Skip to main content

Nú er lag

By Uncategorized

Sævar Sigurbjarnason Eftirfarandi grein eftir gamlan félaga okkar í Samtökum herstöðvaandstæðinga, Sævar Sigbjarnarson frá Rauðholti, birtist í Morgunblaðinu 22. mars.

Það var 15. mars, sem Bush sagði bless. Af því tilefni segi ég: Til hamingju Ísland !

Svolítið varð ég nú fyrir vonbrigðum með stjórnmálamennina okkar. Enginn virtist skynja þetta sem mikið fagnaðarefni. Mér finnst að viðbrögð þeirra, sem ég heyrði í, megi túlka þannig. Jú, Steingrímur og Jón Baldvin voru að vísu fegnir að blekkingaleiknum væri lokið, hefðu mátt útskýra orð sín betur og létu ekki í ljós mikla hrifningu yfir tækifærunum sem nú blasa við. Ingibjörg Sólrún virtist föst í hervarnanetinu. Það var bara farið vitlaust í þetta samningaferli! En allt í lagi að semja um hervarnir. Forsætisráðherrann var svolítið sár: Við sem studdum þá í öllum þeirra djöfulskap, en fáum ekki einu sinni að hafa táknrænar varnir eða atvinnubótavinnu utan um þær.

Kæru landar, við skulum þakka fyrir að þessi tákngervingar hroka og hryðjuverka hverfi af landi okkar. Þennan sama dag voru verndarar frelsis og lýðræðis að gera mestu loftárásir til þessa í Íraksstríðinu (skv. RÚV). Nokkur hundruð andspyrnu- og vígamanna voru felldir nálægt borginni Samara um 100 km norður af Bagdad. Kæru vinir lögðuð þið nokkuð eyrun við þessum fréttum í útvarpinu okkar? Datt nokkrum í hug að það gæti kallast hryðjuverk að fella nokkur hundruð íraska andspyrnumenn? Datt nokkrum í hug, að þeir, sem berjast gegn útlendum innrásarher, eru sumsstaðar kallaðar frelsishetjur? Datt nokkrum í hug að í sömu byggðum kynnu að hafa verið konur og börn og það kynnu að hafa fallið nokkur þúsund? Trúir einhver Íslendingur því að við tryggjum landið okkar gegn hryðjuverkaárásum með því að drepa fólk í fjarlægum löndum?

Eða erum við ekki í hópi hinna staðföstu stuðningsaðila þessarra aðgerða? Eða með því að biðja þá sem þetta stunda að vernda okkur. Nú er mál að snúa við blaðinu. Hreinsa landið af öllu sem heyrir undir hernað. Það var gott að við tókum við friðarsúlunni frá Yoko Ono. Það er gott að gera sér grein fyrir að það er hægt að fá önnur tákn frá U.S.A. en öskrandi herþotur. Nú eigum við að bjóða fram krafta og land undir alþjóðlegan friðarháskóla og alþjóðlega friðarrannsóknarstöð. Fá þannig mörg og dýrmæt störf inní landið í stað þeirra sem eru að hverfa. Störf sem útrýma óttanum með þekkingu. Í viðræðum sem í hönd fara við grannþjóðir okkar skulum við biðja um hlutlausa úttekt á háskanum sem stafar af þeim þúsundum kjarnorkusprengja sem tærast upp í vopnabúrum gömlu risaveldanna, svo eitthvað sé nefnt af verkefnum sem liggja í þögninni í dag. Þetta er heilög skylda okkar. Það hefur engin þjóð aðra eins möguleika til frumkvæðis á þessu sviði eins og við hér mitt á milli Nýja og Gamla heimsins. Hér hittust Reagan og Gorbi og gerðu kaflaskil í mannkynssögunni. Hér var aldrei herskylda, o.s.frv.

Rífum okkur upp úr blekkingarfeninu. Almenningur á Vesturlöndum er að vakna. Grípum tækifærið og vekjum valdhafana. Breytum nátttrölli kaldasríðsins, herstöðinni á Miðnesheiði, í kyndil friðar og þekkingar. Hættum að þjóna undir þá sem úrskurða þúsundir manna sem ólöglega vígamenn. Láta þá veslast upp án dóms og laga íþrælabúðum.

Kveðjum herþoturnar fagnandi í eitt skipti fyrir öll.

Nú er lag.

Ályktun frá SHA

By Uncategorized

imagesMiðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga fagnar fregnum af fyrirhugaðri brottför bandaríska hersins frá Íslandi. Sagan hefur þegar sannað í hvers þágu hann hefur dvalið hér í meira en hálfa öld og það hvernig þessa ákvörðun bar að sannar hve mikla virðingu herveldið í vestri ber fyrir undirlægjuhætti og lítilþægð íslenskra stjórnvalda.

Nú þarf að standa fast á eftirfarandi kröfum:

1. Uppsögn herverndarsamningsins frá 1951. Gildi hans fyrir Íslendinga er ekkert þegar herinn er farinn og hefur raunar aldrei verið eins og sagan sýnir.

2. Standa verður fast á því að herinn hreinsi upp eftir sig. Í öllum herstöðvum hans er efnamengun og/eða haugar af drasli og rústum sem þarf að fjarlægja með ærnum kostnaði. Má þar nefna, auk herstöðvarinnar á Miðnesheiði, Hvalfjörð, Straumnesfjall, Heiðarfjall og Stokksnes.

3. Eins og bent hefur verið á af Suðurnesjamönnum er grundvallaratriði þess að mannvirki í herstöðinni verði nýtileg fyrir íslenskan atvinnurekstur að herinn fari burt með allt sitt hafurtask og engin málamyndaherstöð verði grátin út af ríkisstjórninni. Þá yrði þar aðeins draugabær með mannvirkjum sem grotna niður engum til gagns.

4. Úrsögn Íslands úr NATO. Haldleysi og gagnleysi aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu hefur margsannast á liðnum áratugum. Síðustu misserin hefur NATO afhjúpað endanlega sitt rétta eðli sem árásarbandalag er stendur fyrir árásum á önnur lönd og hernámi þeirra, t.d. Júgóslavíu, Afganistans og Íraks. Og krefur aðildarríki sín um fjármagn og herafla til þeirrar iðju.

5. Að tryggt verði að stjórnvöld reyni ekki að koma upp íslenskum her undir yfirskyni friðargæslu og þátttöku Íslendinga í hernaðarævintýrum Bandaríkjamanna og bandalagsríkja þeirra í fjarlægum löndum.

Húsfyllir í Friðarhúsi 30. mars

By Uncategorized

Húsfyllir var í Friðarhúsi að kvöldi 30. mars og var haft að orði að ekki veitt af stærra húsnæði. Á samkomunni voru sýndar tvær kvikmyndir sem sjaldan hafa komið fyrir almenningsaugu.

Annars vegar var um að ræða fréttamynd sem tekin var á Austurvelli daginn örlagaríka og sýnir glögglega atburðarásina og átökin sem þar brutust út.
Hin myndin var sömuleiðis tekin á Austurvelli, en fjörutíu árum síðar. Nefnist hún Nafnakall á Austurvelli og sýnir sviðsetningu fjölmargra landskunnra leikara á atkvæðagreiðslunni um NATO-inngönguna á Alþingi og umræður um hana. Sviðsetning þessi var á vegum Samtaka herstöðvaandstæðinga á Menningardögum SHA vorið 1989.

57 ár eru liðin frá þessum atburðum. Talsmenn inngöngunnar höfðu þá hátt um að aldrei skyldu vera hér herstöðvar á friðartímum. Hafi einhvern tíma verið friðartímar hér í þessum heimshluta, þá er það nú. Samt eru eftirmenn þeirra sem sátu við stjórnvölinn fyrir 57 árum vælandi yfir því að Bandaríkjastjórn vill kalla herliðið burtu. En það er löngu tímabært að það fari, og ekki aðeins það, heldur að herstöðin verði lögð niður og herstöðvasamningnum sagt upp. Og síðast en ekki síst að ákvörðunin sem Alþingi tók fyrir 57 árum gegn vilja mikils meirihluta þjóðarinnar verði afturkölluð. ÍSLAND ÚR NATÓ!

Ályktun þingflokks VG um viðskilnað Bandaríkjahers

By Uncategorized

Friðarvefnum hefur borist eftirfarandi ályktun frá þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs:

30. mars 2006

Það er athyglisverð staðreynd að þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar –græns framboðs hefur á næstliðnum árum einn þingflokka lagt fram tillögur og hugmyndir um viðbrögð vegna brottfarar herliðs Bandaríkjanna frá Keflavíkurflugvelli. Má þar nefna ítrekaðan tillöguflutning, nú síðast á yfirstandandi þingi, um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi samhliða brottför hersins, svo og tillögu um rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu. Aðrir flokkar hafa ekki séð ástæðu til viðbragða né fyrirhyggju þrátt fyrir augljós merki þess að herinn væri á förum. Einhliða ákvörðun Bandaríkjamanna um brottför þrátt fyrir tvíhliða samning um veru herliðsins sýnir vitaskuld betur en nokkuð annað að þeir héldu hér her sjálfs sín vegna og telja það koma sér einum við hvenær og hvernig þeim hentar að halda á brott. Framkoma Bandaríkjamanna kemur þeim vafalaust á óvart sem hafa talið það einhverja tryggingu að í ríkisstjórn Íslands sitja tveir af þremur stjórnmálaflokkum sem stutt hafa hersetuna. Þessi framkoma er vitaskuld niðurlægjandi fyrir ríkisstjórnina sem hefur sýnt Bandaríkjamönnum fylgispekt í flestum málum og m.a.s. skipað sér að baki þeim í ólögmætu árásarstríði þeirra á hendur Írökum.

Í þeim viðræðum sem nú eiga sér stað um framhald málsins er áríðandi að fulltrúar Íslendinga geri réttmætar kröfur til Bandaríkjamanna um viðunandi viðskilnað á Keflavíkurflugvelli og á öðrum svæðum sem hersetan hefur sett mark sitt á. Undir engum kringumstæðum á að þrýsta á um áframhaldandi sýndarviðbúnað hersins, eins og m.a. hefur heyrst í máli forsætisráðherra landsins. Fráleitt væri að ganga að viðræðunum með slíku hugarfari. Einhvers konar draugastöð á Keflavíkurflugvelli væri versta niðurstaðan sem komið gæti út úr viðræðunum og ber að hafna því algjörlega. Krafan hlýtur að vera að bandarískur her hverfi að fullu og öllu af vellinum og afhendi Íslendingum svæðið og öll mannvirki og aðstöðu þar. Gera ber skýlausa kröfu um ábyrgð Bandaríkjamanna á hreinsun og umbótum vegna mengunar og umhverfisspjalla. Tryggja þarf að skilið verði við starfsfólk með sómasamlegum hætti, starfsmönnum til margra ára verði greidd biðlaun og veitt aðstoð við endurmenntun og leit að nýjum störfum. Þess má geta að fyrir liggur beiðni frá þingflokki VG um umræðu utan dagskrár um viðskilnað Bandaríkjahers við landið og íslenska starfsmenn.

Þingflokkur VG leggur áherslu á að brottför hers ásamt tilheyrandi vopnabúnaði af Keflavíkurflugvelli og öll sú aðstaða sem þar með losnar býður upp á sóknarfæri sem mikilvægt er að nýta til nýsköpunar og uppbyggingar á svæðinu. Ekki er síður mikilvægt að nú skapast til þess skilyrði að móta nýjar áherslur í utanríkis- og friðarmálum, móta sjálfstæða friðarstefnu þar sem leið hernaðarbrölts og hernaðarbandalaga er hafnað, en þess í stað byggt á virkri friðarviðleitni, afvopnun og friðlýsingum. Þau verkefni sem nú þarf að takast á við og tengjast brottför hersins eru öll þess eðlis að Íslendingar geta auðveldlega axlað þau sjálfir. Meginverkefnin eru rekstur Keflavíkurflugvallar, efld landhelgisgæsla og aukið landamæraeftirlit. Loks þarf að stórefla tækjakost og mannafla til björgunarstarfa. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur hvatt til þverpólitísks samstarfs um öll þessi mál. Nú ríður á að menn snúi bökum saman og breyti stöðunni þjóðinni í hag.