerðir víða um heim má fá á vefsíðum Stop the War Coalition í Bretlandi og Troops Out Now í Bandaríkjunum.

35 þúsund manns mótmæla Futenma-herstöðinni á Okinawa

By Uncategorized

ginowan herinn burt Nú munu vera um 50 þúsund hermenn í bandarískum herstöðvum í Japan. Flestir þeirra eru á eynni Okinawa, syðst í Japan. Meðal herstöðva þar er Futenma-herstöðin, sem er í miðri borginni Ginowan með um það bil 90 þúsund íbúa.

Í Japan eru ýmis samtök herstöðvaandstæðinga mjög virk og nú í dag, 5. mars, voru mótmælaaðgerðir í Ginowan gegn Futenma-herstöðinni. Talið er að um það bil 35 þúsund manns hafi tekið þátt í þessum aðgerðum þar sem þess var krafist að herstöðinni yrði tafarlaust lokað.

Áform eru um að færa herstöðina til Henoko í grennd við borgina Fugo, og var gerður samningur um það milli Japans og Bandaríkjanna í október síðastliðnum. Hins vegar eru ekki allir sáttir við þau áform og hafa bæði umhverfisverndarsinnar og friðarsinnar mótmælt þeim. Í fréttatilkynningu sem hópur sem kallar sig Okinawa friðarbaráttuhópinn sendi frá sér í október síðastliðnum segir að baráttan beinist ekki bara gegn uppbyggingu herstöðvar í Henoko heldur einnig gegn hverskyns hernaðaruppbyggingu á Okinawa.