Skip to main content

Lágfóta dældirnar smó – Fox-fréttamennska á NFS

By Uncategorized

Fox News Kristinn Schram og Kolbeinn Óttarsson Proppé fjalla um fréttaflutning af fundum andstæðinga Íraksstríðsins

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 1. apríl 2006.

„SIGGI var úti með ærnar í haga.“ Hann byrjar í léttri heiðríkju þessi söngtexti Jónasar Jónassonar en verður síðan einkennilega drungalegur. Sama má segja um kaffispjall okkar félaganna sem gekk aðallega út á gamansögur eins og vant er. En allar stukku þær suður í mó þegar samræðan barst að fréttaflutningi af fundum andstæðinga Íraksstríðsins laugardaginn 18. mars síðastliðinn.

Þá voru þrjú ár liðin síðan Bandaríkjamenn, Bretar og bandamenn þeirra, þ.m.t. Íslendingar, gerðu árás á Írak. Þessa atburðar var minnst um víða veröld, þar á meðal hér á Íslandi með mótmælaaðgerðum á Ingólfstorgi og fundi í Háskólabíói. Eins og vera ber var fjallað um þessa atburði í fjölmiðlum landsins. Lítið er um fréttaflutning af atburðunum að segja, en þó vekur framganga Glúms Baldvinssonar, fréttamanns NFS, athygli. Hann tók annars vegar viðtal við Stefán Pálsson, formann Samtaka herstöðvaandstæðinga, og hins vegar Hans Kristján Árnason, einn aðstandenda Þjóðarhreyfingarinnar. Eftir nokkuð eðlilegar spurningar fengu þeir Stefán og Hans Kristján báðir furðulega spurningu frá fréttamanninum en svona var hún orðuð til þess síðarnefnda: “Nú réðust hryðjuverkamenn á New York og felldu turnana tvo, hvernig á að bregðast við slíku, hvernig á að bregðast við hryðjuverkamönnum?” Hvað vakti fyrir fréttamanninum með þessari spurningu? Er hann að halda því fram að innrásin í Írak hafi verið eðlileg vegna árása á Bandaríkin hinn 11. september 2001? Ef svo er væri athyglisvert að fá útskýringu frá fréttamanninum á þessum tengslum. Þekkir hann tengsl hryðjuverkanna 11. september og Íraksstríðsins, önnur en þau að innrásaraðilar notuðu þau sem afsökun?

Lævís málflutningur

Málflutningur Glúms er sem bergmál af málflutningi hægri öfgastöðvarinnar Fox í Bandaríkjunum. Með því að spyrða innrásina í Írak og 11. september saman í myndum og máli – og oft með jafn „sakleysislegum“ spurningum og fréttamaður NFS bar fram – tókst, a.m.k. til skamms tíma, að telja meirihluta Bandaríkjamanna trú um að innrásin hefði átt rétt á sér. Enginn veit neitt um meint gereyðingarvopn, sem voru ástæða innrásarinnar, og vitað er að allt tal um tengsl Íraks við hryðjuverkamenn var byggt á sandi, enda blómstra hryðjuverk þar sem aldrei fyrr. Í því ljósi verður að skoða fréttaflutning Fox-stöðvarinnar í aðdraganda og í kjölfar innrásarinnar. Með slíkri framsetningu er skákað í skjóli þjóðernistilfinninga Bandaríkjamanna og höfðað til þeirrar samstöðu sem hinar hryllilegu árásir á New York ólu af sér.

Það að taka undir þessar fáránlegu tengingar er hins vegar meira en lítið furðulegt. Ekki einu sinni ráðamenn íslensku þjóðarinnar voga sér að bera slíkt á borð fyrir landsmenn og þó eiga þeir nokkuð undir því að stuðningur þeirra byggist ekki eingöngu á blekkingum. Bandaríkjamenn notuðu ýmsar tylliástæður til að koma vilja sínum fram, m.a.s. Hallór Ásgrímsson segist ekki hefðu stutt innrásina hefði hann vitað það þá sem hann veit í dag.

En Glúmur Baldvinsson, fréttamaður NFS, virðist vita betur. Væntanlega megum við eiga von á því næst þegar stríði er mótmælt að hann spyrji fólk um gereyðingarvopn Saddams Husseins. Að spyrja, í þessu samhengi, mótmælendur gegn Íraksstríði hvað þeim finnist um 11. september jafngildir áróðri fyrir lygum Bandaríkjastjórnar. Eins væri hægt að spyrja hvað þeim finnist um árásir bandamanna á Dresden í seinni heimsstyrjöldinni – báðir atburðirnir eru jafnótengdir Íraksstríðinu.

Leiksvið fáránleikans

Og hvernig á að svara svona spurningu? Að vísu var svar Stefáns aldrei flutt í fréttatímanum og Hans Kristján sjálfsagt of dannaður til að benda á fáránleika spurningarinnar. Er okkur ætlað að svara svona spurningum með skynsemi? Það væri kannski eðlilegast að hleypa þessu öllu upp í vitleysu eins og gert er í skemmtifréttaþáttum vestra og svara bara: „Jú, ég hefði viljað ráðast á Holland. Þar er alveg fullt af múslimum og stutt að fara.“ Kannski ættum við að gefa okkur fáránleikanum algjörlega á vald og svara: „Siggi var úti með ærnar í haga.“ Skyldi nokkur taka eftir því? Erum við ekki hvort sem er svo firrt öllum veruleika og sannfærð um að okkar lóð séu svo létt að litlu skipti þó á vogarskálarnar séu látin? Slíkur er eflaust skilningur margra sem að forspurðu eru taldir til hinna „viljugu“ þjóða, en þá spyr maður: Hvar liggur ábyrgðin í lýðræðisríkjum?

Nú vitum við sem sagt að lágfóta smýgur dældirnar og gýtur gráleitum augum á okkur auðtrúa æruleysingjana. Það væri svo sem ekkert skrýtið ef stríðsvargarnir litu slíkum augum á okkur. Við sem búum við það að tveir æðstu ráðamenn þjóðarinnar gera okkur fyrirhafnarlaust samsek að ólöglegri innrás ef það skyldi verða til þess að halda í nokkrar atvinnuskapandi herþotur. Okkur verður bara hugsað til þessara aumingjans ráðamanna sem nú vaga smeykir um holtin og skúmaskot Atlantshafsbandalagsins eða bíða þess skjálfandi á beinunum að „nýjar tillögur“ komi að vestan. Og við spyrjum: Þora þeir heim?

Þingsályktunartillaga um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

By Uncategorized

Fimmtudaginn 30. mars var tekin fyrir á Alþingi þingsályktunartillaga Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi samhliða brottför hersins.

Þessi tillaga var reyndar flutt á síðasta þingi en varð ekki útrædd. Tillögunni hefur nú verið vísað til utanríkismálanefndar áður en hún verður tekin til annarrar umræðu.

Tillagan er svohljóðandi:

    Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka auk formanns sem utanríkisráðherra skipar án tilnefningar til að hafa yfirumsjón með og vera stjórnvöldum til ráðuneytis í viðræðum við bandarísk stjórnvöld um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar samhliða brottför hersins. Nefndin kanni einnig rækilega möguleika á að auka hvers kyns borgaralega atvinnustarfsemi í tengslum við flugvöllinn og geri tillögur um aðgerðir í því skyni. Nefndin leiti eftir hugmyndum og þátttöku heimamanna á Suðurnesjum í starfi sínu og eigi við þá náið samstarf. Nefndin skili ráðherra skýrslu sem lögð verði fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2006 (svo!).

Í greinargerð gera flutningsmenn nánari grein fyrir hugmyndum sínum. Tillöguna með greinargerð og fylgiskjölum er hægt að nálgast hér, en umræður má nálgast hér .

Nú er lag

By Uncategorized

Sævar Sigurbjarnason Eftirfarandi grein eftir gamlan félaga okkar í Samtökum herstöðvaandstæðinga, Sævar Sigbjarnarson frá Rauðholti, birtist í Morgunblaðinu 22. mars.

Það var 15. mars, sem Bush sagði bless. Af því tilefni segi ég: Til hamingju Ísland !

Svolítið varð ég nú fyrir vonbrigðum með stjórnmálamennina okkar. Enginn virtist skynja þetta sem mikið fagnaðarefni. Mér finnst að viðbrögð þeirra, sem ég heyrði í, megi túlka þannig. Jú, Steingrímur og Jón Baldvin voru að vísu fegnir að blekkingaleiknum væri lokið, hefðu mátt útskýra orð sín betur og létu ekki í ljós mikla hrifningu yfir tækifærunum sem nú blasa við. Ingibjörg Sólrún virtist föst í hervarnanetinu. Það var bara farið vitlaust í þetta samningaferli! En allt í lagi að semja um hervarnir. Forsætisráðherrann var svolítið sár: Við sem studdum þá í öllum þeirra djöfulskap, en fáum ekki einu sinni að hafa táknrænar varnir eða atvinnubótavinnu utan um þær.

Kæru landar, við skulum þakka fyrir að þessi tákngervingar hroka og hryðjuverka hverfi af landi okkar. Þennan sama dag voru verndarar frelsis og lýðræðis að gera mestu loftárásir til þessa í Íraksstríðinu (skv. RÚV). Nokkur hundruð andspyrnu- og vígamanna voru felldir nálægt borginni Samara um 100 km norður af Bagdad. Kæru vinir lögðuð þið nokkuð eyrun við þessum fréttum í útvarpinu okkar? Datt nokkrum í hug að það gæti kallast hryðjuverk að fella nokkur hundruð íraska andspyrnumenn? Datt nokkrum í hug, að þeir, sem berjast gegn útlendum innrásarher, eru sumsstaðar kallaðar frelsishetjur? Datt nokkrum í hug að í sömu byggðum kynnu að hafa verið konur og börn og það kynnu að hafa fallið nokkur þúsund? Trúir einhver Íslendingur því að við tryggjum landið okkar gegn hryðjuverkaárásum með því að drepa fólk í fjarlægum löndum?

Eða erum við ekki í hópi hinna staðföstu stuðningsaðila þessarra aðgerða? Eða með því að biðja þá sem þetta stunda að vernda okkur. Nú er mál að snúa við blaðinu. Hreinsa landið af öllu sem heyrir undir hernað. Það var gott að við tókum við friðarsúlunni frá Yoko Ono. Það er gott að gera sér grein fyrir að það er hægt að fá önnur tákn frá U.S.A. en öskrandi herþotur. Nú eigum við að bjóða fram krafta og land undir alþjóðlegan friðarháskóla og alþjóðlega friðarrannsóknarstöð. Fá þannig mörg og dýrmæt störf inní landið í stað þeirra sem eru að hverfa. Störf sem útrýma óttanum með þekkingu. Í viðræðum sem í hönd fara við grannþjóðir okkar skulum við biðja um hlutlausa úttekt á háskanum sem stafar af þeim þúsundum kjarnorkusprengja sem tærast upp í vopnabúrum gömlu risaveldanna, svo eitthvað sé nefnt af verkefnum sem liggja í þögninni í dag. Þetta er heilög skylda okkar. Það hefur engin þjóð aðra eins möguleika til frumkvæðis á þessu sviði eins og við hér mitt á milli Nýja og Gamla heimsins. Hér hittust Reagan og Gorbi og gerðu kaflaskil í mannkynssögunni. Hér var aldrei herskylda, o.s.frv.

Rífum okkur upp úr blekkingarfeninu. Almenningur á Vesturlöndum er að vakna. Grípum tækifærið og vekjum valdhafana. Breytum nátttrölli kaldasríðsins, herstöðinni á Miðnesheiði, í kyndil friðar og þekkingar. Hættum að þjóna undir þá sem úrskurða þúsundir manna sem ólöglega vígamenn. Láta þá veslast upp án dóms og laga íþrælabúðum.

Kveðjum herþoturnar fagnandi í eitt skipti fyrir öll.

Nú er lag.

Ályktun frá SHA

By Uncategorized

imagesMiðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga fagnar fregnum af fyrirhugaðri brottför bandaríska hersins frá Íslandi. Sagan hefur þegar sannað í hvers þágu hann hefur dvalið hér í meira en hálfa öld og það hvernig þessa ákvörðun bar að sannar hve mikla virðingu herveldið í vestri ber fyrir undirlægjuhætti og lítilþægð íslenskra stjórnvalda.

Nú þarf að standa fast á eftirfarandi kröfum:

1. Uppsögn herverndarsamningsins frá 1951. Gildi hans fyrir Íslendinga er ekkert þegar herinn er farinn og hefur raunar aldrei verið eins og sagan sýnir.

2. Standa verður fast á því að herinn hreinsi upp eftir sig. Í öllum herstöðvum hans er efnamengun og/eða haugar af drasli og rústum sem þarf að fjarlægja með ærnum kostnaði. Má þar nefna, auk herstöðvarinnar á Miðnesheiði, Hvalfjörð, Straumnesfjall, Heiðarfjall og Stokksnes.

3. Eins og bent hefur verið á af Suðurnesjamönnum er grundvallaratriði þess að mannvirki í herstöðinni verði nýtileg fyrir íslenskan atvinnurekstur að herinn fari burt með allt sitt hafurtask og engin málamyndaherstöð verði grátin út af ríkisstjórninni. Þá yrði þar aðeins draugabær með mannvirkjum sem grotna niður engum til gagns.

4. Úrsögn Íslands úr NATO. Haldleysi og gagnleysi aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu hefur margsannast á liðnum áratugum. Síðustu misserin hefur NATO afhjúpað endanlega sitt rétta eðli sem árásarbandalag er stendur fyrir árásum á önnur lönd og hernámi þeirra, t.d. Júgóslavíu, Afganistans og Íraks. Og krefur aðildarríki sín um fjármagn og herafla til þeirrar iðju.

5. Að tryggt verði að stjórnvöld reyni ekki að koma upp íslenskum her undir yfirskyni friðargæslu og þátttöku Íslendinga í hernaðarævintýrum Bandaríkjamanna og bandalagsríkja þeirra í fjarlægum löndum.